09.05.1964
Efri deild: 86. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1419 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. frsm. minni hl., hv. 3. þm. Norðurl, v., hefur nú flutt hér langa ræðu um þetta mál og dregið fram ýmis atriði, sem hann telur þeim brbl. til foráttu. Hann hefur lýst því, að þessi lög væru gölluð, telur þau mjög gölluð, og hann hefur talað um það í undrunartón, að þeim skuli hafa verið breytt í hv. Nd. og að meiri hl. n. í þessari hv. d. leggur til að breyta þeim enn nokkuð. Það út af fyrir sig er ekkert undrunarefni, þótt brbl. sé breytt í meðferð Alþingis. Það hefur oft verið gert, og þær breytingar, sem hafa verið gerðar á þessum l. og fyrirhugað er að gera á þessum I., eru gerðar í samráði við ríkisstj.

Hv. þm., 3. þm. Norðurl. v., lætur sér mjög annt um verkfræðingana, og það út af fyrir sig er ágætt. Það má vel vera, að hv. þm. ætli það, að mér sé ekki mjög annt um íslenzka verkfræðinga, þar sem ég hef staðið að útgáfu þessara l., og ég ætla nú ekki að fara að metast um það við hv. þm., hvor okkar það er, sem ber hag verkfræðinganna meira fyrir brjósti. Hv. frsm. minni hl. talaði um það, að þessi lög mundu e.t.v. verða þess valdandi, að verkfræðingar flyttu úr landi meira en áður, mundu flæmast úr landi vegna harðýðgi stjórnarvaldanna, vegna skilningsleysis stjórnarvaldanna, vegna þess að stjórnarvöldin vilji níðast á þessum stéttum. Þetta er mikill misskilningur. Ríkisstj. vill ekki níðast á þessari stétt. Ríkisstj. veit vel, að það er ekki hægt á Íslandi að vera án verkfræðinganna, og ríkisstj. veit, að það er ekkí gagn að því fyrir íslenzka verkfræðinga að hafa sett gjaldskrá, háa gjaldskrá, að mega taka hátt kaup, nema verkefni séu fyrir hendi til þess að vinna að í landinu, og verkefni til þess að vinna að í landinu verður því aðeins, að okkar atvinnuástand og fjárhagsástand sé þannig, að við getum látið vinna að framkvæmdum. Og ég er sannfærður um það, að margir verkfræðingar, þótt þeir hafi mótmælt þessum lögum, hafa gert sér fyllilega grein fyrir því, að það var nauðsynlegt að gefa út þessi lög, eins og komið var. Forsenda þessara laga er skráð hér í frv. og því er lýst, að algert verkfall hafi staðið frá 27. júní og þangað til l. voru gefin út, 17. ágúst. Það var ekki þægilegt að hugsa til þess, að allar framkvæmdir á s.l. ári stöðvuðust, vegna þess að verkfræðingar fengust ekki til starfa.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. sagði hér áðan og taldi sig hafa góðar heimildir fyrir því, að þegar þessi lög voru gefin út, hafi í rauninni verið komið langt með að ná samningum á milli Stéttarfélags verkfræðinga og atvinnurekenda. Það er þó vitað, að sáttasemjari ríkisins hafði haldið marga sáttafundi með deiluaðilum án árangurs. Og þegar gripið var til þess að gefa út þessi lög til þess að stöðva verkfallið, er vitað, að það bar mjög mikið á milli, og ég held, að ég hafi miklu betri heimildir fyrir því en hv. 3. þm. Norðurl. v., að það vantaði mikið á, að það væri að draga til samkomulags, heldur var það svo, að það var ekki sýnt, að það næðist neitt samkomulag, og það var ekki fyrr en þá, sem gripið var til þess að gefa út brbl. til að forða vandræðum.

