14.03.1963
Efri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 725 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

172. mál, byggingasjóður aldraðs fólks

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Vestf. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið varðandi happdrætti dvalarheimilis aldraðra sjómanna, sem ég gerði fsp. um. Ég vona, að það sé rétt eftir tekið hjá mér, að heildartekjur af happdrættinu þangað til á miðju árinu 1962 hafi frá upphafi verið 29 millj. kr. rúmlega og byggingarkostnaður sé tæpar 35 millj. kr. Aðrar tekjur skilst mér að hafi verið núna síðustu árin einhver hagnaður af bíói og margvíslegar gjafir, sem dvalarheimilinu eða stjórn sjómannadagsins hafa borizt með ýmsum hætti. Er þá ekki annað sýnilegt en fjárhagsgrundvöllur bygginganna hvíli á mjög sterkum grunni, og skilst mér, að sá fjárhagur út af fyrir sig eigi verulega að geta létt þeim dvölina, sem þarna dveljast, þar sem ekki þarf að taka sérstakt tillit til vaxtagreiðslna né annars af skuldum, sem þurft hefur að grípa til vegna framkvæmdanna.