10.12.1963
Neðri deild: 28. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1565 í B-deild Alþingistíðinda. (1132)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason) (frh.):

Herra forseti. Í þeim fyrri hluta ræðu minnar, sem ég flutti í gær, lagði ég áherslu á að sýna fram á, að megintilgangur þessa frv. og kjarni þess máls, sem hér er um að ræða, er að bæta skilyrði Seðlabankans til að auka afurðalán sín til sjávarútvegs, landbúnaðar og hefja hliðstæð lán til iðnaðar. Ég reyndi að leiða að því sem ljósust og einföldust rök með því að vitna í sjálfa reikninga Seðlabankans, að Seðlabankanum getur því aðeins orðið kleift að auka afurðalán sín, að auka útlán sín til undirstöðuatvinnuvega þjóðarinnar, að eitt af þrennu gerist, þ.e. að Seðlabankinn eyði smám saman gjaldeyrisvarasjóði sínum, í öðru lagi, að hann auki seðlaveltu sína, og í þriðja lagi, að hann fái aukna hlutdeild í heildarsparnaði þjóðarinnar. Fjórða leiðin er ekki til. Seðlabankinn getur því aðeins aukið útláns, aukið kaup sín á afurðavíxlum undirstöðuatvinnuveganna, að eitt af þessu þrennu gerist annaðhvort að hann í staðinn fyrir að auka útlánaeign sína til undristöðuatvinnuveganna fórni hinni aðaleign sinni, sem er gjaldeyrisvarasjóðurinn, eða ef hann á að auka þá eign sína til undirstöðuatvinnuveganna fórni hinni aðaleign sinni, sem er gjaldeyrisvarasjóðurinn, eða ef hann á að auka þá eign sína, sem fólgin er í útlánum til undirstöðuatvinnuveganna, og halda jafnframt gjaldeyrisvarasjóðnum, þá verður ráðstöfunarfé hans að aukast með tvennum hætti, annaðhvort með því að auka seðlaveltuna, eða með því að fá aukið fé frá bankakerfinu. Um þessa þrjá möguleika er að ræða.

Ég vil ekki þurfa að eiga orðastað um það við formenn hv. stjórnarandstöðuflokka, að Seðlabankinn geti aukið útlán sín án þess að gera nokkuð annað en auka útlán. Það væri að ræða kjarna íslenzka peningamála á svo lágu stigi, að ég ætla ekki hv. formönnum stjórnarandstöðuflokkanna að beita slíkum málflutningi. Ég ætla þeim ekki svo rangsnúinn hugsunarhátt, að þeim detti í hug, að Seðlabankinn geti aukiðafurðalán sín um hundruð millj. kr., án þess að nokkurð annað gerist, sem Seðlabankann snertir. Ef Svo væri, væri sannarlega miklu auðveldara aðstjórna peningamálum og fjármálum en það auðvita ð er. Nei ef Seðlabankinn á að geta aukið afurðalán sín, ein og að er stefnt og allir eru sammála um, verður eitthvað annað að gerast, og það er, í því sambandi sem ég undirstrika það þrennt sem getur gerzt. Það þrennt, sem er að velja á milli er þetta: að eyða gjaldeyrisvarasjóðnum samtímis því, sem útlánin eru aukin, að afla fjár til útlána með aukinni seðlaveltu eða að fá Seðlabankanum til umráða aukinn hlut af heildarsparifé þjóðarinnar. Nú er ekki til of mikils mælzt að æskja þess — og meira að segja æskja þess mjög eindregið, að málsvarar stjórnarandstöðunnar segi alveg skýrt til um það, hvað af þessu þrennu þeir vilja láta gerast. Hvað af þessu þrennu vilja þeir láta gerast? Vilja þeir vinna það til aukningar afurðalánanna að gjaldeyrisvarasjóðurinn smáeyðist? Vilja þeir kosta útlánaaukninguna með aukinni seðlaútgáfu? Eða vilja þeir láta Seðlabankann fá aukna hlutdeild í sparifénu, til þess að útlánaaukning sé möguleg.