Ég veit, að hv. 3. þm. Norðurl. v. veit þetta og hann skilur þetta. Hv. minni hl. veit það, að á meðan ekki hafði samizt, töldu verkfræðingar vonir til þess, að það yrði samið um allmiklu hærra kaup en það, sem launakerfi ríkisins gerði ráð fyrir, til þeirra verkfræðinga, sem starfa hjá ríkinu. Af því leiddi, að ekki fengust verkfræðingar til ríkisstofnana, á meðan ekki hafði verið samið, vegna þess að allir verkfræðingar vonuðust til, að þeir gætu fengið hærra með samningum á milli atvinnurekenda og Stéttarfélagsins. Nú var hásumar og verkefnin fyrir hendi til þess að vinna að hjá vegagerð, hjá raforkumálunum, hjá vitamálunum, hjá landssímanum og fleiri opinberum stofnunum, en verkfræðingar fengust ekki til starfa. Ég er dálítið undrandi á því, að hv. 3. þm. Norðurl. v. skuli bera hér á borð aðrar eins fullyrðingar og hann var hér með og gefa það í skyn, að þessi brbl. hafi verið gefin út að ástæðulausu, gefa það jafnvel í skyn, að þau séu gefin út vegna skilningsleysis á þýðingu verkfræðingastéttarinnar í landinu og tilhneigingar til að níðast á þessari stétt. Hv. þm. reyndi ekki að gera sér grein fyrir því, hvað hefði skeð, ef þessi lög hefðu ekki verið gefin út, hvaða ástand hefði þá skapazt í landinu. Einn kallar hér fram í og segir, að það hefðu orðið samningar. Það getum við náttúrlega ekkert fullyrt um núna. Við vitum það ekki. (Gripið fram í: Það stendur í gerðardómnum.) Kannske hefðu orðið samningar mörgum mánuðum seinna, eftir að mikið tjón hefði af hlotizt, og vitanlega hefðu getað orðið samningar, hvenær sem verkfræðingar hefðu viljað semja upp á eitthvað svipað og það, sem kjaradómur ákvað verkfræðingum, sem starfa hjá ríkinu. Þá hefðu getað orðið samningar. Og ég býst nú við því, að verkfræðingarnir hefðu þreytzt eftir kannske margra, margra mánaða verkfall og þeir hefðu samið. Ég er viss um, að þeir eru það skynsamir, að þeir hefðu gert það. En við máttum ekki við því að bíða eftir því í marga mánuði og láta vertíðina alveg liða, án þess að nokkuð hefði verið gert. Ég býst við því, að fólkið úti á landsbyggðinni hefði ekki verið ánægt með það, ef engar brýr hefðu verið byggðar á s.l. sumri og ekki hefði verið unnið að vegagerð. Það hefði ekki heldur verið ánægt með það, ef ekki hefði verið hægt að leggja rafmagn út um byggðir landsins eða vinna að raforkuframkvæmdum í kauptúnum og kaupstöðum, vegna þess að verkfræðingar fengust ekki til starfa. Og það hefði verið ákaflega erfitt, hefði landssíminn þurft að stöðva alla sína starfsemi og starfrækslu vegna verkfræðingaskorts. Ég býst líka við því, að það hefði verið kvartað um það víðs vegar um land, ef það hefði þurft að stöðva allar hafnarframkvæmdir, vegna þess að verkfræðingar fengust ekki til starfa.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. talaði um það áðan, að það dytti engum í hug að setja brbl. vegna lögfræðinga, sem starfa ekki hjá ríkinu. Hann talaði um, að það væri ekki rétt að vera að fara í meting um það, hvaða starfsstéttir í þjóðfélaginu væru nauðsynlegastar. Vissulega eru lögfræðingar nauðsynlegir, og við getum ekki án þeirra verið. En lögfræðingar, sem starfa ekki hjá ríkinu, eru náttúrlega ekkert svipað því eins nauðsynlegir Ég verkfræðingar. Það gerist ekki neitt, þótt lögfræðingur neiti því að taka að sér mál fyrir einstaklinga eða fyrirtæki. Það má bara bíða, þangað til lögfræðingurinn er tilbúinn að starfa. En við Íslendingar, sem erum að byggja upp okkar land, getum ekki án verkfræðinganna verið. Við þolum það ekki, að þeir geri verkfall, og það er þess vegna, sem við settum þessi lög á s.l. sumri, til þess að fá þessa dýrmætu krafta til starfa, og það tókst.

