18.10.1961
Sameinað þing: 21. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

1. mál, fjárlög 1962

Fram. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Frv. það til fjárlaga fyrir árið 1962, sem hér er til 2. umr. og gerð hefur verið grein fyrir af hv. formanni fjvn., hefur verið til meðferðar í nefndinni frá því í október í haust. Það verður að segjast í sambandi við þessa umr., að vitanlega er tími orðinn stuttur til afgreiðslu fyrir hátíðar. En það er hins vegar mjög erfitt að hafa ekki tíma til þess að lesa nál. nefndarhlutanna, áður en farið er út í umr., en svo hefur verið að þessu sinni, þar sem nál. 1. og 2. minni hl. var ekki til útbýtingar fyrr en á þessum fundi. Um það ætla ég samt ekki að ræða að þessu sinni, heldur snúa mér að efni málsins.

Eins og hv. formaður tók fram, gerði hann grein fyrir því, sem er sameiginlegt frá n., og ég mun víkja að nokkrum atriðum þeirra tillagna síðar í ræðu minni. Ég get tekið undir það með formanni, að ég þakka honum og nm. fyrir samstarfið í n., því að persónulega er ekkert undan því að kvarta. Eins og venja er, þá fer það svo í fjvn., að leiðir skilja, enda er það sú nefnd, sem í höfuðatriðum boðar stefnu ríkisstj. á hverjum tíma og stefnu stjórnarandstöðunnar. Hér er því um eðlilegan hlut að ræða og alltaf ráð fyrir því gert. Stefnu hæstv. ríkisstj., sem birtist í þessum fjárlögum, mun ég ræða nokkuð í því, sem ég kann að segja hér á eftir.

Um fjárlög er það að segja, að það, sem skiptir máli í þeim, er í fyrsta lagi, hversu há þau eru, í öðru lagi, hvort þau eru nákvæm spegilmynd af útgjöldum ríkissjóðs, í þriðja lagi, hvernig teknanna er aflað, hvernig þeim er varið, hvort tekjurnar eru notaðar til uppbyggingar í landinu, til þess að bæta fyrir þá sem þar eru og síðar koma hvort sparnaður eða eyðsla er viðhöfð í ríkisrekstrinum eða hvort álögurnar eru miðaðar við aðra stefnu en hér hefur verið á drepið. Vil ég nú víkja nokkuð að þessum atriðum.

Þetta fjárlagafrv., sem hér er til meðferðar, er hæsta fjárlagafrv., sem legið hefur fyrir hv. Alþingi. Það segir þó ekki allt um það, hvernig fjármálastefnan er. Eins og ég drap á áðan, koma þar fleiri atriði til, sem ég ætla nú að víkja að, hvernig eru byggð í þessu fjárlagafrv. Ég vil þó geta þess, að í nál. okkar hefur orðið misprentun á fyrstu síðu, þar sem segir, að fjárlögin hafi hækkað yfir 900 millj. kr. í tíð núv, ríkisstj. Þetta er ekki rétt, heldur er þessi hækkun fjárlaganna í tíð núv. stjórnarflokka. Er þá tekið með árið 1959, er þeir fóru einnig með ríkisstj. í landinu, þó að það væri ekki þessi ríkisstj. Á þessu tímabili, þessum þremur árum, hafa fjárlögin meira en tvöfaldazt. Var það annað en búizt var við, þegar höfð er í huga sú gagnrýni, sem þessir stjórnmálaflokkar höfðu haldið uppi um fjárlagaafgreiðslu fyrri ára. Þegar þetta er athugað, þá ber að gefa því gætur, hvort hér er nákvæmar tiltekið um ríkisútgjöldin en áður hefur átt sér stað og hvort álögur á þjóðina eftir öðrum leiðum hafa verið auknar eða úr þeim dregið. Í því sambandi vil ég benda á það að á fjárlögum ársins 1958 var pósti og síma lagt til uppbyggingar yfir 10 millj. kr. Þetta þýddi það, að gjöld til póst- og símaþjónustu í landinu voru þeim mun lægri, er þessari fjárhæð nemur, enda voru tekjur pósts og síma þá áætlaðar 103.6 millj. kr. Nú hefur hins vegar orðið á sú breyting, að þessari stofnun er ætlað að sjá fyrir sinni uppbyggingu að öllu leyti. Ríkissjóður leggur henni nú ekkert til, og hafa þess vegna gjöld ríkissjóðs lækkað um þessar 10 millj. rúmar, miðað við fjárlögin 1958. En hvað hefur skeð á sama tíma? Þá hafa tekjur pósts og síma hækkað úr 103.6 millj. í 216.9. Það eru álögur, sem hafa verið lagðar á þjóðina eftir þessari leið. Þetta kemur ekki fram í fjárlagafrv., heldur hefur þau áhrif þar, að það lækkar frv., en álögunum er náð af fólkinu í landinu, bara eftir annarri leið.

Annað dæmi vil ég nefna, sem stefnir í sömu átt. Ríkið hefur um langt árabil eða eina þrjá áratugi rekið skipaútgerð. Þessi skipaútgerð var að minni hyggju hugsuð sem aðstoð ríkisvaldsins við að létta byrðarnar á þeim, sem þurftu að njóta hennar. Það var gert ráð fyrir því, að með þessu móti gæti ríkið með þjónustu sinni þannig jafnað metin á milli þeirra, er búa hér í þéttbýlinu, og hinna, sem búa í dreifbýlinu. Á árinu 1958, samkv. fjárlagafrv. þá, hafði Skipaútgerð ríkisins 15.7 millj. kr. Það var framlag ríkisvaldsins til þess að jafna þessi met. En á þessu fjárlagafrv., sem hér er nú til umr., er gert ráð fyrir, að framlag ríkisins til aðstoðar við þetta fólk verði 10 millj. kr. Á þessum þremur árum er sú breyting á orðin, að fólkið úti um landsbyggðina, sem á að njóta þjónustu Skipaútgerðar ríkisins, á að gera meira en að taka á sig alla þá verðhækkun, sem orðið hefur á þessum þremur árum. Og nú síðustu dagana er verið að hækka farmgjöldin um 33% til þess að reyna að jafna þessi met. Nú verð ég að segja, að það er að vísu mín skoðun, að það takist ekki að jafna hallann á Skipaútgerð ríkisins með þessum 10 millj. og þeim hækkunum, sem gerðar eru. En það sýnir samt stefnu hæstv. ríkisstj. Hennar hugsun er að leggja meiri álögur á þetta fólk en annað fólk í þessu landi, ofan á þær almennu álögur, sem á hafa verið lagðar á þessu tímabili.

