15.10.1962
Efri deild: 3. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 61 í B-deild Alþingistíðinda. (63)

2. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það lægi eiginlega mjög nærri fyrir þá, sem hlýddu á ræðu hv. þm., að álíta sem svo, að þetta frv. fjallaði eingöngu um syndir og yfirsjónir núv. ríkisstj. og framlengingu á sköttum og gjöldum, sem hún hafi fundið upp og á lagt. Nú liggur málið hins vegar þannig fyrir, að þetta frv. fjallar fyrst og fremst um það að framlengja skatta og skattaviðauka frá fjármálaráðherratíð núv. formanns Framsfl. Það er meginefni frv. Ég skal viðurkenna, að mér er það heldur óljúft verk að þurfa að leggja til að framlengja þetta allt saman, en það er þó nokkur huggun harmi gegn, að við eigum von á nýrri tollskrá bráðlega, sem mun gera það kleift að losna við mikið af þessu, sem hér er lagt til að framlengja.

Það er eitt atriði, sem hv. þm. gerði sérstaklega að umtalsefni, og það er 8% söluskattur á innflutningi. Vegna ummæla, sem fallið hafa, ekki sérstaklega hjá honum, en hjá ýmsum öðrum stjórnarandstæðingum í sambandi við það mál, mætti ætla, að hér væri um sérstaklega ranglátan skatt að ræða, sem legðist þyngra á landsfólkið en yfirleitt aðrir skattar eða tollar. Nú er það þannig, að innflutningssöluskattur var hér fyrst á lagður fyrir 14 árum, 1948, og hefur verið hér í gildi síðan og var 7%, þegar síðustu stjórnarskipti urðu. Það, sem gerðist með þessum viðbótarsöluskatti, var ekki að breyta á neinn hátt grundvelli hans eða því, á hvaða vörur hann legðist, heldur var það hækkun á prósentunni. Þetta er rétt að taka fram, vegna þess að ummæli ýmissa hv. stjórnarandstæðinga hafa gefið tilefni til algers misskilnings um þetta efni. Að eðli til er innflutningssöluskatturinn, sem hér er um að ræða, þessi 8%, alveg eins og sá, sem áður hafði verið í gildi og er enn. Hitt er svo rétt, að þegar núv. stjórnarflokkar tóku við, var þessi innflutningssöluskattur 7%„ en síðan var á lagður 8% skattur til viðbótar.

Nú er það meginefni máls hv. þm., að hér hafi verið brugðizt fyrirheitum um, að þessi skattur skyldi aðeins gilda fyrir árið 1960. Í þessari hv. d. hefur þetta mál verið margrakið áður og þessi fullyrðing marghrakin. En vegna tilefnis frá hv. þm. er rétt að segja þessa sögu eins og hún gekk fyrir sig, en ekki þá lituðu og villandi útgáfu, sem Framsfl. telur sér henta að gefa út af þessari sögu ár eftir ár.

Í fyrsta lagi er vitnað í ummæli í grg. fjárlagafrv. fyrir 1960, þar sem segir á þá leið, að ekki sé áformað að hækka aðflutningsgjöld eða innflutningssöluskatt. Þetta er rétt, það stendur í frv. Það er líka rétt, sem þar stendur. Þegar fjárlagafrv. var samið um áramótin 1959–60, var ekki áformað að hækka aðflutningsgjöldin, heldur var þá áformað að ná þeim tekjum til handa ríkissjóði, sem á vantaði til að brúa bilið milli tekna og gjalda, með almennum söluskatti, smásöluskatti. Tillögum um hann og undirbúningi að þeim smásöluskatti var ekki lokið, þegar fjárlagafrv. var samið og frá því gengið og grg. þess. Þegar þeim undirbúningi var langt komið eða næstum lokið, kom í ljós, að sá smásöluskattur mundi þurfa að vera væntanlega um 5% í stað þeirra 3%, sem ákveðin voru, til að ná þessum tekjum, í öðru lagi þyrfti hann að ná til miklu fleiri vörutegunda en niðurstaðan varð að lokum, og í þriðja lagi, að ekki var unnt að lögfesta þennan smásöluskatt fyrr en þriðjungur ársins var liðinn.