Stefna ríkisstj. er augljós. Hún er skýr. Hún kemur fram í þessu frv. Ríkisstj. vill fara það sem ég þarna hef nefnt þriðju leiðinu, þ.e. að gera Seðlabankanum kleift að auka heildarútlán sín með því móti að auka hlutdeild hans í heildarsparifé þjóðarinnar, með því að rýmka þær reglur, sem nú gilda um heimild Seðlabankans til að skylda viðskiptabanka og innlánsstofnanir til að leggja fé á reikning í Seðlabankanum. Ríkisstj. er andvíg því að auka útlánsgetu Seðlabankans með því að eyða gjaldeyrisvarasjóðnum. Ef hv. stjórnarandstaða er ósammála ríkisstj. um þetta, þá á hún að segja það. Það væri heiðarlegur og ábyrgur málflutningur. Í því er í sjálfu sér enginn rökvilla, það er stefna út af fyrir sig, meira að segja stefna, sem fylgt var hér á landi um árabil, að auka smám saman afurðalánin á kostnað gjaldeyrisstöðunnar við útlönd. Það var stefna sem lengi var fylgt, það var stefna út af fyrir sig, það er stefna, sem er ekki röng í eðli sínu sem er ekki órökræn. En ríkisstj. er andvíg þeirri stefnu. Ríkisstj. taldi það höfuðnauðsyn, þegar hún tók við völdum, að koma upp gjaldeyrisvarasjóði, binda enda á hallann í gjaldeyrisviðskiptunum við útlönd, greiða hinar lausu gjaldeyrisskuldir og koma upp gjaldeyrisvarasjóði. Það hefur henni tekizt. Ef stjórnarandstaðan telur þetta hafa verið höfuðsök, á hún að segja það. Og ef hún vill vinna það til aukningar afurðalánanna að eiga að fórna gjaldeyrisvarasjóðnum, á hún að segja það. En kostur stjórnarandstöðunnar er því miður sá að viðurkenna í orði kveðnu a.m.k., að gjaldeyrisvarasjóðurinn sé nauðsynlegur og gagnlegur, gera þó heldur lítið úr þýðingu hans, en halda áfram að krefjast aukningar afurðalána Seðlabankans. Það er óábyrgur málflutningur. Ríkisstj. er líka andvíg annarri leiðinni, þeirri að auka getu Seðlabankans til útlána með því að auka seðlaveltuna eða gera annað, sem jafngilti því. Ef stjórnarandstaðan telur, að þá leið eigi að fara, ætti hún að sjálfsögðu að segja það. En það væri fullkomlega ábyrgðarlaus stefna í efnahagsmálum, fullkomlega ábyrgðarlaus stefna í peningamálum, og því ber í sjálfu sér að fagna, að það skuli þó ekki vera sagt berum orðum, því að það væri að grípa til örþrifaráða í stjórn peningamálanna. En ef við viljum halda gjaldeyrisvarasjóðnum, ef við viljum vernda hann, ef við viljum láta hann halda áfram að aukast jafnt og þétt og ef við viljum forðast það örþrifaráð í stjórn peningamála að láta seðlaveltuna aukast umfram heilbrigðar þarfir viðskiptalífsins, er ekki nema þriðja leiðin eftir, ef Seðlabankinn á að geta aukið afurðakaup sín, og hún er sú að fá Seðlabankanum aukna hlutdeild í sparifé þjóðarinnar. Þess vegna er það, sem ríkisstj. hefur markað þá stefnu, sem í þessu frv. felst.

Ég treysti því, að með þessu móti verði aðalatriði málsins svo skýr og svo ljós, að stjórnarandstaðan komist ekki hjá því að segja, hver er raunveruleg stefna hennar í málinu, og þess vegna lýsi ég enn eftir skýlausu svari við því: Hvernig á Seðlabankinn að geta aukið útlán sín nema með því að eyða gjaldeyrisvarasjóðnum eða auka seðlaveltuna eða fá aukið sparifé til umráða? Ég veit, að við því er ekki svar til, það er ekki nema um þær þrjár leiðir að ræða, en þá er að velja á milli þeirra. Það er ekki hægt að komast hjá því að taka skýra afstöðu til þessa máls og segja þá, ef menn eru andvígir því, að Seðlabankinn fái aukna hlutdeild í sparifénu, hvort menn í raun og veru stefna vitandi vits að því, að gjaldeyrisvarasjóðurinn eyðist, eða hvort menn, sem ég vil ekki ætla hv. stjórnarandstöðu, vilja virkilega, að heilbrigðum grundvelli sé algerlega kippt undan íslenzkum peningamálum með því að kosta aukin útlán Seðlabankans með aukinni sköpun peninga, með aukinni peningaveltu.

Hvort sem hv. stjórnarandstaða mannar sig upp í að svara þessum spurningum skýrt og skorinort, þá treysti ég því, að almenningi verði ljóst, hvað hér er um að ræða, og þá um leið það, að stefna ríkisstj. í þessu máli er sú eina, sem er forsvaranleg, og sú eina, sem er verjandi frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð.