Verkfræðingar eru það skynsamir og þeir eru það skylduræknir við sína þjóð, að þeir vitanlega hlýddu l. Eftir að þau höfðu verið sett, fólu allar framkvæmdir af stað. Verkfræðingar réðu sig hjá ríkinu til vegagerðarinnar, til landssímans, til raforkumálanna, til vitamálanna, og það varð ekki stöðvun í framkvæmdum í landinu. Stöðvuninni var forðað, og það er dálítið undarlegt, að hv. 3. þm. Norðurl. v., sem oft talar af miklum fjálgleik um nauðsyn þess að halda uppi framkvæmdum í landinu, skuli hér á hv. Alþingi gerast talsmaður fyrir því og reyna að verja það ástand, sem hefði komið upp, ef ekki hefðu verið sett þessi lög, sem hér um ræðir, og verkfall verkfræðinga hefði verið dregið á langinn mánuðum saman lengur en það var.

Hv. frsm, minni hl. ræddi um frv., eins og áður er sagt, í fyrsta lagi um gjaldskrána og viðhafði að mínu áliti ekki góð orð um þessa ágætu menn, sem voru skipaðir í gerðardóminn. Hv. þm. fullyrðir, að þeir hafi beinlínis brotið l. Er nú ekki óvarlegt að tala svona? Og er það ekki undrunarefni, að það skuli vera lagaprófessor við Háskóla Íslands, sem leyfir sér það? Ég held, að hv. þm. hafi sagt þetta án þess að hugsa, þótt hann talaði ekki sérstaklega hratt, og ég vil lesa 2. gr. frv. til upplýsinga, með leyfi hæstv. forseta, lesa seinni mgr.:

„Við setningu gjaldskrár fyrir verkfræðistörf unnin í ákvæðisvinnu og tímavinnu skal höfð hliðsjón af gjaldskrá Verkfræðingafélags Íslands frá 19, apríl 1955 og reglum, er gilt hafa um framkvæmd hennar.“

