26.03.1962
Neðri deild: 76. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

15. mál, Seðlabanki Íslands

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls færði ég fram ýmis rök fyrir því, að gengislækkunin, sem framkvæmd var snemma í ágústmánuði s.l. ár, hefði ekki átt rétt á sér, hefði verið með öllu óþörf vegna atvinnuveganna. Ég minntist þar m.a. á hagskýrslur, bæði um fiskafla, sem var miklu meiri árið sem leið en áður, og einnig nefndi ég skýrslur hagstofunnar um útfluttar vörur frá landinu og verðmæti þeirra. Ég vitnaði í janúarhefti Hagtíðinda 1962, en þar er birt skýrsla um útfluttar íslenzkar afurðir allt árið 1961 og einnig til samanburðar árið 1960. Ég reiknaði það út eftir þessari skýrslu, að verðmæti útflutningsins hefði verið árið 1961 13.7% meira en það var 1960 og 16.6% meira en 1959, ef borið er saman við það ár. Hins vegar hafði ég þá ekki veitt því athygli, að í þessari skýrslu í Hagtíðindunum, sem birtist í janúarheftinu, er ekki búið að samræma tölurnar gengisskráningunni nýju frá í ágúst, þannig að þarna eru lagðar saman í þessari skýrslu tölur, sem sýna útflutninginn fyrstu sjö mánuði ársins, en þar er um að ræða nokkru verðhærri krónur en taldar eru fyrir útflutninginn síðustu fimm mánuðina. Ég hef tekið þessar tölur rétt upp og reiknað rétt út prósenturnar, en vegna þess að þarna er ekki búið að samræma þessar tölur vegna gengisbreytingarinnar, þá gefa þær ekki svo rétta mynd af breytingunum sem hægt er að fá með því að umreikna, eins og það er kallað, til hins nýja gengis. En eins og ég gat um einnig, þegar ég ræddi um þetta, þá gefa þessar útflutningstölur út af fyrir sig nokkuð takmarkaða hugmynd um útflutningsvöruverðmætið hvert árið fyrir sig, vegna þess að birgðir eru mismunandi frá ári til árs, útflutningsvörubirgðir í árslokin. Ég hef því gert á þessu nýja athugun. Ég hef í fyrsta lagi umreiknað útflutningstölurnar fyrir árin 1959 og 1960 og fyrstu sjö mánuði ársins 1961 eftir hinu nýja gengi og í öðru lagi athugað og fengið upplýsingar hjá Seðlabankanum um útflutningsvörubirgðir um hver áramót, eftir því sem Seðlabankinn hefur metið þær hverju sinni. Í þessum upplýsingum, sem ég fékk, eru birgðirnar reiknaðar öll árin á því gengi, sem nú er, eða við það er miðað.

Á árinu 1959 var birgðaaukning nokkur, aftur töluverð birgðarýrnun 1960, og skv. ársskýrslu Seðlabankans jukust útflutningsvörubirgðir árið 1961 um 186 millj. Þegar ég hef gert samanburð á útflutningnum, sem byggður er á þennan hátt, og bætt við útflutningsheildartöluna í Hagtíðindum birgðaaukningu 1959, hins vegar dregið frá tölunum fyrir 1960 þá birgðarýrnun, sem varð á árinu, og bætt við útflutningstöluna birgðaaukningu 1961, þá verður útkoman sú, að 1961 er útflutningsvöruverðmætið 19% meira en 1960 og 11.6% meira en 1959.

Nú er það auðvitað svo, að þó að það hafi geysimikla þýðingu fyrir þjóðarbúskapinn, hvað mikið fæst fyrir útfluttar framleiðsluvörur ár hvert, þar sem útflutningurinn nemur nú um 3000 millj. á ári, þá segir það auðvitað ekki allt um afkomu þjóðarbúsins. Þar kemur vitanlega fleira til greina, svo sem framleiðsla til innanlandsnotkunar, sem er vitanlega mikil. En þetta gefur þó, þegar það er reiknað með þessum hætti, allmikla bendingu um það, hverjar breytingar hafa orðið á hag þjóðarinnar á þessu tímabili.

