18.02.1963
Efri deild: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 753 í C-deild Alþingistíðinda. (2572)

150. mál, skólakostnaður

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram það frv., sem hér liggur fyrir til breyt. á l. nr. 41 frá 1955, um greiðslu kostnaðar við skóla, sem reknir eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum. Breytingin, sem frv. felur í sér, er aðeins við 15. gr. nefndra laga. Sú lagagrein mælir svo fyrir, að þegar heimavistarskólar gagnfræðastigs eða húsmæðraskólar njóta ekki jarðhita til upphitunar, greiði ríkissjóður 3/4 hluta hitunarkostnaðarins. Þetta var leitt í lög 1955, til þess að það kæmi upp í aðstöðumuninn.

Skólahéruðin, sem njóta jarðhitans fyrir heimavistarskóla sína, eru vitanlega miklu betur sett með upphitun skólanna en héruð þau, sem standa að heimavistarskólum á köldum stöðum. Þetta er því sanngirnismál og spor til jöfnunar milli sveitarsjóða, sem standa undir skólahaldinu ásamt ríkissjóði, að ríkissjóður greiði 3/4 hluta upphitunarkostnaðarins hjá heimavistarskólum á köldum stöðum, þó að hann borgi ekki nema af kostnaði þessum hjá heimavistarskólum, sem njóta hlunninda jarðhitans.

En þegar þessi jöfnunarákvæði voru upp tekin, urðu heimavistarskólar barnafræðslustigsins út undan. Skipting hitunarkostnaðarins er enn þannig, að sveitarsjóðirnir greiða 3/4 upphitunarkostnaðar barnaskóla sinna, hvort sem skólarnir búa við hlunnindi jarðhita eða ekki, og ríkissjóður borgar 1/4 hlutann. Í þessu er ósamræmi, sem ég tel rétt að ekki dragist lengur að leiðrétt verði.

Breytingin, sem ég legg til með frv. að gerð verði með lögum þessum, er sú, að heimavistarskólar barnafræðslustigsins komi undir sömu skiptingarreglu og gagnfræðastigsskólar og húsmæðraskólar. Aðstöðumunurinn er hinn sami og sanngirnisgrundvöllurinn eins.

Að undanförnu hefur verið lögð á það áherzla af stjórnendum skólamála að fá skólahéruð til þess að sameinast um heimavistarskóla, og hafa þeir þá að sjálfsögðu verið reistir á jarðhitastöðum, þar sem þau gæði hefur verið að fá. Eru nú sumir landshlutar búnir að koma sér vel fyrir í þessum efnum, og er það ánægjulegt. Hins vegar eru einstök skólahéruð þannig sett, að þau eiga engan kost á að geta fengið jarðhita handa skólum sínum og enga von um breytingu á því ástandi. Önnur bíða jarðhitarannsókna eða annarra skilyrða til framkvæmda. Sterk hreyfing er í þá átt að fjölga heimavistarskólum á jarðhitastöðum, en engin hætta er á því, að sú hreyfing dofni, að því er barnaskólana snertir, þó að ríkið fari að kosta upphitun fyrir þá að 3/4 hlutum, ef þeir nota ekki jarðhita, svo miklu meira virði fyrir skólana eru jarðhitahlunnindin.

En svo er þá spurningin: Verður ekki þessi breyting ríkissjóði til mikillar útgjaldaaukningar? Það er auðvitað réttmæt spurning, sem skylt er í þessu sambandi að svara, eftir því sem hægt er. Ég bað skólaeftirlit ríkisins um upplýsingar um það, hve margir heimavistarskólar barnafræðslustigsins væru nú, sem njóta mundu breytingarinnar, ef frv. næði fram að ganga. Skólaeftirlitið svaraði því, að þeir væru 26 talsins, og lét mér í té skrá yfir, hverjir þeir væru, og vil ég — með leyfi hæstv. forseta - lesa nöfn skólanna. Þeir eru kenndir við þá staði, sem þeir eru á, þessir: Kjalarnesskóli, Kjósarskóli, skóli í Holti í Önundarfirði, skóli að Árnesi í Strandasýslu, Borðeyrarskóli, Svarfaðardalsskóli, Árskógsstrandarskóli, Bárðardalsskóli, Mývatnssveitarskóli, Keldunesskóli, Öxarfjarðarskóli, Núpasveitarskóli, skóli á Torfastöðum, Jökuldalsskóli, skóli á Eiðum, skóli í Hróarstungu, skóli á Hallormsstað, skóli að Skorrastað, Breiðdalsskóli, Nesjaskóli, Borgarfjarðarskóli, Kirkjubæjarskóli, skóli á Strönd á Rangárvöllum, Hraungerðisskóli, Villingaholtsskóli, Ljósafossskóli, eða samtals, eins og ég sagði áðan, 26 skólar.

Þá bað ég skólaeftirlitið einnig um upplýsingar um, hvað líklegt sé að útgjaldaaukning ríkissjóðs verði mikil af því að breyta l. eins og ég legg til að gert verði. Skólaeftirlitið sagði, að enn væru ekki til sin komnir reikningar skólanna fyrir 1962, þ.e. árið sem leið, en samkv. reikningum skólanna fyrir árið 1961 hefði útgjaldaaukningin þá orðið 258 072 kr.

Er af þessum upplýsingum ljóst, að ekki er stofnað til mikillar útgjaldaaukningar með því að lögleiða sömu þátttöku ríkisins í upphitunarkostnaði heimavistarskóla á barnafræðslustiginu og gildir um heimavistarskóla gagnfræðastigsins og húsmæðraskólana. Hins vegar dregur sveitarfélögin talsvert um þessa sanngirni af hálfu ríkisins.

2. gr. frv. gerir ráð fyrir, að frv., ef að lögum verður, taki strax gildi og ákvæði þess komi til framkvæmda frá síðustu áramótum. Auðvitað er ekki gert ráð fyrir útgjaldaaukningunni til heimavistarskólanna á gildandi fjárlögum. En þarna verður enginn árekstur, af því að umræddur skólakostnaður er ekki gerður upp milli sveitarfélaganna og ríkisins fyrr en árið eftir að hann verður til. Það er því upphitunarkostnaður skólanna 1962, sem greiddur verður af fjárlagafé 1963, en upphitunarkostnaður 1963 kemur á fjárlög 1964, og hér fellur því í ljúfa löð við fjárlagatímann að láta lagaákvæði frv. gilda aftur fyrir sig til síðustu áramóta, sem eru líka fyrir stuttu um garð gengin.

Ég leyfi mér að vænta þess, að þessu litla frv. verði vel tekið. Legg ég til, að því verði vísað til 2. umr. og til hv. menntmn.