04.04.1963
Efri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (583)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég get ómögulega látið vera að víkja örfáum orðum að einni staðhæfingu hjá hæstv. ráðh., þ.e. hinu svokallaða björgunarstarfi, sem hann og hans ríkisstj. hefur unnið í þágu landbúnaðarins í landinu. Hann varð allfjölorður um það áðan, þetta björgunarstarf. Það byrjaði, þegar ríkisstj. þessi kom til valda, og hún hefur haldið sleitulaust áfram með miklu meiri árangri en hún gerði sér vonir um, þegar hún byrjaði, og þess vegna sé nú betur búið að bændastéttinni í landinu en áður hefur verið. Ég ætla mér ekki að fara út í marga hluti af þessu tagi, en drepa hér aðeins á það, sem hann sagði um lánin og styrkina til bygginga hjá bændum. Hann sagði það réttilega, að lánin til íbúðarhúsa hefðu verið hækkuð úr 75 þús. í 150 þús. kr. og styrkur til íbúðarhúsbygginga hefði verið hækkaður úr 25 í 50 þús. kr. Ekki get ég fengið út úr þessu nema 100 þús. kr. hækkun, ef ég legg þetta saman.

En þá er að gera sér grein fyrir því, hvernig björgunarstarfið tókst að öðru leyti, og þá fyrst og fremst, hvernig byggingarkostnaðurinn hefur reynzt þessi undanfarin ár og hvernig hann er núna, borið saman við það, sem var fyrir 4 árum. Hæstv: ráðh. drap á þetta sjálfur. Mig minnir, að hann nefndi eitthvað 44% hækkun byggingarkostnaðarins. Þó vil ég ekki alveg ábyrgjast, að ég hafi tekið rétt eftir. (Landbrh.: Það mun vera nálægt áætlun.) Ég held, að hún sé ekki svona mikil, en jæja, látum það nú vera. En hvernig lítur dæmið út. ef þetta væri svona? Um þetta þarf ekki að deila ákaflega mikið. því að hagstofan birtir opinberlega skýrslur yfir þennan byggingarkostnað, og hún birtir þær þrisvar sinnum á ári, og byggingarkostnaður bændanna getur ekki hækkað minna en byggingarkostnaður í bæjunum. Ég hefði haldið, að tiltölulega væri dýrara fyrir bóndann að byggja sér íbúðarhús en aðra, vegna flutningskostnaðar sérstaklega.

Við skulum hugsa okkur, að bóndinn byggi bara nákvæmlega jafnstórt og menn byggja yfir sig í bæjum og auðvitað jafngóð hús, vegna þess að ég ætlast ekkí til, að bændur búi í lakari húsum en við búum í hér. Þessar byggingarvísitölur voru þannig, að í febrúar 1959, fyrir 4 árum, var vísitalan um 133, eða rúmmetrinn 1233.10 kr. Þetta þýðir það, að 400 rúmmetra íbúð, — en þær upplýsingar hef ég fengið frá Efnahagsstofnun ríkisstj., að meðalstærð íbúða í sveitum sé rúmlega 400 rúmmetrar, eða nokkru meira en í bæjum og er það skiljanlegt, — að slíkt hús ætti að hafa kostað um 493 þús. fyrir 4 árum, en byggingarvísitalan í febrúar s.l. var samkv. skýrslum hagstofunnar 182, eða rúmmetrinn 1689,16 kr. En þá kostar líka þessi 400 rúmmetra íbúð 675 þús. kr. og hefur hækkað á þessum 4 árum um 182 þús. kr. Þetta er íbúðarhús bóndans.

Þá kem ég að útihúsunum. Samkv. upplýsingum frá teiknistofu landbúnaðarins kostar að meðaltali eftir reynslunni, sem fengizt hefur, um 22 þús. kr. að byggja yfir kúna, þ.e. fjósið, hús yfir fóður, áburð o.þ.h., — það kostar því bónda, sem ætlar sér að byggja fjós yfir 20 kýr, núna um 440 þús. kr. En byggingarvísitalan gildir þar líka, og þetta fjós hefði verið 120 þús. kr. ódýrara fyrir 4 árum.

