18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 512 í B-deild Alþingistíðinda. (383)

1. mál, fjárlög 1962

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held, að það sjáist aldrei betur en í sambandi við afgreiðslu fjárl. hér á hæstv. Alþingi, hve framkvæmdavaldið er búið að draga allt vald frá löggjafarvaldinu í sínar hendur, því að það held ég, að allir geti gert sér ljóst, sem nokkuð íhuga það, að afgreiðsla og meðferð fjárl. hér á Alþingi er í raun og veru ekkert annað en sýndarleikur. Allt það, sem máli skiptir í sambandi við fjárlögin, er ákveðið annars staðar, það er ákveðið af hæstv. fjmrh. og ríkisstj. Þetta sést ekki sízt á því, að aðalumr. um fjárl. eru látnar fara fram á tveimur næturfundum á þingi, sem situr þó venjulega í 6–8 mánuði. Nú við 2. umr. fjárl. fór umr. fram á einum næturfundi, og nú er hið sama að endurtaka sig við 3. umr. fjárl., og hæstv. ráðherrar gera ekki svo lítið yfirleitt að sýna sig við þessar umr. T.d. eru þeir allir farnir af fundi nú fyrir nokkru.

Við vitum það, að hv. fjvn. fær fjárlögin til meðferðar. En það er lítið annað en sýndarleikur líka, vegna þess að meiri hlutinn fer þar að flestu eða öllu leyti eftir þeim fyrirmælum, sem hann fær frá hæstv. fjmrh., og minni hl. fær litlu eða engu fram komið. Þess vegna er það lítið annað en sýndarmennska að láta hv. fjvn. fjalla um fjárlögin, eins og nú er á málum haldið. Hér er þó ekki um neitt smámál að ræða, því að hér er að ræða um það, hvernig eigi að ráðstafa nær tveimur milljörðum króna, sem ríkið leggur á þegnana.

Ég held, að þetta mætti verða til þess, að hv. Alþingi athugaði, hvernig aðstöðu þess er komið, hvernig raunverulega er búið að draga valdið úr höndum þess í hendur ríkisstj. og hvort þetta gæfi ekki ástæðu til þess að taka upp til gaumgæfilegrar athugunar allt stjórnarkerfið með tilliti til þess, að Alþingi hefði meira um þjóðmálin að segja en það hefur nú.

Það væri vissulega ástæða til þess að ræða ýtarlega um afgreiðslu fjárl. að þessu sinni, því að vissulega er margt í þeim þannig vaxið, að það gefur ástæðu til þess, að menn staldri við og geri sér grein fyrir því, hvernig orðið er ástatt í þeim efnum. Það má t.d. vera mönnum ekki lítið umhugsunarefni, að á þremur árum hafa fjárlögin ekki minna en tvöfaldazt, á einum þremur árum. Og þetta gerist á sama tíma, sem framlög til verklegra framkvæmda lækka raunverulega mjög verulega, þegar miðað er við það, sem fyrir þau fæst. Og þrátt fyrir það, þó að fjárlögin séu búin að ná þessari upphæð, að nálgast tvo milljarða króna, þá er stórum liðum, sem á ríkið eiga að falla og munu falla, haldið utan við þau, eins og t.d. því tillagi, sem ríkið á að greiða til atvinnuleysistrygginganna og lögbundið er. Og það er ekki heldur lítið umhugsunarefni, að á þeim tíma, sem álögurnar á landsmönnum hafa tvöfaldazt, á þessum þremur árum, hefur enginn teljandi sparnaður átt sér stað á neinu sviði ríkisrekstrarins, en útgjöldin hlaðizt upp svo að segja í öllum áttum.

Þetta gæfi vissulega ástæðu til þess, að menn stöldruðu við og þingið ræddi þetta mál meira en á tveimur kvöld- og næturfundum þann tíma, sem það stendur. En svo er nú búið að koma aðstöðu þingsins í þessum efnum og því ofurvaldi, sem ríkisstj. er búin að taka í sínar hendur í þessu sambandi, að þingið fær ekki nema tvo kvöld- og næturfundi til þess að ræða um þessi mál. Og þá gera hæstv. ráðh. sér lítið fyrir og sýna sig yfirleitt ekki hér í þingsölunum, þegar um þetta er rætt.

