02.11.1961
Neðri deild: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 330 í C-deild Alþingistíðinda. (2749)

22. mál, áburðarverksmiðja

Þórarinn Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Hæstv. landbrh. hefur nú staðfest það, sem ég hélt hér fram, þegar seinast var rætt um þetta mál í d., að hann sé búinn að taka ákvörðun um það að fela áburðarverksmiðjunni að annast þau störf, sem Áburðarsala ríkisins hefur áður annazt. Ég verð að endurtaka það, sem ég sagði þá, að ég verð að lýsa furðu minni yfir þessu tiltæki ráðh. og fyllstu andúð á því, í fyrsta lagi vegna þess, að með þessari ráðstöfun sinni hefur hæstv. landbrh. augljóslega, ef maður segir ekki: brotið lög, a.m.k. sniðgengið lögin, því þó að hann hafi heimild til þess í l. um Áburðarsölu ríkisins að fela einhverju verzlunarfyrirtæki að fara með þann rekstur, þá eru þannig ákvæði í l. um sjálfa áburðarverksmiðjuna, að löggjafinn ætlast bersýnilega til þess, að það fyrirtæki annist ekki verzlun, og þar með var ráðh. áheimilt að fela áburðarverksmiðjunni að annast þessa starfsemi. Þetta hefur hæstv. ráðh. sjálfur líka þrívegis viðurkennt hér á Alþ. Hann hefur þrívegis farið fram á það hér á Alþ. að fá heimild til þess að gera þetta. Ef ráðh. hefði talið sig hafa skýlausa heimild í lögum til þess að gera þetta, þá mundi hann ekki hafa verið að biðja Alþ. þrisvar sinnum um að veita sér þessa heimild: Það liggur þess vegna fyrir um það álit ráðh. sjálfs, að hann þurfi að fá þessa heimild frá Alþingi og geti ekki gert þetta verk, án þess að sú heimild liggi fyrir. Þess vegna hefur hæstv. ráðh. framið hér lagabrot eða a.m.k. mjög stórlega sniðgengið lögin að því áliti, sem hann hefur áður látið uppi um þetta mál með því að flytja það frv., sem hér liggur fyrir, þrisvar sinnum á Alþ. Þess vegna er þessi verknaður ráðh. mjög vítaverður, þó að ekki sé litið á hann nema frá þessu eina sjónarmiði.

En hér kemur vissulega fleira til. Hér kemur það til, að það er verið að leika hreinan skrípaleik með Alþingi. Það er að leika skrípaleik með Alþingi að biðja um heimild hess, og áður en Alþ. er svo búið að taka endanlega afstöðu til þess, þá fremur ráðh. það verk, sem hann er að biðja um heimild til þess að gera. Þetta sýnir af hálfu hæstv. ráðh. fullkomið virðingarleysi fyrir Alþ. og að hann er að leika hreinan skrípaleik með það.

Og hver er skýringin á því, að hæstv. ráðh. gerir þetta? Hver getur verið skýringin á því, að hann gerir þetta? Það liggur nokkurn veginn í augum uppi. Hæstv. ráðh. er á tveimur undanförnum þingum búinn að biðja um heimild til þess að gera þetta og hefur ekki fengið hana hjá Alþ. Hann biður nú um hana í þriðja sinn og finnur, að undirtektir eru þannig, að það sé a.m.k. mjög vafasamt, að þessi heimild verði veitt. Og hvað gerir ráðh. þá? Þá grípur hann til þess að gera það upp á sitt eigið eindæmi, sem hann er að biðja Alþ. um að leyfa sér, og lætur þannig sína flokksmenn og fylgismenn á þinginu standa frammi fyrir gerðum hlut, treystir á það, að þegar hann sé búinn að gera þessa ráðstöfun, þá neyðist fylgismenn hans til þess að veita honum heimildina eða til þess að staðfesta þennan verknað hans. Þetta er aðferðin, sem hann hefur haft hér frammi til þess að reyna að þvinga sína eigin flokksmenn og fylgismenn á þinginu til að fylgja sér. Þegar farið er að leika þingmenn með þessum hætti, þá er vissulega orðið lítið úr þingræðinu, og þeir þm. eru sannarlega geðlitlir, sem sætta sig við slíka meðferð eins og þessa. Og það verð ég að segja um hv. fylgismenn stjórnarinnar, að þeir eru sannarlega geðlitlir menn, ef þeir sætta sig við slíka meðferð og hæstv. landbrh. hefur viðhaft í þessu máli.

