15.02.1962
Neðri deild: 49. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í B-deild Alþingistíðinda. (667)

21. mál, lausaskuldir bænda

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það er fyrst og fremst varðandi eitt atriði þessa máls, sem ég vildi láta nokkur orð falla, í tilefni af þeim tíðindum aðallega, sem nú hafa gerzt með yfirlýsingu hæstv. landbrh.

Þegar þessi brbl. voru gefin út í júlí s.l., kom strax í ljós, að í þeim var mikið misrétti í garð bændastéttarinnar, eins og mjög vel hefur verið lögð áherzla á síðan víða, bæði í ræðu og riti. En það var einnig ljóst, að lögin voru botnlaus, ef svo mætti orða það, þau voru botnlaus, vegna þess að það var gert ráð fyrir því að afhenda bændum skuldabréf, án þess að þessi bréf væru gerð gjaldgeng upp í skuldir, og hafði slíkt aldrei þekkzt við lausn hliðstæðra mála hér í landi. Menn sáu það í hendi sér, að þetta gerði það að verkum, að lögin gátu ekki komið nema að mjög takmörkuðum notum og alls ekki að neitt hliðstæðum notum við þá löggjöf, sem sett hafði verið fyrir sjávarútveginn, því að þar voru bréfin gerð gjaldgeng upp í skuldir sjávarútvegsmanna.

Eins og ég sagði, var strax á þetta bent, og sló óhug á menn út af þessu. Þessari gagnrýni var ekki vel tekið af hæstv. landbrh, eða málgögnum hans, heldur var því haldið fram, að lögin væru góð. Því var ekki lýst yfir þá, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess, að bréfin yrðu gjaldgeng, og leið svo allt sumarið, frá því að lögin voru gefin út, og fram á haust og kom að þeim tíma, að menn skyldu senda umsóknir sínar um lánin. Allan þennan tíma lá það fyrir, að bréfin höfðu ekki verið gerð gjaldgeng upp í skuldir manna. Lögin gerðu ekki ráð fyrir því, og engar ráðstafanir höfðu verið gerðar til þess. Augljóst er, að ef hæstv. ráðh. hefði í upphafi og hans menn ætlað sér að láta bændum í té hliðstæð skuldaskil og öðrum, þá hefðu þeir strax annaðhvort haft ákvæði um það í lögunum, að bréfin væru gjaldgeng upp í skuldir bænda, eins og gert var við sjávarútveginn, eða samið strax við stofnanir í landinu, bankastofnanir, um, að þótt þetta væri ekki í lögunum sjálfum, þá yrði þetta þannig í framkvæmd. Ef hæstv. ráðh. hefði hugsað sér heilsteypta og eðlilega lausn á skuldamálum bænda, hefði hann gert þetta, og þá hefði framkoman í þessu atriði verið óaðfinnanleg og heiðarleg, því að þá hefðu menn vitað, þegar þeir sóttu um lánin, hvers þeir máttu vænta. En þetta var ekki gert, heldur var gagnrýninni illa tekið til að byrja með, og það var ekki fyrr en bændur voru farnir að ganga í málið með miklum þrýstingi og fundarsamþykktum og ekki fyrr en eftir margra mánaða baráttu framsóknarmanna í þessu sambandi, að fát fór að koma á hæstv. landbrh. og hans menn og þeir sáu, að slík missmíði voru á málinu, að það fékk ekki staðizt. Þá var málið stöðvað hér í þinginu og hafa miklar bollaleggingar verið um, hvernig ætti að komast út úr þessari sjálfheldu, sem búið var að efna til.

Það er augljóst á öllu því, sem komið hefur fram um þetta mál, að upphaflega var ekki meiningin að leysa málið á þann hátt, að bréfin væru gjaldgeng, því að ef sú hefði verið ætlunin, þá hefði það verið gert í tæka tíð, svo að bændur vissu það, áður en þeir sæktu. Auk þess er ljóst af því, að hæstv. ráðh. og hans menn munu hafa borið það fram sem eina af röksemdunum fyrir því, að vextir yrðu að vera svona háir og hærri en annars staðar, að það yrði að hafa vextina svona háa, til þess að bændum gengi skár að koma bréfunum út, til þess að bændum gengi skár að semja sjálfum við lánardrottna sína um að taka bréfin. Á þessu hefði ekki þurft að halda, ef það hefði verið ætlunin að leysa málið á eðlilegan hátt. Þá hefði ekki þurft að hafa vextina hærri en annars staðar, til þess að bændur gætu notfært sér það við að reyna að koma þessum bréfum út sjálfir. Það er enginn vafi á því, að ýmsir bændur hafa hætt við að sækja, því miður, um lán vegna þess, hversu illa þetta mál var lagt fyrir af hæstv. ráðh. og ríkisstj. í brbl. og öllum þeim málflutningi, sem á eftir fór. Lát fór að koma á hæstv. ráðh. svo seint, að þá var umsóknarfrestur liðinn. Ef sumt af því, sem hæstv. ráðh. sagði þá, eftir að fór að koma lát á hann, hefði verið sagt s.l. sumar, má vera, að það hefði getað hjálpað til þess, að fleiri hefðu notfært sér löggjöfina.

Nú hefur hæstv. ráðh. lýst yfir því, að stjórnin hafi gert ráðstafanir, sem a.m.k. að verulegu leyti gera bréfin gjaldgeng í banka. Og það er gott, að þessi árangur hefur nú náðst af margra mánaða harðri baráttu framsóknarmanna fyrir m.a. þessu grundvallaratriði í skuldaskilunum og að slíkur árangur hefur líka náðst af þeim fjöldamörgu ályktunum, sem bændafundir hvaðanæva hafa sent frá sér í sömu stefnu. Það er gott, að þessi árangur hefur náðst, og því ber að fagna, og það sýnir sig nú í þessu máli eins og svo oft áður, að það er ýmsu hægt að koma áleiðis með skynsamlegri og rökfastri baráttu og góðum samtökum.