18.12.1961
Sameinað þing: 29. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í B-deild Alþingistíðinda. (386)

1. mál, fjárlög 1962

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Til viðbótar þeim tillögum, sem ég hef áður gert grein fyrir, flyt ég eina brtt. á þskj. 253, það er fyrsta till. á því þskj. Þessi till. mín er ekki um fjárveitingu úr ríkissjóði, síður en svo. Með henni er að minni hyggju stuðlað að því, að betur heimtist í ríkissjóð tekjur af söluskatti en ella mundi. Ég legg til, að inn í 2. gr. frv., við 11. tölulið hennar, komi aths., svo hljóðandi:

„Skýrslur um álagðan söluskatt af vörusölu og þjónustu innanlands skulu liggja frammi almenningi til sýnis eftir sömu reglum og gilda um skrár yfir álagðan tekjuskatt og eignarskatt.“

Í lögum um söluskatt er ákveðið, að skattstofur og skattanefndir skuli leggja á þennan skatt, söluskatt af vörusölu og þjónustu innanlands. Þetta er há upphæð, þessi söluskattur í heildinni, eftir því sem fjárlögin gera ráð fyrir. Ég held, að ég muni það rétt, að hann sé áætlaður 215 millj., en tekju- og eignarskatturinn er áætlaður innan við 100 millj., svo að söluskattur af vörusölu og þjónustu innanlands er samkv. því meira en helmingi hærri. Nú er það svo, eins og menn vita, um tekjuskattinn og eignarskattinn, sem skattstofur og skattanefndir leggja í, að það eru lagðar fram skrár, sundurliðaðar skrár um þessa skatta. Þær liggja frammi ákveðinn tíma öllum til sýnis, og svo er um fleiri gjöld, sem lögð eru á af þessum sömu aðilum. Mér finnst því, að það ætti að hafa sama háttinn á um þennan söluskatt. Það hefur verið um það talað stundum, að nokkur hætta væri á því, að hann kæmi ekki allur til skila, sumir þeir, sem innheimta þennan skatt fyrir ríkið, mundu ekki skila honum að fullu. Ég lít svo á, að það væri fólgið í því nokkurt aðhald fyrir þá aðila, sem kynnu að vilja komast hjá því að skila öllum skattinum, ef skýrslur um skattinn væru látnar liggja frammi á sama hátt og skattaskýrslur, og því hef ég borið þessa tillögu fram. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um hana fleiri orð.

Ég var á ferð um Vestfirði í sumar. Ég fór þá í fyrsta skipti eftir hinum nýja vegi, sem lagður hefur verið sunnan frá Breiðafirði norður yfir fjallgarðinn til Arnarfjarðar. Þetta er vel gerður vegur og hann hefur orðið mikil samgöngubót fyrir Vestfirðinga, sérstaklega þá, sem búa norðan Arnarfjarðar. Ég veitti því athygli eins og aðrir, sem fara þarna um, að það vantar veg af þessum vegi til Bíldudals. Mér er sagt, að þetta séu tæpir 10 km, þessi leið. Það er ákaflega erfitt fyrir Vestfirðinga, einkum þá, sem búa sunnan Arnarfjarðar, að búa við þetta, geta ekki haft full not af þessum nýja vegi. Eins og kunnugt er, þá eru allfjölmenn kauptún syðst á Vestfjörðum. Þar er mikill atvinnurekstur á Patreksfirði, í Tálknafirðinum og á Bíldudal, og þeir, sem þar búa, eiga oft erindi norður á Vestfirðina, einkum til Ísafjarðar. Þar er miðstöð fyrir Vestfirði að sumu leyti, t.d. eru þar staðsett bankaútibúin, sem eru á Vestfjörðum. En meðan ekki er lagður vegur þennan spöl fyrir Suðurfirðina, þurfa menn, t.d. á Bíldudal, sem eiga erindi norður á firði, að fara suður yfir fjallið Hálfdán til Tálknafjarðar, þaðan yfir háls til Patreksfjarðar, úr Patreksfirði suður yfir Kleifaheiði og inn Barðaströnd allt til Vatnsfjarðar og svo eftir hinum nýja vegi norður í Arnarfjörð. Þetta er óravegur. Það er líka mikil lykkja, sem þeir þurfa að leggja á leið sína, ef þeir þurfa suður til Reykjavíkur eða til annarra landshluta utan Vestfjarða, því að þá þurfa þeir, sem búa sunnan megin Arnarfjarðar, að fara þessa sömu leið allt suður til Patreksfjarðar og þar suður yfir heiði til Barðastrandar, en gætu sparað sér stóran krók, ef þessi vegur væri kominn fyrir Suðurfirðina.

Það kom fram hér í umr. í kvöld, að nú á þessu ári hefur engin fjárveiting verið í þennan vegarspotta, og samkv. fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir, er ekki ætlazt til þess heldur, að það verði veitt ein einasta króna í veginn nú á þessu ári. Ég verð að segja það, að mér finnst þetta furðulegt. Ég hef minnzt á þetta vegna þess, að það var svo nýlega, sem ég átti ferð um þessar slóðir, og mér varð það þá ljóst, hvað þarna væri hægt að gera mikið til samgöngubóta fyrir allmargt fólk með tiltölulega mjög litlum kostnaði.

Ég sé, að það eru hér tillögur frá þm. Vestf. um að veita nokkuð í þennan veg, og ég vildi leyfa mér að mæla hið bezta með því, að slíkar tillögur yrðu samþ. Það er áreiðanlega sanngirnismál.