15.03.1963
Neðri deild: 54. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í C-deild Alþingistíðinda. (2428)

188. mál, veiting prestakalla

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég hafði fjarvistarleyfi, þegar umr. þessi hófst, og skilst mér því, að raunverulega hafi engin framsaga verið fyrir máli þessu. Vil ég því gegna þeirri skyldu minni sem formaður menntmn., er málið flytur.

Ég hygg, að ekki þurfi að gera ýtarlega grein fyrir efni frv., það er einfalt og augljóst. Frv. leggur til að afnema prestskosningar með þeim hætti, sem tíðkazt hefur hér í rúmlega háifa öld, en í staðinn eiga kjörmenn að kjósa presta. Kjörmenn eiga að vera sóknarnefndarmenn og safnaðarfulltrúar, og eru um þetta ýtarlegar reglur. Þá eru einnig ákvæði, þar sem kjörmönnum er heimilað að kalla prest, og nánari ákvæði um, með hverju móti það getur gerzt.

Frv. þetta er þannig til komið, að það var samþykkt á 3. kirkjuþingi þjóðkirkjunnar 1962, en þar var það flutt af biskupi og kirkjuráði. Hæstv. kirkjumálaráðh. hefur samkv. ósk biskups sent frv. til menntmn., og samkv. ósk ráðh. og þingvenju flytur menntmn. frv. Hins vegar hafa einstakir nm. óskað, að ekki væri aðeins tekið fram, eins og venja er, að þeir hafi frjálsar hendur um afstöðu til málsins, heldur einnig, að n. fjallaði efnislega um frv. fyrir 2. umr. Má því vænta þess, að n. láti frekar frá sér heyra um frv., þó að hún sé formlegur flytjandi þess, og vil ég vænta þess, að það verði ekki tekið til 2. umræðu fyrr en menntmn. hefur skilað áliti um það.