29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 89 í C-deild Alþingistíðinda. (2031)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Síðan ég talaði hér síðast í máli því, sem nú er til umr. hér, sýndi fram á með rökum, sem verða ekki hrakin, að Framsfl. sveik samninga, sem gerðir voru um framgang jafnvægisfrv. 1956, beinlínis knúinn til þess af Alþb., sem setti það skilyrði fyrir samningum um stjórnarsamvinnu eftir kosningar vorið 1956, hafa fjórir hv. þm. talað í málinu og þrír þeirra reynt af veikum mætti að afsanna ummæli mín hér að lútandi. Það út af fyrir sig að deila um orðinn hlut og hverjum séu að kenna mistökin leysir ekki þann vanda, sem hér er að etja við, þ.e. að stöðva flóttann frá landsbyggðinni til fjölbýlisins. En fyrir því má þó ekki loka augum, að frá þeim mönnum, sem tala flátt um málið, en hafa engan vilja til þess að koma því fram, er þeir hafa til þess völd og tækifæri, en telja sig hafa allan vilja til þess, er þeir hafa engin völd, og nota það í áróðursskyni einu, er ekki að vænta neinna raunhæfra aðgerða. En það er það, sem hefur átt sér stað, bæði hjá Framsfl. og Alþb., í máli því, sem hér er til umr. í dag. Skylt er þó að viðurkenna, að einstaka menn innan Framsfl. hafa til þessa máls allt annan og betri hug en það, sem ofan á hefur orðið í flokkunum, svo sem hv. 3. þm. Norðurl. e. (GíslG), þótt hér hafi verið bornir ofurliði í meðferð málsins.

Hv. 1. þm. Austf. (EystJ) reyndi ekki í ræðu sinni að afsanna eitt eða neitt af því, sem ég sagði um afskipti hans af þessu máli, enda átti hann þyngsta sök á því, að málið náði ekki fram að ganga á þinginu 1955–56. Hafi það eitt valdið áhugaleysi þáv. stjórnarandstöðu, eins og hv. 4. landsk. þm. (HV) hefur jafnan haldið fram, að framlag til jafnvægissjóðsins væri í því frv. of lítið, þá var það á einskis annars manns valdi meir en hv. 1. þm. Austf. að fá það framlag hækkað. Hann var þá fjmrh. og gat þá ráðið því, hversu hátt árlegt framlag skyldi vera tekið upp á fjárl. til sjóðsins. En enginn var þá tregari til að hækka það framlag en einmitt núv. hv. 1. þm. Austf.

