04.02.1963
Efri deild: 36. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (1420)

126. mál, sala Bakkasels í Öxnadalshreppi

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að selja eyðijörðina Bakkasel í Öxnadalshreppi flyt ég ásamt hv. 6. þm. Norðurl. e. eftir beiðni hreppsnefndar Öxnadalshrepps.

Eins og öllum hv. dm. er væntanlega kunnugt, er jörðin Bakkasel fremsta jörð í Öxnadal. Bærinn stendur við þjóðveginn, þar sem hann liggur upp á Öxnadalsheiði. Ríkissjóður keypti þessa jörð árið 1929 fyrir 5 þús. kr., og var það um það leyti, sem bifreiðaferðir hófust yfir Öxnadalsheiði. Lengi var það viðkomustaður áætlunarbifreiða, en nú er það fyrir æðilöngu af lagt.

Vegamálastjóri hefur af hálfu ríkisins haft jörðina á sínum snærum til ráðstöfunar og reynt að halda henni í byggð með það fyrir augum, að þar yrði til reiðu gisting og greiðasala og afdrep fyrir ferðamenn, sem lent hefðu í hrakningum í vetrarferðum yfir Öxnadalsheiði eða þyrftu aðstoðar af öðrum ástaeðum. Munu ábúendurnir lengi hafa haft afnot jarðarinnar endurgjaldslaust og jafnvel notið sérstaks styrks að auki í þessu skyni.

Tvö s.l. ár hefur enginn ábúandi fengizt á jörðina, þrátt fyrir þessi kjör, enda er Bakkasel allfjarri mannabyggðum og vetrarríki mikið og ekki búsældarleg jörð. Öxndælir hafa mikinn áhuga á að eignast jörðina með það fyrir augum að nota land hennar sem afréttarland fyrir sauðfé. Í Öxnadal eru sauðfjárbændur miklir og vantar tilfinnanlega afréttarland. Bakkaselsland liggur að aðalafréttarlandi Öxndæla. Af þessum sökum er það, sem hreppsnefnd Öxnadalshrepps óskar mjög eftir að fá eignarhald á jörðinni. Hins vegar er það tekið fram af þeirra hálfu, að hvenær sem ábúandi kynni að fást á jörðina, þá mundu þeir meta það meira og leigja hana, ef þeir ættu hana til ráðstöfunar. Á jörðinni er íbúðarhús, gamalt að vísu, auk annarra húsa, og er það nú notað sem sæluhús fyrir ferðamenn í sambandi við ferðir um Öxnadalsheiði.

Þótt á það yrði fallizt að selja jörðina, er engin nauðsyn til, að íbúðarhúsið verði selt jafnframt, og sjálfsagt er, að það yrði enn um sinn notað sem sæluhús, eins og hingað til hefur verið. Hins vegar fæ ég ekki séð, að nein sérstök ástæða sé til þess, að ríkið eigi sjálfa jörðina, sem að meginhluta er óræktanlegt fjalllendi. Ég gat þess, að vegamálastjóri hefði undanfarið annazt ráðstöfun jarðarinnar af hálfu ríkisins. Sýnist því einsætt, að málinu verði ekki til lykta ráðíð á hv. Alþ. án þess að fá umsögn hans um málið.

Það mun hafa verið venja að vísa málum eins og þessum til landbn., og ég geri það að till. minni, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til þeirrar nefndar.