En sem sagt, um þessa ákvörðun ráðh. er það tvennt rétt, að í fyrsta lagi gerir hann þessa ráðstöfun samkv. eigin áliti, sem hefur legið fyrir hér þrisvar sinnum í þinginu, í fullkomnu heimildarleysi, og í öðru lagi er hann að leika hreinan skrípaleik með þingið með því að fara þannig að eins og hann hefur gert og ég hef nú ljóst.

En annað atriði er í þessu máli, sem er ekki síður ástæða til þess að ræða um, og það er afstaða hæstv. landbrh. og hans flokks gagnvart því, sem þeir kalla frjálsa samkeppni. Það vantar ekki, að forkólfar Sjálfstfl. séu að lýsa því yfir í tíma og ótíma, að þeir séu fylgjandi frjálsri verzlun og frjálsri samkeppni. Og hæstv. landbrh. hefur verið að flagga með það í sambandi við þetta frv., að hér væri hann að stuðla að því að koma á frjálsri verzlun með erlendan áburð, hann vildi leggja þá einokun niður, sem nú væri ríkjandi í þessum efnum, og koma á frjálsræði í staðinn. En hvernig er það, sem þessi hæstv. ráðh. er að koma á frjálsræði í þessari verzlun? Ef hæstv. ráðh. vildi koma á frjálsræði um verzlun með erlendan áburð, þá ætti hann að sjálfsögðu að gera það með þeim hætti, að þegar einkasalan væri afnumin, þá hefðu allir aðilar jafna aðstöðu til samkeppni. Er það það, sem þessi hæstv. ráðh. gerir? Sannarlega ekki. Það, sem hann gerir, áður en einkasalan er afnumin, er að fela einum aðila einokun til þess að fara með verzlunina, kannske svo og svo langan tíma, og skapar honum að sjálfsögðu með því stórlega bætta aðstöðu til samkeppninnar. Þegar svo loksins verzlunin er gefin frjáls, þá er þessi eini aðili búinn að hafa tíma til þess að búa um sig og skapa sér aðstöðu til að hafa þessa verzlun í sínum höndum, sem aðrir aðilar hafa ekki fengið aðstöðu til að gera.

Nú á næstunni verður það þannig, að það er áburðarverksmiðjan ein, sem getur gert ráðstafanir til þess að kaupa áburð og búið sig undir það að taka á móti erlendum áburði. Aðrir aðilar fara að sjálfsögðu ekki út í það, meðan þeir vita ekkert um það, hvað verður gert í þessum efnum. Þótt að nafninu til eigi, ef þetta frv. verður samþ. og það lagfært í samræmi við það að koma hér á frjálsri verzlun, þá er hér verið að skapa einu fyrirtæki með aðgerð hæstv. ráðh. stórkostlega betri aðstöðu til þess að fara með þessa verzlun heldur en öðrum aðilum. En þetta er líka nákvæmlega það, sem fyrir Sjálfstfl. vakir, þegar hann er að tala um frjálsa verzlun og frjálsa samkeppni. Sjálfstfl. er ekki fylgjandi frjálsri verzlun og frjálsri samkeppni. Sjálfstfl. er fylgjandi því að skapa vissum aðilum betri aðstöðu en öðrum til samkeppni, skapa þeim ábeint einokunaraðstöðu, eins og hér er gert í sambandi við áburðarverksmiðjuna. Þær breytingar, sem t.d. nú er verið að gera á fyrirkomulagi svokallaðra innflutningshafta, eru raunverulega ekki neinar aðrar en þær, að það er verið að skapa vissum aðilum betri aðstöðu en öðrum. Stjórnarsinnar flagga ákaflega mikið með því, að þeir séu að draga úr innflutningshöftum o.s.frv. En hvað kemur í staðinn? Það koma lánsfjárhöft í staðinn, — lánfjárhöft, sem eru ákveðin af stofnunum, þ.e. af bönkunum, þar sem sjálfstæðisforkólfarnir hafa meirihlutaaðstöðu með Alþfl. og geta þess vegna skapað vissum verzlunarfyrirtækjum stórlega bætta aðstöðu á kostnað annarra. Það er með þessum hætti, sem Sjálfstfl. framkvæmir sína „frjálsu samkeppni“, það er að skapa vissum aðilum forgangsaðstöðu og betri aðstöðu á kostnað annarra í gegnum lánsfjárhöft eða þá beint með því að skapa einum aðila sérstaka forréttindaaðstöðu, eins og nú er verið að gera í sambandi við áburðarverksmiðjuna varðandi sölu á erlendum áburði, jafnvel þó að sú verzlun yrði að nafninu til síðar meir gefin frjáls. Það er svona, sem Sjálfstfl. vill framkvæma það, sem hann kallar frjálsa samkeppni.