Hv. 1. þm. Austf. lagði á það megináherzlu í ræðu sinni, að vinstri stjórnin hefði varið á stjórnarárum sínum til atvinnubóta þrefalt hærri upphæð á ári í krónutali en sú upphæð var, sem ákveðin var í frv. um jafnvægi í byggð landsins 1956, og með tilliti til verðbreytinganna síðar margfalt verðmætari upphæð, og varði síðan mestöllum ræðutíma sínum til að endurtaka enn einu sinni ásakanir sínar á núv. hæstv. ríkisstj. fyrir að eiga sök á því, að gengi krónu hafi fallið og dýrtíðin aukizt, og allt þetta átti að réttlæta það, að hann hélt ekki gerða samninga og gefin loforð um stofnun jafnvægissjóðsins, sem hann hafði þó gefið loforð um og samið um 1955–56. Ég skal ekki taka hér upp í sambandi við þetta umr. um efnahagsmál almennt, aðeins benda á, að hvað sem hv. 1. þm. Austf. segir um það, þá er það raunverulegt, að sárafáir menn í landinu óska nú eftir því, að það ástand, sem ríkti hér í stjórnartíð vinstri stjórnarinnar í efnahagsmálum, endurtaki sig, með öllum þeim höftum og glundroða, sem þá ríkti hér í þeim málum almennt. En úr því að hv. þm. lítur svo á þær aðgerðir, sem vinstri stjórnin viðhafði á árunum 1956–58 í sambandi við að leysa þann vanda, sem frv. það, sem hér er til umr., er ætlað að leysa, þ. á m. að veita jafnháa upphæð til atvinnubóta í landinu og gert var á árunum 1956–58, hvers vegna lætur hann og hans flokkur ásamt þeim öðrum, sem stóðu að þeim fjárveitingum, sér ekki nægja, að sett voru lög um atvinnubótafé, sem þó tryggðu miklu betur það verkefni, sem snertir jafnvægi í byggð landsins, en fjárveitingar þær til atvinnubóta, sem veittar voru á árunum 1956–58, heldur tekur nú upp baráttu fyrir því að koma upp annarri stofnun, sem ætlað er að hafa sama verkefni að annast og atvinnubótasjóðurinn, og hvers vegna setti vinstri stjórnin ekki lög um jafnvægi í byggð landsins á haustþinginu 1956 á grundvelli frv., eins og þeir gengu frá því hér í hv. Nd. um vorið 1956 rétt fyrir þinglokin, sem Framsfl. stóð alveg að ásamt þeim flokkum, er hann seinna á árinu myndaði stjórn með? Er það ekki beinlínis sönnun þess, sem ég hef haldið fram, að Framsfl. hefði engan áhuga fyrir málinu, hvorki fyrr né síðar, og að samstarfsflokkur hans í ríkisstj. 1956–58 var því fullkomlega andvígur? Ég held, að það sé ekki hægt að færa sterkari rök að þessu en ég hef þegar fært.

Um aths. hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) vildi ég aðeins segja hér nokkur orð. Hann ræddi ekkert efnislega um frv., en vildi kenna hæstv. núverandi og þáverandi forsrh. um, að það hafi verið hans sök, að frv. náði ekki fram að ganga á vorinu 1956, hann hefði ekki borið málið fram fyrr en 8 dögum fyrir þinglok, og þá hefði ekki verið betur gengið frá því en svo, að þeir menn, sem sömdu frv., hefðu komið sér saman um að gera 10 brtt. við frv. í Ed. og skila því þannig til Nd. Ég tók það fram í ræðu minni síðast, að allar þær breytingar, sem gerðar voru við frv. í Ed., voru samkomulagsatriði og snertu langmest ekkert efni frv., heldur þótti eðlilegra, að þau ákvæði, sem þá voru felld úr frv., væru tekin upp í reglugerð, og það út af fyrir sig torveldaði ekkert framgang málsins. Það var fullt samkomulag á því stigi, er frv. fór til Nd., að láta það ganga hér fram óbreytt, og hver af þeim stjórnarstuðningsmönnum, sem skarst þá úr leik, vissi, að með því var hann að torvelda framgang frv. eða fella frv., því að það var enginn tími til þess að láta málið ganga aftur til Ed. og síðan aftur kannske til Nd. og til Sþ. til að fá endanlega afgreiðslu málsins á þinglegan hátt. Brtt., sem hv. 1. þm. Norðurl. v. bar þá fram, þó að hún væri ákaflega meinlaus, var beinlínis gerð til að koma fótum fyrir frv., til að fella frv. í Nd., — beinlínis til að rjúfa þá samninga, sem gerðir höfðu verið. Hitt var svo allt annað atriði, að miklu stærri og viðameiri brtt. voru samþ. í Nd., bornar fram af hv. þm. Alþb. og studdar og samþ. af þeim mönnum úr Framsfl., sem höfðu lofað því, að þetta frv. skyldi ná fram að ganga. Þess vegna er það enn meir undarlegt, að þessir menn, eftir að þingið kom saman 1956, skyldu þá ekki taka frv. upp, eins og gengið var frá því um vorið og þeir höfðu samþ. Hvers vegna tóku þeir þá ekki þetta frv. upp og fengu það samþ. í þinginu og gert að lögum? Það er vegna þess, eins og ég hef sagt áður, að þeir höfðu engan áhuga á því, að málið næði fram að ganga.

