08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

54. mál, lyfsölulög

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. heilbr-.og félmn. hefur haft þetta frv. alllengi hjá sér. Ég hef, eins og nál. ber með sér, skrifað undir meðmæli með frv., en þó með fyrirvara, og fyrirvari minn byggðist á því, að ég vil gera nokkrar breyt. á 7. gr. þess og einnig g 9. gr. í samræmi við breytingarnar á 7. gr. Og breyt. þessar eru í því fólgnar að taka upp það, sem gilt hefur, að félög megi reka lyfjabúðir, en sá réttur gefist ekki aðeins einstaklingum. Hv. 9. þm. Reykv., sem talaði hér áðan, hefur mælt eindregið með efni minna till. Þó vil ég bæta við nokkrum orðum.

7. gr., sem ég vil fá breyt. á, mælir svo fyrir, að leyfi til að reka lyfjabúð verði aðeins veitt einstaklingum. Ég tel þetta næsta fráleitt, að ekki megi hafa félag um slíkan rekstur, enda eru í landinu reknar tvær lyfjabúðir af samvinnufélögum, og það hefur gefizt vel. Það er furðulegt, að í okkar félagsþróaða þjóðfélagi skuli einstaklingshyggja gerast svo ráðrík eins og á sér stað í þessu frv. Mér virðist þetta vera tákn nýrra tíma eða a.m.k. tákn stefnu, sem er að ryðja sér til rúms og hefur tekizt að gera sig gildandi í þessu frv., að því er þetta snertir.

Þetta er stjórnarfrv., — og hvar var þá félagshyggja Alþfl. stödd, sú gamla félagshyggja hans, þegar frv. var undirbúið? Og hvar var hún, þegar frv. var afgr. í hv. Nd.? Hún skyldi þó aldrei hafa verið í vasa Sjálfstfl.? Ég vil, að leyfi til að reka lyfjabúð megi veita ekki aðeins einstaklingum, heldur einnig sveitarfélögum, sjúkrasamlögum, félögum almennings öðrum, svo og Háskóla Íslands. Þegar ég segi félögum, þá á ég ekki aðeins við samvinnufélög, sem þegar hafa sýnt, að þeim getur farið svona rekstur vel úr hendi, heldur líka hlutafélög. Ég fel hv. stjórnarstuðningsmönnum að athuga það. Hér gætu að sjálfsögðu hlutafélög komið til greina, jafnvel fjölskylduhlutafélög. Á nú að loka úti það blessaða form? Mikið skal til mikils vinna. Vel getur svo til hagað í fámenni — og sérstaklega í fámenni, að eitt sveitarfélag eða fleiri sveitarfélög í félagi vilji ráðast í að reka lyfjabúð, af því að einstaklingur fáist ekki til þess. Sama getur átt sér stað um sjúkrasamlög á slíkum stöðum. Það eru mörg mál hér á Alþ. í löggjöf, er gilda á fyrir landið allt, þar sem taka þarf tillit til þess, að hið sama á ekki við í þéttbýlinu og í dreifbýlinu. Þetta er eitt slíkt löggjafaratriði. Nógir einstaklingar fást sjálfsagt til að reka lyfjabúðir á þéttbýlustu og margmennustu stöðunum. Það hefur þótt gróðavænlegt að reka slíkar lyfjabúðir. Allt öðru máli gegnir með fámennisstaði. Þar kann fólkið sjálft að þurfa að taka á sig vonleysið um gróða af svona rekstri, því að í fámenninu er gróðavonin ekki mikil. Það á alls ekki að meina fólkinu sjálfu að bæta sína nauðsyn með félagsrekstri lyfjabúðar. Vel getur líka átt sér stað, að t.d. kaupfélag eða annars konar verzlunarfélag geti gert lyfjasölu að einum þætti í starfsemi sinni og gert hana fólkinu ódýrari en einstaklingar á þeim stöðum. Má það ekki eiga sér stað? Ég spyr: Í aths. er færð sem ástæða gegn félagsreknum lyfjabúðum, að stéttarsamtök lyfsala og lyfjafræðinga séu á móti því. Merkilegt, að slíkt skuli vera! Furðar nokkurn á því, þó að t.d. kaupmenn mæli ekki yfirleitt með stofnun kaupfélaga? Skyldi nokkurn furða á því? Og vill í raun og veru nokkur annar en kaupmennirnir sjálfir taka tillit til slíkrar afstöðu?