Það er sagt „hafa hliðsjón“. Það er ekki þar með sagt, að það skuli farið algerlega eftir þessari gjaldskrá, og vitanlega, þegar ákveðin er ný gjaldskrá fyrir verkfræðistörf, verður að taka það til greina, að kjaradómur úrskurðaði opinberum starfsmönnum mikið hækkuð laun 1. júlí 1963 og að gjaldskráin er alltaf sett að nokkru í samræmi við þau laun, sem ákveðin eru. Þess vegna er það, að nýja gjaldskráin hlaut að hækka mjög mikið með tilliti til þessa, einmitt vegna þess að það átti að hafa hliðsjón af gömlu gjaldskránni og síðari launabreytingum. Og þegar sett voru lög um það 1961, að gjaldskráin frá 1955 skyldi gilda, var því bætt við, að hún skyldi gilda að viðbættum lögleyfðum hækkunum, og þessar lögleyfðu hækkanir voru allmiklar, þannig að það var alls ekki unnið eftir þeim taxta, sem gjaldskráin upphaflega hafði ákveðið, heldur eftir þeim taxta og þeim breytingum, sem á höfðu orðið. Og þegar nú gerðardómurinn fer að gera nýja gjaldskrá með hliðsjón af gjaldskrá 1955 og hliðsjón af öllum þeim hækkunum, sem höfðu orðið, ekki sízt með úrskurði kjaradóms 1. júlí 1963, þá skeður það, að nýja gjaldskráin nálgast það í mörgum atriðum að vera í samræmi við þá gjaldskrá, sem Verkfræðingafélagið hafði sett, — í mörgum atriðum. (Forseti: Má ég biðja þessa góðu menn, sem eru á áheyrendapöllunum, að hafa hægt um sig.) En þeim, sem fögnuðu þessum ummælum mínum, vil ég segja það, að það var ekki í öllum atriðum, vegna þess að í sumum atriðum var þessi gjaldskrá verkfræðinganna svo öfgakennd, að það mátti finna þess dæmi, að það voru hækkanir upp á 320% , og það var vitanlega verkfræðingum ekki til sóma, hafi þeir sem félag staðið að þeim töxtum, sem þar voru. En í mörgum atriðum nálgaðist úrskurður gerðardómsins það að vera nærri því, sem verkfræðingarnir höfðu óskað, og þess vegna er nú síður ástæða fyrir Verkfræðingafélagið að una ekki þessum l. og þessum úrskurði, vegna þess að þeir hafa nú sagt það margir hverjir, a.m.k. undir fjögur augu og jafnvel í stærri hóp, að kjörin væru nú út af fyrir sig viðunandi, en þeir vilji ekki sætta sig við það, að þau hafi verið sett með lögum. Og nú stendur til að lögfesta hér breytingu, þ.e. að þessi lög gildi ekki lengur en til ársloka 1965.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. fann að því, að upphaflega hafði ekkert tímatakmark verið sett. Það má segja, að það hefði átt að gera það strax, en eins og ég sagði áðan, er það algengt, að brbl. er breytt í meðferð þingsins og lagfærðir agnúar, sem oft eru á slíku, og þessar breytingar eru gerðar með fullu samþykki og í samráði við ríkisstj., sem stóð að útgáfu þessara laga. Ég held, að þegar þetta er athugað með gjaldskrána og meðferð gerðardómsins á henni, geti hv. þm. og aðrir sannfærzt um, að það var vægast sagt óviðeigandi hjá hv. frsm. minni hl. að fara þessum orðum um gerðardóminn og gerðardómsmennina, að þeir hafi þverbrotið l., þeir hafi í rauninni brugðizt þeim trúnaði og því hlutverki, sem þeir tóku að sér að vinna. Og ég er dálítið undrandi, að einmitt þessi hv. þm. skyldi nú taka svona djúpt í árinni, vegna þess að það er ekki oft, sem hann talar þannig af sér.

Annar þáttur þessara l. er vitanlega kaupið, eins og hefur verið rætt um, og gerðardómurinn hafði hliðsjón af úrskurði kjaradóms um laun verkfræðinga, sem starfa hjá ríkinu. Og gerðardómurinn vildi vissulega líta með sanngirni á það mál og tryggja að þeir verkfræðingar, sem ekki starfa hjá ríkinu, hefðu ekki lakari kjör en þeir, sem hjá ríkinu vinna. Og gerðardómurinn metur það svo, að þeir, sem ekki vinna hjá ríkinu, þurfi að hafa 5–11% hærri laun en ríkisstarfsmenn vegna annarra hlunninda, sem ríkisstarfsmenn hafa, svo sem lífeyrissjóð og fleiri hlunnindi. Þannig er það, að verkfræðingar. sem starfa ekki hjá ríkinu, hafa nú samkv. þessum l. samkv. úrskurði gerðardóms sambærileg kjör og verkfræðingar, sem vinna hjá ríkinu. Og það var vitanlega aldrei meiningin önnur með útgáfu þessara i. en sú, að verkfræðingar, þótt þeir starfi ekki hjá ríkinu, fengju þeir ekki lakari kjör.

En setjum nú svo, að verkfræðingar hefðu verið alveg frjálsir að setja sér gjaldskrá og ákveða taxta. Hvernig hefði þá farið, hvernig ástand hefði þá skapazt í þjóðfélaginu? Er það nú ekki alveg ljóst, — og ég veit, að verkfræðingar gera sér þetta ljóst, ef þeir vilja hugsa um það, — setjum svo, að þeir verkfræðingar, sem ekki vinna hjá ríkinu, hefðu getað ákveðið sinn taxta sjálfir með gjaldskrá og það kaup, sem þeir vilja hafa. Hefðu þá verkfræðingar, sem starfa hjá ríkinu, sætt sig við það að vera miklu lægra settir? Hefðu aðrir, sem hafa hliðstæða menntun, sætt sig við það? Ég held, að við þurfum ekki að vera í neinum vafa um, að það hefðu þeir ekki gert, og afleiðingin er þá sú, að launakerfið hefði farið úr skorðum, og við hefðum ákaflega lítil verkefni haft fyrir okkar ágætu verkfræðinga, eftir að það hefði skeð.

