21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í D-deild Alþingistíðinda. (3509)

152. mál, útflutningssamtök

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. gaf engar upplýsingar um þennan norska prófessor, hvort hann hefði verið hér þjónn íslenzku ríkisstj. við athugun á sjávarútveginum.

Nú kom það fram í síðari ræðu hv. 1. flm., að hann telur þetta vera fyrsta skrefið, sem sé stigið til þess að koma í veg fyrir óholla starfsemi einokunarhringa. Líklega ber þá að skilja þetta þannig, að þessi fimm fyrirtæki, sem nefnd eru þarna í grg., það séu þau, sem sé að óttast í þessu efni. Vald þeirra geti orðið svo mikið, að hér þurfi að koma til löggjöf frá Alþingi. Hv. þm. segir, að þessir stóru hringar, einokunarhringar í öðrum löndum, þeir séu þar höfuðandstæðingar samvinnufélaganna. En svo setur hann þó hér í grg. Samband ísl. samvinnufélaga í flokk með hinum. Ég held, að við hljótum að vera sammála um það, ég og hv. 5. þm. Vesturl., að samvinnufélög geti aldrei orðið og séu aldrei einokunarhringar, — félög, sem starfa á samvinnugrundvelli. En hvað er þá að segja um hin fyrirtækin, sem þarna eru nefnd í grg.? Það eru sérstök lög um síldarútvegsnefnd, eins og þarna er tekið fram. Það er alveg á valdi löggjafarsamkomunnar og ríkisstj., hvort þessi nefnd hefur áfram einkarétt til útflutnings á saltaðri síld, eins og við vitum. Og það er alveg á valdi sömu aðila samkv. lögum, — samkv. lögum er það á valdi ríkisstj. nú að veita útflutningsleyfi og synja um útflutningsleyfi fyrir íslenzkar vörur. Það eru aðallega tvö fyrirtæki, sem flytja út frystan fisk — samkvæmt opinberum leyfum. Samlag skreiðarframleiðenda flytur út mikið af harðfiski, e.t.v. einhverjir fleiri, en þá er það líka undir eftirliti hins opinbera, svo að það vantar ekki lög hér, til þess að ríkisvaldið geti haldið í hendurnar á þessum aðilum, sem eru að flytja vörur til útlanda og selja þær þar.

Hv. frsm. hneykslaðist á því, að ég sagðist alls ekki fella mig við það, að ríkið ætti að ákveða, hvort sölusamtök eins og þau, sem hér hafa verið nefnd, hefðu leyfi til þess eða ekki að annast um siglingar, tryggingastarfsemi o.fl. í sína þágu og þeirra félagsmanna, sem mynda samtökin. Ég hef aldrei haldið því fram, að þessi fyrirtæki ættu að hafa einokun hvert á sínu sviði, — hef aldrei haldið því fram. En ég vil, að þau hafi frelsi til þess, alveg eins og aðrir, að flytja vörur milli landa og fást við tryggingastarfsemi. Hv. þm. segir, að með þessu hrindi ég frá mér kjarnanum, — kjarna till., skilst mér. Það verður þá að hafa það. Mér skilst á orðum hans, að það muni verða mest tjón fyrir mig sjálfan. Ég verð þá að bera það.

Hv. þm. segir, að ýmis fyrirtæki hér hafi legið undir árásum, og nefndi t.d. samvinnufélögin og gat um ályktanir, sem gerðar hefðu verið á fundum þeirra vegna þessara árása. Þetta er alveg rétt hjá þm. En ég er bara ákaflega vantrúaður á það, að slíkar árásir verði alveg úr sögunni, ef sett verða ný lög um starfsemi samvinnufélaganna. Og ég sé heldur enga þörf fyrir þau. Þau hafa starfað vel og dafnað á grundvelli þeirra laga, sem hér voru sett fyrir 40 árum og hafa verið í gildi lítið breytt síðan, og mér er ekki ljós nein rík þörf til þess að setja um þau nýja löggjöf.