Þá langar mig til að víkja að því, sem ég held að megi telja höfuðrök hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, í langri ræðu hans um þetta mál. Hann taldi, að sú stefna, sem núv. ríkisstj. hefði fylgt frá ársbyrjun 1960 í peningamálum þjóðarinnar, hafi ekki gefizt betur en sú stefna, sem fylgt var á næstu 5 árunum á undan, þ.e. á árunum 1955–1959, sem ég hef gert að umtalsefni. En í framsöguræðu minni hafði ég einmitt lagt á það mikla áherzlu, að ríkisstj. hefði, þegar hún tók við völdum í árslok 1960, tekizt að gerbreyta um stefnu í peningamálum þjóðarinnar, m.a. með því að taka fyrir hina sjálfkrafa aukningu á afurðalánum Seðlabankans og fylgja þeirri stefnu, að afurðalán Seðlabankans væru ekki aukin, nema því aðeins að Seðlabankanum væri um leið séð fyrir auknu ráðstöfunarfé. En það var eitt megineinkenni peningamálastefnunnar, sem fylgt hafði verið árin áður, sérstaklega á tímabilinu frá 1955–1959, að Seðlabankinn var látinn auka afurðalán sín, bæði til sjávarútvegs og landbúnaðar, en alveg sérstaklega til landbúnaðar, án þess að honum hafi um leið verið séð fyrir auknu ráðstöfunarfé. Í þessu hafði ég sagt, að meginstefnubreytingin 1960 hafi verið fólgin, sú stefnubreyting hafi verið rétt, hún hafi verið til mikilla bóta og í raun og veru grundvöllurinn undir því, að heildarefnahagsmálastefna ríkisstj. gæti tekizt, eins og ég tel að átt hafi sér stað í meginatriðum. Þessari röksemdafærslu vildi hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, andmæla, og hann andmælti henni á eftirfarandi hátt, hann sagði: Á árunum 1955-1959 hækkaði vísitala framfærslukostnaðar úr 1513 stigum í 212 stig, um 54 stig, eða um 6.8% að meðaltali á ári. Þetta gerðist á þeim árum, sem ríkisstj. telur stefnuna í peningamálum hafa verið mjög gallaða, ranga í grundvallaratriðum. Og nú spyr hv. þm., Eysteinn Jónsson: Hvernig hefur vísitalan þróazt síðan 1960, á þeim tíma, sem ríkisstj. telur stefnuna í peningamálum hafa verið rétta og heilbrigðari en áður? Og hann segir: Síðan í ársbyrjun 1960 hefur vísitalan aukizt um 44 stig, sem svarar 88 stigum, eftir gömlu vísitölunni, eða um 11%, á ári. Hann segir: Vísitala framfærslukostnaðar hefur vaxið hlutfallslega meira á því tímabili, sem viðskmrh, segir að rekin hafi verið heilbrigð stefna í peningamálum, en á hinu tímabilinu, sem hann segir að rekin hafi verið óheilbrigð stefna í peningamálum. Þetta eru meginrök hv. 1. þm. Austf. gegn þeim málflutningi, sem ég hafði beitt í framsöguræðu minni. Síðan bætir hann við og leggur áherzlu á, að það sé rangt að ætla sér að stjarna efnahagskerfinu algerlega með ráðstöfunum í peningamálum, þar verði annað að koma til.

Það er vissulega hverju orði sannara hjá hv. 1. þm. Austf., að góð stjórn peningamála, heildarstjórn peningamála, er sannarlega ekki einhlít til að tryggja heilbrigða efnahagsþróun í nokkru landi, og er hér ekki um neina nýja vizku að ræða. En stjórn peningamálanna verður m.a. að vera heilbrigð, ef heildarstefnan á að vera heilbrigð. Hins vegar er það grundvallarmisskilningur, sem röksemdafærsla hv. þm., sú sem ég gat um áðan, byggist á, að þróun verðlags sé ein mælikvarði á það, hvort stefnan í peningamálum sé heilbrigð eða óheilbrigð. Það er grundvallarmisskilningur, að dæma megi það, hvort stefna í peningamálum er heilbrigð eða óheilbrigð, eftir því einu, hvernig verðlag þróast, og enn síður eftir því, hvernig vísitala framfærslukostnaðar þróast.

Í því sambandi, svo að ég taki hana fyrst, kemur það auðvitað fyrst og fremst til mála, að vísitalan er misjafnlega áreiðanlegur mælikvarði á raunverulega verðlagsþróun, og á því er ekki nokkur minnsti efi. Það held ég, að enginn maður, sem til þekkir, dragi í efa, að á árinu 1955–1959 var vísitalan miklu ónákvæmari, miklu rangari, miklu meira villandi mælikvarði á þróun verðlagsins en hún hefur verið síðan 1960, vegna þess að þá var uppbótakerfi og haftakerfi eitt aðalhagstjórnartæki, sem beitt var með alrangri gengisskráningu og margs konar afskiptum af verðlagi innanlands og meira að segja verðlagi útflutningsafurða, þannig að undir slíkum kringumstæðum hlýtur vísitala að verða mjög ónákvæmur mælikvarði á raunverulega þróun verðlags. Það má jafnvel segja, að undir slíkum kringumstæðum sé vísitala framfærslukostnaðar mjög oft beinlínis fölsuð. Það má meira að segja segja, að eðli víðtæks uppbótakerfis sé beinlínis að falsa verðlag í landinu og þá um leið auðvitað mælikvarðann á verðlagið, sem er vísitala framfærslukostnaðarins. Um leið og horfið er frá haftabúskap, um leið og horfið er frá útflutningsbótakerfi og margs konar nákvæmum afskiptum af verðlagi, eins og gert hefur verið síðan 1960, þá um leið verður verðlagsvísitalan sjálfkrafa mun betri og nákvæmari mælikvarði á verðlagið, þó að erfitt sé að sjálfsögðu að gera slíka vísitölu þannig úr garði, að hún verði alfullkominn mælikvarði á verðlagið. En á því er enginn vafi, að síðan 1960 hafa verðlagsbreytingar mælzt sannar og réttar í breytingum á vísitölunni en þær gerðu á árunum 1955–1959, og um þetta hygg ég engan ágreining vera milli manna, sem þekkja til grundvallaratriða þessara mála. En þetta er í raun og veru aukaatriði í sambandi við röksemdafærslu hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar.

