04.02.1963
Efri deild: 36. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1422)

126. mál, sala Bakkasels í Öxnadalshreppi

Flm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Út af þeim sjónarmiðum, sem komu fram í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e., vil ég einungis segja, að það er sjálfsagt, að sú n., sem um þetta mál fjallar, taki þau til athugunar eins og efni standa til.

En ég vil einnig vekja athygli á því, að með flutningi þessa frv. er engan veginn meiningin að draga úr öryggi ferðamanna, sem eiga leið um Öxnadalsheiði, og ég geri ráð fyrir því og er raunar sannfærður um, að það öryggi þarf engan veginn að minnka, þótt jörðin yrði seld á þann veg, sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Enn síður er hægt að gera ráð fyrir því, að torvelduð verði ábúð á jörðinni, eins og hv. þm. vill vera láta, vegna þess að mér er kunnugt um það, og það kemur raunar fram í bréfi oddvitans, sem prentað er með grg., að hreppsnefndin hefur einmitt áhuga á, að ábúandi fáist í Bakkasel. Reynslan hefur hins vegar sýnt, að svo er ekkí, þrátt fyrir það að þar hafi verið til reiðu afnot jarðarinnar án endurgjalds auk nokkurra þúsunda framlags úr ríkissjóði árlega.

Nú geri ég ráð fyrir því, að n., sem um þetta mál fjallar, ráðgist um það við vegamálastjóra, svo sem vera ber, sem er kunnugur þessum hlutum og hefur haft umsjón jarðarinnar undanfarið. Og ef svo færi að þeirri athugun lokinni, að skynsamlegt þætti að selja jörðina, þá má einnig á það benda, að samfara þeirri sölu væri hægt að tryggja það, að jörðin kæmist í ábúð, svo fremi sem einhverjir reyndust þar vilja setjast að. Það væri hægt að tryggja það í samningum við kaupendurna. Og ég efast ekki um það, að þeir eru reiðnubúnir til þess að skuldbinda sig til að láta jörðina á leigu, ef ábúandi fæst til þess að setjast þar að.

Ég fæ ekki heldur séð, að það skipti neinu máli, þó að ríkissjóður eigi húsið á jörðinni, en hreppurinn jörðina sjálfa, sérstaklega ef svo væri um búið í samningum, sem mér finnst engin fjarstæða að geti orðið og ég veit að kaupendur mundu hiklaust samþykkja, að það yrði áskilið, að jörðin yrði leigð, þegar ábúandi fengist, sem viðhlítandi þætti, og þar með væri það tryggt, að aðstaða til þess að setjast þar að minnkaði ekki, enda þótt eigendaskipti yrðu að jörðinni sjálfri.

Ég vildi einungis taka þetta fram, til þess að ekki yrði uppi misskilningur um. það, að til þess væri ætlazt með þessu frv., að torvelduð yrði með einhverjum hætti ábúð á jörðinni, því að það er alls ekkí meiningin.