19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1496 í B-deild Alþingistíðinda. (1573)

92. mál, lántaka vegna vatnsveituframkvæmda í Vestmannaeyjum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af þeim umr., sem farið hafa fram hér í sambandi við kostnað við lántöku, að hér sé farið inn á nýja braut til þess að komast fram hjá því að greiða ákveðið gjald fyrir ábyrgðir, þá vil ég taka það fram, að það er ekkert um það í þessum lögum, að ríkisstj. hafi ekki heimild til þess að setja hvaða lánskjör sem henni kann að þykja nauðsynlegt, þegar lánið er endurveitt. Mér þætti ekkert ólíklegt, að ríkisstj. m.a. greiddi ekki meira en 98% af upphæðinni, eins og gert er, þegar tekin hafa verið stór lán, og ég hygg, að þeirri reglu hafi verið fylgt nú, þegar lánið var tekið í Englandi, að greiða það ekki að fullu út. Og ég vænti þess, að að óbreyttum ábyrgðarlögunum gæti hæstv. fjmrh. þess, að ekki sé verið að gefa hér neitt sérstakt fordæmi fyrir eitt sveitarfélag frekar en annað, því að áreiðanlega mundi það draga töluverðan dilk á eftir sér, eins og hv. 1. þm. Norðurl, v. minntist á. Þess vegna er gert ráð fyrir því, að það séu alveg óbundnar hendur hjá ráðh. og að hv. fjhn. ætlist ekki til þess, að þetta lán sé veitt þannig, að ríkissjóður sé að gefa með því, heldur taki þar kostnað af láninu, eins og vera ber og eðlilegt er um slíkar lánveitingar.