Það er rétt, að vísitalan hefur hækkað síðan í ársbyrjun 1960 hlutfallslega meir en hún gerði á árunum 1955–1959. En það segir bókstaflega ekkert um það, það er enginn vitnisburður um það, á hvoru tímabilinu stjórn peningamálanna hafi verið heilbrigðari. Þar er um grundvallarmisskilning að ræða. Þróun verðlags er auðvitað fyrst og fremst komin undir þróun framleiðslukostnaðar í landinu og þó fyrst og fremst undir þróun launa. Ef vísitala hækkar á einu árabili meir en á öðru, þá er orsökin auðvitað fyrst og fremst sú, að framleiðslukostnaður hefur vaxið meir á því tímabili, sem vísitalan hækkar meir, heldur en hinu, sem hún hækkaði minna. Sjálf stjórn peningamálanna þar er aukaatriði. Það er ekki hægt, — og það var það rétta í því, sem hv, þm. sagði í því sambandi, — það er ekki hægt með því að beita stjórn peningamálanna einni, að koma í veg fyrir hækkun vísitölu framfærslukostnaðar, ef stórfelldar breytingar verða á framleiðslukostnaði. Svo voldugt hagstjórnartæki er stjórn peningamálanna ekki. Það, sem gerzt hefur, er það, að síðan 1960 hefur orðið svo mikil breyting á framleiðslukostnaði í landinu, fyrst og fremst svo mikil breyting á launum, að þessi breyting hefur orðið á vísitölu framfærslukostnaðar, á verðlaginu. Hækkun framleiðslukostnaðarins, hækkun launa, hefur orðið svo miklu meiri síðan 1960 en hún varð á árunum 1955–1959, að hjá þessari hækkun vísitölu framfærslukostnaðar hefur ekki verið hægt að komast. Engin stjórn peningamála hefði getað komið í veg fyrir þessa þróun. Til þess dugir góð stjórn peningamálanna ekki. Þetta hygg ég líka að hljóti að teljast algerlega óumdeilanlegt atriði. En hitt er svo annað mál, hvort þróun verðlagsins ein er mælikvarði á það, hvort um þenslu í hagkerfinu er að ræða eða ekki.

Ef hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, hefði sagt sem svo, — það gerði hann að vísu ekki beinlínis, óbeinlínis vildi hann koma þessu inn hjá hv. þm. og almenningi, það er ályktunin, sem ég veit, að hann vildi láta menn draga af orðum hans, en skal segja það, sem ég hygg hans meiningu, alveg skýrt, hann vildi segja: Vegna þess að vísitalan hefur síðan 1960 hækkað um 11% á ári að meðaltali, en hækkaði ekki nema um 6.8% að meðaltali á árunum 1955–1959, er það sönnun þess, að ú síðara tímabilinu, valdatíma núv. ríkisstj., hafi verið meiri þensla í efnahagslífinu en var á árunum 1955 –1959. Þetta hygg ég, að hv. þm, hafi viljað segja. Þessa ályktun vill hann láta draga af þeim tölum, sem hann þarna teflir fram. En þessi ályktun er algerlega röng, því að — og það vil ég leggja á sérstaka áherzlu — það er nauðsynlegt, að allir geri sér skýra grein fyrir því, að þróun verðlagsins, sérstaklega eins og hún er mæld með framfærsluvísitölunni, er alls ekki mælikvarði á það, hvort þensla ríkir í efnahagskerfinu eða ekki. Þróun verðlagsins, sérstaklega eins og hún er mæld í vísitölu framfærslukostnaðar, er alls ekki fullnægjandi vitnisburður um þá þenslu, sem ríkir í efnahagskerfinu hverju sinni. Til þess að geta dæmt um það, hvort þenslan er meiri eða minni, er ekki nóg, — einn mælikvarði á hana er auðvitað þróun verðlagsins, — þá er ekki nóg að líta á hana eina, heldur verður jafnframt að líta á stöðuna gagnvart útlöndum. Það er hin hliðin á dæminu. Það er hægt að koma í veg fyrir áhrif mikillar þenslu á verðlagið innanlands með því að reka hallabúskap gagnvart útlöndum. Það er hægt að koma í veg fyrir áhrif mikillar þenslu á verðlagið innanlands með því að láta þensluna valda halla gagnvart útlöndum í stað þess að valda verðhækkun innanlands. Meginbreytingin, sem hefur orðið síðan 1960, miðað við 5 næstu árin á undan, er nú, að hallabúskap gagnvart útlöndum hefur verið snúið í greiðsluafgangsbúskap í utanríkisviðskiptum þjóðarinnar, greiðsluhalla gagnvart útlöndum hefur verið snúið í greiðsluafgang gagnvart útlöndum. Þetta hefur tekizt þrátt fyrir þá miklu aukningu á framleiðslukostnaði í landinu, þetta hefur tekizt þrátt fyrir þá miklu aukningu á launum í landinu, sem orðið hefur. Þess vegna hefur tekizt að safna um 1200 millj. kr. gjaldeyrisvarasjóði síðan í ársbyrjun 1960.