Við höfum séð fram á það, að hér lægi við stöðvun, við höfum séð fram á það. En sem betur fer, er það ekki þannig nú, vegna þess að nú er uppbyggingin meiri en nokkru sinni áður, og verkefni fyrir verkfræðingana er vissulega nógu mikið nú, og þess vegna vil ég vona, að verkfræðingar uni hlut sínum hér heima og meti það nokkurs að geta helgað fósturjörðinni krafta sína. Og ég held, að verkfræðingar með sinni menntun og þeirri aðstöðu, sem þeir hafa, þurfi ekkert að óttast það, að þeir verði knésettir eða þannig að þeim þrengt, að þeir þurfi að kvíða framtiðinni, það er algerlega ástæðulaust fyrir þá, því að ef einhverjir ætluðu að níðast á þeim, mundi sú tilraun ábyggilega misheppnast.

Sú lagasetning, sem hér um ræðir, vitanlega misheppnast ekki, vegna þess að hún er ekki tilraun til þess að níðast á stéttinni. Hún er ekki tilraun til annars en að forða því, að launakerfið fari úr skorðum, og við getum haldið áfram að starfa, við getum haldið áfram að nema hálfnumið land og byggja upp það, sem við efgum ógert. Og til þess að það megi takast, þurfum við að hafa samvinnu og samstarf við verkfræðingana, og ég er alveg sannfærður um, að það verða ekki verkfræðingarnir, sem bregðast.

