26.02.1963
Efri deild: 49. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 588 í B-deild Alþingistíðinda. (450)

141. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. minni hl. (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Ég og hv. 1. þm. Vesturl. höfum flutt brtt, við það frv., sem hér liggur fyrir. Er í nál. gerð grein fyrir ástæðunni fyrir því, að við flytjum þessar brtt.

Það er enginn efi á því, að þess er mikil þörf að efla iðnlánasjóð, og við erum allir sammála um það. En ég tel ástæðulaust og við, sem flytjum þessar brtt., að leggja á nýjan söluskatt til þess að standa undir þeim útgjöldum, sem þarf til að efla sjóðinn. Þetta getur vitanlega verið umdeilt atriði. Við álitum, að þær tekjur, sem ríkissjóður aflar nú, séu svo miklar, að það ætti að vera hægt að leggja þessa upphæð fram án þess að leggja á nýjan söluskatt. Það er vitanlega alltaf hægt að afla tekna með því að leggja á nýja skatta, og það er bersýnilegt, að þessi skattur, sem þarna verður lagður á iðnaðinn, verður í framkvæmdinni almennur söluskattur, sem enginn munur er á og öðrum söluskatti. Við leggjum þess vegna til, að þessi fjárhæð, sem ætluð er til styrktar iðnlánasjóðnum, sé tekin beint úr ríkissjóði af þeim sölusköttum og tekjuöflunum, sem ríkissjóður hefur nú og ætti að hafa þetta fé handbært.

Í samræmi við þessa breytingu á tekjuöflun gerum við ráð fyrir því, að einnig verði breytt að nokkru stjórn sjóðsins. Það leiðir af sjálfu sér, að þegar fé er lagt fram úr ríkissjóði, þá breytast reglurnar um stjórn sjóðsins þannig, að meiri hl. sé. kosinn af sameinuðu Alþingi, og ég geri ráð fyrir því, að 3 af 5 stjórnendum sjóðsins verði kosnir af sameinuðu Alþingi, en 2 af iðnrekendum og iðnaðarmönnum, eins og tekið er fram í 1. brtt. Við álitum, að það sé engin ástæða til þess að setja Samband ísl. samvinnufélaga hjá, þegar kosið er í stjórn sjóðsins. Það er einn af stærstu iðnrekendunum í landinu eða kannske sá stærsti og þess vegna algerlega óeðlilegt, að hann hafi ekki áhrif á það, hvernig sjóðsstjórnin er kosin.

Við gerum svo ráð fyrir því í 3. brtt., að síðasta mgr. 8. gr. falli niður. Það leiðir af sjálfu sér vegna þess, hvernig fjár til sjóðsins er aflað.

Ég sé ekki ástæðu til að vekja neinar deilur um þetta mál á þessu stigi, án þess að tilefni gefist til. Hér er um meiningarmun að ræða, hvernig eigi að afla tekna til þess að efla sjóðinn og hve upphæðin eigi að vera há, sem þarf til þess að efla hann, og má vitanlega um það deila, en ég skal ekki hafa þessi orð fleiri að sinni.