Það hefur verið þensla í landinu, það er rétt, því miður. Að því leyti hefur ríkisstj. ekki tekizt að ná því markmiði, sem hún setti sér í upphafi. Það ber að játa hiklaust og skýlaust. Það gagnar engum að loka augunum fyrir þeirri staðreynd. Þensla hefur því miður verið, framleiðslukostnaður hefur aukizt, fyrst og fremst af því að laun í krónum hafa aukizt umfram aukningu þjóðartekna. Undir þeim kringumstæðum er ógerningur að koma í veg fyrir hækkun verðlags, eins og því miður hefur átt sér stað. En — og nú kem ég að kjarna málsins — en þrátt fyrir þensluna síðan 1960, þrátt fyrir þá gífurlegu aukningu framleiðslukostnaðar; sem átt hefur sér stað, þrátt fyrir þá gífurlegu aukningu launa í krónum, sem átt hefur sér stað, þrátt fyrir þá miklu hækkun verðlags, sem átt hefur sér stað, þrátt fyrir allt þetta hefur samt tekizt að safna erlendum gjaldeyrisvarasjóði að upphæð 1200 millj. kr. Hverju skyldi þetta vera að þakka? Þetta er fyrst og fremst að þakka þeirri stefnu, sem fylgt hefur verið í peningamálum. Þetta er fyrst og fremst afleiðing þeirrar heilbrigðu stefnu í peningamálum, sem núv. ríkisstj. tók upp 1960. Þetta er fyrst og fremst að þakka þeirri stefnubreytingu á sviði peningamálanna, sem núv. ríkisstj. kom í framkvæmd 1960 með stofnun Seðlabankans, þeirri stefnu, sem Seðlabankinn hefur fylgt í samræmi við vilja og óskir ríkisstj. En það er einmitt þessi stefna, sem nú í þessum umr. liggur undir hvað harðastri gagnrýni af hálfu hv. stjórnarandstöðu.

Ef við lítum á tímabilið 5 árin fyrir valdatöku núv. ríkisstj., árin 1955–1959, þá er það rétt, sem hv. 1. þm. Austf. sagði: Verðlagið hækkaði minna en það hafði gert undanfarin ár, þó að það hafi að vísu hækkað mun meira en vísitalan bar vott um, — mun meira, en sleppum því, — verðlagið hækkaði minna en það hafði gert undanfarin ár. En hvað kostaði það, hvernig kom þenslan fram, hverjar voru afleiðingar þenslunnar, sem átti sér stað, fyrst hún kom ekkí fram í hækkun verðlagsins innanlands? Jú, afleiðingar þenslunnar komu fram í gífurlegum greiðsluhalla gagnvart útlöndum. Á árunum 1955–1959 rýrnaði gjaldeyrisstaða þjóðarinnar um 795 millj. kr., miðað við núverandi gengi. Það var verðið, sem þá var greitt fyrir þensluna. Þenslan á þessum árum kostaði þetta. Hún kostaði 795 millj. kr. rýrnun á gjaldeyriseigninni. Og það var vegna þess, að óheilbrigðri stefnu var fylgt í peningamálum þjóðarinnar.

Seðlabankinn stjórnaði ekki peningamagninu, sem í umferð var innanlands. Hann var látinn auka útlán sín ár frá ári. Peningamagnið í landinu var aukið, auðvitað með þeirri afleiðingu, að hallinn gagnvart útlöndum jókst frá ári til árs og varð 6 þessu 5 ára tímabili samtals hvorki meira né minna en 795 millj. kr. (Gripið fram í.) Já, það er talið með. Ef við tökum tímabilið síðan í ársbyrjun 1960, hefur batinn á gjaldeyrisstöðunni orðið 1394 millj. kr. M.ö.o.: í stað þess að gjaldeyrisstaðan hefur versnað 1955–1959 um 795 millj. kr., hefur hún batnað um 1394 millj. kr. síðan í ársbyrjun 1960, miðað við sambærilegt gengi. Það er þessi gerbreyting á afstöðunni út á við, sem er meginafleiðingin af gerbreyttri stefnu í peningamálum innanlands. Þetta er kjarni þess máls, sem hér er um að ræða.

Það er til þess að varðveita þessa meginstefnu, sem hefur haft þennan árangur, sem ríkisstj. fylgir þeirri stefnu, sem þetta frv. er grundvallað á: Ef nú væri aftur horfið frá stefnunni, sem fylgt hefur verið síðan 1960; og tekin upp sú stefna, sem fylgt var á árunum 1955–1959, m.ö.o. að láta Seðlabankann auka útlán sín án þess að tryggja honum fé til þess að standa undir útlánunum, þá mundi aftur síga á sömu ógæfuhlið og áður, þá mundi gjaldeyrisaðstaðan aftur taka að versna, þá mundi heildarniðurstaðan út á við verða sú sama og hún var á árunum 1955–1959.

Nú er það auðvitað fjarri mér að segja, það skal ég taka fram til að spara hv. stjórnarandstæðingum að snúa út úr þessu máli mínu, — auðvitað dettur mér ekki í hug að halda því fram, að sá gífurlegi bati, sem orðið hefur á gjaldeyrisstöðunni eða afkomunni gagnvart útlöndum, eigi eingöngu rót sina að rekja til þess, að gerð hefur verið gagnger breyting á stefnunni í peningamálum innanlands. Fleiri atriði koma þar auðvitað til greina, aukin framleiðsla fyrst og fremst og bætt verzlunarárferði, hækkandi verðlag á ýmsum útflutningsafurðum og hagstæð breyting á viðskiptakjörum. En það, sem skiptir meginmáli, er, að jafnvel þó að þetta hefði snúið gjaldeyrisstöðunni nokkuð til betri vegar, þótt aukin framleiðsla hefði auðvitað haft í för með sér batnandi gjaldeyrisaðstöðu og hækkandi verðlag hefði haft áhrif í sömu átt og þótt breytt viðskiptakjör hefðu auðvitað haft áhrif í sömu átt, þá hefði sú þróun samt sem áður ekki nægt til að gera þá gerbreytingu á gjaldeyrisstöðunni út á við, sem orðið hefur, ef grundvöllurinn innanlands hefði ekki verið heilbrigður, ef ekki hefði verið snúið frá villu í íslenzkum peningamálum til heilbrigðrar stefnu í íslenzkum peningamálum. Það er meginatriði þess máls, sem hér er um að ræða.