Þessi tvö dæmi sýna, að hér er ekki allt talið, þó að bent sé á það, hvað fjárlögin hafi hækkað á þremur síðustu árum.

Þá kem ég að þeim þættinum, hvort þetta fjárlagafrv. sé nákvæmara en verið hefur um önnur fjárlagafrv., þ.e. að útgjaldahliðin sé þarna réttar talin en verið hefur. Það gæti, ef svo væri, haft sín áhrif á hækkun fjárlagafrv. En nú er því ekki svo varið, að þessu sé þannig farið á núv. fjárlagafrv. Á 17. gr. frv. vantar 28.5 millj. kr., þ.e. lögboðið framlag til atvinnuleysistryggingasjóðs. Því er haldið fram í aths. fjárlagafrv., að það eigi að greiða þetta framlag með skuldabréfum, en það er auðvitað ekkert annað en að ríkið er þá að taka lán til þess að greiða lögboðin framlög. Nú er um það að segja, að það er mjög fráleitt og algerlega óviðunandi, að ríkissjóður fari að haga þannig sínum rekstri, að hann taki lán til daglegra lögboðinna útgjalda. Það er ekki venja, að stofnanir, þótt minni séu, hagi þannig sínum útgjöldum, að lán séu tekin til daglegra rekstrargreiðslna. En hér er verið að fara inn á þessa braut hjá ríkissjóði með því að áætla ekki þessa fjárhæð á fjárlagafrv. Lög eru fyrir því, og það er viðurkenning fyrir því, að greiðsluna þurfi að inna af hendi, en það á að taka lán til þess að inna hana af hendi. Nú er um þennan sjóð að segja, að hann hefur með fjársöfnun sinni verið verulegur liður í uppbyggingunni í landinu, þar sem margir hafa fengið þar lán, sveitarfélög og fleiri hafa fengið þar lán til þess að koma áfram framkvæmdum, sem hefði ekki verið hægt að koma áfram að öðrum kosti. Með þessari leið hæstv. ríkisstj. er verið að loka þeim möguleikum, því að nú ætlar ríkisstj. sjálf að fá öll þau lán, sem sjóðurinn raunverulega getur lánað á næsta ári, ef hann lánar allt framlag sitt frá ríkinu. Hér er því hvort tveggja í senn verið að blekkja með þessu, því að rekstrargjöld fjárlagafrv. eru hærri sem þessu nemur, því að hér er um lögboðin útgjöld að ræða, sem verður ekki komizt hjá að greiða, og enn fremur er verið að draga úr möguleikum fyrir aðra aðila til þess að njóta þessa fjár.

Þá eru á 19. gr. fjárlagafrv. niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur áætlaðar 300 millj. kr. Um það liggja fyrir upplýsingar í fjvn., að til þess að hægt sé að inna af hendi á næsta ári Þessar niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur með sama hætti og verið hefur, þurfi fjárþörfin að vera 373.8 millj. kr. Hér vantar því hvorki meira né minna en 73.8 millj. kr., til þess að hægt verði að inna þessar greiðslur af hendi. Því er að vísu haldið fram, að það eigi að breyta þessum reglum, en það liggur ekkert fyrir um það.

Fleiri atriði mætti nefna, sem stefna í sömu átt og þessi tvö atriði, sem ég hef hér nefnt, og sýna, að það er ekki nákvæmni viðhöfð í útgjaldatillögum fjárlagafrv. og niðurstöðutölur koma til með að verða mun hærri í ríkisrekstrinum en þar er gert ráð fyrir. Um rafmagnsveitur ríkisins er það að segja, að með þeirri hækkun á gjaldskrá, sem nú er fyrirhuguð og talin óhjákvæmileg, mun gjaldskrá þeirra hafa hækkað um 50–60% á þessum þrem árum. En til þess að þær geti innt af hendi þann rekstur, sem þær þurfa að annast, og þá uppbyggingu, sem þær ætla sér, þá mun samt vanta um 70 millj. kr. samkv. áætlunum raforkumálastjóra. Ekkert liggur nú fyrir um það, hvernig þessa fjár á að afla, hvort á að afla fjárins með lántöku eða hvort möguleg er lántaka í þessu skyni eða hvernig á að leysa málið á einn eða annan hátt. Ekki hefði verið úr vegi, að einhverjar upplýsingar hefðu legið fyrir um þetta, áður en fjárlagaafgreiðsla fór fram. Þess verður að vænta, að fyrir liggi meiri upplýsingar en enn er um þetta mál fyrir 3. umr., en eins og dæmið stendur í dag, þá virðist vanta þarna allt að 70 millj. kr. Tekið er fram í fjárlagafrv., að lánsfé eigi að koma til jarðhitasjóðs upp á 21 millj. kr., og er það í fyrsta skipti, sem farið er inn á þá braut í sambandi við jarðboranir. Það liggur ekki heldur fyrir nein skýring á því, hvort hugsanlegir möguleikar séu til að leysa þennan þátt, en það verður samt að ætla, að svo sé. Fleiri liðir, en smærri, eru vantaldir á gjaldahlið fjárlagafrv., sem nauðsyn ber til að leiðrétta fyrir afgreiðslu þess. T. d. má nefna lið til sundskyldu í skólum, sem er 370 þús. kr. lægri en sundskylduframkvæmdin reyndist á yfirstandandi ári. Í raun og veru er alveg óhjákvæmilegt að leiðrétta þetta, því að ef verður farið að leggja til hliðar lögboðin útgjöld ríkissjóðs, þá myndast þar hali, sem verður óviðráðanlegur síðar meir, og það má engin ríkisstj. leyfa sér að ganga þannig frá fjárlagaafgreiðslu. Ég get komið að því aftur, að það er með öllu óhugsandi, að Skipaútgerð ríkisins nægi það fjárframlag, sem henni er ætlað samkv. fjárlagafrv., og er þar þó einnig vantalin einhver upphæð. Hitt vil ég leggja áherzlu á í sambandi við þennan þátt ræðu minnar, að það er með öllu óverjandi, að ríkissjóður sé að taka lán til lögboðinna útgjalda eða að setja upp áætlanir, sem vitað er að fá ekki staðizt.

