29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (3031)

70. mál, öryggi opinna vélbáta

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil strax taka það fram, að ég er samþykkur þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir til umr., svo langt sem hún nær. Þess er sannarlega þörf, að meir sé hlúð að þessari grein útgerðarinnar en verið hefur. Í grg. er sízt of mikið sagt um þá margvislegu örðugleika, sem smábátaeigendur hafa þurft við að búa fram að þessu. Í þessu sambandi má benda á, að til eru þau sjávarþorp hérlendis, sem enga útgerð hafa aðra en opna vélbáta. Atvinnuafkoma slíkra staða byggist því að langmestu leyti á smábátaútgerð. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt, þó að mikill vöxtur hafi hlaupið í slíka útgerð. Sjómenn í hinum ýmsu sjávarplássum hafa ekki vegna skorts á fjármunum og af öðrum ástæðum getað komizt yfir stærri skip en opna vélbáta, og sums staðar eru hafnarskilyrðin þannig, að mjög erfitt er að gera þar út stærri fiskiskip. Þetta, sem ég hér hef minnzt á, svo og aukið fiskimaga á grunnmiðum, sem óumdeilanlega ber að þakka útfærslu landhelgislínunnar, hefur orðið þess valdandi, að útgerð á opnum vélbátum hefur stóraukizt frá því, sem áður var. Um það má að sjálfsögðu deila, hvort þessi þróun í sjávarútvegi er æskileg. Þá hlið málsins mun ég engan dóm á leggja að þessu sinni. En það eru aðallega tvö atriði í sambandi við þetta mál, sem komu mér til þess að taka hér til máls um þessa tillögu, sem ég nú vík að.

Það er nokkuð algengt, að einn maður rói á opnum vélbát. Það er lítill vafi á því, að slíkt getur haft í för með sér mikla hættu. Þess munu nokkur dæmi, að menn hafa drukknað af slíkum bátum, ýmist hrokkið útbyrðis eða farizt á annan hátt, án þess að hægt hafi verið um að kenna vondu sjóveðri. Það segir fátt af einum. Ef t.d. maður fellur út af bát með vél í gangi, eru mjög litlar líkur fyrir því, að hann geti bjargazt af sjálfsdáðum, jafnvel þótt maðurinn væri syndur. Fyrir því tel ég rétt, að það verði athugað í þeirri nefnd, sem fær þessa tillögu til meðferðar, hvort ekki muni vera tímabært að setja hér um ákveðnar reglur. M.a. gæti komið til mála, að bannað væri, að einn maður reri á opnum vélbáti. Sérstaklega á þó þetta við þar, sem þannig hagar til, að sækja verður á haf út og þar af leiðandi ekki hægt að fylgjast með bátunum frá landi. Frá höfnum á Norðurlandi er gerður út mikill fjöldi opinna vélbáta. Frá nokkrum þessara staða er sótt á haf út. Mér er ekki kunnugt um fjölda þeirra opnu vélbáta, sem þaðan eru gerðir út, en þeir skipta ábyggilega mörgum tugum. Á þessum bátum eru stundaðir sjóróðrar vor, sumar og haust. Frá sömu stöðum er róið allan veturinn, þegar á sjó gefur. Það er því hin mesta nauðsyn, að eftirlit sé haft með þessum bátum. Þrátt fyrir góðar veðurspár getur brostið á hið versta veður, og hafa menn oft og tíðum komizt í hann fullkrappan við að ná land og stundum orðið að hleypa undan sjó og vindi upp á von og óvon um það, hvort hægt yrði að ná landi eða ekki. Það er því alveg tvímælalaust krafa hinna mörgu sjómanna, sem róa á opnum vélbátum og sækja á haf út, svo og aðstandenda þeirra í landi, að haft sé að staðaldri fyrir Norðurlandi og annars staðar reyndar líka eftirlitsskip, sem fylgi bátaflotanum eftir og aðstoði hann eftir því, sem með þarf. Að sjálfsögðu eru varðskipin, svo sem Albert, sem talinn er vera björgunarskip Norðlendinga, oft á þessum slóðum. En oft mun það þó vera þannig, að hvorki hann né önnur varðskip eða björgunarskip séu þar, enda virðist manni, að björgunarskipin séu meira notuð sem varðskip en sem eftirlitsskip með fiskiflotanum. Ég segi þetta ekki hér til þess á neinn hátt að draga úr því, að nauðsyn sé og hún mikil á því að verja landhelgislínuna. En þessi skip og fleiri voru nú einu sinni byggð sem eftirlitsskip með bátum, og þess vegna er það ákveðin krafa sjómanna og aðstandenda þeirra, að fullkomið eftirlit sé haft með þeim bátum, sem stunda þessa atvinnu.

Ég vil í sambandi við þessa tillögn láta þetta koma hér fram, svo að þeim, sem koma til með að fjalla um málið í nefnd, gefist kostur á að athuga sem flestar hliðar á þessu máli.