M.ö.o.: þegar þetta þrennt kom saman, að ekki var talið af ríkisstj. og stjórnarflokksnum rétt að hafa þennan skatt hærri en 3%„ að talið var í öðru lagi réttmætt og nauðsynlegt að undanþiggja ýmislegt þessum smásöluskatti t.d. mannvirkjagerð í landinu, og í þriðja lagi, að hann mundi ná aðeins til þriggja ársfjórðunga ársins, var ljóst, að það þurfti að ná meiri tekjum til að brúa þetta bil. Þess vegna var valinn þessi 8% innflutningssöluskattur.

Þar sem allt tolla- og skattakerfi landsins var þá í endurskoðun og hefur verið síðan meira og minna, þætti að sjálfsögðu ekki ástæða til að lögfesta þennan 8 % innflutningssöluskatt til nokkurrar frambúðar. Þar sem öll þessi mál voru til gagngerrar endurskoðunar og eins ríkisfjármátin yfirleitt, þótti að sjálfsögðu rétt að ákveða þessum 8%, skatti aðeins tímabundið gilti. Síðan yrði að sjá til, hverjar yrðu tekjuþarfir ríkisins og hverjar yrðu þær breytingar, sem rétt þætti að gera á tolla- og skattalöggjöfinni. Þó að þessum 8% skatti væri valið heitið bráðabirgðasöluskattur, þá er það ekkert nýmæli, eins og við höfum fjölda dæma um frá undanförnum áratugum, að skattar og gjöld hafi verið framlengd frá ári til árs, eins og þetta frv., sem hér liggur fyrir, sýnir einna gleggst, en sams konar frv. og þetta í meginatriðum hefur verið samþykkt hér nú þing eftir þing.

Það kom strax fram í umr. hér á þingi, að stjórnarandstæðingar vildu fá svör við því, hvort það væri ekki loforð um frá ríkisstj. að fella niður þennan skatt í árslok 1960. Og hv. stjórnarandstæðingar fengu skýr svör við því. Ég svaraði því í báðum deildum, að því færi fjarri, að nokkur loforð eða fyrirheit væri unnt að gefa um það, hvort þessi skattur yrði framlengdur eða ekki. Þegar fjárlög fyrir næsta ár, fyrir 1961, yrðu samin og þegar lengra væri komið endurskoðun skatta- og tollalöggjafar, væri hægt að segja eitthvað um þetta, en á því stigi útilokað.

M.ö.o.: þegar því er haldið fram, að fyrirheit hafi verið gefin um að framlengja ekki þennan skatt fram yfir árslok 1960, þá er það rangt og hefur engan stuðning í veruleikanum, því að hér liggja fyrir á Alþingi glöggar og skýrar yfirlýsingar frá minni hendi um það, að engin slík fyrirheit komi til greina, það verði allt að miðast við þá endurskoðun, sem þá stóð yfir, og fara eftir því, hvernig gengi að koma saman fjárlögum fyrir næsta og næstu ár.

Það er svo rétt að bæta því við, að þegar því er nú slegið föstu í ræðum stjórnarandstæðinga, að sú spá þeirra hafi rætzt, að þessi 8% söluskattur mundi verða til frambúðar, þá er þessi staðhæfing líka röng. Það liggur fyrir og hefur verið lýst hér yfir, að þessi 8% söluskattur verður ekki í gildi stundinni lengur en þangað til nýja tollskráin tekur gildi. Þessi skattur hefur verið framlengdur fyrir árið 1961 og 1962. Ef okkur tekst að semja nýja tollskrá og láta hana öðlast gildi um næstu áramót, þá er þessi 8% söluskattur þar með niður fallinn. Og hann gildir og mun ekki gilda lengur en þangað til hún nær gildi, og er því sú staðhæfing ekki rétt, að þessi skattur skuli gilda til frambúðar.

Ég mun svo ekki í sambandi við þetta frv. hefja almennar umr. um stjórnarstefnuna, en hv. þm. taldi, að stjórnarstefnan væri röng. Að sjálfsögðu erum við reiðubúnir til viðræðna við hann og aðra stjórnarandstæðinga um stjórnarstefnuna og hvort muni hagkvæmari fyrir land og lýð sú efnahags- og fjármálastefna, er hér hefur verið nú undanfarin 21/2 ár, eða sú niðurrifs- og skemmdarstarfsemi, sem stjórnarandstæðingar hafa haft í frammi. Til þess gefast mörg tækifæri síðar á þessu þingi.