Það verður því augljóst, þegar þetta fjárlagafrv. er skoðað, að það er síður en svo, að það sé meiri nákvæmni höfð við undirbúning þess en verið hefur, þar sem ég hef talið hér vantalda liði, er nema á annað hundrað millj. kr.

Þá vil ég snúa mér að þeim þættinum, sem miðar að öflun tekna til þessa fjárlagafrv. Því hefur verið haldið fram, bæði af hæstv. fjmrh., þegar hann lagði frv. fram á s.l. hausti, og hér af hv. formanni fjvn., að það sé ekki um nýjar álögur að ræða í þessu fjárlagafrv. og afgreiðslan sé miðuð við það að leggja ekki nýja skatta á þjóðina. Mér sýnist við nokkra athugun, að gengisbreyting sú, sem gerð var á s.l. sumri, komi til með að afla ríkissjóði tekna upp á 120–150 millj, kr. á næsta ári, miðað við aukið álag, er á innflutninginn er lagt með gengisbreytingunni. Einhvern tíma hefði það verið talið til aukinna álaga á þjóðina, ef hefði verið stungið á sig 120–150 millj. kr., eins og ríkissjóður gerir með þessari gengisbreytingu. En því til viðbótar má nefna það, að með því að ríkissjóður tók til sín gengishagnaðinn við gengisbreytinguna í sumar, þá var hann nú í nóvemberlok búinn að fá rúmar 70 millj. kr. af þessum gengishagnaði. Og sýnir það, sem fleira, að gengisbreytingin í sumar var ekki gerð í þágu atvinnuveganna, því að þá hefði verið eðlilegt, að þeir hefðu notið þessa gengishagnaðar, en ekki ríkissjóður, eins og þarna á sér stað. Það voru aðrar ástæður, sem þar voru ráðandi, eins og rætt hefur verið hér á hv. Alþingi.

Eins og ljóst er, ef borin eru saman þetta fjárlagafrv. og fjárlög frá árinu 1958, þá hefur sú breyting á orðið, að tekjuskatturinn hefur lækkað verulega frá því, sem þá var, og boðuð er breyting á þeim lögum um lækkun á tekjuskatti af félögum. Nú er um þessa breytingu það að segja, að það var nauðsynlegt að breyta lögunum um tekjuskatt og fella niður tekjuskatt af þurftartekjum. Hins vegar verður á það að líta, hvernig teknanna verður aflað, eftir að sú breyting er á orðin, sem af tekjuskattslækkun leiðir. Tekjuskattur hefur lækkað um allt að því 50% á þessum þremur árum, þegar fjárlögin hafa hækkað um meira en 100%. Þetta sýnir nokkra þróun, sem átt hefur sér stað í öflun tekna til ríkissjóðs. Það, sem hefur gerzt, er það, að tekjuskattur hefur t.d. verulega verið lækkaður á hátekjum, en í staðinn hafa verið á lagðir söluskattar og almennar tolltekjur ríkissjóðs hafa verulega hækkað á þessu tímabili vegna gengisbreytinganna. Það var boðað hér með bráðabirgðasöluskattinum, sem á var lagður 1960, að hann ætti aðeins að vera það ár, meðan hæstv. ríkisstj. væri að láta fara fram gagngera endurskoðun á fjárlögunum og koma sínum málum betur fyrir. Nú er búið að framlengja þennan bráðabirgðasöluskatt einu sinni enn þá og meira að segja reynt að koma honum nú fyrir með öðrum framlengingum, svo að framvegis geti hann orðið framlengdur nokkurn veginn af sjálfu sér. Á þessu tímabili hefur verið tekinn upp almennur söluskattur á allri vörudreifingu og þjónustu í landinu, 3%. Þar hefur verið farið inn á að taka skatt af hinum mestu nauðsynjavörum, eins og fiski, og svo öllum framkvæmdum, Þ. á m. jarðvinnslu o.fl., sem var alveg óþekkt áður. Nú eru söluskattar orðnir tekjustofn ríkisins yfir 500 millj. kr., og er það æðimikil breyting frá því, sem var árið 1958. Það, sem hefur gerzt í tekjum ríkissjóðs, er það, að tekjurnar hafa meira og meira verið færðar yfir á hinn almenna borgara, en um leið verið reynt að hagræða meira og meira fyrir þá, sem betur mega sín. Þetta er sú breyting, sem á hefur orðið, síðan núverandi ríkisstj. kom til valda, og hún sýnir kannske betur en flest annað, hver er hin raunverulega stefna hennar. Það verður því ekki með sanni sagt, að tekjuöflunin sé réttlátari en áður var, nema síður sé.

Þá kem ég að því atriðinu, til hvers fjármagnið hefur verið notað, er til ríkisins hefur gengið, hvort meira af því en áður hefur verið notað í þágu hins almenna borgara til þess að bæta landið fyrir þá, sem nú byggja það og síðar koma.

Á árunum 1950–58 var 28.5% af heildartekjum ríkissjóðs varið til uppbyggingar í landinu. Nú er þessu hins vegar farið svo, að nú munu 17% á þessu fjárlagafrv. vera áætluð í sama skyni. Er hér ekki um neina smábreytingu að ræða, að í staðinn fyrir 28.5% eru það 17%, sem varið er til uppbyggingar í landinu. Ef framlag til vega, brúa og hafna væri svipað nú og það var 1958, miðað við niðurstöðutölur fjárlaga, þá ætti framlag til vega að hækka um 16 millj. kr., til brúa um 12 millj. og til hafna um 10 millj. Sú breyting, sem á er orðin á þessum árum, sýnir, að verðgildi þessa framkvæmdafjár hefur lækkað um 40–50%. Það segir líka sína sögu um, hvernig framkvæmdirnar verða á næstu árum, enda er svo komið, að þessar framkvæmdir eru að verða hverfandi litlar. Um hafnarframkvæmdirnar er t.d. það að segja, að ef fjárveitingin, sem nú er, helzt áfram, þá tekur það ein tvö ár að greiða þær skuldir, sem nú eru á fallnar. En ef framkvæmdirnar 1962 verða þær, sem ráðgerðar eru, þá mun það taka um 5 ár með núverandi fjárveitingu að greiða upp áfallnar skuldir og framkvæmdir í höfnum næsta ár, og yrði það alger kyrrstaða á næstu 5 árum, ef ætti að gera borðið hreint að þeim loknum. Nú sækir meira og meira í þá áttina, að skuldirnar hlaðast upp. Það getur gengið einhvern tíma, en það liður að því, að það verður að stöðvast. Og með þeirri fjárveitingu, sem nú er til hafnarframkvæmda, stefnir fullkomlega í óefni.

