21.11.1962
Sameinað þing: 14. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í D-deild Alþingistíðinda. (3308)

249. mál, virkjunarmöguleikar Jökulsár á Fjöllum o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir leiðinlegt, ef þessi svör, sem ég var að leitast við að bera hér fram, hafa ekki verið nógu skýr og glögg. En mér virðist hv. fyrsti fyrirspyrjandi hafa misskilið dálítið, þegar hann talar um að halda áfram sérstaklega rannsóknum á Jökulsá og það hafi verið slakað til þar, en lögð meiri áherzla á rannsóknir í Þjórsá. Það liggur í augum uppi, þegar um það er að ræða að ráðast í stórvirkjun, að þá þarf að athuga hin hagstæðustu skilyrði. Og ásamt íslenzku verkfræðingunum hefur unnið þekkt amerískt firma, sem valið var árið 1957 ag þáv. ríkisstj. til þessara rannsókna. Og það er þetta fyrirtæki ásamt íslenzkum verkfræðingum, sem hefur ákveðið, hvernig rannsóknunum skuli hagað. Og það liggur fyrir og það ætla ég, að ég hafi sagt skýrt hér áðan, að þessum rannsóknum er nú lokið að svo miklu leyti, að það megi gera glöggan samanburð, og það er þegar ljóst, að það eru aðeins tveir staðir, þ.e. Þjórsá eða Jökulsá, sem um er að ræða. Hvítá í Árnessýslu hefur þegar verið dæmd úr leik. Það er þetta, sem liggur alveg ljóst fyrir, eins og segir í þeirri skýrslu, sem ég las hér upp áðan.

Hvað snertir samanburð í virkjunarkostnaði Jökulsár annars vegar og við Búrfell í Þjórsá hins vegar, þá er hann ekki tímabær, fyrr en áætlanir liggja fyrir, sem nú er von á í kringum áramótin. Ef þörf hefði verið á að verja meiri fjármunum til rannsókna á Jökulsá til þess að fá svarað þeirri spurningu, hvað virkjunarkostnaðurinn þar verður mikill, þá hefði það verið gert. En að áliti ameríska firmans og íslenzku verkfræðinganna, þá ætla þeir, að það sé ekki þörf á meiri rannsóknum til þess að fá því svarað til fullnustu, sem þarf að fá til þess að ganga úr skugga um, hvort Jökulsá er hagstæðari en t.d. Þjórsá. Og til þess að fá spurningunum svarað við Þjórsá, þurfti að verja þetta miklu fjármagni til þess. (KK: Annað skiptir hér líka miklu máli.) Hvað? (KK: Það er iðjuver og útflutningsframleiðsla í sambandi við það.) Já, það var einmitt það, sem ég hélt að ég hefði minnzt á líka, ég sagði áðan, að sunnanlands koma til greina staðirnir Þorlákshöfn annars vegar og nágrenni Reykjavíkur og Hafnarfjarðar hins vegar. En norðanlands er í rauninni meira vafamál, hvar staðsetja ætti alúminíumverksmiðju, og hefur í því sambandi augum verið rennt yfir land- og sjókort allt frá Eyjafirði og austur á Seyðisfjörð og dregnar fram þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru og hægt var að afla á þessum tíma um hafnarskilyrði á þessum hluta strandlengju landsins, og enn fremur út frá þeim upplýsingum, sem þannig var hægt að afla og með tilliti til þeirra hafnar- og landsskilyrða, sem alúminíumverksmiðja krefst, virðist sem Eyjafjörður komi helzt til greina og þá allra helzt svæðið norðan Akureyrar, vestanvert fjarðarins, í námunda við Dagverðareyri. Þetta hefur verið athugað, en ég er ekki að fullyrða, að það megi ekki athuga það nánar. (KK: Er ekki rannsóknin bara sjónhending?) Nei, rannsóknin er miklu meira en sjónhending, og orðalagið var það. Ef hv. þm. hefur eitthvað við að athuga þessa skýrslu mína, þá væri æskilegt, að hann kæmi hér upp í ræðustólinn og gerði einar aths. þar. Það held ég, að hann ætti að gera, og eins það, ef hann hefur sérstaka ástæðu til að finna að því, hvernig hinir íslenzku verkfræðingar og hinn erlendi verktaki haga störfum. Ég held, að þetta sé ekki tímabær ásökun hjá hv. þm.

Ég ætla svo, þegar ég hef nú áréttað á ný það, sem ég áðan sagði, að hv. fyrirspyrjandi sé eftir atvikum ánægður með svarið og það hafi komið í ljós, að það hafa verið gerðar þær rannsóknir, sem nauðsynlegar þóttu á Jökulsá, til þess að áætla þar nákvæmlega virkjunarkostnað og kostnað á raforku, sem framleidd væri í væntanlegu orkuveri. Og hins vegar hefur verið gerð rannsókn á því, hver kostnaður væri að virkja við Búrfell, og einnig gerð lausleg athugun á því, hvar mögulegt væri að setja upp væntanlega alúminíumverksmiðju, ef hún væri byggð hér sunnanlands. En eins og fram hefur komið, þá má vænta þess, að þessar áætlanir liggi fyrir um næstu áramót, og það er þá, sem tímabært er að taka afstöðu til þess, hvort er heppilegra að virkja Jökulsá eða Þjórsá. því get ég ekki svarað í dag.