12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1118)

36. mál, lausn kjaradeilu verkfræðinga

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hef ekki haldið nema eina ræðu í þessu máli og talaði þá ekki mjög lengi, svo að mér finnst dálítið hart aðgöngu, að þessar reglur skuli vera settar af hæstv. forseta, að skera niður þessar umr., og það hefur ekki verið venja á þessu þingi, enda er það búið að standa nokkuð lengi, að skera niður umr., þó að mál, sem hafa ekki verið jafnveigamikil og þetta, hafi verið á dagskrá.

Ég kvaddi mér nú m.a. hljóðs vegna þess, að ég vildi freista að vita, hvort hæstv. ráðh. mundi ekki svara þeim fyrirspurnum, sem hér hafa verið lagðar fyrir hann. Mér skilst, að þær fyrirspurnir séu allþýðingarmiklar í sambandi við meðferð þessa máls og í sambandi við þann gerðardóm, sem hefur verið kveðinn upp í þessu máli, og hæstv. ráðh. eigi einnig að hafa fulla aðstöðu til þess að geta svarað þessum fsp., og þess vegna á ég ákaflega erfitt með að skilja þessa þögn hans. Hæstv. ráðh. hefur ekki verið þekktur fyrir það hér á þingi að vera neitt sérstaklega þagmælskur eða svara ekki, þegar á hann er yrt. Ég man ekki eftir því, síðan ég kom hingað á þing og reyndar nokkuð lengi áður, vegna þess að ég hafði sem blaðamaður fylgzt með þinginu hér áður fyrr, — ég man ekki eftir því, að hæstv. ráðh. hafi nokkru sinni verið eins þagmælskur í máli og í þessu máli.

Af hverju stafar þessi þagmælska hæstv. ráðh.? Út af fyrir sig væri gaman að fá skýringu á því, en reyndar get ég getið mér þess nærri, hvað það er, sem veldur þagmælsku þessa hæstv. ráðh. Það, sem veldur þagmælsku

þessa hæstv. ráðh., er, að hann finnur það, að hann stendur höllum fæti í þessu máli og hann hefur hér vont mál að verja, því að það er ekki nein réttlæting fyrir því að halda þessu máli áfram,, eftir að ríkisstj. féll frá því almenna lögbindingarfrv., sem hún lagði fyrir þingið á s.l. hausti. Það gat verið skiljanlegt, að ríkisstj. vildi hafa gerðardóm í þessu máli, meðan það var hin almenna stefna hennar að koma í veg fyrir kauphækkanir í landinu og binda allt kaupgjald með lögum eða gerðardómum. Þessari stefnu fylgdi hæstv. ríkisstj. á s.l. sumri og hausti, og þá var ekki óeðlilegt frá hennar sjónarmiði, þó að hún setti slíka löggjöf eins og þessa. En þegar ríkisstj. lét undan með lögbindingarfrv., féll frá því og gaf allt frjálst í þessum efnum, átti hún að sjálfsögðu að láta þetta frv. fylgja þar á eftir. Þessi tvö mál voru það skyld, að þau áttu að fylgjast að. Þess vegna átti hæstv. ríkisstj. að láta þetta frv. fara í sömu gröfina og hið almenna lögbindingarfrv., sem hún flutti hér á s.l. hausti og féll þá frá. Og þannig hafa þm. líka litið á málið, að þetta yrði gert, vegna þess að þetta mál hefur legið í salti í Ed., síðan ríkisstj. féll frá hinu almenna lögbindingarfrv. Og það er líka enn þá óskiljanlegra, að hæstv. ríkisstj. skuli halda svona fast við þetta mál, eftir að hún er búin að lýsa því yfir, að hún sé búin að fallast á þá stefnu stjórnarandstæðinga að reyna að leysa kjaramálin eftir samkomulagsleiðinni, en ekki með lögbindingarleið.