Ég vil taka annað dæmi, það er íþróttasjóður. Það tekur 10 ár að greiða áfallnar skuldir íþróttasjóðs með þeirri fjárveitingu, sem nú er. Hver hefði nú trúað því á árunum 1956–58, að þegar Sjálfstfl. færi að ráða í ríkisstj., þá yrði hlutfall íþróttasjóðs enn verra en það þá var? Sjálfstæðismenn sóttu það mál þá með miklu kappi að fá aukna fjárveitingu til íþróttasjóðs, og var þá hækkað verulega við hann, miðað við fjárlög þá, þó að það væri of lítið, t.d. við fjárlagaafgreiðslu 1957. En nú á að hækka um 250 þús. kr., aðeins til þess að hægt sé að veita þá þjónustu, er þarf til undirbúnings, enda eru fjárveitingar íþróttasjóðs orðnar með þeim hætti, að lögin eru að verða lítils virði, svo að ekki sé meira sagt. Ef þannig heldur áfram með þessa löggjöf og aðra umbótalöggjöf frá fyrri árum, þá fer svo, að það verður búið að trassa svo lengi að framkvæma það, að mönnum hrýs hugur við að leiðrétta þær áfallnar skuldir, og framkvæmdin fellur með öllu niður. Það stefnir ört í þessa átt með lögin um íþróttasjóð og verður fyrr en seinna, ef ekkert verður að gert til þess að leiðrétta jafnvægið.

Framlög til atvinnuveganna eru ekki fyrirferðarmikil í hækkun fjárlaga nú. Þar sem bezt lætur, má segja, að haldið sé í horfinu. Hins vegar er ekki verið nú að koma með nýjar fjárveitingar, svo að teljandi sé, sem aukið framlag til atvinnuveganna. Enn þá eru með öllu óleyst fjármál stofnlánasjóða landbúnaðarins.

Ekki bólar á neinum aðgerðum hæstv. ríkisstj. til þess að leiðrétta það mál. Það var þó boðað í hennar stjórnarsamningi, að það væri eitt af þeim málum, sem hún vildi vinna að. Fjárlög næsta árs munu þess vegna ekki hækka vegna þess, að framlag til atvinnuveganna hafi verið svo stórkostlega aukið. Nei, eins og ég sagði áðan, þar sem bezt er, er haldið í horfinu, en víðast hvar er svo ekki. Þess vegna verður ekki sagt, að ástæðan til þess, að fjárlögin hækki svo sem raun ber vitni um, sé sú, að meira sé varið til uppbyggingar í landinu en áður var. Það er síður en svo, að inn á þá braut sé farið, eins og ég hef sýnt hér fram á.

Þá kem ég næst að þeim þættinum, sem mikið hefur verið hér ræddur af hæstv. stjórnarliðum og kallaður hefur verið sparnaður. En segja má, að það hafi verið aðalinnihaldið í fjárlagaræðum hæstv. fjmrh., og einnig við afgreiðslu fjárlaga í fyrra var í nál. þáv. meiri hl. fjvn. mjög að þessu vikið. Mér sýnist, að það sé búið að gefa fyrirheit um 59 sparnaðarloforð, svo að úr nokkru virðist hafa verið að vinna fyrir hæstv. ríkisstj. og eðlilegt, að eitthvað færi að koma til framkvæmda. Ekki fer nú mikið fyrir sparnaðartillögum hjá hv. meiri hl. að þessu sinni. Og sparnaðartillögur eða sparnaður í framkvæmd á fjárlagafrv. er nú fyrirferðarlítill. Hins vegar hefur það komið í ljós, sem að vísu var vitað og kemur greinilega fram í athugasemdum við ríkisreikninginn 1960, að ýmislegt af því, sem boðað var að til sparnaðar horfði, hefur farið á hinn veginn. T.d. kemur það þar fram, að árið 1958 voru 30 launaðar nefndir starfandi hér, en á árinu 1960 voru þær orðnar 60, — kannske hefur það verið til þess, að þær fylgdu tölunni 60, það hefur verið talið vel við eigandi, — en kostnaður við þær hafði einnig tvöfaldazt. Það var boðuð hér, þegar fjárlög fyrir árið 1961 voru lögð fyrir, gerbreyting á skattanefndum og mikill sparnaður boðaður í sambandi við þá framkvæmd. Sparnaðurinn átti að koma fram á árinu 1961, svo að fjárlagafrv. var þá miðað við þennan fyrirhugaða sparnað. Ekki hafa enn þá séð dagsins ljós brtt. eða frv. til laga um breyt. á þessu fyrirkomulagi. Rétt er nú að spyrja, hvað því liði og hvenær megi vænta sparnaðar í þessa átt, er þar var boðaður. Að vísu voru margir vantrúaðir á sparnaðinn af þessu breytta kerfi, og var ég meðal þeirra. En þó skulum við sjá, hvað setur, og bíða, þangað til hafizt verður handa um framkvæmdina. En ekki verður sagt með rökum, að í tæka tíð hafi ekki sparnaðurinn verið boðaður, fyrst meira en ár er liðið, síðan hann átti að vera afgerandi, en ekkert er farið að bóla á breytingum enn þá.

Þá er það eitt, sem kemur fram í athugasemd við ríkisreikninginn fyrir árið 1960, það er hagsýslugerðin, sem hefur verið unnið að nú tvö síðustu árin, og 300 þús. kr. kostaði hún árið 1960. Þeir tala um það samt, endurskoðendur ríkisreikningsins, að kostnaðurinn muni vera meiri, þar sem ýmsir af starfsmönnum stjórnarráðsins séu látnir leggja fram mikla vinnu í þessu skyni. Nú hefur ekki sézt mikill árangur enn af þessari hagsýslugerð, en ef til vill á hann eftir að koma í ljós. En enn þá er það kostnaðarhliðin, sem þjóðin hefur fundið fyrir, og það er trú manna, að nokkru meiri kostnaður hafi orðið við þetta verk á yfirstandandi ári en þó 1960.