Ég hygg, að það sé sannast sagna, að úr þessu verði ekki fullkomlega bætt, nema við gerum verulegar breytingar á okkar stjórnarkerfi og aðskiljum framkvæmdavaldið eða ríkisstj. og löggjafarvaldið, Alþingi, mun meira en nú er gert. Og ég er ekki í neinum efa um það, að í þessum efnum er farsælla að taka upp að verulegu leyti a.m.k. það þingræðisfyrirkomulag, sem Bandaríkin hafa, heldur en að fylgja því fyrirkomulagi, sem yfirleitt viðgengst í Evrópuríkjunum, þar sem lýðræði er. Samkvæmt bandaríska kerfinu hefur þingið tvímælalaust miklu sterkari aðstöðu gagnvart ríkisstj. og getur skapað henni miklu meira aðhald en með því fyrirkomulagi, sem hér er orðið og leiðir af því, hversu mjög framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið er samtvinnað.

Annars sé ég ekki ástæðu til þess nú á þessum næturfundi að ræða öllu nánara um þetta atriði, enda mun gefast tækifæri til þess siðar. En það, sem gaf mér ástæðu til þess að kveðja mér hér hljóðs og segja nokkur orð, var fyrst og fremst það, að ég vil vekja athygli á því, áður en fjárlögin eru afgreidd frá hv. Alþingi, að ein stétt og sú stétt, sem ríkið ætti sérstaklega að láta sér umhugað um, opinberir starfsmenn, þeir eru mjög hlunnfarnir, þegar hlutur þeirra er borinn saman við aðrar stéttir. Í skýrslu, sem stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja lét birta í febrúarmánuði s.l., var sýnt ljóslega fram á það, að síðan á árinu 1944 hefði hlutur opinberra starfsmanna í samanburði við aðrar hliðstæðar stéttir versnað um 16.5%, þ.e.a.s. opinberir starfsmenn þyrftu að fá 16.5% launauppbót, ef þeir ættu að vera sambærilegir við aðrar stéttir, ef haldið væri því hlutfalli, sem var á milli þeirra 1944.

Nú hefur það gerzt síðan í febrúarmánuði í fyrra, þegar þessi grg. stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja var birt, að það hefur átt sér stað ný kauphækkunaralda í landinu. Opinberir starfsmenn hafa fengið 13.8% kauphækkun. Hins vegar hefur niðurstaðan orðið sú, að hjá öðrum hliðstæðum stéttum, t.d. iðnaðarmönnum, hefur kaupið hækkað um 15–18%, að því er haldið hefur verið fram af hæstv. ráðh. hér á Alþingi í haust. Þetta þýðir það, að enn hefur hlutur opinberra starfsmanna versnað í samanburði við aðrar stéttir, þannig að ef munurinn á þeim og öðrum, miðað við 1944, hefur verið 16.5% í febrúarmánuði s.l., þá er munurinn á launakjörum þeirra og annarra nú orðinn 18–21%, sem þeir þyrftu raunverulega að fá, ef hlutur þeirra ætti að vera til jafns við aðrar stéttir, eins og þetta var í stríðslok.

Það er líka skemmst frá að segja, að ef borinn er saman hlutur opinberra starfsmanna hér á landi og í nálægum löndum, þá er hann miklu verri hér en þar. Þetta hlýtur fyrr en síðar að leiða til þess, og það er óhjákvæmilegt, að það verði svo, að opinberir starfsmenn fái sinn hlut bættan og betur en þeim er ætlað nú í þessu fjárlagafrv.

