01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í D-deild Alþingistíðinda. (3307)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Flm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. í lýðræðisþjóðfélagi hljóta vinnustöðvanir ávallt að eiga sér stað, þar sem hinn frjálsi samningsréttur ríkir og rétturinn til að leggja niður vinnu og fella niður atvinnustarfsemi. Verkalýðshreyfingin telur verkfallsréttinn að vonum einn sinn dýrmætasta rétt og grundvöll þess, að henni takist á hverjum tíma að ná samningum um viðunandi kaup og kjör félögum sínum til handa.

Engu að síður er það vopn, sem í verkfallsréttinum felst, biturt og skaðvænlegt, einnig gagnvart þeim, sem því beita. Eitt af þýðingarmeiri framtíðarverkefnum sérhvers lýðræðisþjóðfétags hlýtur því að verða að reyna að finna hagfelldara form fyrir kjarabótarétti verkafólks og launþega, þar sem réttinum til bættra kjara fylgja ekki fórnir og óþægindi þeirra, sem hlut eiga að máli, og tjón fyrir þjóðina í heild.

Þetta framtíðarverkefni er tvímælalaust erfitt viðfangs. og það tekur án efa mjög langan tíma að leysa það. Það verkefni, sem á hinn bóginn er miklu nærtækara og auðveldara að fást við, er að reyna eftir megni að draga úr því tjóni, sem vinnustöðvanir hafa í för með sér. Af þessum sökum hef ég leyft mér að bera fram þáltill. þá á þskj. 32, sem hér er til umr. En undirstaða þess, að það takist að draga úr tjóninu, er að mínum dómi sú, að tjón þetta verði reiknað út eða metið, svo að þjóðinni gefist kostur á að gera sér grein fyrir, hversu umfangsmikið það er. Tel ég hér um mjög mikilvægt málefni að ræða, þegar það er haft í huga, að hér á landi hafa vinnustöðvanir allt frá stríðslokum verið tíðari og varað lengur en með öðrum þjóðum. Hefur þetta ásamt öðru átt sinn þátt í því, að efnahagur íslenzku þjóðarinnar hefur á þessu tímabili ekki eflzt á sambærilegan hátt við nágrannaþjóðir okkar.

Till. mín fjallar um það, að reiknað skuli út tjón af völdum vinnustöðvana. Með vinnustöðvunum er að sjálfsögðu átt við bæði verkföll og verkbönn. Sem betur fer hefur fremur lítið kveðið að verkbönnum af hálfu atvinnurekenda hér, og hafa þau öllu frekar beinzt gegn ríkisvaldinu en gegn verkalýðsfélögunum. En verkbönn eru auðvitað engu síður til þess fallin að valda tjóni en verkföllin.

Í till. er gert ráð fyrir, að það skuli falið Hagstofu Íslands að reikna út tjónið eða áætla það. Virðist það standa hlutverki þeirrar stofnunar næst að hafa þetta verkefni með höndum, enda er hér einungis um eðlilegan þátt í hagskýrslugerð að ræða. Í till. segir, að byrja skuli á því að reikna út tjón vegna vinnustöðvana á árinu 1961. Tel ég það liggja beint við, þar sem yfirstandandi ár er eitt mesta verkfallaár í sögu þjóðarinnar. Vil ég hér á eftir gefa yfirlit yfir helztu vinnustöðvanir á árinu 1961, eftir því sem mér er bezt kunnugt.

1. Róðrabann útvegsmanna í Vestmannaeyjum í upphafi ársins, stóð í einn mánuð.

2. Verkföll háseta á bátaflotanum á upphafi vetrarvertíðar, er stóðu um það bil hálfan mánuð.

3. Verkfall yfirmanna á bátaflotanum á vetrarvertíð, er stóð tæpa viku.

4. Verkfall landverkafólks í Vestmannaeyjum á vetrarvertíð, er stóð í tvo mánuði.

5. Verkfall verkakvenna í Keflavík síðari hluta vetrarvertíðar, er stóð í tvo mánuði.

6. Verkfall verkamanna, verkakvenna, iðnverkafólks og verzlunarmanna á Akureyri í byrjun júnímánaðar, er stóð í viku.

7. Verkfall verkafólks á Húsavík í byrjun júnímánaðar, er stóð í fáeina daga.

8. Verkfall iðnaðarmanna á Akureyri, er stóð á annan mánuð.

9. Verkfali Hlífar í Hafnarfirði í júnímánuði, stóð í 3 vikur.

10. Verkfall Dagsbrúnar í Reykjavik í júnímánuði, stóð í einn mánuð.

11. Verkfall verkakvenna í Reykjavík, er stóð í rúman mánuð.

12. Verkföll iðnaðarmannafélaganna í Reykjavík, er stóðu í rúman mánuð.

13. Verkfall verkafólks á Akranesi síðari hluta júnímánaðar, er stóð u.þ.b. hálfan mánuð.

14. Verkfall bjá síldarverksmiðjum ríkisins á Siglufirði í upphafi síldarvertíðar, er stóð í viku.

15. Verkfall verkfræðinga, er staðið hefur um þriggja mánaða skeið og stendur enn yfir, a.m.k. hjá mörgum aðilum.

Ég tek það fram, að þessi upptalning þarf ekki á nokkurn hátt að vera tæmandi, en þó held ég, að þarna sé getið allra helztu verkfallanna. Enn eru svo eftir tveir mánuðir af þessu ári og því ekki víst, að öll kurl séu enn til grafar komin, þar sem ýmis verkalýðsfélög hafa nú fyrir skemmstu sagt upp kjarasamningum sínum.

Í till. minni segir, að leitazt skuli við að reikna út annars vegar fjölda tapaðra vinnustunda og heildarupphæð tapaðra vinnulauna og hins vegar þá skerðingu á verðmæti útflutningsframleiðslunnar, sem ætla má að vinnustöðvanirnar hafi leitt af sér. Þetta tel ég þá tvo höfuðþætti tjónsins, sem mestu máli skiptir að fólk fái vitneskju um. Tjón af vinnustöðvunum er auðvitað margþætt. Má þar nefna sem dæmi rekstrartap atvinnurekenda, skerðingu á innlendri framleiðslu til innanlandsþarfa, skerðingu á skatttekjum ríkisins o.s.frv., o.s.frv. Þetta tjón er þó örðugra að reikna út eða áætla og skiptir minna máll. Af þeim sökum er því sleppt hér.

Öruggasta ráðið til að draga úr hinu margháttaða tjóni af völdum vinnustöðvana er auðvitað að koma því svo fyrir, að vinnustöðvanir verði fátíðara fyrirbrigði í þjóðfélaginu en áður og standi skemur yfir. Í grg. minni hef ég bent á ýmsar leiðir að því marki, svo sem öfluga rannsóknar- og upplýsingastarfsemi um efnahags- og kjaramál, stóraukin sáttastörf í vinnudeilum, hlutdeild verkafólks í arði atvinnufyrirtækja og breytt skipulag verkalýðssamtakanna. Sjálfsagt mætti benda á ýmsar fleiri leiðir, sem kæmu til athugunar. Undirstaðan að lausn þessa vandamáls er að rannsaka það. Af þeim sökum hef ég borið fram þessa till. til þál. Verði till. þessi samþykkt og verði því starfi haldið áfram, sem hún leggur grundvöll að, er það sannfæring mín, að með því megi takast að forða íslenzkum verkalýð og þjóðinni allri frá tjóni, sem numið gæti hundruðum milljóna á næstu árum.

Ég legg svo til, að umr. verði frestað og málinu verði vísað til hv. allshn.