Þá kemur það einnig fram í athugasemdum við ríkisreikninginn fyrir árið 1960, að bókin Viðreisn, sem ríkisstj. gaf út, þegar hún trúði á sitt eigið kerfi, hafi kostað ríkissjóð 300 þús. kr. Nú skal ég að vísu segja það, að út af fyrir sig er það nokkurs virði, að sú bók skyldi komast út til almennings, því að þá er þjóðinni kunnugt um, hvað hæstv. ríkisstj. ætlaði sér að gera og einnig hvað hún hefur gert og hvernig viðreisnin hefur farið í hennar höndum. Hitt verður að segja og taka undir með athugasemdum ríkisendurskoðunarinnar, að það hentar ekki, að ríkissjóður sé að bera kostnað af pólitískum áróðri, eins og þarna á sér stað.

Í sambandi við sparnaðinn, sem hefur orðið útþensla, má einnig minna á það, að hér voru á síðustu dögum þingsins 1960 stofnuð nokkur prófessorsembætti við háskólann á einu kvöldi. Því var að vísu haldið fram þá, að þetta hefði ekki kostnað í för með sér, en það hefur hins vegar sýnt sig í fjárlagafrv., að kostnaðurinn hefur ekki látið á sér standa.

Saksóknaraembætti, sem stofnað var með lögum frá síðasta þingi, kostar orðið á aðra milljón, og sparnaðurinn í dómsmrn. er sáralítill, þó að þetta embætti hafi orðið til. Sakadómurum var fjölgað með lögum frá síðasta þingi, og nú er boðað að fjölga borgarfógetum og borgardómurum. Þá má minna á bankastjórana og bankaráðsmennina, bankaeftirlitið o.fl., sem hefur gengið í þá átt að þenja út ríkiskerfið af þessari hæstv. ríkisstj. Og það þarf ekki lengi að því að gá, að útþenslan er mun fyrirferðarmeiri en samdrátturinn, því að hann fyrirfinnst lítill hjá núv. hæstv. ríkisstj. Sparnaður hefur verið boðaður, en í framkvæmd er það útþensla á ríkisbákninu, sem hefur átt sér stað á þessum árum, enda sýna fjárlögin það glöggt.

Þetta almenna yfirlit mun ég nú láta nægja að sinni, en víkja þá að einstökum liðum fjárlagafrv. eða greinum og tillögum, sem fram hafa komið til breytinga á því.

Eins og hæstv. form. fjvn. tók fram áðan, stendur n.till. meiri hl. til útgjalda, þó að þar sé, eins og venja er, fyrirvari um einstakar tillögur. Í sambandi við þær tillögur, sem þar eru fram bornar, vil ég drepa á nokkrar þeirra örfáum orðum.

Í þessum brtt. er gert ráð fyrir því, að fjárveiting sé til þess að gera tilraun með rykbindingu á þjóðvegum. Þegar fjárlög voru til afgreiðslu á síðasta þingi, var farið fram á það af vegamálastjóra að fá fjárveitingu til þess, en af því varð ekki þá. Það er því spor í rétta átt, að þessi fjárveiting skuli vera tekin upp nú, því að hér er um mikið nauðsynjamál að ræða, og erum við mjög fylgjandi því.

Um skólabyggingarnar vil ég segja það, að eins og kom fram við afgreiðslu fjárlaga á síðasta Alþingi, var það almenn skoðun fjvn., að setja yrði nýja reglugerð, sem tryggði það, að betur yrði gengið frá undirbúningi um framkvæmdir í skólabyggingum. Nefndarmenn voru allir á eitt sáttir um, að það bæri nauðsyn til að gera þetta, og kom það fram í ræðu formanns nefndarinnar og ég held einnig af okkar hendi við umr. um fjárlagafrv. í fyrra. Mér er ekki kunnugt um, hvort þessi reglugerð hefur komið út, hún er þá alveg nýkomin, ef svo er. Hér er hið mesta nauðsynjaverk að vinna. Samkomulag varð um það í nefndinni að leiðrétta áætlanir hjá nokkrum skólabyggingum, sem voru í framkvæmd og sjáanlegt var að mundu að öðrum kosti stöðvast. Það varð einnig samkomulag um það að láta bíða til fjárlagaundirbúnings næsta haust leiðréttingu á nokkrum skólabyggingum, sem framkvæmd er að hefjast á eða ekki hafin. Þessi leiðrétting á að vera gerð með tilliti til þess, að framvegis eigi undirbúningur við þessar framkvæmdir að vera svo sem lög mæla fyrir um og unnið hefur verið að af fjármálaeftirliti skóla. Það er með öllu óhugsandi að láta þau mál vera svo á reiki eins og verið hefur nú um skeið, og getur stefnt, eins og þar sem vantalið er um greiðslu, í fullkomið óefni. Um þær nýju skólabyggingar, sem teknar eru að þessu sinni, lýstum við yfir, að við hefðum óbundnar hendur viðvíkjandi þeim, og hefðum við t.d. kosið að taka eitthvað af skólabyggingum úti um landsbyggðina, einhvern skóla í sveit, en það er ekki gert að þessu sinni. Við viljum leggja á það áherzlu, að þó að svo fari eitt ár, þá getur það ekki gengið lengi, og leggjum á það áherzlu, að það verði tekið til athugunar, þegar næst verður ákveðið um byrjunarframkvæmdir í skólum.

Tekið hefur verið upp að þessu sinni aukið framlag til að leita að nýjum fiskimiðum og til haf- og fiskirannsókna. Við höfum á undanförnum árum lagt fram tillögur til þess að fá þessar fjárveitingar hækkaðar, því að það hafa legið fyrir óyggjandi sannanir um það, að nauðsyn bæri til þess að hækka þessar fjárveitingar. Við erum því fegnir þeirri leiðréttingu, sem á hefur orðið, þó að það hafi í sumum tilfellum gengið of skammt. Við gerðum tilraun til þess á síðasta þingi að fá leiðréttingu á fjárveitingu fyrir búnaðardeild atvinnudeildarinnar. Það tókst ekki þá. Nú er bætt úr þessu að einhverju leyti, en hræddur er ég um það, að hér sé gengið of skammt, en ber þó að virða það, sem gert er.