Fyrir nokkrum dögum fóru fram hér í hv. Nd. allathyglisverðar umr. í sambandi við þessi mál, þar sem rætt var um laun dómara. Og mönnum kom yfirleitt saman um það, að laun sakadómara og hliðstæðra starfsmanna hér í Reykjavík væru of lítil, þó að þeir væru samkv. því frv., sem þá lá fyrir, hækkaðir um tvo launaflokka. Og ég tek fullkomlega undir það, að það var rétt. En hvað má þá segja um aðra opinbera starfsmenn, sem eru miklu verr launaðir en þó dómarar eru? Hvað má t.d. segja um gagnfræðaskólakennara og barnaskólakennara? Hlutverk dómara í okkar þjóðfélagi er vissulega mjög mikilsvert, og þess vegna er ástæða til þess að launa þá menn vel, svo að það fáist færir menn til að gegna þeim störfum. En ég efa það, hvort nokkur stétt manna gegnir öllu þýðingarmeira hlutverki í okkar þjóðfélagi, eins og nú er komið högum þess, en einmitt kennararnir, því að síðan áhrif heimilanna minnkuðu vegna þeirra breytinga, sem orðið hafa í þjóðfélaginu á undanförnum árum, þá hvílir það orðið miklu meira á herðum kennaranna en áður átti sér stað, að vandað sé til uppeldis æskulýðsins. og þess vegna er það hið þýðingarmesta, að í þessar stöður veljist vel færir menn. En hvernig er t.d. búið að barnaskólakennurum og gagnfræðaskólakennurum, eins og launakjörunum er háttað nú? Launakjör gagnfræðaskólakennara, þegar þeir eru komnir á hámarkslaun, eru nú eftir þá launahækkun, sem varð á s.l. sumri, 6500 kr. á mánuði. Laun barnakennara eru hins vegar 6000 kr. á mánuði. Ég held, að það geti allir gert sér fullkomlega grein fyrir því, að eins og nú er komið dýrtíð í landinu, þá er ekki hægt að lifa mannsæmandi lífi fyrir þessi laun, og það er ekki hægt að ætlast til þess, að menn leggi á sig mikla menntun, eins og þessir menn þurfa að gera, til þess að fórna svo ævi sinni til að vinna fyrir slík laun á eftir. En hvar verðum við staddir eftir nokkurn tíma, ef þannig er haldið á þessum málum, að það fást ekki hæfir menn til að gegna kennarastörfum, til að vinna að uppeldismálunum, við uppeldi æskulýðsins, sem er þó án efa þýðingarmesta verkið, sem þarf að vinna í þjóðfélaginu, ef vel á að fara í framtíðinni? Ég hygg, að þetta hljóti að sýna öllum það ljóslega, að það er brýn nauðsyn á því að gera sem fyrst endurbætur í þessum efnum og ganga þannig frá þessum málum, að opinberir starfsmenn njóti fullkomlega jafnréttis við aðrar stéttir, sambærilegar stéttir, en eins og ég vék að áðan, þá vantar þá nú 18–21% launauppbót, til þess að hægt sé að halda slíku fram.

Ríkið þarf að gera sér það fullkomlega ljóst, að það getur ekki tryggt sér sæmilega starfsmenn, nema það haldi uppi svipuðum launagreiðslum og einkareksturinn býður. En á það vantar nú stórkostlega, að svo sé, eins og ég hef nú bent nokkuð á. Þess vegna er alveg óhjákvæmilegt að taka upp aðra stefnu í þessum efnum en þá, sem hefur verið fylgt á undanförnum árum og hefur beinzt að því að þrengja hlut opinberra starfsmanna til samanburðar við aðrar stéttir, sérstaklega þó aðrar launastéttir. Ég held, að það sé komið að því, að það verði ekki lengur dregið að endurskoða öll þessi mál, að taka launamál opinberra starfsmanna til gaumgæfilegrar endurskoðunar, og alveg sérstaklega hygg ég, að það sé nauðsynlegt að gefa þeim bætta aðstöðu til þess að semja um mál sín, til þess að knýja það fram, að þeir geti búið við sambærileg kjör og aðrar stéttir hafa. Ég tel rétt að benda á það í þessu sambandi, að t.d. þeir starfsmenn hjá ríkinu, sem njóta verkfallsréttar, — ég á þar við sjómenn á strandferðaskipunum og á varðskipunum, þeir tryggðu sér á seinasta ári 27–31% kauphækkun, á meðan aðrir starfsmenn hins opinbera fengu ekki nema 13.8% kauphækkun. Þessi munur liggur að sjálfsögðu fyrst og fremst í því, að þessir starfsmenn, sem hærri kauphækkanir fengu, höfðu verkfallsréttinn eða samningsréttinn til að styðjast við. Þann rétt hafa aðrir opinberir starfsmenn nú yfirleitt ekki. Og ég held, að það sé alveg óhjákvæmilegt, til þess að opinberum starfsmönnum verði í framtíðinni tryggð svipuð kjör og öðrum stéttum og þeim ber að hafa og þeir þurfa að hafa, ef ríkið á að tryggja sér nægilega góða starfsmenn, þá verði að skapa þeim aðstöðu til þess að geta haft svipuð áhrif á það að knýja fram sinn hlut og aðrar stéttir hafa. Og það er ein ástæðan til þess, að ég hef að þessu sinni ekki talið ástæðu til þess eða ekki talið, að heldur mundi þýða að bera fram till. um það, að hlutur opinberra starfsmanna væri bættur frá því, sem hann er ætlaður í fjárlagafrv., heldur vildi ég reyna að vinna að því, að sú breyting yrði gerð á þessum málum, að opinberum starfsmönnum væri tryggð betri aðstaða til þess að gæta síns réttar til samanburðar við það, sem öðrum stéttum er veitt.

Ég skal svo ekki að þessu sinni hafa þessi orð fleiri, en mér fannst rétt að láta þetta sjónarmið gagnvart opinberum starfsmönnum koma fram, áður en fjárlögin væru endanlega afgreidd að þessu sinni.