14.03.1962
Sameinað þing: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 723 í D-deild Alþingistíðinda. (3738)

305. mál, alumíníumverksmiðja

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt að heyra hið góða samkomulag samþingismannanna frá Austfjarðakjördæmi. Það er sjálfsagt að taka þeirra óskir til athugunar. En eins og hv. 1. þm. Austf. sagði, hljóta ýmsar undirbúningsathuganir að eiga sér stað í slíku máli, sem með eðlilegum hætti hljóta að vera á ábyrgð ríkisstj. hverju sinni. Það er svo matsatriði, hvenær að því er komið, að rétt sé að gera heyrinkunnar þær niðurstöður þeirra athugana, sem fyrir liggja. Eins er hugsanlegt, að þó að ekki þyki tímabært að gefa almennar tilkynningar um málið, þyki rétt að hafa um það samráð við þingflokka. Enn hefur ekkert gerzt í þessu máli, sem hafi gefið ástæðu til þess, að ríkisstj. leitaði til annarra, vegna þess að eingöngu er verið að kanna málið og engar skuldbindingar hafa verið á sig teknar aðrar en þær að kanna til hlítar þá möguleika, sem kunna að vera til þess, að samningsgerð geti hafizt. En eins og ég segi, það er ánægjulegt að heyra, að báðir hv. þm. hafa áhuga fyrir málinu, og það er sjálfsagt að hafa þeirra óskir í huga, en svo kemur að ríkisstj. að meta, hvenær málið er komið á það stig, að hún þurfi að hafa samráð við fulltrúa þingsins í heild.