Raunar er það svo, að það er ekki aðeins á þessum árum, árunum 1961 og 1962, sem framleiðsla hefur verið mikil og verzlunarárferði gott. Árið 1958 var hagstæðasta ár, sem komið hafði fyrir íslenzkt atvinnulíf fram til þess tíma. Það eru aðeins árin 1961 og 1962, sem eru hagstæðari en árið 1958, þannig að á tímabilinu 1955–1958 gætti líka geysihagstæðra áhrifa, og niðurstaða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum í árslok 1958, sem oft er vitnað til af hv. stjórnarandstöðu, á auðvitað rót sína að rekja til þess, að árið 1958 var óvenjulegt aflaár og óvenjulega hagstætt hvað verzlunarárferði snerti, — eins og ég sagði áðan, hagstæðasta ár, sem komið hafði til þess tíma á Íslandi, — og það er auðvitað meginskýringin á því, hvernig afstaðan var til bráðabirgða í árslok 1958. En samanburðurinn við þau árslok er algerlega villandi, vegna þess að sá gjaldeyrir safnaðist fyrir á árinu 1958, stóð aðeins stutt við og hvarf á næsta ári vegna þeirrar grundvallarstefnu, sem fylgt var og var röng, fyrst og fremst í peningamálunum innanlands, enda voru í skjóli góðærisins 1958 gerðar ráðstafanir á gjaldeyrinum, sem komu til framkvæmda strax á árinu 1959 og eyddu upp til agna þeim gjaldeyrisvarasjóði, sem fyrir var í árslok 1958. Það er því algerlega villandi, og ég vil því miður segja: áreiðanlega vísvitandi villandi, þegar á því er hamrað sýknt og heilagt, að bráðabirgðagjaldeyrisstaðan í árslok 1958 sé einhver sönnun á því, að sú stefna, sem fylgt hafði verið á þeim áratug eða á 5 undangengnum árum, hafi verið rétt og heilbrigð, enda kom það í ljós. Þessi gjaldeyrisvarasjóður hvarf eins og dögg fyrir sólu á árinu 1959 vegna ráðstafana, sem gerðar voru á árinu 1958.

Í ræðu sinni lagði hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, og mikla áherzlu á það, að í málflutningi mínum og ríkisstj. yfirleitt á undanförnum árum hafi verið gert allt of mikið úr þýðingu þess, að gjaldeyrisvarasjóðurinn hafi vaxið, vegna þess að hann sagði, að á móti aukningu gjaldeyrisvarasjóðsins hafi komið auknar erlendar lántökur, bæði mikil aukning fastra lána og auk þess mikil aukning lausaskulda verzlunarinnar, sem hann taldi vera orðnar óeðlilega miklar. Ég held, að það sé rétt að nota þetta tilefni til að hrekja einu sinni fyrir allt villurnar í þessum málflutningi, til að skýra einu sinni fyrir allt frá réttum tölum um þessi efni. Undanfarna mánuði hefur mátt lesa það í blöðum stjórnarandstöðunnar hvað eftir annað, að aðstaða landsins út á við, heildaraðstaða landsins út á við sé verri en hún var í árslok 1958 og hún hafi yfirleitt verið að versna á undanförnum árum samtímis því, sem stjórnin gumi geysimikið af því, að gjaldeyrisstaða bankanna hafi batnað svo mjög sem allir þekkja til eða allir vita. Áður en ég skýri frá tölum, sem ég hef óskað að teknar væru saman um þetta efni og eru öruggar og algerlega óyggjandi, finnst mér nauðsynlegt að skjóta því fram, að umr. um lausaskuldir verzlunarinnar eða staðhæfingar um þýðingu þeirra talna eru mjög villandi. Í fyrsta lagi er þess að geta, að til skamms tíma var það ekki leyft, að innflytjendur stofnuðu til stuttra vörukaupalána erlendis. Hins vegar var það á allra vitorði, að það var um slík vörukaupalán að ræða og áreiðanlega í stórum stíl. Það var ógerningur fyrir gjaldeyrisbanka að hafa eftirlit með því, að slík lán væru ekki tekin. Það þótti hins vegar ekki samrýmast innflutningshöftum og gjaldeyrishöftum að leyfa slíkar lántökur. Þess vegna var það ekki gert að forminu til, en það var viðurkennt í reynd, að um slík lán væri að ræða, með því að gera aldrei, ekki áratugum saman, neina gangskör að því að ganga úr skugga um, hvort um slíkar lántökur væri að ræða eða ekki, og taka fyrir þær, ef svo reyndist vera. Ég vil því leyfa mér að fullyrða, að allar ríkisstj., sem hafa setið að völdum undanfarna áratugi, og öll gjaldeyrisyfirvöld og allar stjórnir gjaldeyrisbanka hafi vitað, að um slíkar lántökur var að ræða í meiri eða minni mæli, og þau hafi í raun og veru viðurkennt nauðsyn og réttmæti slíkra lána erlendis, svo framarlega sem þau færu ekki fram úr vissu marki, með því að aðhafast ekkert til að koma í veg fyrir slíkar lántökur. Núv. ríkisstj. tók hins vegar upp þá heilbrigðu stefnu í þessu efni, eins og mörgum öðrum, að opna augun og forða mönnum frá því að þurfa að fara á bak við yfirvöld í þessum efnum og leyfa þessar lántökur upp að vissu marki, en hafa eftirlit með þeim. Það er því algerlega villandi, þegar upphæð þessara lána er tekin með í heildaraðstöðuna út á við á þann hátt, að þessi lán séu talin hafa engin verið fyrr en 1960 og aukning þessara lána talin vera hrein nettbskuldaaukning erlendis. Það er villandi. En vegna þess að engar skýrslur eru til um upphæð þessara lána, áður en farið verður að leyfa þau, þá er í sjálfu sér ekkert í þessu hægt að gera, og ég skal ekki gera neina tilraun til að áætla, hvað þau lán hafi verið mikil áður, heldur taka lánin eins og þau eru núna samkv. skýrslum, eins og þau nú eru á pappírnum, sem hreina skuldbindingu gagnvart útlöndum. Ég viðurkenni, að í skýrslum er ekki hægt að gera annað en þetta. En ég vek athygli á því, að þetta er í sjálfu sér rangur samanburður.

