12.03.1963
Neðri deild: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 695 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Sökum þess að ég var ekki hér viðstaddur, þegar 2. umr. málsins fór fram, en hef síðan kynnt mér það, hvernig umr. féllu, þótti mér vert við þessa umr. að láta það koma fram, að ég hef í landbn. svo og hér í d, stutt þetta frv. og skrifað undir nál. um það ásamt með fulltrúum bæði Alþfl. og Sjálfstfl. í landbn. Hins vegar hef ég tjáð mig sammála þeim brtt., sem hv. fulltrúi Framsfl., hv. 2. þm. Sunnl., hefur fram borið við frv., en hann hefur þeirra vegna gefið út sérstakt nál. í landbn. um þetta mál, þar sem hann þó tjáir sig vera samþykkan frv. sem slíku. Ég vil taka það sérstaklega fram, að aðalefni þessa frv. er aukin fyrirgreiðsla fyrir minnstu búin til ræktunar og einnig aukin fyrirgreiðsla til bygginga.

Þegar l. um stofnlánadeild landbúnaðarins voru sett hér á þinginu í fyrravetur, bar ég fram við stjfrv. ýmsar brtt. og taldi þá ekki hvað veigaminnsta þá till., að ég lagði til ásamt hv. 2. þm. Sunnl., að einmitt þær breyt., sem eru meginuppistaðan í þessu frv., yrðu þá gerðar. Hæstv. landbrh. lagði að vísu til þá, að þessar till. væru felldar, en viðurkenndi réttmæti þeirra og nauðsyn og hét því, að sú hlið málsins yrði skoðuð, þótt á öðru stigi væri. Og ég tel, að þetta frv. sé fyrst og fremst efndir af hans hálfu á þeirri undirtekt, sem hann þá hafði við þá tilt. mína og 2. þm. Sunnl, um að hækka styrkinn til jarðræktar á smæstu jörðunum með sérstökum styrk allt upp í 15 ha. túnstærð. Af þessum ástæðum tel ég mér skylt og sjálfsagt að fagna því, að þetta frv. er fram komið, og einnig að tjá samþykki mitt við samþykkt þess, enda hef ég skrifað undir nál., sem í þá átt fer. Hitt er annað mál, að ég teldi æskilegt, að lengra hefði verið hægt að ganga í þeim efnum, en læt það að sjálfsögðu ekki ráða úrslitum um stuðning minn við frv. sem slíkt.