Á hinum sérstöku tekjutillögum okkar vil ég gefa nokkrar skýringar. Eins og fram kemur í brtt. þeim, sem við gerum um tekjuáætlunina, er hún fyrst og fremst miðuð við það, að tekjur séu til þess að leiðrétta það, sem vantalið er á fjárlagafrv. Ráðuneytisstjórinn í efnahagsmrn. kom til fundar við nefndina og skýrði fyrir nefndinni, hvernig tekjuáætlunin væri uppbyggð. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem hann gaf, má gera ráð fyrir því, eftir hans útreikningi, að tolltekjur ríkissjóðs ættu að vera á næsta ári eitthvað yfir 900 millj. kr. Er það nokkru hærri upphæð en áætlað er í fjárlagafrv. Hann gaf þær skýringar um tolltekjumöguleikana, að gera mætti ráð fyrir því, að tolltekjur yrðu hagkvæmar eða að innflutningurinn yrði hagkvæmari ríkissjóði á næsta ári en yfirstandandi ár og s.l. ár og tekjur þess vegna meiri. Nú höfum við hins vegar ekki gert okkar áætlanir með þeim hætti, heldur höfum við reiknað með þeirri formúlu, sem hann gaf upp í nefndinni, sem sé að 31 króna færi í tolltekjur af 100 króna innflutningi. Hins vegar höfum við gert ráð fyrir meiri innflutningi en hann gerði ráð fyrir í sinni áætlun. En af þeirri reynslu, sem fengin er, og líkum um innflutning á yfirstandandi ári er okkar brtt. fram komin. Og eins og ég tók fram áðan, höfum við gert ráð fyrir því að nota að mestu leyti þá hækkun á tekjuáætluninni til þess að mæta þeim útgjöldum, sem ríkið á vangert við, en verður að greiða.

Þá höfum við, eins og við gerðum hér við fjárlagaafgreiðslu í fyrra, flutt nokkrar tillögur til sparnaðar á rekstri ríkisins. Við reyndum þá að prófa hæstv. ríkisstj. í framkvæmd í sparnaðarátt, að vísu höfðum við ekki af henni góða reynslu, eins og ég hef sýnt, en þó má enn þá gera tilraun til þess að vita, hvort hún er ekki til viðtals um eitthvað í þeim efnum.

Við leggjum til, að efnahagsmrn. verði lagt niður, því að það hefur ekki sýnt sig, að árangur af því ráðuneyti hafi orðið sá, að ástæða sé til þess að veita fjármagni til þess að halda því við. Við þetta mundi sparast að vísu lítil upphæð, um 370 þús. kr. En margt smátt gerir eitt stórt, og meta verður þetta eins og annað eftir verðmæti þess.

Þá leggjum við til, að annar kostnaður ráðuneytanna verði lækkaður, og teljum víst, að hæstv. ríkisstj. sé til viðtals um að spara á sínu eigin heimili. Og það hefur sýnt sig og kemur fram í athugasemdum við ríkisreikninginn, að endurskoðendum þykir þar nokkuð rúmt um að því leyti, að ríkisstj. leyfi sér of mikil gjöld á þessum lið. Og augljóst er það, að því hærri fjárhæð sem ætluð er til annars kostnaðar, því meiri verður hann. Þess vegna leggjum við til að lækka hann um 500 þús. kr.

Þegar hæstv. núv. utanrrh. var einnig fjmrh., var það eitt, sem hann benti á að mætti spara í ríkisbákninu, eins og hann orðaði það, og það var á utanríkisþjónustunni. Við fjárlagaafgreiðslu í fyrra kom meiri hl. fjvn. með þá ábendingu til hæstv. ríkisstj. að hafa eitt sendiráð á Norðurlöndum. Við gerðum einnig tillögu um það þá, að að þeirri breytingu yrði horfið, en hún náði ekki fram að ganga. Nú virðist það vera skoðun beggja stjórnarflokkanna, þar sem það hefur komið fram í ræðu hjá hæstv. utanrrh. og einnig hjá formanni fjvn. í fyrra, hv. þm. Magnúsi Jónssyni, að það bæri að vinna að samdrætti í utanríkisþjónustunni, og þess vegna viljum við nú bjóða hæstv. ríkisstj. samstarf um framkvæmd á þessu atriði. Sparnaður á þessu ári mundi verða um 1.9 millj. kr. að okkar dómi, þ.e. á árinu 1962, á þessu fjárlagafrv., en 3 millj. kr., þegar búið væri að umþótta sig í sambandi við framkvæmdina.

Einnig leggjum við til, að sendiráðið í París verði aðeins eitt, en þar hefur verið gerð sú breyting á, að sendiherra er einn, en sendiráðin eru hins vegar tvö. Við leggjum því til, að þau verði sameinuð og sendiráðið í París verði fulltrúi okkar bæði hjá frönsku þjóðinni og hjá NATO.

Þá höfum við endurtekið tillögu okkar um, að vegaeftirlitið sé kostað af bifreiðaeftirlitinu, en um það fluttum við tillögu í fyrra, og kostnaður þess falli niður á fjárlagafrv.

Þá höfum við gert tillögu um nokkra lækkun á 19. gr. fjárlaga og þ. á m. um, að ýmis útgjöld lækki um 5 millj, kr. Í ábendingu þeirri, sem meiri hl. fjvn. gaf ríkisstj. sinni við fjárlagaafgreiðslu 1961, benti hann á sendiráðin, benti á það að draga úr opinberum veizlum, benti á það að fækka tölu sendimanna á alþjóðaráðstefnum, og höfum við nú einnig lagt til, að sá liður verði lækkaður. Nú er það ljóst, að margt af því, sem þar er bent á og ríkisstj. hefur haft ár til að hugsa um, það fer á kostnað á 19. gr. Þess vegna finnst okkur ekki óeðlilegt, þegar vilji er fyrir því hjá stuðningsmönnum ríkisstj., þó að hér verði um sparnað að ræða, og þess vegna megi lækka þennan lið um 5 millj. kr. Og okkur finnst, að í raun og veru sé þetta prófsteinninn á vilja hæstv. ríkisstj. til þess að sýna einhverja viðleitni í sparnaði. Þarna hefur hún líka möguleika til að fækka eitthvað nefndunum, sem hún hafði mjög á orði að nauðsyn bæri til, þegar hún hóf hér sinn fyrsta boðskap.

Við leggjum einnig til, að niður falli á 19. gr. fjárlagafrv. liður sá, sem ætlaður er til fyrninga, og endurnýjun á bifreiðum ríkisstofnana á 20. gr., þar sem þessir liðir virðast nú hvergi koma við, nema gera ríkisstj. rýmra um í ráðstöfunum.

