17.10.1962
Sameinað þing: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í D-deild Alþingistíðinda. (2873)

13. mál, síldarleit

Eysteinn Jónsson:

í tilefni af flutningi þessarar þáltill, langar mig til að minnast aðeins á síldarleitina nú í haust sem nokkurt dæmi í þessu sambandi. Ég hefði talið, og það er áreiðanlega hugsun okkar flm., að í haust hefði átt að halda síldarleitinni áfram bæði fyrir Austur- og Norðurlandi og ekki láta hana falla niður.

Það þyrfti að vera stöðug síldarleit, til þess að menn fylgdust með, hvar síldina væri að finna þá og þá, og eins og 1. flm. hefur greinilega tekið fram, mundi það stórkostlega auka líkurnar fyrir, að síldarúthald gæti orðið stöðugt og með meiri árangri. Og í tilefni af því, að mér skilst, að núna eigi sér engin síldarleit stað, langar mig til að spyrja þann hæstv. ráðh., sem fer með sjávarútvegsmál í forföllum sjávarútvegsmrh., sem mér skilst að sé erlendis, hvort hann hefði aðstöðu til að gefa okkur upplýsingar um, hvort síldarleit verður ekki hafin nú tafarlaust og þá með hve miklum krafti, hve mikill kraftur yrði lagður í síldarleitina, og hvort þess væri ekki að vænta, að hún yrði hafin tafarlaust.

Fyrst farið er að tala hér um síldveiði yfirleitt, finnst mér ekkert illa viðeigandi, að hér á Alþingi komi fram áhyggjur út af því, hvernig nú horfir um síldarúthaldið, þar sem síldarflotinn liggur nú bundinn og hvorki gengur né rekur, að því er manni skilst, með að leysa þá deilu, sem risið hefur í sambandi við kjörin á síldveiðiflotanum. Ég vil því nota þetta tækifæri, sem núna gefst, þar sem síldarmálin eru á dagskrá og jafnvel með nokkuð sérstökum hætti síldarúthaldið núna, þar sem er síldarleitin, en hún er náttúrlega grundvöllurinn að þessu öllu saman nú orðið, — ég vil nota þetta tækifæri til þess að skora á hæstv, ríkisstj. að ganga tafarlaust á milli í þessari síldveiðideilu og leysa hana, svo að þjóðinni verði forðað frá því gífurlega tjóni, sem að því hlýtur að verða, ef síldarúthaldið stöðvast.

Ég vil skora á hæstv. ríkisstj. að ganga á milli og leysa síldveiðideiluna, ekki með gerðardómi, heldur með því að beita sér fyrir samkomulagi á milli aðila, að svo miklu leyti sem slíkt kann að vera mögulegt, og afla sér svo heimildar Alþingis og það nú tafarlaust til að nota eitthvert fjármagn til að brúa það bil, sem kann að vera á milli aðilanna í deilunni, þegar málið hefur verið kannað. Vil ég benda á þá leið, að hæstv. ríkisstj. afli sér tafarlaust heimildar Alþingis til þess að greiða tækjauppbót, sem kalla mætti, til síldveiðiflotans og leysa þannig deiluna. Ég vil benda á, að þegar litið er á þau geysilegu verðmæti, sem hér eru í húfi, þá er þarna ekki um stórfellt fjármagn að ræða. Mér skilst, að það, sem hafi borið á milli s.l. sumar, sé einhvers ataðar nálægt eða kannske ríflega sem svarar tveimur hlutum á hverju síldveiðiskipi. Jafnvel með þeirri miklu síldveiði, sem var s.l. sumar, mundi það víst ekki ná 30 millj. yfir allan flotann, sem á milli bar. Ef svo er litið á, að ekki sé hægt að búast við því, að jafnmikil verðmæti fáist á vetrarsíldveiðinni, þá sjáum við, að það mundi alls ekki þurfa að nota stóra fjárhæð til að leysa þetta mál á farsællegan hátt, t.d. brúa með tækjauppbót að því leyti, sem endarnir næðust ekki saman hjá aðilunum. Ekki verður um stórkostlega fjármuni eð ræða og sízt í samanburði við þann óhemju ávinning, sem af því verður, ef veiðarnar geta gengið hrukkulaust.

Nú mundi kannske einhver segja, að það væri tæpast út í þetta leggjandi, það væri verið að fara inn á uppbótarkerfi. Ég vil benda á í því sambandi, að öll vátryggingariðgjöld fiskiflotans, á annað hundrað millj., eru greidd af fjármagni, sem dregið er saman með útflutningsgjöldum. Og á sama hátt væri mjög auðvelt að fara með þetta mál. Þetta er í prinsipinu ekki ólíkt því, sem gert er með greiðslu vátryggingariðgjaldanna. Og ef menn teldu ekki vera hægt að fá nóg fé af þeim útflutningsgjöldum, sem þegar eru lögð á útveginn og nema nú 7.4%, þannig að það er ekki um neina smáfjármuni að ræða, þá er mjög auðvett að taka það fjármagn, sem þyrfti, til þess að leysa málið á þessa lund, af því fé, sem innheimt var s.l. sumar, þegar gengishækkun á útflutningsvörubirgðum var tekin eignarnámi og færð í ríkissjóð. Mun sú fjárhæð hafa numið mikið á 2. hundrað millj. kr. og varð til þess, að ríkissjóður hafði afgang og fór að eiga inni í Seðlabankanum um s.l. áramót, eins og hæstv. ráðh. upplýsti þá,. Því fer þess vegna fjarri, að það mundi þurfa að taka nokkuð af almannafé til að leysa þessi vandkvæði útvegsins eða af almennu ríkisfé eða sköttum þeim, sem innheimtir eru af almenningi, heldur væri mjög auðvelt að leysa þetta mál með því fjármagni, sem tekið er af sjávarútveginum sjálfum, eins og augljóst verður af þessu.

Ég skora því eindregið á hæstv. ríkisstj. að ganga á milli og afla sér nauðsynlegra heimilda á Alþingi í því skyni. Taldi ég ástæðu til að nota tækifærið, þegar rætt er um síldveiðarnar, til að koma þessari áskorun á framfæri. Hér er um mál að ræða, sem þolir ekki bið, og vona ég, að hæstv. forseti reikni mér það ekki til syndar, þó að ég minnist á þetta í sambandi við þær umr., sem hér verða um síldarmálin.

En svo vildi ég endurtaka þetta í framhaldi af því, sem 1. flm. tók fram, að það hefði verið mjög æskilegt, ef hæstv. ráðh. sjávarútvegsmála hefði getað upplýst um það, hvort ekki er fyrirhugað að hefja síldarleit tafarlaust og þá hvað mikið ætti í hana að leggja.