20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í D-deild Alþingistíðinda. (3374)

195. mál, hafnargerðir við Dyrhólaey og í Þykkvabæ

Fyrirspyrjandi (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. gaf mér svolítið tilefni til að líta hér upp í þennan ræðustól aftur, þar sem hann heldur því fram, að það sé alrangt og í áróðursskyni einu sagt það, sem ég hef sagt um þetta mál, þ.e.a.s. ég geri mig ekki ánægðan með sem rannsókn á málinu það, sem hann segir hér að fram hafi farið. Hann tekur fram, að það muni vera sagt í háðslegum tón hjá mér og lítilsvirðandi fyrir dr. Trausta Einarsson, að ég tel, að það sé ófullnægjandi sem svar við fyrirspurn um það, hvernig framkvæmd hafi verið þál. frá 1961, að lesa hér upp bréf um það, hvað dr. Trausti Einarsson hugleiðir um það árið 1950, að sandburðurinn sé í nánd við Dyrhólaey. Ég leyfi mér, þrátt fyrir arð ráðh., að halda því fram, að Trausti Einarsson geti verið ágætismaður og það breyti engu um hans vísindamennsku, þó að það sé engin framkvæmd á þál., sem felur ríkisstj. Íslands árið 1961 að láta fram fara athugun á hafnarstæði við Dyrhólaey, að lesa hér upp plagg, sem dr. Trausti Einarsson skrifar árið 1950. Þetta er ekki framkvæmd á þingsályktuninni frá 1981.

Þá virðist hæstv. ráðh. ekki fallast á það að taka undir mitt mál að því leyti, að það sé vítavert af vitamálaskrifstofunni, þegar hún er beðin um að gera áætlun um hafnargerð á einhverjum stað eða rannsókn á hafnargerð á einhverjum stað, þá svari hún fyrir Alþingi, að hún telji ekki vera hagrænan grundvöll fyrir þessa hafnargerð. Þetta er að mínu mati, þó að það fari ekki saman við mat ráðh., að svara Alþingi út úr. Þetta er að skjóta sér undan að gera það, sem menn áttu að gera, en hafa á hinn bóginn uppi vaðal um málið, sem kemur ekki því við, sem þeim var falið í þessu efni.

Ég skal, hæstv. forseti, ekki misnota tíma minn eða nota langan tíma. — Að lokum vék hæstv. ráðh. að því, að þetta mál mundi vera eintómur áróður og að því er mér skildist vítaverður áróður. Það vill nú svo til, að ef hann vilt beina orðum sínum að því, að hér sé um áróðursmál að ræða, þá ætti hann að snúa þeim í aðra átt. Ég er hér að spyrja um framkvæmd á till., sem tveir hv. stuðningsmenn ríkisstj. fluttu hér 1981, þeir hv. 8, þm. Sunnl. og hv. 3. þm. Sunnl., og ef málíð er áróðursmál, þá, er um það að eiga við þá, sem málið fluttu á Alþingi, því að ég fæ ómögulega skilið það, að ef flutningur málsins er góðra gjalda verður þá sé það svívirðilegur áróður að spyrja um, hver árangur hafi orðið af þeim rannsóknum, sem Alþingi skv. þeirra till. ákvað að láta framkvæma.