04.03.1963
Neðri deild: 48. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 592 í B-deild Alþingistíðinda. (457)

141. mál, Iðnlánasjóður

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, um iðnlánasjóð, er hingað komið frá hv. Ed. og hefur það verið rætt þar og athugað, svo sem venja er til. Hér er um stórmál að ræða, og vil ég leyfa mér að fara um það nokkrum orðum við 1. umr. þess hér í hv. Nd.

Ég lít svo á, að þetta frv. til l. um iðnlánasjóð sé spor í rétta átt og beri að fagna því, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið mál þetta til úrlausnar. Iðnaður er, sem kunnugt er, orðinn ein af höfuðatvinnugreinum þjóðarinnar við hlið landbúnaðar og sjávarútvegs. Hefur iðnaðurinn vaxið hér óðfluga á örfáum áratugum, og því fólki, sem hann stundar, fjölgar að sama skapi. Allar þjóðir kappkosta að efla iðnað sinn, og við Íslendingar verðum einnig að gera okkur ljósa grein fyrir þeirri þýðingu, sem vel rekinn og dugmikill iðnaður hefur fyrir þjóðarbúskapinn. Sjálfs er höndin hollust, segir máltækið, og vissulega ber okkur að keppa að því að verða sem allra mest sjálfum okkur nægir um framleiðslu margs konar iðnaðarvarnings og spara á þann hátt dýrmætan gjaldeyri. En til þess að svo megi verða, er nauðsynlegt að búa vel að iðnaðinum í landinu og skapa honum viðhlítandi starfsskilyrði.

Hér í Reykjavik er iðnaðurinn sú atvinnugrein, sem flest fólk hefur framfæri sitt af, og má því segja, að efling iðnaðarins sé sérstaklega áriðandi fyrir okkur Reykvíkinga. Iðnað má vitanlega efla með mörgum hætti, og borgaryfirvöld og sveitarstjórnir verða að veita alla þá fyrirgreiðslu, sem í þeirra valdi stendur, til þess að þessari mikilsverðu atvinnugrein verði ekki sniðinn of þröngur stakkur. En fleira þarf til að koma, og ein leiðin til aukinnar aðstoðar er sú, sem hér um ræðir, þ.e. að efla iðnlánasjóð, þannig að hann verði þess megnugur að styrkja iðnaðinn miklu meira en honum er unnt í núverandi mynd. Iðnlánasjóður hefur á undanförnum árum haft yfir allt of litlu fjármagni að ráða, og því hefur orðið að synja þar um aðstoð í fjölmörgum tilvikum, enda þótt umsóknirnar hafi uppfyllt öll skilyrði sjóðsins fyrir lántöku, einfaldlega vegna þess, að fjármagn hefur ekki verið til. Ríkisframlagið, sem er einu vissu tekjur sjóðsins fyrir utan veiti af eigin fjármagni, hefur að undanförnu aðeins numið 2 millj. kr. á ári, og sjá þá vitanlega allir, hversu sorglega skammt þessi fjárhæð hrekkur til þess að styðja iðnaðinn í landinu.

Iðnaðarfyrirtækjum hefur stórkostlega fjölgað á undanförnum árum og íslenzkur iðnaður er alltaf að vinna ný lönd. Fleiri og fleiri iðngreinar eru stundaðar hér með hverju árinu sem línur. Þegar svo við bætist gífurleg dýrtíðaraukning, sem veldur því hvoru tveggja, að vélar og byggingar hækka í verði og aukið fjármagn liggur bundið í birgðum framleiðendanna, að ekki sé nú talað um hinn aukna tilkostnað við framleiðsluna sjálfa, þá gefur auga leið, að stórkostlega aukið fjármagn þarf til að koma. Því er það vissulega spor í rétta átt, að í frv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til að auka verulega tekjur iðnlánasjóðs, þar sem til viðbótar ríkisframlaginu er ráðgert nýtt gjald, sem renna á til sjóðsins og á að nema 0.4% af sama stofni og aðstöðugjöld eru reiknuð af og innheimt verða hjá iðnfyrirtækjum með þeim takmörkunum, sem í frv. eru greindar. Ég er þó þeirrar skoðunar, að sú fjárhæð, sem samkv. þessu mundi innheimtast, sé ekki nægileg til þess að gera sjóðnum kleift að gegna hlutverki sínu, en hér mun verða um að ræða eitthvað nálægt 7 millj. kr., eftir því sem áætlað er í aths. með frv. Þetta er að vísu mikil lagfæring, ekki dettur mér í hug að neita því. En með tilliti til hinna miklu þarfa iðnaðarins fyrir aukið fjármagn tel ég, að betur hefði þurft að gera. Minni hl. iðnn. Ed. hefur lagt til að hækka ríkisframlagið til sjóðsins upp í 15 millj, kr., og ég er sannfærður um, að það veiti ekkert af þeirri upphæð, ef vel á að vera.

