07.03.1962
Sameinað þing: 40. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í D-deild Alþingistíðinda. (3728)

163. mál, tónlistarfræðsla

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hinn 16. sept. 1960 gaf menntmrn. út námsskrá, þar sem lýst er ýtarlega námsefni því, sem ætlazt er til að farið sé yfir með nemendum á fræðsluskyldualdri. Námsskrána ber að vísu ekki að skoða sem ófrávíkjanleg fyrirmæli. Gert er ráð fyrir frávíkum, bæði viðbót við námsefni fyrir duglegustu nemendur og skiptingu námsefnis fyrir þá nemendur, sem seinfærastir eru í námi. En námsskráin er yfirlit yfir það námsefni, sem almennt er ætlazt til að nemendur á fræðsluskyldualdri tileinki sér. Ætlazt var til, að námsskráin kæmi til framkvæmda á síðasta skólaári, að svo miklu leyti sem við yrði komið, en að fullu í byrjun þess skólaárs, sem hófst á s.1. hausti. Í þessari námsskrá voru í fyrsta skipti settar ýtarlegar reglur um námsefni í tónlist á fræðsluskyldualdrinum. Þar segir m.a. um markmið kennslunnar:

„Tónlistarkennsla á að þroska tónskyn og tónhæfni nemendanna og þjálfa rödd þeirra með iðkun tónlistar og söngs við hæfi hvers aldursstigs, með því að kenna þeim og með því að kynna þeim góða tónlist. Tónlistarkennslan skal miða að því að vekja áhuga, skilning og þekkingu nemendanna á tónlist almennt og efla félagshæfni þeirra innan skólans og utan.”

Síðan er tilgreint ýtarlega, hvert vera skuli námsefnið á hverju aldursstigi barnaskólanna og unglingaskólanna. Því miður eru ekki enn aðstæður til að fylgja að fullu þeirri námsáætlun á þessu sviði, sem gert er ráð fyrir í námsskránni, og veldur því fyrst og fremst skortur á hæfum tónlistarkennurum.

Þetta var mér ljóst, áður en hin nýja námsskrá var sett. Af þeim sökum hafði ég látið fara fram ýtarlega athugun á því, hvernig bæta mætti menntun tónlistarkennara. Niðurstaða mín varð sú, að það yrði bezt gert með því að efna til samvinnu milli tónlistarskólans í Reykjavík og kennaraskólans. Tónlistarskólinn í Reykjavík var stofnaður 1930 og starfaði til 1950 á víxl í Hljómskálanum og í Þjóðleikhúsinu, en frá 1950 hefur hann verið til húsa í Þrúðvangi við Laufásveg, en mun væntanlega á næsta hausti fá nýtt húsnæði í byggingu, sem Tónlistarfélagið er nú að reisa.

1. júní 1950 gaf menntmrn. út reglugerð um kennaramenntun í söng og tónlist. Í henni er tónlistarskólanum í Reykjavík veittur réttur til að sérmennta og útskrifa tónlistarkennara við almenna skóla í landinu. Námstíminn er tveir vetur. Brottfararpróf úr kennaradeild tónlistarskólans veitir réttindi til söng- eða tónlistarstöðu við barna- unglinga- og framhaldsskóla landsins, og heita þeir, sem prófinu ljúka, tónlistarkennarar. Kennaraskólinn annast hins vegar kennslu, sem veitir réttindi til söngkennslu í skólum skyldunámsstigsins. Þeir, sem lokið hafa tónlistarkennaraprófi í kennaradeild tónlistarskólans, skulu þó ganga fyrir stöðum í þeim skólum, sem hafa sérkennara í söng. Kennaraskólinn veitir kennaranemum tónlistarskólans kennslu í uppeldisfræði, kennslufræði og heilsufræði. Á hinn bóginn veitir tónlistarskólinn söngkennaraefnum kennaraskólans kennslu í tónlist.

Á grundvelli þessarar reglugerðar setti menntmrn. reglur um kennslu og próf við kennaradeild tónlistarskólans í Reykjavík, en námstíminn er fjögur kennslumissiri eða tvö ár, eins og ég gat um áðan. Þeim, sem lokið hafa söngkennaraprófi í kennaraskólanum, er hins vegar veittur kostur á að ljúka náminu á einum vetri.

