19.10.1961
Neðri deild: 5. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (2711)

2. mál, samningar milli læknafélaga og sjúkrasamlaga

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Hæstv. forseti. Frv það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar á brbl., sem út voru gefin um sama efni 30, sept. s.l., og fer í aðalatriðum fram á það, að samningur sá, sem í gildi hefur verið á milli læknafélaga og sjúkrasamlaga, verði framlengdur enn um sinn í þrjá mánuði, með nokkrum breytingum þó. Í samningi þeim, sem gilti á milli Sjúkrasamlags Reykjavíkur og Læknafélags Reykjavíkur frá 19. maí 1960, er svo ákveðið, að hvor um sig af aðilunum skuli tilnefna fulltrúa, ekki færri en tvo og ekki fleiri en fimm, í nefnd, er vinni að endurskoðun á öllu skipulagi læknaþjónustu, sem veitt er á vegum Sjúkrasamlags Reykjavíkur, svo og greiðsluháttum fyrir þá þjónustu. Þessi nefnd virðist ekki hafa starfað sem heild fyrr en þá a.m.k. mjög nýlega, en Sjúkrasamlag Reykjavíkur hefur haldið því fram, að það hafi eða stjórn þess gengið eftir því við nefnd Læknafélagsins, að sameiginlegir fundir yrðu haldnir um þetta mál. Í júlílok s.l. sagði Læknafélag Reykjavíkur upp samningnum, sem í gildi var, án þess að nokkuð hefði gerzt í því, að þessi nefnd, sem átti að starfa á vegum Læknafélags Reykjavíkur og sjúkrasamlagsins, hefði komið saman. Hinn 10. ágúst s.l. var aftur á móti lagt fram frv. til breyt. á þessum samningi af formanni samninganefndar Læknafélagsins og lagt til við Sjúkrasamlag Reykjavíkur, að sá háttur yrði tekinn upp eða sú skipun yrði tekin upp á þessum málum, sem þetta samningsfrv. gerði ráð fyrir. Það skal þó tekið fram, að í þessu frv. var ekki getið um eða gert ráð fyrir, hverjar greiðslur skyldu koma fyrir þá þjónustu, sem veitt var af hálfu Læknafélags Reykjavíkur, heldur yrði gerð grein fyrir því síðar, eins og var gert, rétt áður en samningurinn gekk úr gildi.

Þegar þetta uppkast að nýjum samningi var athugað af hálfu stjórnar Sjúkrasamlags Reykjavíkur, kom í ljós, að það tók aðeins til læknishjálpar hjá heimilislæknum, hjá háls-, nef- og eyrnalæknum og hjá augnlæknum, sem var aðeins nokkur hluti þess, sem samningurinn, sem gilt hafði, hafði fjallað um. Þegar eftir því var gengið, hvernig á því stæði, að þetta næði ekki til alls samningsins, var því svarað til, að síðar mundu svo koma tillögur um aðra sérgreinaþjónustu og læknisþjónustu á sjúkrahúsum. Í þessum nýju tillögum fólst, að því er talið var, gerbreyting frá því, sem áður var. Samningaviðræður hófust svo á milli aðilanna um miðjan ágúst s.1., en efni málsins var talið svo yfirgripsmikið af hálfu Sjúkrasamlags Reykjavíkur, að það taldi alveg útilokað að ljúka umr. um þetta fyrirkomulag fyrir 1. okt., eins og þyrfti þó að hafa verið, þar sem samningnum hafði verið sagt upp frá þeim degi að telja.

Samningamenn Sjúkrasamlags Reykjavíkur kváðu samlagið á þessu stigi hvorki geta samþykkt uppkastið né hafnað því í heild. Í fljótu bragði virtist það hafa að geyma bæði óaðgengilega hluti og mjög athyglisverða hluti. Samlagið liti á þetta uppkast sem fyrsta skrefið í þeirri endurskoðun, sem fram ætti að fara. Samlagið vildi athuga uppkastið gaumgæfilega, þar sem í því fælust mjög veigamiklar breytingar á núverandi skipun, ræða við Læknafélag Reykjavíkur um málið og væntanlega koma fram með gagntillögur til athugunar fyrir Læknafélagið. Til alls þessa þyrfti hins vegar talsverðan tíma og miklu lengri en til 1. okt. Í þessu sambandi var bent á, að aðeins 11/2 mánuður væri til stefnu, en samlagið hefði ekkert færi haft á að kynna sér uppkastið áður, í öðru lagi, að engar tillögur lægju enn fyrir um sérfræðinga og sjúkrahúslækna, og loks, að enn hefðu engar kaupkröfur verið settar fram. Töldu þeir því óhjákvæmilegt, að ef samningar ættu ekki að falla niður frá 1. okt., þá yrði að semja til bráðabirgða á grundvelli gildandi samnings, á meðan viðræður um skipulagsbreytinguna stæðu. Töldu þeir, að samlagið mundi fallast á að greiða hækkun, eins og opinberir starfsmenn væntanlega fengju, því að hún hafði ekki þá verið ákveðin, á þann hluta af núverandi greiðslum til lækna, sem talinn yrði til launa. Lögðu þeir jafnframt til, að Hagstofa Íslands yrði beðin að reikna út, hvaða hækkun læknar ættu að fá á kostnaðanhlutanum, þar eð allir kostnaðarliðir munu hafa hækkað, og lögðu til, að samið yrði um þær hækkanir, annaðhvort til óákveðins tíma, t.d. með mánaðar uppsagnarfresti, eða þá til ákveðins tíma, t.d. til 1. apríl 1962.