Þessar till., sem ég flyt, voru bornar fram í hv. Nd. af flokksbróður mínum þar, og þær voru felldar af stjórnarflokkunum. Mér finnst það bæði broslegt og gremjulegt í senn; þegar menn gerast svo samgrónir, elta svo ákaft flokksforustu sína, að þeir muna ekki einu sinni í svona máli, hvaðan þeir eru, muna ekki eftír dreifbýlisástæðum, þó að þeir séu þar uppaldir og eigi þar jafnvel heima enn.

Ég þarf varla að minna á það, að frv. mælir svo fyrir, að þegar veita skuli lyfsöluleyfi, skuli það opinberlega auglýst til umsóknar. Umsóknarrétturinn á ekki að vera einangraður. Enn fremur, að samkv. till. mínum á forstöðumaður félagsrekinna lyfjabúða að fullnægja öllum þeim kröfum, sem frv. gerir til einstaklinga, sem fá lyfsöluleyfi, um þekkingu og annað. Frv. ætlast til, áður en leyfið er veitt, svo sem vera ber, að allar ástæður séu rækilega athugaðar, aðstaða til sölunnar og hæfni forstöðumanns metnar. Enn fremur gerir frv. ráð fyrir því, að strangt eftirlit sé með störfum lyfsölu. Að því er þetta snertir á vitanlega í engu til að slaka gagnvart félagsreknum lyfjabúðum frekar en einstaklingum. Með þeim er því í engu farið út á hálli ísa en með einstaklingslyfjabúðir.

Í frv. er ekki beinlínis ákveðið að svipta samvinnufélögin á Akureyri og Selfossi þeim leyfum, sem þau hafa til að reka lyfjabúðir þar, enda hefur ekki heyrzt annað en þau reki lyfjabúðir sínar með sóma. Hins vegar lítur út fyrir, eftir því sem frv. er uppbyggt og orðað, að löggjafinn eigi að skyrpa í lófana og setja sig í stellingar til slíkra athafna, því að 3. mgr. 9. gr. frv. hefst svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samvinnufélög þau, er öðlazt hafa leyfi til að reka lyfjabúð fyrir gildistöku l. þessara, haldi leyfi sínu í 25 ár frá gildistöku þeirra. Framlengja má leyfið til 25 ára í senn, enda mæli landlæknir með umsókn.“

Ekkert slíkt á að gilda gagnvart einstaklingum. Hvers vegna á að hafa þessa aukavarúð gagnvart samvinnufélögum sem leyfishöfum? Hafa þau unnið til þess, að leyfin, sem þau hafa fengið, séu af þeim tekin, þó að þau hafi ekki áður verið tímabundin? Er það eðlilegt, að þau séu þannig allt í einu takmörkuð við 25 ár? Hafa þessi félög í einhverju gerzt tortryggileg? Ég spyr. Ákvæði 1.1, gr. frv. um niðurfellingu leyfis hljóta að nægja gagnvart félögum eins og öðrum leyfishöfum. Ég fyrir mitt leyti kann ekki við svona lagasetningu. Ég sé ekki betur en þannig sé í 9. gr., eins og hún er orðuð, hafður kuti í erminni gagnvart þessum samvinnufélögum.

Till., sem ég flyt, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„1) Við 7. gr. 1. mgr. orðist svo: Leyfi til að reka lyfjabúð (lyfsöluleyfi) má veita einstaklingum, sveitarfélögum, sjúkrasamlögum, félögum svo og Háskóla Íslands. Leyfishafa er skylt að hlíta ákvæðum laga og stjórnvaldsreglna, svo sem þau eru á hverjum tíma, um réttarstöðu hans og starfshætti, þ. á m. um búnað, fyrirkomulag og rekstur lyfjabúða.

