15.12.1961
Neðri deild: 37. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (266)

106. mál, lántaka hjá Alþjóðabankanum

Frsm. (Birgir Kjaran):

Hæstv. forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar og rætt það á einum fundi og orðið sammála um að mæla með frv. með breytingu, sem fram kemur á þskj. 222. Eins og hæstv. fjmrh. gat um í framsöguræðu sinni við 1. umr., taldi hann líkur fyrir því, að nauðsyn væri að gera nokkrar breytingar á frv. frá því, sem það var upphaflega lagt fram, og er sú breyting til orðin sökum þess, að við viðræður í Washington við Alþjóðabankann kom í ljós, að það form, sem upphaflega var gert ráð fyrir í frv., fullnægði ekki hinum almennu reglum bankans, og er þess vegna þessi breyting fram komin, sem að öðru leyti breytir ekki eðli málsins. Ég mun, með leyfi forseta, lesa hana. Breytingin er við 1. gr., að í stað orðanna „og endurlána“ o.s.frv. komi: og endurlána þá fjárhæð Reykjavíkurborg til stækkunar hitaveitu gegn þeim tryggingum, sem ríkisstj. metur gildar. Fjhn. vill sem sagt einróma mæla með samþykkt þessa frv. svo breytts.