Formaður samninganefndar Læknafélagsins, sem um þetta fjallaði við stjórn sjúkrasamlagsins, tók þessari málaleitun stjórnar sjúkrasamlagsins vel. Nú urðu mannaskipti í nefnd Læknafélagsins vegna brottfarar úr bænum og aðrir komu í staðinn, en þó ekki fyrr en það miklu seinna, að viðræður hófust ekki á ný fyrr en í byrjun septembermánaðar. Þá var enn haldið áfram að ræða þá bráðabirgðalausn, sem þyrfti að fást, á meðan verið væri að semja um aðalatriði og efni málsins, þ.e.a.s. um hina breyttu nýju skipan og um launakröfurnar, sem að vísu voru þá ekki enn, í byrjun septembermánaðar, komnar fram.

Sjúkrasamlagsstjórnin gekk inn á, eftir að þessi mál höfðu verið rædd aliýtarlega á milli nefndahlutanna, að greidd yrði uppbót á laun læknanna og þá greiðslu, sem þeim er ætluð fyrir ýmsum kostnaði, sem þeir hafa í sambandi við þjónustu sína, þannig að meðalhækkun á greiðslu sjúkrasamlagsins til læknanna yrði þessu millibilstímabil um 13%, og er þá reiknað með, að kauphluti greiðslnanna hækkaði um 13.8%, eins og hjá opinberum starfsmönnum, en kostnaðarhlutinn um 11.9% eða 12%, þannig að meðaltalshækkun yrði 13%, og þetta yrði látið gilda frá 1. júlí s.l., eins og hjá opinberum starfsmönnum, og til áramóta, en á því tímabili var gert ráð fyrir að samningaviðræðurnar hefðu farið fram og náðst hefði þar einhver niðurstaða.

Eins og ég hef margtekið fram hér, voru þessar viðræður, sem þarna fóru fram, einungis um þá hlið málsins, sem sneri að bráðabirgðalausn Fyrir tímabilið á meðan verið væri að semja, svo að tækifæri gæfist báðum aðilum til þess að reyna til þrautar, hvort um samninga gæti orðið að ræða. Á þetta féllst samninganefnd Læknafélagsins, og var því ekki talið, að út af þessu þyrftu að verða nein vandræði. Enn fremur var leitað til stjórnar Læknafélagsins um málið, og hún féllst líka á þetta fyrirkomulag, að það yrði haft, á meðan leitað væri eftir hinum endanlegu samningum. Síðan kemur það fyrir, að á fundi Læknafélagsins, sem haldinn var um málið skömmu síðar, — það mun hafa verið 13. sept., — var þetta fyrirkomulag fellt, þrátt fyrir það að samninganefnd Læknafélagsins hafði samþykkt það og stjórn Læknafélagsins mælt með því. Þegar svo var komið, var ekki annað eftir að gera en að ganga úr skugga um, hvort nokkur leið væri til þess að komast að einhverri niðurstöðu um hina nýju skipun. En meira að segja á þessu stigi höfðu læknarnir ekki enn borið fram kaupkröfur sínar, þær komu fyrst viku áður en samningurinn átti að ganga úr gildi, svo að það var gefið, að þarna gat ekki verið um mikinn tíma að ræða til þess, að samningaviðræður gætu farið fram,

Þegar svo var komið og sýnilegt, að engir samningar mundu geta náðst, blasti það við, að öll læknaþjónusta í Reykjavík, og síðar öll læknaþjónusta, þar sem samningar voru í gildi við sjúkrasamlög, félli niður á vegum sjúkrasamlagsins og að greiðsla yrði ákveðin fyrir þá læknaþjónustu, sem veitt yrði, samkvæmt þeim taxta, sem læknarnir þá settu. Þetta var talið mjög óheppilegt í alla staði, því að það hafði komið í ljós, eftir að Sjúkrasamlag Reykjavíkur hafði gert á því nokkra athugun, að greiðslur samkvæmt taxta læknanna, eins og hann var fram settur í kröfum þeirra, mundi þýða um það bil 100% eða rúmlega það kauphækkun til lækna, og mundi þá sjálfsagt ýmsum, sem á læknisþjónustu hefðu þurft að halda, þykja þröngt fyrir dyrum. Það var þess vegna gripið til þess ráðs að gefa út bráðabirgðalög 30. sept. s.l., sem efnislega voru nákvæmlega eins og samninganefndir sjúkrasamlagsins og Læknafélagsins höfðu gengið frá, áður en félagsfundur Læknafélagsins felldi þá samkomalagsleið. Og þetta var eingöngu gert í þeirri veru að vinna tíma til þess, að halda mætti samningaaumleitunum áfram og að læknisþjónustan gæti farið fram á venjulegan hátt á þessu tímabili, á meðan samningaumleitanirnar stæðu yfir.

Það er að vísu til í lögum ákvæði, sem hefði heimilað ríkisstj. að leysa þetta mál á allt annan og harkalegri hátt, ef í það hefði verið farið, sbr. lögin um réttindi og skyldur lækna. En út í það var ekki farið, heldur eingöngu við það miðað að reyna að vinna tíma til þess að sjá, hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi á milli sjúkrasamlaganna og læknanna. Ég get ekki láð sjúkrasamlögunum, að þau vildu hafa lengri tíma en þarna var til umráða, rúman mánuð til þess að athuga skipulagsbreytingarnar og um það bil viku til þess að athuga kaupkröfurnar. Það var gefið, að þetta var ekki hægt að gera á svo stuttum tíma, og mér fannst óbilgirni af læknunum að veita ekki lengri tíma til þess, enda voru þeir greinilega ekki sammáta um þá kröfu sína, þar sem samninganefndin var með þessu, stjórnin mælti með því, þó að fundurinn felldi það síðar.

Ég tel svo ekki ástæðu til að ræða þetta frekar að svo stöddu, en vildi leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. heilbr.- og félmn.