Þá kem ég að þriðja liðnum. Það eru landbúnaðarvélarnar. Samkv. áliti Stéttarsambands bænda munu landbúnaðarvélar á meðalbú kosta nú kringum 250 þús. kr., en þar er hækkunin a.m.k. upp undir helming, eða um 125 þús. Þegar maður leggur þessa hækkunarliði saman hjá bóndanum og sleppir allri ræktuninni, allri hækkuninni á ræktuninni, og hækkuninni á bústofninum, þá eru þessar hækkanir hjá bónda, sem þarf að byggja yfir sig íbúð, byggja fjós yfir 20 kýr með tilheyrandi hlöðu og áburðarhúsi o.fl. og þarf að kaupa landbúnaðarvélarnar, yfir 400 þús. kr. En á mótí þessu kemur það, sem hæstv. ráðh. taldi réttilega fram, 25 þús. kr. hækkun á styrknum og um 75 þús. kr. hækkun á lánum. Og þó að við drögum þetta frá, þá er samt 320 þús. kr. hækkun eftir. Og svo segir hæstv. ráðh., að hann og hans ríkisstj. hafi verið að bjarga bændunum núna undanfarin ár og björgunarstarfið hafi tekizt miklu betur en þeir hafi gert sér vonir um. Hvað gerðu þeir sér þá vonir um?

Hæstv. ráðh. talaði um það í ræðu sinni hér áðan, að við stjórnarandstæðingar hefðum spáð atvinnuleysi. Ég held, að ég hafi talað um, að það gæti svo farið, að aukavinna fólksins minnkaði, þegar dýrtíðin ykist, eins og hún hefur nú gert, og horfur væru á, að aukavinnan gæti þá minnkað og fólk tapaði henni. Nú segir hæstv. ráðh. og er glaður og það er gott, að aldrei hafi verið meiri atvinna í landinu en núna. Þetta er rétt hjá hæstv. ráðh. Hún hefur aldrei verið meiri. Og hvernig stendur á þessu? Það stendur þannig á því, að það hefur fiskazt meir. Það hefur fiskazt svo miklu meir en áður, að á árinu, sem var að líða, var aflamagn landsmanna 768 þús. tonn, en var ekki nema 505 þús. tonn 1958. Viðbótin ein á aflamagninu þetta eina ár, miðað við 1958, eru 263 þús. tonn, eða 52% meira aflamagn en þá var. Og þessi afli er svo mikill, að hann er meiri en tveggja ára afli var fyrir 8 árum. Aflamagnið árið 1961 er um 127 þús. tonnum meira en það var 1958. Það er ekki að undra, þótt það sé atvinna hérna í landinu.

En þá kem ég að því, sem ég vildi gjarnan spyrja hæstv, ráðh.: Er þetta viðreisninni að þakka? Kom hún með aflann á land? Mikil dæmalaus ríkisstj. er það, sem getur komið með fiskinn svona á land. Og ef hæstv. ríkisstj. getur sýnt okkur fram á það, að þetta sé á valdi hennar, þá mundi ég vera tilleiðanlegur til að kjósa hana. En það gerðist hlutur 1958, sem hæstv. ráðh. og hans flokkur átti ekki ýkjamikinn hlut að. Það var stækkun landhelginnar. Og þar liggur ástæðan fyrst og fremst fyrir því, hversu aflamagnið hefur orðið mikið hér við land á næstu árum á eftir. En hvernig væri ástatt hérna í landinu, ef fiskaflinn í fyrra hefði verið eins og hann var fyrir 4 árum, og var þó talið gott aflaár þá?

Ég vil ekki teygja tímann lengur, því að mér skildist á hæstv. ráðh., að hann vildi ljúka umr. núna. En ég get ekki látið hjá líða, áður en ég hætti, að minna á það, að ekki er grundvaliarverð landbúnaðarins þannig úr garði gert, að neinn gróði geti verið af meðalbúinu í landinu. En þar ætla ég ekkert að sakast við hæstv. ráðh., hann hefur ekki gert verðlagningu landbúnaðarins á s.l. hausti, það skal ég taka fram. En þannig er nú verðlagsgrundvöllurinn t.d., — ég nefni aðeins örfátt, að öll útihús bóndans eru talin á 164 þús. kr. Þetta er nú allt fjármagnið, sem á að liggja í útihúsunum, og fyrningin reiknuð eftir því. Allar landbúnaðarvélar bóndans, sem hann á að nota, eru 65 þús. kr. — það er hálfur traktor — og fyrningin reiknuð eftir því. Allar skuldir bóndans, bæði við ræktunarsjóð og aðrar stofnanir, eru taldar 102 þús., ekki einu sinni þessi 150, sem á að lána núna, og vextirnir reiknaðir eftir því. En í ofanálag kemur það, að reiknaðir eru 4% vextir af ræktunarlánunum, þó að þeir séu núna 61/2 % og séu búnir að vera árum saman. Svona er þetta reiknað út. Skyldi bóndinn vera of sæll af útreikningi verðlagsins hjá sér? En ég skal endurtaka það, að ég er ekki að saka hæstv. ráðh. neitt í þessu sambandi.