Kennaradeild tónlistarskólans tók til starfa samkv. þessari reglugerð haustið 1959 og útskrifaði fyrsta kennarahóp sinn, 8 tónlistarkennara, á s.l. ári.

Með þeirri samvinnu tónlistarskólans í Reykjavík og kennaraskólans, sem efnt hefur verið til á grundvelli þessarar reglugerðar, tel ég, að lagður hafi verið grundvöllur að traustri menntun tónlistarkennara, en eins og ég sagði áðan, hefur einmitt skorturinn á vel menntuðum tónlistarkennurum verið aðalþröskuldurinn í vegi fyrir því, að tónlistarkennsla í skólum landsins væri eins mikil og góð og hún vissulega ætti að vera. En með hliðsjón af því, að ýtarlegar reglur hafa nú verið settar í námsskrá um söng- og tónlistarkennslu á öllum stigum fræðsluskyldualdursins, og með þeirri skipan, sem komið hefur verið á um menntun tónlistarkennara með þeirri samvinnu tónlistarskólans í Reykjavík og kennaraskólans, sem ég hef nú lýst, ætti að vera réttlætanlegt að gera ráð fyrir því, að grundvöllur hafi verið lagður að þeim endurbótum á þessu sviði, sem nauðsynlegar eru.

Að því er snertir hina æðri tónlistarfræðslu er það að segja, að hún fer hér, eins og kunnugt er, fram í einkaskólum. Aðalskóli landsins á þessu sviði er tónlistarskólinn í Reykjavík, sem eins og ég gat um áðan var stofnaður 1930. Hann er rekinn af Tónlistarfélaginu í Reykjavík, en hefur ríkisstyrk á fjárlögum. Hann starfar í fjórum deildum auk kennaradeildarinnar, sem er hluti af skólakerfi ríkisins, þ.e.a.s. píanódeild, strengjadeild, söngdeild og blásturshljóðfæradeild. Er skólinn flytur í hið nýja húsnæði sitt, en það verður væntanlega næsta haust, mun ráðgerð aukning á starfsemi skólans. Með tilstyrk ríkisins mun þá m.a. væntanlega komið á fót óperudeild við skólann, og vona ég, að það þyki góð tíðindi.

Stórir tónlistarskólar eru og starfræktir á Akureyri, Ísafirði. Keflavík, Selfossi, Akranesi og Siglufirði, en minni skólar á ýmsum stöðum öðrum, og njóta þessir skólar allir nokkurs ríkisstyrks á fjárlögum. Menntmrn, hefur ekki yfir þessum skólum að segja, þar sem þeir eru einkaskólar, en það hefur þó haft í undirbúningi ráðstafanir til þess, að efnt verði til samvinnu milli skólanna í því skyni að samræma þá kennslu, sem í þeim fer fram, og prófkröfur, m.a. í því skyni að auðvelda þeim, sem stundað hafa nám í skólunum utan Reykjavíkur, inngöngu og nám í tónlistarskólanum hér í Reykjavík, sem er langstærstur og fullkomnastur tónlistarskólanna.

Eftir að þáltill. sú, sem hér er til umr., var samþykkt, hugðist menntmrn. boða til fundar með skólastjórum allra tónlistarskólanna til þess að ræða um samstarf þeirra og samræmingu á námsefni og prófkröfum. Var svo ráð fyrir gert, að sá fundur yrði haldinn í septembermánuði s.l. En af ýmsum ástæðum var fundinum frestað, og er gert ráð fyrir því, að hann verði haldinn, þegar starfstíma skólanna lýkur nú í vor. Á þeim fundi er tilætlunin að ræða, í hvaða formi samvinna skólanna væri hugsanleg og með hvaða hætti væri hægt að samræma námsefni þeirra og prófkröfur, og sömuleiðis athuga, með hvaða hætti fjárhagsgrundvöllur skólanna verði bezt tryggður, m.a. með því að athuga, að hve miklu leyti kynni að vera heppilegt, að ríkisvaldið hafi afskipti af námsefni og prófkröfum og hver ætti að vera hlutdeild ríkis og sveitarfélaga í rekstrarkostnaði slíkra skóla. Ég tel nauðsynlegt, að niðurstöður slíks umræðufundar liggi fyrir, áður en tekin verður ákvörðun um, hvort löggjöf á þessu sviði er nauðsynleg eða æskileg, og þá um leið, hver meginatriði hennar ættu að vera, ef hún er talin nauðsynleg og æskileg.