Sparnaðartillögur okkar eru um 17.9 millj., fara langt til að jafna þær hækkunartillögur, sem við flytjum umfram leiðréttingar. Ég endurtek það, að það er von okkar, að hæstv. ríkisstj. og stuðningslið hennar muni fagna þessari tillögugerð okkar og veita þeim brautargengi hér á hv. Alþingi.

Þá kem ég að þeim tillögunum, er til útgjalda horfa og af okkar hendi eru fram bornar. Um þær er það að segja, að þær eru nánast leiðrétting einnig, til þess að halda í horfinu með framkvæmdir í landinu, eins og þær voru fyrsta stjórnarár þessarar hæstv. ríkisstj.

Við gerum ráð fyrir að hækka framlag til þjóðvega um 25% og sömuleiðis til brúargerða og hafnargerða, en það er sú rýrnun, sem hefur orðið á notagildi þessa framkvæmdafjár frá því 1960, eftir því sem upplýst er af vegamálastjóra. Við höfum ekki gengið lengra í tillöguflutningi okkar en aðeins að halda í horfinu frá því ári. Hins vegar vil ég geta þess í sambandi við vegagerðina, að þar er tekin með sú fjárveiting, er ætluð var í Mýrdalssand á s.l. ári og unnið var fyrir 1960, enda var hún talin til vegagerðar á fjárlagafrv. Það var því með öllu óeðlilegt að láta vegagerðina lækka frá því, sem var á s.l. ári, en það gerir hún, þegar tillit er tekið til þessarar fjárhæðar. Ég hef rakið það hér að framan, hve mikla nauðsyn bæri til að auka fjárveitingar til þessara framkvæmda, en till. okkar eru þó ekki meiri en svo, að þær eyða dýrtíðinni, sem hefur orðið frá 1960, svo að framkvæmdir geti orðið hliðstæðar. Það verður að segja, að með meiri hógværð er nú ekki hægt að gera tillögur í þessu máli.

Þá leggjum við einnig til, að gerð verði ein breyt. á 14. gr. frv., en það er hækkun vegna námsmanna. Fyrir fjvn. lá bréf frá stjórnendum námslánasjóðsins, þar sem sýnt var fram á það, að fjárveiting til sjóðsins þyrfti að hækka yfir 700 þús. kr., til þess að framkvæmd laganna væri sú, sem boðuð var með frv., þegar það lá hér fyrir. Við leggjum til, að þessi fjárveiting verði tekin upp, enda mundi þá sjóðurinn geta annazt störf sín svo sem ætlað var með lagasetningunni. Ef þessi leiðrétting verður ekki gerð, verður þegar á öðru ári, eftir að sjóðsstofnunin átti sér stað, hopað frá því marki, er þar var sett, og teljum við, að nauðsyn beri til að halda í horfinu nú þegar, svo að ekki myndist þarna sem víða annars staðar óviðráðanlegir erfiðleikar.

Við höfum á nokkrum undanförnum þingum flutt till. um fjárveitingu til kaupa á jarðræktarvélum. Á síðasta þingi varð það fyrir okkar tillöguflutning í þessu máli, að fram kom frá stjórninni tillaga um 1 millj. í þessu skyni. Nú er það upplýst, að þessi 1 millj. mun ekki nægja til þess að anna því hlutverki, sem þessari fjárveitingu var ætlað. Við leggjum því til, að fjárveitingin hækki um 1 millj., og ætti það að bæta úr því, sem brýnast er.

Einnig leggjum við til, að til síldar- og fiskirannsókna verði varið 1 millj. kr. hærri fjárhæð en gert er ráð fyrir á fjárlagafrv., og er það í samræmi við það, sem við höfum áður lagt til í þeim efnum.

Eins og ég tók fram hér að framan, vantar á 17. gr. fjárlagafrv. 28.5 millj. kr., sem er framlag til atvinnuleysistryggingasjóðs. Við gerum tillögu um, að þessi fjárhæð verði leiðrétt á frv., og hef ég rökstutt það, hvert viðhorf okkar er til þeirrar afgreiðslu, er hæstv. ríkisstj. hugsar sér að hafa á þessari fjárveitingu.

Þá er það, sem ég kom að hér áðan, að á 19. gr. fjárlagafrv. vantar 73.8 millj. kr. til þess að standa undir þeim niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum, er verið hafa nú um skeið. Í sambandi við þetta mál vil ég minna á það, að niðurgreiðslur eru búnar að vera hér í landinu ríkjandi hátt í tvo áratugi. Ástæðan til þess, að inn á þessa braut var farið, að greiða niður vöruverð hér innanlands, var ekki sú að gera það fyrir bændurna í landinu og ekki heldur fyrir launafólk í landinu, heldur voru þetta efnahagsráðstafanir, er ríkisstjórnirnar gripu til, hver sem það gerði. Þeim fannst þetta ódýrasta leiðin til þess að komast út úr vandanum, og inn á þessa braut var þess vegna farið. Lengi vel var hækkun á þessum niðurgreiðslum tiltölulega lítil og ekki um verulegar stökkbreytingar að ræða. Um þetta form er það að segja, að það hefur sína kosti og sína galla, og sérstaklega ef um er að ræða stökkbreytingu, þá getur það verið mjög hættulegt. Það var bent á það árið 1959, þegar ríkisstj. Alþfl. með stuðningi Sjálfstfl. jók niðurgreiðslurnar verulega, að hér væri verið að fara inn á varasama braut, því að með því að hafa niðurgreiðslurnar svo stórkostlegar sem þá var gert, þá gerðist það, að verð var mjög fjarri lagi, og það út af fyrir sig getur verið hættulegt. í öðru lagi væri óheppilegt, að niðurgreiðslur færu upp fyrirframleiðsluverð, þannig að framleiðandinn yrði að kaupa vörurnar með hærra verði en neytandinn. Og þá var sérstaklega á það bent, að ef breytt yrði um stefnu, þá mundi þessi háttur hafa þau áhrif, að verulega drægi úr sölunni. Nú má ekki heldur gleyma því, að með niðurgreiðslunum var verið að koma í veg fyrir launahækkanir hjá launafólkinu og einnig verðhækkanir hjá bændum. Þess vegna er málið ekki svo einfalt, ef á að fara að afgreiða það nú eins og horfur eru á, ef fjárveitingin á ekki að vera hærri en 300 millj. kr. Það, sem gerzt hefur síðan 1959, er það, að kjör fólksins í landinu hafa versnað. Þess vegna væri það að fara aftan að því nú, þegar búið er að taka vísitöluna úr sambandi við verðlagið og þar með kaupgjaldið, ef ætti að fella niður eða draga verulega úr niðurgreiðslunum. Mér sýnist að athuguðu máli, að ef ætti að lækka niðurgreiðslurnar um 74 millj. kr., eins og frv. gerir ráð fyrir, þá mundi það þýða, ef það t.d. kæmi á mjólkina, — nú er ég ekki að segja, að það mundi vera gert með þeim hætti, — en þá mundi það þýða nærri 2 kr. á hvern seldan mjólkurlítra, og þá stæðu eftir milli 70 og 80 aurar af niðurgreiðslunni á mjólk. Nú sjá allir, hvaða áhrif það hefði, ef þessi háttur væri upp tekinn. Og þó að niðurgreiðslurnar yrðu lækkaðar á öðrum vöruflokkum, þá hefði það sitt að segja, þó að það hefði kannske mest áhrif þarna. Þess vegna væri það nú, ofan á allar þær álögur, sem búið er að leggja á fólkið í landinu nú þrjú síðustu árin, allverulegur baggi til viðbótar, ef ætti að hörfa svo mikið aftur á bak eins og hér er gert ráð fyrir. Þess vegna verður því ekki að óreyndu trúað, að það sé hugsun hæstv. ríkisstj. að koma þannig aftan að fólki, eins og hún raunverulega gerði, ef niðurgreiðslurnar yrðu lækkaðar um þessa fjárhæð. Þá stæði það eftir að fólkið hefði sitt háa verðlag, en hefði hins vegar tapað kauphækkuninni, sem það hefði fengið með hækkun á vísitölu, meðan hún hafði áhrif á kaupgjald.