Ég vil minna á, að það hefur komið fyrir áður, að gerðardómur hefur verið settur, og það eru í rauninni ákaflega fáir í þessu þjóðfélagi í dag, sem geta ráðið því, hvaða laun þeir taka, — ég segi: fáir, ef bara nokkur. Opinberir starfsmenn búa við kjaradóm. Það er kjaradómur, sem ákveður laun og kjör opinberra starfsmanna. Opinberir starfsmenn óskuðu eftír og gerðu kröfur til að fá 15% kauphækkun í vetur. Kjaradómur úrskurðaði, að þeir skyldu enga kauphækkun fá. Af hverju? Af því að kjaradómur taldi, að opinberum starfsmönnum bæri það ekki borið saman við það, sem aðrar stéttir hafa, og kjaradómur taldi, að eins og stæði væri ekki grundvöllur fyrir kauphækkun. Þjóðarbúið hefði ekki efni á því að hækka kaup meira en orðið er að svo stöddu, og það mundi raska samræmi og jafnvægi, ef kaup hækkaði hjá opinberum starfsmönnum nú. Þess vegna fengu opinberir starfsmenn ekki hækkun. Þeir búa við kjaradóm eða gerðardóm, þeir búa við ófrelsi, eins og hv. 3. þm. Norðurl. v. talaði um hér áðan, að verkfræðingar búi við. Hvernig er það með bændur? Geta þeir ákveðið verð á sínum afurðum? Nei, þeir geta það ekki. Þeir hafa nefnd sem á að semja um afurðaverðið og ef ekki semst um það í n., þá er því vísað til gerðardóms, og þannig var það s.l. haust. Það var úrskurðað þar, hvaða verð bændur skyldu fá. Ekki búa þeir við frelsi. Og hvernig er það með sjómenn? Ráða þeir, hvaða kaup þeir fá? Nei, það er úrskurðað samkv. gerðardómi, hvað fiskverðið skuli vera á hverjum tíma. Hvernig er það með verzlunarmenn? Var ekki ákveðið samkv. kjaradómi eða gerðardómi í vetur, hvaða laun þeir skyldu fá? Og verzlunarmenn sætta sig við það, vegna þess að sá úrskurður byggðist á því, að verzlunarmenn fái laun í samræmi við það, sem opinberir starfsmenn hafa fengið. En hvers vegna er ekki öllum gefið frelsi til þess að ákveða, hvað þeir skuli taka í laun? Hvers vegna er það ekki? Hvers vegna er þetta ófrelsi? Liggur það ekki alveg í sugum uppi, að við hér heima á Íslandi búum undir sama lögmáli og gerist annars staðar hjá þeim þjóðum, sem búa við lýðræði og eins fullkomið frelsi og hægt er að veita þjóðfélagsþegnunum. Það er ekki hægt að veita þjóðfélagsþegnunum meira frelsi en þetta, sem við búum við, því að ef einhver ætlar að fara að skammta sér sjálfur eftir eigin geðþótta, mundum við ekki geta sagt, að við byggjum við menningarþjóðfélag, þá yrði þetta rifrildisþjóðfélag, en ekki menningarþjóðfélag, sem byggist á samstarfs- og uppbyggingarhugsjón. Það er þannig, að það þarf að vera samræmi í tekjuskiptingunni, og það ber að vinna að því, að hver sem vinnur og vill leggja sig fram beri eins mikið úr býtum og mögulegt er. Og nú þarf ekki að segja hv. þm., að það þýðir ekki og dugir ekki hverju sinni að heimta meira til skiptanna út úr þjóðarbúinu heldur en það, sem til skipta er á hverjum tíma. Það er tilgangslaust að vera að hækka kaupið meira en afkastaaukningin og tekjuaukningin er. Og ég er alveg sannfærður um, að þegar verkfræðingar gera sér grein fyrir því, hvað hér er um að ræða, undrast þeir það ekki, þótt þeim einum hafi ekki verið gefið frelsi til þess að skammta sér alveg sjálfir á diskinn.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. var hér áðan að tala um iðnaðarstéttirnar. Hann var að tala um það, að múrarar og fleiri iðnaðarmenn ákvæðu sjálfir uppmælingartaxtann. Þetta er náttúrlega hreinn misskilningur, og ég er dálítið undrandi, ef hv. þm, hefur ekki vitað það. Uppmælingartaxtinn er ákveðinn með hliðsjón af tímakaupinu og í samkomulagi á milli sveina og meistara, og seld vinna, hvort sem er í uppmælingu eða tímavinnu, er undir verðlagsákvæðum. Og það er það, sem gerir reginmuninn, að í öðru tilfellinu eru verðlagsákvæði, sem verðlagsstjóri ákveður, hvað útseld vinna má vera, en eins og til var stofnað hjá verkfræðingunum, var alls ekki um neitt slíkt að ræða. Hér er því ekki um neitt sambærilegt að ræða að þessu leyti, sem hv. 3. þm. Norðurl, v. ræddi um, og skal ég ekkert fjölyrða meira um það, að hv. þm. hefur í svipinn ekki gert sér grein fyrir því, en ég veit, að þegar hann fer að hugsa um það, áttar hann sig á því.