2) Við 9. gr.

a) 3. málsl. næstsíðustu mgr. orðist svo: Forstöðumaður félagsrekinna lyfjabúða skal fullnægja ákvæðum 1. mgr. (tölul. 1– 6), og ber að auglýsa stöðu hans samkv. ákvæðum 7. gr., og skal ráðh. samþykkja ráðningu hans að fenginni umsögn samkv. 3. mgr. 7. gr.

b) Síðasta mgr. gr. orðist svo: Áður en leyfisbréf er afhent, ber lyfsala að undirrita heit um, að hann muni rækja störf sín af kostgæfni og samvizkusemi og í samræmi við landslög. Gildir þetta einnig um forstöðumann lyfjabúðar, sem rekin er af sveitarfélagi, sjúkrasamlagi, félagi eða af Háskóla Íslands, svo og um forstöðumann lyfjaútibús, sbr. 43. gr., og forstöðumann lyfjagerðar, sbr. 13. gr. Ráðh. ákveður form ofangreindrar yfirlýsingar.“

Þó að þessar till. væru fluttar í hv. Nd. og felldar þar, flyt ég þær hér í hv. Ed., og skal með því prófað í máli þessu, hvort Ed. ber ekki nafn sitt með réttu, þ.e.a.s. Ed.-nafnið.

Þegar mál þetta var síðast á dagskrá hér til 2. umr., komu fram brtt. frá minni hl. heilbr.- og félmn., Alfreð Gíslasyni lækni. Þessar brtt. eru á þskj. 537, og hann hefur nú lýst þeim í ræðu sinni hér áðan. Þetta eru 12 till. í 14 undirliðum. Þessar till, höfðu ekki mér vitanlega verið til umr. í hv. heilbr.- og félmn. Nú skilst mér, að málum sé vísað til n., til þess að þau séu þar athuguð og n. skili álíti um þær till., sem þar koma fram, og málið í heild. Ég beitti mér fyrir því, þegar málið var á dagskrá síðast og till. komu fram, að það var tekið út af dagskrá, og ég vænti þess, að n. mundi taka þessar mörgu og umræðuverðu till. á þskj. 537 til athugunar. Það hefur mér vitanlega ekki verið gert, eða ég hef ekki fengið fundarboð til að mæta á slíkum fundi. Mér virðist þess vegna, að n. hafi vanrækt það, sem ætlazt er til að hún geri í þessu sambandi. Málið er flókið nokkuð í ýmsum atriðum fyrir leikmenn. Það er ekki flókið að því er snertir þau atriði, sem ég hef flutt brtt. um. Þar þarf ekki fræðimenn til að taka afstöðu, heldur aðeins menn, sem eru frjálslyndir og sæmilega velviljaðir almenningi og félagsskap hans. En ýmsar þessar till. á þskj. 537 eru efnislega þannig, að þær eru á því sviði, sem fræðimennsku þarf nokkra til að bera. Nú vili svo vel til, að það eru tveir læknar í hv. heilbr-.og félmn., og mér finnst þess vegna sérstaklega ámælisvert, að málið skuli ekki hafa verið rætt þar. Ég verð að finna að þessu og lýsi því yfir, að frá því sjónarmiði hefur n. vanrækt sín störf í þessu efni. Hún fékk tækifæri til þess, með því að málið var tekið út af dagskrá, að halda fund um það. Hún hefur ekki gert það. Ég veit ekki, hvort það er formanni að kenna eða öðrum í n. Sennilega á formaður í þessu efni að hafa forgöngu.

Ég leyfi mér að óska þess, að úr þessu sé bætt. Mér sýnist, að þó að stutt sé orðið til þingslita, þá hafi þetta mál nægan tíma til að komast í höfn, ef menn á annað borð vilja, að það sé afgreitt, þó að það sé eitthvað betur athugað í þessari n. Og áður en n. hefur tekið þessar till. til athugunar, ætla ég ekki að ræða þær. Að sjálfsögðu er ég samþykkur þeirri till. á þskj. 537, sem snertir þau málsatriði, sem ég hef gert brtt. við, svo samhljóða eru till. hv. fim. þessara brtt. mínum till., og ég er honum þakklátur fyrir að flytja slíkar till. og þakklátur fyrir þau ummæli, sem hann hafði um mínar till. áðan.