Hæstv. ráðh. gerði lítið úr minni þekkingu á áburðarverzlun. Ég skal ekki heldur gera mikið úr þekkingu minni í þeim efnum. En ég held, að það sé þó alveg óhætt fyrir mig, þegar borið er saman það, sem ég hef sagt um þessi mál hér á þinginu, og það, sem hæstv. landbrh. hefur sagt um þessi mál, þá þori ég fullkomlega að bera mína þekkingu saman við þá þekkingu, sem hann virðist hafa á þessum málum, ef dæmt er eftir þeim upplýsingum, sem hann hefur verið að gefa hér í þinginu. En ég tek það hins vegar ekkert nærri mér, þótt hæstv. ráðh. geri lítið úr þekkingu minni í þessum efnum, en ég tek það að sama skapi ekki eins vel upp hjá hæstv. ráðh., þegar hann er að gera lítið úr þekkingu dr. Björns Jóhannessonar í þessum efnum, því að það veit hæstv, ráðh. mætavel og miklu betur en ég, að dr. Björn Jóhannesson er miklu fróðari en hann um þessi mál, ekki aðeins hvað snertir áburðarnotkun, heldur líka hvað snertir áburðarverzlun. Og í þeim mörgu orðum, sem hæstv. ráðh. hefur látið falla hér á Alþ., hefur hann ekki að neinu leyti getað hnekkt þeim röksemdum, sem hafa komið fram í grein dr. Björns Jóhannessonar og við höfum verið að vitna hér til í þinginu. Hann hefur ekki að neinu leyti getað borið á móti því, sem dr. Björn Jóhannesson hefur haldið fram, að það verði dýrara að flytja erlenda áburðinn inn ósekkjaðan en sekkjaðan. Hann hefur ekki getað hnekkt því, sem dr. Björn Jóhannesson hefur sagt í því sambandi, að með því að flytja áburðinn inn ósekkjaðan hljóti flutningskostnaður að verða miklu meiri á honum, þegar allt kemur til alls, heldur en hann er, ef áburðurinn er fluttur inn sekkjaður. Og það getur líka hver og einn gert sér ljóst, þar sem munurinn verður sá, að meðan áburðurinn er fluttur inn sekkjaður, er hægt að flytja hann beint frá útlöndum til hafna úti um landið, en með því að flytja hann inn ósekkjaðan, þá verður að flytja hann fyrst hingað til Gufuness og síðan að flytja hann þaðan aftur til hafna úti um landið, að því leyti sem ekki er hægt að flytja hann landleiðina. Hér bætist við alveg nýr flutningskostnaður, sem ekki er til nú nema að sáralitlu leyti. Og sá flutningskostnaður er verulegur, eins og hæstv. ráðh. hlýtur að gera sér grein fyrir, ef hann kynnir sér þetta mál.