Það er í rauninni ástæðulaust að vera að fjölyrða öllu meira um þetta mál. Það er kunnugt, hvers vegna þessi brbl. voru sett. Þau voru sett, þegar sýnt þótti, að samningar á milli vinnuveitenda og verkfræðinga næðust ekki fyrr en þá eftir langan tíma. Og ef lengi hefði dregizt, að verkfræðingar fengjust til starfa, hefði orðið af því stórtjón fyrir þjóðarbúið og fyrir ýmsar þjóðfélagsstéttir og það mikið tjón, að við hefðum lengi ekki borið þess bætur. Þetta veit ég, að hv. 3. þm. Norðurl. v. gerir sér grein fyrir, þegar hann hugsar um það. En af einhverjum ástæðum hefur hann samt talað á móti þessu frv., þótt hann væri að flestu leyti hógvær. Má vera, að það þyki vinsælt nú meðal verkfræðinga að mæla móti þessum l. En trú mín er sú, að dómgreind verkfræðinganna sé nú það mikil, að þeir sjái kjarnann í þessu máli og geri sér fyllilega grein fyrir því, að l. voru sett af nauðsyn, en ekki af tilhneigingu til þess að niðast á þeim. Það held ég, að sé nú alveg ljóst og öruggt. Hitt er svo annað mál og eðlilegt, að í sjálfu sér, þegar svona lög eru sett, sé þeim mótmælt. Það þykir sjálfsagt og skylt að gera það. En það þarf ekki að þýða. það, að verkfræðingarnir að athuguðu máli, eftir að þeir hafa kynnt sér allar aðstæður, geri sér ekki grein fyrir því, að þessi lagasetning var nauðsynleg.

Eins og ég sagði áðan, hefur meiri hl. hv. allshn. flutt hér brtt., tvær brtt. Það er við 4, gr. frv., að fyrri mgr. falli niður, og er það vegna þess, að það nægir að hafa seinni mgr., og svo við 7. gr., þ.e. að gildistíminn verði ekki lengri en til ársloka 1965. Einmitt um það leyti fer fram endurskoðun á kjörum opinberra starfsmanna, og er eðlilegt, að gildistími þessara laga renni út um svipað leyti. Verkfræðingar hafa þá aðstöðu til að beita áhrifum sínum með eðlilegum hætti til þess að fá lagfæringar, ef þeim þykir það nauðsynlegt. Ég segi: með eðlilegum hætti, og ég efast ekkert um, að þeir gera það, þeir velja þá leiðina að vinna að sínum kjaramálum með eðlilegum hætti, og því vil ég taka undir það með frsm. meiri hl. hv. allshn., þar sem hann vænti þess, að til þess þyrfti ekki að koma, að grípa þyrfti öðru sinni til útgáfu brbl. á svipaðan hátt og hér hefur verið gert, og það verður vitanlega ekki gert nema af brýnni nauðsyn. Ég get verið sammála hv. frsm. meiri hl., þegar hann harmaði, að það skyldi þurfa að koma til. Það er vitanlega ekkert gleðiefni, þegar góðir menn og mikilsvirtar stéttir lenda í harkalegum deilum, eins og hér er um að ræða. Það er vitanlega miklu skemmtilegra og farsælla, ef það er hægt að leiða þær til lykta með samningum; en ekki með lagaútgáfu, eins og hér hefur verið gert. Og mér finnst það hálfeinkennileg túlkun hjá hv. frsm. minni hl. allshn., þegar hann var að tala um það sem eitthvað óeðlilegan hlut, að hv. frsm. meiri hl. n. lýsti því, að það væri í rauninni ekkert ánægjuefni að þurfa að grípa til þessara ráða. Vitanlega er það ekki. En menn verða að gera fleira en það, sem ánægjulegt þykir, og sannleikurinn er sá, að þegar ég skrifaði undir þessi 1., þá tel ég, að ég hafi verið að gera skyldu mína, ég hafi verið að forða þjóðfélaginu frá vandræðum, og ég var vitanlega reiðubúinn til þess að taka á mig óvinsældir og ásakanir í bili fyrir það. Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það kemur í ljós, ef það er ekki þegar komið í ljós hjá öllum þorra manna, að þetta var það eina, sem ríkisstj. gat gert og var skyldug til að gera til að forða vandræðum. Þess vegna er það, að ég ætla að láta hér máli mínu lokið. Ég tel sjálfsagt, að þessi brbl. verði staðfest og það þurfi enginn að bera kinnroða fyrir það. Verkfræðingastéttin heldur sínu jafnt fyrir því, og það mun ekki hafa verið hægt að segja með sanni, að það hafi verið á henni á nokkurn hátt níðzt, þótt þessi brbl. fái staðfestingu hér í hv. Alþingi.