18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

1. mál, fjárlög 1962

Frsm. meiri hl. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Það er hér brtt. við frv. til fjárlaga frá fjvn., sem ég skýrði frá áðan í framsöguræðu minni, að von væri á. Hún er skrifleg og of seint komin fram, svo að ég þarf að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða, en till. er svona:

„Við 22. gr. bætist: Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast allt að 2 millj. kr. lán fyrir Domus Medica, gegn þeim tryggingum, sem hún metur gildar.“

Það er ætlun Læknafélagsins að setja þarna upp lækningamiðstöð með fullkomnum rannsóknartækjum, lækningastofum og öðru því tilheyrandi.

2. till. er:

„Ríkisstjórninni er heimilt að greiða h/f Djúpbátnum 100 þús. kr. viðbótarstyrk, ef í ljós kemur, að halli verði meiri en bátnum er ætlað skv. till. samvinnun. samgöngumála.“

Þetta er endurveiting, svipuð og var á fjárlögum í fyrra, en talið er nauðsynlegt, að heimild sé einnig til að gera það nú.

3. till. er, að á 18. gr. bætist frú Hildur Blöndal með 20 þús. kr. og enn fremur hækki frú Agnete Kamban um 5 þús. kr. og frú Sigríður Bjarnason um 5 þús. kr.

Þá er enn ný tillaga við 22. gr.: „Ríkisstjórninni er heimilt að endurgreiða Vagninum h/f aðflutningsgjöld að upphæð kr. 242 921.80, gegn því, að félagið falli frá öllum skaðabótakröfum á hendur ríkissjóði.“

Þetta eru bílar, sem fluttir voru inn samkvæmt milliríkjasamningum og hafa reynzt óseljanlegir. Nefnd, sem ríkisstj. skipaði, hefur lagt til og telur sanngjarnt, að þessi háttur verði á hafður. I nefndinni voru Einar B. Guðmundsson, Halldór Jónatansson og Pétur Pétursson.

Þá vil ég aðeins drepa á nokkur atriði, sem komið hafa fram í umr.

Um skiptingu á flugvallafé vil ég geta þess, að flugmálastjóri hefur fyrir hönd flugráðs farið fram á, að ráðinu verði heimilt að skipta fénu að þessu sinni. Hitt er rétt, að fjvn. hefur skipt þessu fé undanfarið og venjulega farið að till. flugráðs um skiptinguna. Flugmálastjóri hefur lofað að senda nefndinni skýrslu um framkvæmdirnar og áætlaða skiptingu nú, þó að hún hafi enn ekki borizt.

Viðvíkjandi ummælum hv. 3. þm. Vesturl. (HS) um póst og síma, þá er það rétt, að póst- og símamálastjóri skýrði nefndinni munnlega frá því, að tekjur og gjöld mundu væntanlega hækka verulega. Erindi um þetta hefur þó enn ekki borizt n. eða til þess rn., sem stofnunin heyrir undir, og þótti meiri hlutanum því ekki rétt að breyta þessu í frv. nú. Það skal tekið fram, að póst- og símamálastjóri taldi víst, að tekjur stofnunarinnar mundu nægja fyrir gjöldunum.