Hv. þm. sagði, að á næsta ári hefðu 15 millj. kr. verið teknar á fjárl. til atvinnuaukningar í landinu. Ég hef lýst því hér áður, hvers vegna ekki var sett þá löggjöf um fjárveitingu, og sýnt fram á, að það var af sama toga spunnið, að Framsfl. hafði engan áhuga á málinu. Hv. þm. sagði einnig, að það hefði verið á valdi hæstv. forsrh. þá að halda þingi svo og svo lengi, þar til þetta mál hefði náð fram að ganga. Ég þarf ekki að svara slíkum athugasemdum, því að vitanlega var það ógerlegt, eftir að búið var að samþ. og koma sér saman um það af þáverandi stjórnarflokkum, hvenær þingi skyldi ljúka, að fara að stöðva þingslit eingöngu fyrir þetta mál og vita, að það mundi ekki einu sinni leysa málið vegna þeirra svika, sem á bak við lágu hjá Framsfl.

Um aths. frá hv. 4. landsk. skal ég ekki vera margorður. Hann áleit 1956, að málið væri þannig, að það þyrfti að gera stórkostlegar breytingar á frv., svo sem var gert í Nd., en síðan hljóp hann frá vandanum, eins og ég hef þegar lýst, vegna þess að hann hafði ekki einungis engan áhuga á málinu, heldur sýndi því fullan fjandskap og hefur gert alla tíð þar til nú, að hann hefur lýst fylgi sínu við það frv., sem hér er, sjálfsagt af sömu ástæðum og hann var á móti því 1956, þ.e. að hafa von um að geta myndað stjórn eftir kosningarnar nú með Framsfl. til þess enn að svæfa þetta mál, eins og gert var á árunum 1956–58.

Út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. (EOl), þá fór hann efnislega inn á umræðu um frv. Hann lýsti því hér, hversu það væri nauðsynlegt að gera sér ljóst, hvað það væri, sem orsakaði flóttann frá sveitunum, og ræddi efnislega um málið. Hann taldi, að það væri afl peninganna, sem drægi fólkið til borganna, það er að vísu rétt, og að Alþingi og ríkisstj. ættu að gera sér það ljóst, hvaða viðbrögð þau vildu hafa til að stöðva slíkan flótta. Það er einnig alveg rétt. En hann vildi gera það á þann hátt, að ríki og ríkissjóður hefðu allar framkvæmdir í landinu, en ekki einstaklingarnir. Það er stefna, sem hann hefur lýst oft áður hér í þinginu og ég skal ekki ræða frekar um. Ég lít hins vegar svo á, að Alþingi og ríkisstj. geti stöðvað þennan flótta, án þess að það séu settar á ríkisframkvæmdir eða ríkiseinokun hér á öllum sviðum, og þess vegna hafa tillögur okkar sjálfstæðismanna farið í þá átt að stofna sjóð eins og atvinnubótasjóðinn, sem hefur þetta verkefni með höndum og þarf að vísu miklu meira fé en hann hefur ráð yfir í dag til þess að geta veitt svo sterka viðspyrnu sem þarf í þessu máli. Það er svo allt annað atriði. En það bætir á engan hátt úr málinu að fara að koma upp annarri stofnun til að vinna að þessu sama verkefni, heldur ættu þeir menn, sem raunverulega vilja styðja þetta mál, að taka saman höndum og styrkja atvinnubótasjóðinn, eftir því sem frekast er hægt á hverjum tíma, og láta hann svo taka að sér það verkefni, sem honum fyrst og fremst ber, en það er að hlúa að jafnvægi í byggð landsins. Ég vildi því vænta þess, að það tækist um þetta samkomulag í framtíðinni, því að það er öllum ljóst, að hér er um mikinn vanda að ræða.