Öllum er það ljóst, að ekki kemur til greina að falla frá útflutningsuppbótum á landbúnaðarvörur, því að um það var samkomulag um áramótin 1959–60 og breyting sú, sem gerð var á framleiðsluráðslögunum, beinlínis við það miðuð. Það er líka talið, að einmitt þetta atriði hafi haft áhrif á verðlagsákvörðunina á s.l. hausti. Þess vegna geri ég ekki ráð fyrir því, þó að hæstv. ríkisstj. ætli sér að gera hér á einhverjar breytingar, að það geti orðið á öðru en niðurgreiðslunum. En hitt verða menn að hafa hugfast, að hér er verið að svíkjast aftan að fólkinu. Það var á sínum tíma lækkað kaup þess með niðurgreiðslunum, og ef það sæti eftir með hækkað vöruverð nú, þegar kjör þess hafa stórkostlega verið rýrð á öðrum sviðum, þá mætti segja, að álögurnar riðu ekki við einteyming. Þess vegna er það skoðun okkar og við trúum ekki öðru en það verði skoðun hæstv. ríkisstj. og fylgismanna hennar, að hér verði að leiðrétta á fjárlagafrv., svo að hægt verði að inna þessa greiðslu af hendi.

Við leggjum einnig til, að hækkuð verði fjárveiting til bygginga á jörðum ríkisins á 20. gr.

Það hefur verið gerð tilraun til þess á síðustu þingum að fá þessa fjárveitingu hækkaða, og hefur það verið rökstutt, að hér er um að ræða fjárveitingu, sem hvorki er hyggilegt né framkvæmanlegt að komast fram hjá. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ef viðhald og eðlileg uppbygging er trössuð, þá segir það til sín með enn auknu fjármagni síðar meir. Þess vegna treystum við því fastlega, að hæstv. ríkisstj. sjái að sér og samþ. verði tillaga okkar, svo að hægt verði að bæta úr á þessum sviðum, því að hér er ekki verið að fara fram á neitt nema það, sem óumflýjanlegt er.

Í ræðu minni hér að framan hef ég rætt nokkuð um uppbyggingu fjárlagafrv. og einstaka þætti þess. Áður en ég lýk máli mínu, vil ég að lokum taka saman í nokkrum meginatriðum heildarsvipinn á þessu fjárlagafrv. Í fyrsta lagi sýnir það, að álögurnar eru gífurlegar, sem þar eru fram taldar, og þó koma ekki fram allar þær álögur, sem á þjóðina eru lagðar af ríkisvaldinu, eins og ég hef þegar sýnt fram á. Þá hef ég líka sýnt fram á það, að teknanna er nú fyrst og fremst aflað af hinum almenna borgara og æ gengið lengra ár frá ári að sækja þær inn á hið almenna svið í daglegri neyzlu. Ég hef líka bent á það, að þeim er ekki varið til uppbyggingar í landinu og til þess að aðstoða fólkið, sem þar býr nú, og fyrir framtíðina, heldur er síður en svo, þeim er varið í að auka dagleg útgjöld og eyðslu. Einnig í því, hvernig gjöldunum er skipt, er hallað á þann minni máttar, því að honum er á fæstum sviðum gert hærra undir höfði en þeim, sem betur mega. Þessar álögur, sem á þjóðina eru lagðar með fjárlagafrv. og með öðrum fjármálaþáttum hæstv. ríkisstj., stefna fyrst og fremst að því, sem lýst var yfir, þegar viðreisnin var hér til umr. á hv. Alþingi og hæstv. viðskmrh. var að kynna Alþingi og þjóðinni þá stefnu, en þá komst hann þannig að orði, að það væri stefnt að því að endurskipta þjóðartekjunum. Og það, sem hefur gerzt í tíð núv. hæstv. ríkisstj., það er að breyta skiptingunni á þjóðartekjunum þeim mörgu fátæku í óhag og hinum fáu efnameiri í hag. Hins vegar hefur það sýnt sig, að sú stefna, sem fylgt hefur verið á Íslandi til uppbyggingar í efnahagsmálum þjóðarinnar og sjálfstæði, hún hefur verið á annan veg en þennan. Þar hefur það verið kappkostað, að sem flestir yrðu bjargálna og þyrftu ekki aðstoðar að njóta sér til framfæris. Og því fleiri sem hafa tekið þátt í uppbyggingu og atvinnulífi þjóðarinnar, því betur hefur þjóðinni vegnað. Þess vegna er það okkar skoðun og bjargföst vissa, að stefna hæstv. ríkisstj. fái ekki hljómgrunn hjá þjóðinni, og í framtíðinni mun hún því bíða skipbrot, og þá verða þegnar þjóðfélagsins því fleiri bjargálna menn, sem sú nýja stefna, er þá tekur við, fær lengur við völd að sitja.