Auk þess fylgir það því, ef þessi aðferð verður tekin upp, að það þarf að koma upp miklum mannvirkjum í Gufunesi, það þarf að styrkja bryggjur þar og bæta við, það þarf að kaupa þangað nýja krana til að skipa hinum ósekkjaða áburði upp, það þarf að koma upp nýjum sekkjunartækjum þar, sem verða þó hins vegar ekki notuð nema lítinn tíma á ári. Öllu þessu fylgir að sjálfsögðu mikill kostnaður, sem hægt er að komast hjá, ef áburðurinn er fluttur inn sekkjaður, eins og nú er gert, enda vitnar dr. Björn Jóhannesson í grein sinni til erlendra sérfræðinga um þessi mál, sem hafa kynnt sér þetta og kveða hiklaust upp þann dóm, að hér muni verða um dýrara fyrirkomulag að ræða en það, sem nú er haft á þessu máli. Og ég hef ekki beyrt nein rök frá hæstv. ráðh. hér í þinginu, þar sem hann reyni til þess að hnekkja þessum skoðunum dr. Björns Jóhannessonar. Hann leyfir sér hins vegar að fara með hreina sleggjudóma um þennan mann, sem tvímælalaust er langfróðasti maður um þessi efni á landi hér. Og ég verð að segja það, án þess að kveða þó of sterkt að orði, að ég álít þessa sleggjudóma hæstv. landbrh. um hinn mikla fræðimann á þessu sviði, dr. Björn Jóhannesson, vera með öllu ósæmilega.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að láta öllu fleiri orð falla í tilefni af því, sem hæstv. ráðh. sagði hér um daginn, eða þegar þetta mál var seinast hér til um, og þann verknað, sem hann hefur framið, heldur aðeins vísa til þess, sem ég hef þegar sagt.

Að síðustu vildi ég segja nokkur orð um verðlagningu áburðarins, bæði erlends áburðar og innlends áburðar, eftir að svo er komið, að áburðarverksmiðjan, er farin að fjalla um sölu erlends áburðar.

Þegar þannig er komið, er búið að skapa þessu fyrirtæki, áburðarverksmiðjunni, fullkomlega einokunaraðstöðu, bæði á innlendum og erlendum áburði. Ég álít, að það sé með öllu rangt, að fyrirtæki, sem hefur einokunaraðstöðu, eins og áhurðarverksmiðjan kemur til með að hafa í þessum efnum, hafi sjálft rétt til þess að verðleggja sína vöru. Það er ekki eðlilegt fyrirkomulag, að fyrirtæki, sem hefur verið sköpuð einokunaraðstaða, geti sjálft verðlagt þá vöru eða þá þjónustu, sem það á að leysa af höndum. Það er að sjálfsöðu annar aðili, óhlutdrægur aðili, sem á að meta þetta. Þess vegna tel ég, að það sé alveg óhjákvæmileg afleiðing af því, sem nú hefur verið gert, og hefði raunar átt að vera búið að gera áður, að það sé ekki stjórn áburðarverksmiðjunnar sjálfrar, það sé ekki einokunarfyrirtækið, sem eigi að hafa sjálfsmat í þessum efnum og verðleggja vöruna, heldur eigi það að vera gert af öðrum óvilhöllum aðila og þá að sjálfsögðu aðila, sem væri þannig skipaður, að þeir, sem hefðu mestra hagmuna að gæta í sambandi við þetta efni, fengju aðstöðu til þess að fylgjast með því og hafa áhrif á það hver verðlagningin væri. Og ég trúi ekki öðru en flokkur hæstv. landbrh., ef hann er nú jafnandvígur einokun eða telur einokun óheppilega, eins og hann vill vera láta, þá fáist hann til þess að viðurkenna þetta sjónarmið, að það sé ekki rétt, að það fyrirtæki, sem hefur einokunaraðstöðu, ákveði sjálft verðið á framleiðsluvöru sinni eða þjónustu sinni, heldur sé það annar, óviðhallur aðili, sem eigi að gera það, og þess vegna eigi Sjálfstfl. að vera fús til þess að gera þá breytingu á l. um áburðarverksmiðjuna, að í stað þess að það er áburðarverksmiðjustjórnin, sem nú hefur valdið til þess að ákveða verðið á þessum vörum, þá verði settur á stofn nýr aðili, óvilhallur aðili, sem fái vald til þess að ákveða áburðarverðið framvegis.