19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1571)

92. mál, lántaka vegna vatnsveituframkvæmda í Vestmannaeyjum

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Ég vil aðeins leiðrétta það hjá hv. 1. þm. Norðurl. v., að tilgangur minn með þessu frv. hafi verið sá að losna við gjald af lánum, sem tekin eru samkv. l. um ríkisábyrgðir. Ég satt að segja hafði ekki, hvorki þegar ég flutti frv. né síðar, haft þetta í huga, ekki hugsað um það. Það var svo fjarstætt mér, að það er langt frá því, að það sé ástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt í því formi, sem það er. Einasta ástæðan fyrir, að farin er þessi leið, er sú, að þessi umræddi kaupstaður, Vestmannaeyjakaupstaður, á í stórfelldum framkvæmdum, hafnarframkvæmdum, vegaframkvæmdum úr varanlegu efni, stórri sjúkrahúsbyggingu, sundhallarbyggingu o.fl., og þarf á geysilegu lánsfé að halda, hefur þurft og þarf í framtíðinni. Og þar sem hér er um alveg óvenjulega fjárfrekar framkvæmdir að ræða, taldi ég, að hann mundi ekki hafa átt tök á því til viðbótar þeim lánum, sem hann verður að útvega út á ríkisábyrgðir og annað, einnig að útvega fé til þeirra vatnsveituframkvæmda, sem hér um ræðir, og er það einasta ástæðan fyrir því, að þetta frv. er borið fram í því formi, sem það er gert.