22.10.1962
Neðri deild: 6. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í C-deild Alþingistíðinda. (2269)

31. mál, Siglufjarðarvegur ytri

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir á þskj. 31, er flutt af mér ásamt þeim hv. 11. landsk. þm. (GJÓh) og hv. 5. þm. Norðurl. v. (BP), og frv. er flutt í samráði við hv. 3. þm. Norðurl. v., Ólaf Jóhannesson, sem sæti á í Ed.

Í frv. er lagt til, að ríkisstj. verði veitt heimild til að taka lán, allt að 15 millj. kr., til þess að greiða kostnað við lagningu Siglufjarðarvegar ytri, Strákavegar, og verði við það miðað, að vegagerð þessari verði lokið á árinu 1964.

Í 2. gr. frv. segir, að lán það, sem tekið verður samkv. ákvæði 1. gr., skuli endurgreitt af árlegum fjárveitingum til vegarins á fjárlögum, eftir að vegargerðinni er lokið.

Frv. samhljóða þessu var borið fram á síðasta þingi, en hlaut þá ekki fullnaðarafgreiðslu. Er málið því flutt aftur nú. Það er borið fram samkv. tilmælum bæjarstjórnarinnar í Siglufjarðarkaupstað. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa hér þá till. um málið, sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar 22. marz þ. á. með öllum atkv. fundarmanna. Till. er þannig:

„Bæjarstjórn samþykkir að skora á þingmenn Norðurlandskjördæmis vestra, að þeir flytji nú þegar og fái samþykkt á yfirstandandi Alþingi frv. um, að útvegað verði nægjanlegt fjármagn til þess að grafa jarðgöng gegnum Stráka og ljúka Siglufjarðarvegi ytri á næstu tveim árum, þannig að vegurinn verði opnaður til umferðar sumarið 1964. Jafnframt samþykkir bæjarstjórnin að senda hv. Alþingi undirskriftalista þá, er verið er að ganga með til bæjarbúa til áréttingar þessari samþykkt, strax og undirskriftasöfnun er lokið.“

Þannig er sú tillaga, sem samþykkt var einróma á bæjarstjórnarfundi á Siglufirði 22. marz 1962. Undirskriftalistarnir, sem nefndir eru í samþykkt bæjarstjórnar, bárust til Alþingis hinn 5. apríl s.l. Sú áskorun, sem þinginu barst þar frá Siglfirðingum, var á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Undirritaðir Siglfirðingar skora hér með eindregið á hæstv. ríkisstj. og Alþingi að tryggja nægjanlegt fé til að ljúka vegarlagningu fyrir fjallið Stráka ásamt tilheyrandi jarðgöngum á næstu 1–2 árum og rjúfa þannig þá einangrun, sem er helzta orsök fólksflótta frá Siglufirði og háir eðlilegum vexti og samskiptum Siglufjarðarkaupstaðar og sveitanna austast í Skagafirði.“

Undir þetta skrifuðu 785 Siglfirðingar, og er það meiri hluti kjósenda í kaupstaðnum.

Í árslok 1950 var fólkstalan á Siglufirði 3060. 10 árum síðar, 1. des. 1960, var íbúatalan þar komin niður í 2680. Þannig hafði fólkinu fækkað á einum áratug um 380, og er það 12–13%. En á þessum 10 árum fjölgaði fólki á landinu öllu um 23%. Vafalaust er það rétt, sem segir í bréfi Siglfirðinga til Alþingis, að einangrunin er helzta orsök fólksflótta þaðan og háir eðlilegum vexti kaupstaðarins. Góð samgönguskilyrði eru hverju byggðarlagi nauðsynleg nú á tímum, til þess að fólk haldist þar við og atvinnurekstur geti þrifizt. Það er því vel skiljanlegt, að íbúum Siglufjarðar sé það mikið áhugamál, að einangrunin verði rofin, enda er þeim það lífsnauðsyn. Það er einnig hagsmunamál þeirra, sem búa í Skagafirði, einu blómlegasta sveitahéraði landsins.