Áður en ég kem að þeim töluupplýsingum, sem ég vildi veita, vildi ég líka vekja athygli á því, að þegar heildarstaða landsins gagnvart útiöndum er metin, er í sjálfu sér engan veginn nóg að benda á, hver er nettóskuld landsins gagnvart útlöndum. Sú tala, ef hún, er t.d. 2000 millj. kr., segir í raun og veru ákaflega lítið, að eitt árið hafi hún verið 2000 millj., annað árið hafi hún verið 1500 millj., —einhvern tíma í fyrndinni hafi hún verið 1000 millj., þ.e. heildargjaldeyrisskuld landsins gagnvart útlöndum. Slíkur samanburður er svo yfirborðslegur, að við honum verður að gjalda mikinn varhug, því að auðvitað skiptir meginmáli, hvernig heildarskuldin er samsett. Það skiptir auðvitað meginmáli, hversu mikill hluti skuldarinnar er föst, erlend, umsamin lán og hversu mikill hluti skuldarinnar er lausaskuldir, og þá hvernig greiðsluháttur þeirra lausaskulda er. Það skiptir auðvitað líka meginmáli, hvort hin föstu, umsömdu lán eru til stutts tíma, hvort þau eru til 3 ára eða hvort þau eru til 30 ára. Þetta er svo augljós staðreynd, að ekki ætti að þurfa að undirstrika hana mjög rækilega. En það er einmitt þetta, sem gerir samanburð á heildarskuldum landsins gagnvart útlöndum og þá jafnframt heildarnettóskuldum landsins gagnvart útlöndum svo varhugaverðan frá ári til árs, ef engar frekari skýringar fylgja, að sú breyting hefur á síðasta áratug orðið á samsetningu heildarskulda Íslands gagnvart umheiminum, að hlutdeild langra og fastra lána í heildarnettóafstöðu landsins gagnvart útiöndum, að hlutdeild fastra, umsaminna lána með góðum kjörum og löngum gjaldfresti hefur stórlega vaxið, en hlutdeild stuttra lána, 3–7 ára lána, með dýrum vöxtum hefur stórkostlega minnkað, og í þriðja lagi hafa lausaskuldir gjaldeyrisbankanna algerlega horfið. Sú tegund skulda, sem hefur aukizt umfram föst, umsamin lán til langs tíma, eru lausaskuldir verzlunarinnar, en um þennan skuldalið gildir einmitt það, sem ég sagði áðan, að sú aukning, sem í skýrslum kemur fram, er ekki raunveruleg, og sú upphæð, sem nú er um að ræða, um 600 millj. kr., verður engan veginn talin óeðlilega há upphæð miðað við heildarinnflutning til landsins. Það er alþjóðleg venja í alþjóðaviðskiptum, að seljendur veiti innflytjendum í öðru landi nokkurn gjaldfrest, minnst 2 og upp í 3 mánaða gjaldfrest. Það er heilbrigð viðskiptavenja. Seljandinn hefur aflað sér síns fjármagns með hliðsjón af því að geta veitt slíkan gjaldfrest og getur því oft lánað kaupanda í öðru landi fé með tiltölulega ódýrum hætti í slíku formi. Varðandi hin stuttu lán verzlunarinnar er því það að segja, að það er skoðun mín, þó að ég geti ekki sannað það, að aukningin sé alls ekki mjög veruleg og engan veginn sú, sem skýrslurnar bera vitni um, og svo í öðru lagi, og það er augljóst öllum, sem vilja skoða það, að 500–600 millj. kr. 1–3 mánaða viðskiptaskuldir gagnvart erlendum seljendum eru ekki óeðlilega há upphæð, og má segja, að þar sé um að ræða eins konar gjaldeyrisvarasjóð, sem íslendingar geti fengið aðgang að með tiltölulega ódýrum hætti í utanríkisviðskiptum sínum, og það er sjálfsagt fyrir Íslendinga eins og allar aðrar þjóðir að nota sér heilbrigðar lánsheimildir í venjulegum, eðlilegum viðskiptum. Það væri barnaskapur að gera það ekki. Sú þjóð, sem notar sér ekki slíkan 1–3 mánaða gjaldfrest í utanríkisviðskiptum sínum, ef einhver þjóð notar hann ekki, þá er það venjulega af því, að hún fær ekki að nota hann, af því að erlendir seljendur treysta ekki innflytjendunum og vilja ekki lána þeim vörur til landsins með slíkum gjaldfresti. Hafi þessi gjaldfrestur fyrir 5–10 árum verið mun minni en hann er í ár, á það án efa að einhverju leyti rót sína að rekja til þess, að íslenzkum innflytjendum var þá miður treyst vegna þess, hve gjaldeyrisaðstaða landsins var veik. Erlendir seljendur vildu ekki selja annað en gegn staðgreiðslu til landsins, af því að þeir treystu því ekki að fá greiðslu, þegar gjaldfresturinn væri liðinn. Einn af kostum þess, að land hafi sterka gjaldeyrisaðstöðu, einn af kostum þess, að land eigi gjaldeyrisvarasjóð, er einmitt sá, að með því móti á landið auðveldara með að fá heilbrigðan og ódýran gjaldfrest á vörukaupum sínum til landsins. Málflutningur stjórnarandstöðunnar um þetta efni er því í raun og veru, ef hann er skoðaður ofan í kjölinn, mjög villandi, jafnvel rangur í grundvallaratriðum.

