21.03.1962
Sameinað þing: 44. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í D-deild Alþingistíðinda. (3743)

176. mál, greiðslur vegna ríkisábyrgðar á árinu 1961

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Fsp. þessi fjallar um það, vegna hvaða fyrirtækja eða stofnana ríkissjóður hefur orðið að greiða áfallnar ábyrgðir á árinu 1961 og hve mikil var greiðsla vegna hvers einstaks þeirra á því ári, enn fremur hve mikið hefur verið greitt fyrir hvert þeirra samtals áður.

Tilefni þessarar fsp. er í stuttu máli það, að greiðslur ríkisins vegna ábyrgðarlána hafa mjög farið hækkandi á siðari árum. 1958 voru slíkar greiðslur samkv, ríkisreikningi ekki nema 23.2 millj. kr., 1959 eru þær 28.9 millj. kr., 1960 eru þær hins vegar orðnar 49.9 millj. kr., og samkv. upplýsingum, sem hæstv. fjmrh. hefur gefið á þessu þingi, urðu þessar greiðslur á seinasta ári í kringum 80 millj. kr. Samkv. þeim upplýsingum, sem hæstv. fjmrh. gaf einnig við það tækifæri, munu greiðslur alls vegna ríkisábyrgðarlána nema orðið 265 millj. kr., og sýnist mér, að tæpur helmingur þeirra greiðslna eða kringum það hafi fallið á tvö seinustu ár, 1960 og 1961.

Það er venja að láta sundurliðun á slíkum greiðslum fylgja ríkisreikningum, en það þýðir hins vegar, að upplýsingar um þær koma nokkuð seint fram, — þannig að sundurliðun á slíkum greiðslum fyrir 1961 mundi samkv. venju ekki liggja fyrir opinberlega fyrr en ríkisreikningurinn fyrir það ár er lagður fram. Ég tel hins vegar, að þar sem þessar greiðslur hafa aukizt svona stórkostlega seinustu árin og alveg sérstaklega á síðasta ári, þá sé æskilegt að fá fyrr sundurliðun um það, vegna hvaða fyrirtækja þessar greiðslur hafa til orðið, þannig að slík sundurliðun á að geta gefið merkilegar vísbendingar um það, vegna hvers þessar hækkanir hafa átt sér stað, og af því mætti svo draga kannske ýmsar ályktanir í sambandi við önnur mál. sem liggja hér fyrir hv. Alþingi.