En þó er það svo, að það er ekki eingöngu mái Siglfirðinga og Skagfirðinga, sem hér er flutt. Margir aðrir landsmenn munu hljóta gagn af vegargerðinni. Það er þjóðmál að koma útgerðar- og iðnaðarbænum við Siglufjörð í öruggt og varanlegt samband við þjóðvegakerfi landsins.

Á Siglufirði er meiri síldariðnaður en á nokkrum öðrum stað á landinu. Þegar mikil síld veiðist, eins og í ár, er verðmæti útflutningsvörunnar, sem þaðan kemur, mjög mikið. Þaðan eru líka gerð út skip til annarra veiða. Framlag Siglfirðinga í þjóðarbúið er því mikið, og vonir standa til, að það geti farið vaxandi. Þess má vænta, að á komandi tímum verði síldaraflinu betur hagnýttur en verið hefur. Nýlega er hafinn rekstur verksmiðju á Siglufirði, þar sem farið er með síldina á þann hátt, að það eykur mjög verðmæti hennar. Þessi starfsemi er vel sett á Siglufirði, og þó að hún sé í smáum stíl enn sem komið er, er trúlegt, að á því sviði séu miklir möguleikar til aukinnar framleiðslu.

Á Siglufirði verður að sjálfsögðu útgerð fiskiskipa og fiskvinnsla eftir sem áður, og þar verður sennilega einnig vaxandi verksmiðjurekstur og fjölbreyttari en áður hefur verið, þar sem sérstaklega verður að því unnið að auka útflutningsverðmæti síldaraflans. Þar með skapast verkefni og búsetuskilyrði fyrir fleira fólk í kaupstaðnum en þar er nú. En um leið verður þörf Siglfirðinga fyrir greiðar samgöngur við Fljótin og aðrar sveitir Skagafjarðar enn ríkari en áður, svo að þeir geti fengið þaðan daglega mjólk og aðrar landbúnaðarafurðir.

Nú er byrjað að gera nýjan og vandaðan veg frá Reykjavík suður á Reykjanes. Sagt er, að ríkið hafi tekið lán til þeirrar framkvæmdar, en ekki hefur það mál þó enn verið lagt fyrir Alþingi. Ekki skal dregið í efa, að þörf sé fyrir nýjan veg á Suðurnes, því að umferð er þar mikil og gamli vegurinn ófullkominn. En þó að Reykjanesbrautin sé ekki góð, er samt mögulegt að aka eftir henni allan ársins hring. Hins vegar hafa Siglfirðingar ekkert vegasamband við aðrar byggðir mikinn meiri hluta ársins. Þeirra þörf fyrir umbætur í þessu efni er því enn brýnni. Þeim er það lífsnauðsyn að komast út úr samgönguerfiðleikunum, og það væri ranglæti, ef þeim væri neitað um þá fyrirgreiðslu, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, eða aðra jafngóða, á sama tíma sem ríkið tekur mikið fé að láni til nýrrar vegargerðar um Suðurnes.

Við flm. frv. viljum ekki heldur trúa því, að hv. Alþingi og ríkisstj. láti dragast lengur en orðið er að bæta úr samgönguvandræðum Siglfirðinga. Þeir hafa þegar beðið of lengi eftir vegargerðinni, sem er þeim svo ákaflega nauðsynleg. Það er mjög vel framkvæmanlegt að rjúfa einangrun Siglufjarðar á skömmum tíma á þann hátt, sem hér eru gerðar tillögur um. Það hlýtur að vera vandalaust fyrir hæstv. ríkisstj. að ná í 15 millj. kr. lán til vegargerðarinnar, ef Alþingi veitir heimild til þess. Við, sem flytjum frv., viljum því vænta þess, að málinu verði vel tekið, Eins og áður segir, er það flutt samkv. einróma áskorun bæjarstjórnar Siglufjarðar, sem studd var með bréfi til Alþingis frá meiri hluta atkvæðisbærra manna í kaupstaðnum. Við væntum þess, að málið fái skjóta og góða afgreiðslu í þinginu og síðan komi framkvæmdin með þeim hraða, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég vil svo óska þess, herra forseti, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr, og nefndar, sem líklega ætti að vera hv. samgmn.