31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í D-deild Alþingistíðinda. (3292)

248. mál, lán út á landbúnaðarafurðir

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. landbrh., og er þessi fsp. undir II. lið á þskj. 51. Ástæðurnar fyrir því, að þessi fsp. er fram komin, eru þær, að bankalán út á birgðir landbúnaðarafurða hafa að krónutölu staðið í stað síðan 1959, þrátt fyrir verðhækkanir þær, sem orðið hafa síðan, annars vegar og framleiðsluaukningu hins vegar. Þetta hefur komið sér mjög illa fyrir bændur, þar sem útborgunarverð til þeirra hefur orðið lægra, en eila hefði verið og þar af leiðandi vaxtagreiðslur meiri. Fjöldamargar tillögur hafa borizt frá bændum um það að fá lagfæringu á þessu, fá lánin hækkuð upp í 70%, eins og þau eru nú yfirleitt hjá sjávarútveginum. M.a. kom fram eftirfarandi till. á aðalfundi Stéttarsambands bænda, er haldinn var í Bifröst í Borgarfirði fyrstu dagana í sept., en till. þessi hljóðaði þannig, með leyfi forseta.:

„Þar sem sölu og framleiðslu landbúnaðarvara er þannig háttað, að löng bið hlýtur ávallt að vera frá því að varan er afhent til sölumeðferðar og þar til endanlegt uppgjör fer fram, skorar fundurinn á stjórn Stéttarsambandsins að beita sér fyrir því við hlutaðeigendur, að tryggt sé, að veitt verði 70% lán út á verðmæti a1ira landbúnaðarvara.“

Þessar óskir komu fram á aðalfundi Stéttarsambands bænda, og þessi till. var samþykkt shlj. af öllum fundarmönnum. Hæstv. landbrh. var staddur á þessum fundi, og lofaði hann fundarmönnum mjög góðu um það, að þetta mundi lagfært, þar sem um væri að ræða bæði þarft og nauðsynlegt mál fyrir bændastétt landsins.

Sláturtíð mun nú senn á enda víðast hvar í landinu. Og fróðir menn telja, að alls muni hafa verið slátrað á þessu hausti nálægt 900 þús. fjár og að kjötmagn af þessu fé muni nema ca. 12–13 þús. tonnum og að verðmæti nálægt 340–350 millj. kr. Fyrir utan það verðmæti, sem liggur í kjötinu, koma, undir afurðalánin aðrar afurðir, svo sem um, gærur, smjör, ostar o.fl. Ótaldar eru þó allar garðjurtir, sem óskir manna hafa komið fram um að nytu hliðstæðra lána við þau, er ég hef hér að framan getið.

Fari svo, sem ég trúi ekki, að bankalán út á birgðir landbúnaðarafurða standi í stað að krónutölu nú að þessu sinni, eru miklar líkur til þess, að þau nemi ekki meira en 48% af heildsöluverði landbúnaðarafurða, sem lán þessi ná til. Og eru þá frá dregin þau 2 þús. tonn af kjötmagni, sem út er flutt á þessu hausti. Fsp. mín hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Hvað líður ráðstöfunum af hálfu landbrh. til að koma því til leiðar og tryggja það, að út á birgðir landbúnaðarafurða fáist bankalán, sem nemi a.m.k. 70% af heildsöluverði birgðanna?“

Ég vænti þess, að hæstv. landbrh, svari þessari fsp. og skýri frá, hvað áunnizt hefur í þessum efnum nú upp á síðkastið.