26.03.1963
Efri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 668 í B-deild Alþingistíðinda. (509)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Frsm. 1. minni hl. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka frekar þátt í þessum umr., en vegna þessa atriðis, sem fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni, fannst mér nauðsynlegt að fá vissar upplýsingar. Hann setur fram, að mér skilst, alveg nýjan skilning á þessu niðurlagsákvæði 1. gr. Mér skilst, að hann vilji skilja það á þá lund, að það sé miðað við kjarasamninga þá, sem nú fara fram, þannig að lög þessi eða 1. gr. eigi ekki að gilda lengur en þangað til sá kjarasamningur hefur öðlazt gildi eða kjaradómur hefur verið kveðinn upp. Eftir því sem ég hef komizt næst; hefur þetta ákvæði alls ekki verið túlkað á þessa lund, heldur á þá lund, að þarna væri átt við sérstaka samninga við Stéttarfélag verkfræðinga. Ég held, að þannig hafi þetta verið skilið í Nd. Mér skilst, að á þá lund hafi meiri hl. n. skilið þetta ákvæði.

Ég held líka, að það sé alveg ljóst, hvað sem liður sjónarmiðum um það, hvað eðlilegt er, — en ég get þar tekið undir það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði, að ég teldi út af fyrir sig eðlilegt, að verkfræðingar féllu undir þó almennu kjarasamninga, eins og aðrir ríkisstarfsmenn, — þá held ég, að það verði ekki um það deilt, að það kom alveg greinilega fram á Alþingi í umr. um kjarasamningalögin á sínum tíma, að verkfræðingum var ekki ætlað að falla undir þau. Þess vegna held ég, að það sé alveg ný lögskýring, ef á að fara að halda því nú fram, að verkfræðingar falli þar undir. En hvað sem um það er, þá er að gefnu þessu tilefni alveg nauðsynlegt, að það komi skýrt fram, hvaða skilningur er lagður í niðurlagsmálsgrein 1. gr. af hálfu meiri hl. allshn., sem mælir með samþykkt þessa frv., og alveg sérstaklega af hálfu hæstv. ríkisstj. Þess vegna vil ég alveg eindregið mælast til þess, að því sé lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstj. og af talsmönnum meiri hl., hvaða skilning hann leggur í þetta, hvort hann fellst á þann skilning, sem virðist alveg nýr, sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, eða hvort hann skilur það eins og ég hef haldið að þetta væri skilið, að þarna væri átt við sérstaka samninga við verkfræðinga og það væri alls ekki miðað við kjarasamninga opinberra starfsmanna. Um þetta vildi ég sem sagt spyrjast fyrir hjá hæstv. ríkisstj. og frsm. meiri hl.