06.12.1962
Sameinað þing: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1941 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Ásgeir Bjarnason:

Ég get þakkað hæstv. ráðh. fyrir þessi svör, svo langt sem þau ná. En í raun og veru svaraði hæstv. ráðh. ekki neinu öðru en því, að það mundi verða lánað eins og að undanförnu og lánin væru ekki síðar á ferðinni en verið hefði. En ég vil minna á það, að þegar lögin um stofnlánadeild landbúnaðarins voru til umr. hér á hv. Alþingi í vetur sem leið, var því margheitið af hæstv. ráðh. og hans fylgismönnum öllum, að nú yrði allt annar háttur hafður á lánveitingum og bændur gætu fengið lán, hvenær sem þeir hefðu sína pappíra tilbúna á árinu, og það mundi ekki standa því, þegar til bankans kæmi. Þess vegna spyr ég nú: Hver er ástæðan fyrir þessum drætti? Og ég vil líka minna á það, að í dag er 6. des. og það er ekki ýkjalangt til jóla, og mér er ekki kunnugt um, að það sé farið að veita nein lán, hvorki út á íbúðir né annað. A.m.k. hef ég ekki fengið nokkur lán afgreidd. Og væri þá ástæða til þess að spyrja: Hverjir eru það, sem fá sín lán afgreidd?

Þá minntist hæstv. ráðh. á, að það mundu verða hærri lán nú en að undanförnu: Skárra væri það nú, ef lánin yrðu ekkert hækkuð, því að ekki hefur dýrtíðin hækkað svo lítið, og það, sem ég átti við með minni spurningu, var það: Verður prósentan miðuð við raunverulegan kostnað framkvæmdanna eða einhvern tilbúinn kostnað framkvæmdanna? Á þessu hlýtur að verða mjög mikill munur, og var hann allmikill á árinu sem leið, og ég vænti, að einhver leiðrétting fáist í þessum efnum til samræmis við gefin fyrirheit frá s.l. vetri.