Hvers vegna er þá þessi eina stétt tekin út úr og henni skammtaður minni réttur og önnur aðstaða en öllum öðrum launastéttum í landinu? Hvað er það, sem veldur þessari framkomu hæstv. ríkisstj.? Býr hér kannske eitthvað undir? Býr það kannske undir, að hæstv. ríkisstj. meini það alls ekki alvarlega, þó að hún segi það í orði, að hún ætli að fara samningaleiðina, heldur ætli sér þrátt fyrir allt að fara lögbindingarleið síðar í þessum málum almennt? Ég vil ekki trúa því eftir þær yfirlýsingar, sem hæstv. forsrh. gaf hér á þingi í gærkvöld um það, að hann væri mjög áhugasamur fyrir að fara samningaleið í þessum málum, að það sé ekkert meint með þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. og hann ætli sér ekki í raun og veru að semja við launastéttirnar, eins og hann hefur hátíðlega lýst yfir. En hvers vegna er þá sérstaklega verið að taka þessa einu stétt út úr, ef það er ætlun hæstv. ríkisstj., eins og nú liggur fyrir samkv. hennar yfirlýsingum, og láta hana búa við minni rétt og önnur kjör en aðrar stéttir í landinu? Er það vegna þess, að þessi stétt sé eitthvað óþarfari og ónauðsynlegri en aðrar stéttir og eigi að taka minna tillit til hennar í þessum efnum? Ég held, að hér í umr. á þingi, bæði hjá mér og öðrum þm., hafi verið einmitt sýnt fram á það gagnstæða, því að það er nú viðurkennt í öllum löndum, þar sem menn vilja stefna að aukinni uppbyggingu og meiri hagvexti, að þá sé það sérþekkingin, sem ráði langsamlega mestu um, að slíkt takmark náist, jafnvel miklu meira en það, að það séu fyrir hendi auðlindir; fjármagn og vinnuafl í þessum löndum, því að án þeirrar þekkingar, sem menn ráða nú yfir, verða þessir hlutir ekkí beizlaðir, hvorki auðlindirnar, fjármagnið né vinnuaflið, nema menn ráði jafnframt yfir nægilega mikilli tæknilegri þekkingu til þess að nota þessa aflgjafa. Og það er alveg víst, að ef við Íslendingar viljum ekki dragast stórlega aftur úr öðrum þjóðum, þá verðum við að leggja aukið kapp á það að auka sérþekkinguna, fá fleiri sérmenntaða menn í okkar þjónustu, en ekki hið gagnstæða. En það skulum við gera okkur ljóst, og það er ekki nema í samræmi við Íslendingseðlið, að ef svo er búið að einni stétt, að hún er látin búa við minni rétt en aðrar stéttir í landinu, og þegar þannig er háttað hennar menntun, að hún getur fengið atvinnu svo að segja hvar sem er með betri kjörum en er boðið hér, þá er ekki að ætlast til þess, að áframhaldið verði annað í þessum efnum en við missum enn meira af þessum mönnum úr landi en hingað til er þ6 orðið. Og ég hélt, að það væri nægilega mikil blóðtaka fyrir okkur, að nú starfa 70 íslenzkir verkfræðingar erlendis, þó að ekki bættust fleiri í þann hóp. En ég sé ekki annað með þeirri þrákelkni, sem hæstv. ríkisstj. heldur uppi í þessu máli, og þeim deilum, sem hún heldur uppi við sérfróða menn í landinu, þá stefni hún markvisst að því að fæla þessa menn í burtu.

Ég trúi því raunar ekki, að þetta sé tilgangur og vilji hæstv. ríkisstj. En hinu er hins vegar ekki hægt að neita, og því getur hún ekki neitað sjálf, að allt hennar starf og öll hennar framkoma í þessum málum stefnir beint að þessu. Og það er gagnvart fleiri tæknimenntuðum mönnum, sem þetta kemur fram. Það hefur hvað eftir annað í umr, hér á þingi komið fram, að það gæti kannske komið til mála að dómi hæstv. ríkisstj. að hækka eitthvað laun ófaglærðra manna í landinu, en hitt hafi verið hinn mesti glæpur, ef faglærðir menn fengju að fylgjast þar með. Það var talað um það á s.l. hausti og s.l. vetri af hæstv. ríkisstj., að það gæti kannske komið til mála að dómi hæstv. ríkisstj. að hækka eitthvað laun ófaglærðra manna í landinu, en hitt talið hinn mesti — glæpur, ef faglærðir menn fengju að fylgjast þar með. Þetta er algerlega röng stefna hjá hæstv. ríkisstj. Það er að sjálfsögðu rétt að bæta kjör hinna lægst launuðu í þjóðfélaginu, ég skal síður en svo hafa á móti því. En við verðum hins vegar að gera okkur fulla grein fyrir því, að við verðum að meta sérþekkinguna að nokkru í launum og taka eðlilegt tillit til hennar. Og sá andi, sem hefur komið fram af hálfu hæstv. ríkisstj, til faglærðra manna í landinu og nú alveg sérstaklega til hinna sérlærðustu manna í landinu, er áreiðanlega óheilbrigður og hefur illt í för með sér, ef ekki tekst að hnekkja honum.