Þá er í 6. gr. frv. gert ráð fyrir heimild til handa sjóðnum til þess að taka allt að 100 millj. kr. lán að fengnu samþykki ríkisstj. til þess að endurlána iðnfyrirtækjum eftir nánari reglum, sem frv. kveður á um. Þessa heimild þarf sjóðurinn að geta notað sem allra fyrst, ekki sízt ef tekjuaukningin verður ekki meiri en frv. gerir ráð fyrir, til þess að vinna upp þann hala, sem orðinn er af óafgreiddum lánaumsóknum, og mæta nýjum beiðnum. Æskilegast væri vitanlega, ef hægt yrði að fá lán þetta innanlands, til þess að losna við gengisáhættuna, sem erfitt verður fyrir mörg fyrirtækjanna að taka á sig, þar sem í fæstum tilfellum er um að ræða nokkra gjaldeyrisöflun hjá íslenzkum iðnfyrirtækjum og þar af leiðandi engar auknar tekjur, þótt til gengislækkunar kæmi, svo sem þó er um ýmsar atvinnugreinar aðrar. En jafnvel þótt erlent lán yrði að taka í þessu skyni, tel ég þó, að rétt sé að gera það og gefa fyrirtækjunum kost á fjármagni þannig fremur en að skapa þeim enga möguleika til aðgangs að auknu fjármagni.

Í sambandi við þá framkvæmdaáætlun ríkisins, sem boðuð hefur verið, verður einnig að leggja ríka áherzlu á, að iðnaðinum verði þar ekki gleymt, heldur þannig á þeim málum haldið, að hans hlutur verði fyllilega sambærilegur við aðrar atvinnugreinar. Samtök iðnaðarmanna munu hafa fullan hug á því að gæta réttar síns á þeim vettvangi, og þeim óskum verður að mæta með skilningi.

Í þessu frv. er aðeins rætt um stofnlán, þ.e. lán til véla- og tækjakaupa, til byggingar verksmiðju- og iðnaðarhúsa og til endurskipulagningar iðnfyrirtækja, og er það allt gott, svo langt sem það nær. En rekstrarfjármagn fá fyrirtækin ekki eftir þessari leið. Rekstrarfjárþörf iðnaðarins er ákaflega mikil, og vantar mikið á, að hægt hafi verið að fullnægja henni hér að undanförnu. Ég veit, að þarfir iðnaðarins eiga skilningi að mæta hjá bönkunum og öðrum lánastofnunum, en þar er í mörg horn að líta og ekki alltaf mikið til skiptanna. Því hlýtur það að mínum dómi að vera mjög til athugunar, hvort ekki er nauðsynlegt að tryggja iðnaðinum rekstrarfé með lagasetningu, og væri æskilegt, að það mál yrði rækilega kannað, e.t.v. í sambandi við afgreiðslu þessa frv. á hv. Alþingi.

Iðnn. Ed, náði ekki samkomulagi um afgreiðslu frv. Meiri hl. n, hefur lagt til á þskj. 295, að frv. yrði samþ. óbreytt, en minni hl. vildi gera á því þá breytingu að fella niður fyrirhugaða gjaldheimtu af iðnfyrirtækjunum, en auka ríkisframlagið þess í stað upp í 15 millj, kr. Eins og ég sagði áðan, tel ég, að alls ekki veiti af þeim auknu tekjum, sem till. minni hl. gerir ráð fyrir, ef takast ætti að efla sjóðinn miðað við þarfir. Um hitt atriðið, hvernig þessara tekna skuli aflað, geta vitanlega verið skiptar skoðanir, og skiptir kannske út af fyrir sig ekki höfuðmáli, hvor leiðin farin er. Mér finnst þó, að yfirleitt beri að stefna að því að gera innheimtu og álagningu opinberra gjalda einfalda og óbrotna og því sé rétt að fækka frekar álagningarliðum en fjölga þeim. Þess vegna fyndist mér í alla staði eðlilegt, að hér yrði einungis um ríkisframlag að ræða, en gjaldheimtunni sleppt. Og þegar það er haft í huga, hversu tölur fjárl. eru orðnar háar, virðist ekki muna svo ákaflega mikið um það, þótt þessum lið yrði bætt þar við. Í samræmi við þessa brtt. gerir svo minni hl. ráð fyrir breyt. á stjórn sjóðsins frá því, sem ráðgert er í frv. Er hún í því fólgin, að stjórnin skuli skipuð 5 mönnum, 3 kosnum af Alþingi með hlutfallskosningu og 2 tilnefndum af stjórn Landssambands iðnaðarmanna, stjórn Félags ísl. iðnrekenda og stjórn Sambands ísl. samvinnufélaga í sameiningu. Þar sem till. minni hl, gerir eingöngu ráð fyrir ríkisframlagi, en engu gjaldi frá iðnrekendum sjálfum, virðist eðlilegt, að Alþingi hafi sjálft æðstu yfirráð yfir sjóðnum, en samtök iðnaðarmanna ættu þar fulltrúa.

Herra forseti. Ég hef leyft mér að gera þetta frv. lítillega að umtalsefni hér í því skyni að benda á örfá atriði, sem e.t.v. gætu orðið til athugunar fyrir þá nefnd, sem nú fær málið til meðferðar.