Hv. 4. landsk. kom inn á það atriði hér, að því fé, sem veitt hefur verið til atvinnubóta nú tvö síðustu árin, hefði ekki verið úthlutað til að styðja jafnvægi í byggð landsins. Ég hef ekki lista yfir úthlutun þá, sem fram hefur farið, eða yfir það fé, sem veitt hefur verið á þessu ári, og veit ekki heldur einu sinni, hvort búið er að úthluta því fé. En ég hef fengið lista yfir það fé, sem veitt hefur verið á s.l. ári, af þeim 10 millj., sem þá voru veittar til atvinnubóta, en þó aðeins í Vestfirðingafjórðungi, og mér er það fullkomlega ljóst, að mest af því fé, sem þangað hefur verið greitt, hefur verið veitt eftir þeirri reglu, sem ákveðin er í atvinnubótasjóðslögunum, þ.e. að stuðla að jafnvægi í byggð landsins. Sé hitt hins vegar rétt, sem hv. 4. landsk. þm. hélt fram, að það væri nú verið að veita milljónir, af þessu fé til að kaupa fyrir mótorbáta hér í þéttbýlinu, þá er það algerlega gagnstætt ákvörðun laganna. Og þá er ekki svarið við því að bera fram nýtt frv. í þessu máli, heldur að kæra það til Alþingis, að fénu sé ekki varið eins og Alþingi hefur ákveðið, því að það hefur aldrei verið hugsað og er ekki ákveðið í þeim lögum, sem hér liggja fyrir frá 21. apríl 1962, að það eigi að veita féð til að auka atvinnu með mótorbátakaupum eða skipakaupum í þeim landshlutum, sem fólkið er að streyma til og miklu meiri eftirspurn er eftir fólki en hægt sé að fullnægja. Það er bein misnotkun á meðferð fjárins og kemur ekkert því við að þurfa að setja upp nýja stofnun til að bæta úr þeim málum. Í 1. gr. í lögunum um atvinnubótasjóð segir alveg skýrt, að veita skuli lán eða styrki til að auka framleiðslu á þeim stöðum í landinu, þar sem þörfin er brýnust, og stuðla þannig að aukinni atvinnu og jafnvægi í byggð landsins. Þörfin getur ekki verið brýnust við Faxaflóa, við Reykjaneshafnir eða á þeim stöðum, þar sem nóg er af atvinnutækjum, og er þá hæstv. ráðh., sem er formaður þeirrar n., sem hér um ræðir, og þá menn, sem eru fulltrúar í þessari nefnd, sem úthlutar þessu fé, að saka um brot á lögunum. Og þá á að sækja þá til ábyrgðar, en ekki að bera fram frv. um að mynda nýja stofnun til þess kannske þá einnig að úthluta ranglega því fé, sem sú stofnun kemur til með að ráða yfir. Ég gleðst einmitt yfir því, að í þeirri rökstuddu dagskrá, sem borin er fram hér í sambandi við þetta mál, er það enn undirstrikað, að þetta fé skuli notað fyrst og fremst til að viðhalda jafnvægi í byggð landsins, og það er þess vegna, sem ég get ekki orðið við tilmælum hv. 1. þm. Norðurl. v. að greiða atkv. á móti rökstuddu dagskránni. Ég þarf hvorki að herða mig upp til að greiða atkv. með henni né móti. Ég er fullkomlega sammála um það, að eins og rökstudda dagskráin er orðuð, styður hún þann málstað, sem ég hef alltaf verið að berjast fyrir, að þessu fé eigi fyrst og fremst að verja til að viðhalda og auka atvinnu og jafnvægi í byggð landsins, svo sem lögin um atvinnubótasjóð mæla fyrir um. Og með þeirri röksemdafærslu greiði ég atkv. með rökstuddu dagskránni.