Ég hefði gjarnan viljað minnast hér á ýmis fleiri atriði, bæði ný atriði og önnur, sem hafa komið fram hér í umr., ef hæstv. forseti hefði ekki sett þessar reglur um skömmtun tímans, en ég held, að ég geti þó ekki komizt hjá því að síðustu, og það skal vera það, sem ég segi hér seinast, að minna hæstv. ráðh., sem hér eru, á það, hvaða afleiðingar það, hefur í för með sér, ef ríkisvaldið tryggir sér ekki næga sérfræðilega þekkingu, og ég vona, að ég syndgi ekki of mikið upp á náðina, þó að ég minnist aðeins á þessi atriði.

Hæstv. ráðh. stóð hér á þessum stað fyrir nokkrum kvöldum og var þá að verja mál, sem var honum mjög óhagstætt og stafaði af því, að það mál hafði ekki verið nægilega sérfræðilega undirbúið. Hæstv. ráðh. lýsti því hátíðlega yfir hér á síðasta þingi, að á næsta vori, þ.e. á þessu vori, skyldu verða hafnar framkvæmdir við Siglufjarðarveg, og hann sagði, að það skyldi alls ekki bregðast og það væri búið að undirbúa það mál alveg nægilega vel. Þetta var síðan notað sem aðaltromp af honum sjálfum og hans flokki í kosningunum á s.l. vori í viðkomandi kjördæmi. Nú á þessu þingi hefur hæstv. ráðh, hins vegar orðið að játa, að allar hans yfirlýsingar um þetta mál á s.l. voru voru á sandi byggðar. Og ástæðan til þess, að þessi loforð hæstv. ráðh. voru á sandi byggð, er nú að sögn hans sú, að það var ekki nægilega búið að undirbúa þetta mál sérfræðilega, til þess að það fengi staðizt, sem hæstv. ráðh. lofaði, vegna þess að það skorti þarna - og e.t.v. vegna deilnanna við verkfræðingana — þá skorti á, að það væri nægilega búið að undirbúa þetta mál tæknilega. Ég hygg, að ef það hefði staðið þannig á, að hæstv. ráðh. hefði ekki átt í deilu við verkfræðingana og hefði látið undirbúa þetta nægilega, ekki neina lítils háttar athugun, eins og þarna hefur átt sér stað, mundi slíkt ekki hafa komið fyrir eins og þetta dæmi í sambandi við Strákaveg.

Ég nefni annað dæmi, sem snertir hæstv. menntmrh. Hann flutti hér fyrir nokkrum vikum skýrslu í þinginu um sjónvarpsmálin og skýrði þar frá því, að samkv. áætlunum verkfræðinga, sem um það mál hefðu fjallað, verkfræðinga landssímans eða landssímastjóra, mundi stofnun sjónvarps og dreifing þess um landið kosta núna 140 millj: kr. Nú fyrir nokkrum dögum kemur hæstv. ráðh. með allt aðrar tölur og segir, að þetta muni kosta 180 millj. kr., þannig að þessi upphæð hefur hækkað um 40 millj. á mjög stuttum tíma. Þetta stafar einfaldlega af því, að landssíminn, m.a. að ég hygg vegna verkfræðingadeilunnar, hefur ekki haft nægilega marga sérfræðinga til þess að vinna að þessum málum, og þess vegna voru þær tölur, sem hann gaf fyrst upp, jafnrangar og raun bar vitni um. En þetta gefur nokkra hugmynd um það, hversu mikilsvert það er, að við höfum nægilegri sérfræðilegri þekkingu á að skipa og ríkið fæli þá menn ekki frá sér, en reyni miklu frekar að laða þá að sér. Þá er hægt að koma í veg fyrir enn þá stórfelldari mistök en þessi og ýmis mistök, sem áttu sér stað í sambandi við ýmsar framkvæmdir.

Það, sem ég vil þess vegna segja að lokum, er að endurtaka það, sem ég sagði hér áðan í minni ræðu þá, að þó að hæstv. ríkisstj. þyki það dýrt að hafa verkfræðinga í þjónustu sinni og þó að ýmsir kunni að telja það eftir að borga þeim sæmilega fyrir sin störf, þá er það áreiðanlega langdýrast, jafnt fyrir ríkið sem aðra aðila, að hafa ekki næga sérfræðinga í sinni þjónustu.