Það eru vitanlega ýmsar fleiri skýrslur, sem ástæða er til að athuga, og ég gerði það einnig í framsöguræðu minni við 2. umr. Ég vitnaði þar nokkuð í nýkomna ársskýrslu Seðlabanka Íslands. Ég tók upp í mitt nál. setningu úr ársskýrslunni, þar sem greint er frá því, hver heildarfiskaflinn hafi orðið á árinu 1961, og Þar kemur fram, að hann hefur orðið 23.3% meiri en 1960. En í skýrslu bankans segir, að verðmæti aflans hafi hins vegar ekki aukizt að sama skapi, þar sem aflaaukningin stafaði svo að segja eingöngu af auknum síldarafla. Síðan segir í skýrslu bankans, í frh. af þessu: „Áætlað er, að heildarframleiðsluverðmæti sjávarafurða á árinu 1961 hafi numið nærri 3000 millj. kr. á móti 2628 millj. kr. 1960 og 2838 millj. kr. 1959, og eru þá allar tölurnar umreiknaðar til sama verðs og þess gengis, sem nú er í gildi.“ Ég hafði ekki, þegar ég tók þessa setningu upp í mitt nál., íhugað það sérstaklega, hvað þetta þýddi, sem segir í niðurlagi þessarar setningar, að tölurnar séu umreiknaðar til sama verðs og þess gengis, sem nú er í gildi. Skiljanlega þurfti að umreikna þær til þess gengis, sem nú er í gildi, til þess að geta fengið út úr þessu eðlilegan samanburð. En svo fór ég að spyrjast fyrir um það hjá bankanum, hvernig stæði á þessum orðum þarna: „til sama verðs“, og þá kemur það upp úr kafinu, að þetta hafði verið reiknað þannig hjá bankanum, að þeir tóku útflutningsvörurnar allar og hverja tegund fyrir sig árin 1959 og 1960 og reiknuðu út, hvað hefði fengizt fyrir þær, ef þær hefðu selzt fyrir sama verð og útflutningsvörurnar 1961, og birta svo þetta í sinni skýrslu, þessa útkomu, og kalla það heildarframleiðsluverðmæti. Nú getur út af fyrir sig verið skemmtilegt að finna út, hvað þjóðin hefði fengið fyrir útfluttar vörur t.d. 1959, ef þær hefðu selzt fyrir sama verð hver vörutegund og fékkst fyrir þær 1961. En það hefur litla þýðingu að reikna út slík dæmi og birta þau, ef menn ætla að sjá, hvernig hagur þjóðarinnar raunverulega breytist vegna breytinga á verði og magni vöruframleiðslunnar. En ég reiknaði út frá þessum tölum Seðlabankans og setti í mitt nál., að þær sýndu, að framleiðsluverðmæti sjávarafurða hefði aukizt um rúml. 14% 1961 frá árinu áður, verið rúml. 14% meiri en árið 1960. En síðan fékk ég mér aðrar upplýsingar. Fiskifélag Íslands reiknar út framleiðsluverðmæti sjávarafurða og birtir þær skýrslur, og ég fékk hjá Fiskifélaginu í fyrradag upplýsingar úr þeirra útreikningum um framleiðsluverðmæti sjávarafurða umreiknað til þess gengis, sem nú er, og þeir byggja sínar skýrslur vitanlega á því, hvað raunverulega fékkst fyrir vörurnar, hvert söluverð þeirra var raunverulega hvert árið. Og þeir finna það út, að framleiðsluverðmæti sjávarafurða 1960 umreiknað til þess gengis, sem nú er, hafi verið 2557 millj., í staðinn fyrir að talan hjá Seðlabankanum, fundin á þann hátt, sem ég nefndi áðan, er 2628 millj., og þetta er skiljanlegt, að Seðlabankinn fær þarna með því að reikna með verði ársins 1961 hærri tölu en rétt er, vegna þess að verðið mun hafa verið lægra 1960 en 1961. En Fiskifélagið var hins vegar ekki í fyrradag búið að ljúka sínum útreikningum á framleiðsluverðmætinu fyrir árið 1961. En ef miðað er við þá tölu fyrir það ár, sem Seðlabankinn nefnir í sinni skýrslu, 3000 millj., og hún er borin saman við þessa tölu, sem Fiskifélagið gefur upp, 2557 millj., Þá kemur út framleiðsluaukning 1961 eða verðmætisaukning framleiddra sjávarafurða 1961 frá árinu áður 17.3%.

Ég held, að þessar skýrslur, sem ég hef hér vitnað til, bæði skýrslur hagstofunnar um útflutningsverðmæti í heild og þegar er þá tekið með í reikninginn, hvað miklar birgðir hafa verið bæði nú við síðustu áramót og næstu áramót á undan, þetta er borið saman, einnig skýrslur Fiskifélagsins um framleiðsluverðmæti sjávarafurða út af fyrir sig, þá sýni það mjög glöggt, að það hefur orðið svo mikil framleiðsluaukning hjá þjóðinni árið sem leið, að þessi gengislækkun var gersamlega ástæðulaus þrátt fyrir þá kauphækkun, sem varð í júnímánuði næstliðið ár. Og eins og ég sagði áður, þá tel ég þar hafa verið hið mesta ógæfuverk framið að lækka gengið, öllum væri betra, að það hefði verið látið standa óbreytt, og meiri friður ríkt á vinnumarkaðinum en nú er og minna um kröfur um kjarabætur, því að það hefði vitanlega verið miklu betra fyrir verkamenn og aðra launamenn að búa við það kaup áfram, sem þeir sömdu um í júnímánuði s.l., og óbreytt gengi, heldur en að fá á sig gengislækkunina og þær miklu verðhækkanir á öllum nauðsynjum, sem þar með fylgdu, þó að þeir fái svo síðar hækkun á kaupi. Þá hefur það gerzt, að krónan hefur verið lækkuð að óþörfu, og það má aldrei gera. Okkar króna var sannarlega orðin nógu verðlítil fyrir.