10.04.1963
Neðri deild: 70. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1523 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

147. mál, kirkjugarðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Mig undrar eiginlega mjög, að þetta mál á þskj. 268 skuli hafa gengið svo hratt í gegnum þingið sem raun ber vitni um og hafi ekki tekið meiri breytingum en raun ber vitni um. Eg hef minnzt á það hér áður, að ég tel, að ýmislegt í þessu frv. sé þannig, að það sé gengið allt of nærri persónulegum tilfinningum einstakra manna, og hefði helzt kosið, að þetta frv, næði ekki fram að ganga og yrði ekki gert að lögum. Og mig undrar enn meira, að það skuli einmitt vera kirkjuþingið og kirkjugarðsstjórnin, sem stendur að slíkum lögum. Maður skyldi halda, að hún væri flutt nokkrar aldir aftur í tímann, lifði ekki á þeim tímum, þar sem menn fá að ráða nokkurn veginn sjálfir um leifar sínar, þegar baráttunni er lokið.

Ég minntist hér í gær á ákvæði 5. gr. Ég læt mér nægja yfirlýsingu hæstv. ráðh, um, hvernig það yrði framkvæmt, ber þar af leiðandi ekki fram brtt. í sambandi við það atriði. En ég vil í sambandi við síðustu mgr., 4. mgr., þessarar gr. benda á, að ég tel alveg óþarft að vera að leggja sérstök gjöld á sveitarsjóðina, eins og þar er ætlazt til, og ekki heldur sérstök gjöld á ríkissjóðinn samkv. 4. gr., því að tekið er hvorki meira né minna en 2% af öllum útsvörum til þess að hafa til að greiða kostnað við kirkjugarðshald, og gengur það svo langt, að það er einnig tekið af aðilum, svo sem hlutafélögum, sem aldrei fá nú neinn legstað. Það er kannske hugsanlegt, að mætti setja hér inn á næsta ári ákvæði um það í þetta frv., að þeim skyldi ætlað leg í kirkjugarði, þegar þau m.a. hafa orðið að gefast upp fyrir of þungar álögur, bæði til sveitarsjóða og kirkjugarðanna. En ég hef borið hér fram brtt. á þskj. 628, og ég tel, að það sé enginn sómi fyrir Alþingi að láta málið fara í gegn, ef það er ekki fellt niður. Þar stendur m.a., með leyfi hæstv, forseta:

„Eigi má setja girðingar úr steini, málmi eða timbri um einstök leiði eða fjölskyldugrafreiti. Eigi má gera grafhýsi í kirkjugarði.“

Það eru þessar setningar, sem ég legg til að verði felldar niður. Hver er meining hjá kirkjuráði eða kirkjuþingi með því að setja þau lög, að ekki megi hirða um leiði einstakra manna? Eða er hugsað, að verði haldíð áfram, þegar þetta er samþykkt, að koma með lög um, að það skuli rífa í burtu allar girðingar og allt, sem hefur verið gert til að prýða leiði í kirkjugörðum? Annars væri ekkert samræmi hér á milli þess, sem sett er í gr. nú, og þess, sem ætti að vera framvegis. Ég á ákaflega erfitt með að trúa því, að allir þeir menn, sem eiga sína nánustu í kirkjugarði, beygi sig undir það, að það sé ekki leyfilegt að hirða um leiðin, svo að þau fari ekki í óhirðu. Ef þetta er lögfest hér, þá er engin trygging fyrir því, að þau verði ekki tröðkuð niður. Ég vil því vænta þess, að hv. alþm, samþykki a-lið till. minnar á þskj. 628.

Ég hef einnig lagt til í b-lið, að síðari málsgr., þ.e. ágreiningi um þessi atriði megi skjóta til skipulagsnefndar kirkjugarða, verði einnig látin falla niður.

Ég hef ekki gert sérstaka brtt. við 17. gr. En ætli það finnist nokkurs staðar í nokkru menntuðu landi, að bannað sé að geyma ösku í öskukerum annars staðar en í kirkjugarði, eins og gert er með þessum lögum? Mér er fullkomlega kunnugt um, að í flestum menningarlöndum eru það ættingjar, sem ráða því, eða sjálfur aðili, sem ræður því m.a., hvort öskunni sé dreift um land eða sjó, upp á fjöll eða með ströndum fram, — ekkert við það að athuga. Hér á að banna slíkt. Mér er einnig kunnugt um það, að fjölskyldum er heimilt að geyma þessi ker þar, sem þeim sýnist. Ég skal m.a. benda á, að Stefán heitinn Stefánsson ferðamannatúlkur lét gefa fyrirskipun um, að það skyldi grafa sitt öskuker inn í stein á ákveðnum stað í landinu. Það er algerlega ósæmandi að ganga svo á rétt og tilfinningar manna og gersamlega ósæmandi fyrir kirkjuþingið, biskup og kirkjumrh. að láta þetta mál fara svo gegnum þingið.