Þetta var eins konar innskot, sem ég bið menn að hafa í huga, þegar menn heyra þær tölur, sem ég skal nú lesa upp varðandi heildargjaldeyrisstöðu landsins gagnvart útlöndum. Ég held raunar, að rétt sé, að ég lesi líka tölur um föst erlend lán, vegna þess að ég efast um, að heildarskýrslur um það efni hafi áður verið birtar opinberlega hér í þeim ritum, sem annars birta reglulegar skýrslur um þessi efni. Ég skal þá fyrst lesa heildarupphæð fastra erlendra lána Íslendinga í lok hvers árs síðan 1954. Það eru opinber lán, lán vegn0. fiskibáta og önnur einkalán,. en ég les aðeins heildartöluna til að íþyngja hv. þm. ekki allt of mikið með allt of mörgum tölum. En niðurstöðutala fastra erlendra lána siðan 1954 er sem hér segir:

1954 788.7 millj. kr., 1955 811.4 millj. kr., 1956 1177.9 millj. kr., 1957 1654.7 millj. kr., 1958 1924.6 millj. kr., 1959 2491.5 millj. kr., 1960 28 71.9 millj. kr., 1961 2853,1 millj. kr., 1962 2775.6 millj. kr. M.ö.o., upphæð fastra erlendra lána í lok s.l. árs var lægri en hún var í árslok 1960, hún nam í árslok 1962 2775.6 millj. kr., en hún nam í árslok 1960 2871.9 millj. kr. Á árunum 1961 og 1962 tókst m.ö.o. að lækka föst erlend lán íslendinga um u.þ.b. 100 millj. kr., eða upphæð, sem þarna er um að ræða (Gripið fram í: En hvað er til viðbótar 1963? ) Kemur á eftir.

Í þessu sambandi ber svo einnig að hafa það í huga, sem ég gat um áðan, að í sambandi við þessar heildartölur skiptir það meginmáli, hvernig samsetning lánanna er, og hún hefur breytzt mjög verulega, þannig að hlutdeild lána til langs tíma með góðum kjörum hefur stórvaxið, en hlutdeild stuttra lána með óhagstæðum kjörum hefur stórminnkað, og það skiptir í raun og veru miklu meira máli en heildarupphæð lánanna. Um það eru eflaust allir, a.m.k. þeir, sem setið hafa í ríkisstj., sammála mér, að erlendar lántökur Íslendinga í heild eru enn engan veginn orðnar eins miklar og þær mættu gjarnan vera, ef við ættum kost á lánum til nógu langs tíma og með nógu góðum kjörum. En það, sem gerir mikil erlend lán varhugaverð, er það, ef þau eru til stutts tíma og ef þau eru með óhagstæðum kjörum. Og það, sem var höfuðgallinn á skuldaupphæðinni, sem átti sér stað, þegar núv. ríkisstj. tók við völdum, sem var þá tæpar 2500 millj. kr., höfuðhættan við þá erlendu skuld var sú, hversu mikill hluti skuldarinnar voru lán til stutts tíma með óhagstæðum kjörum.

Auðvitað segir þetta ekki allt um stöðuna gagnvart útlöndum. Það er alveg rétt, sem margoft hefur verið sagt: Þetta eitt segir ekki alla söguna, frekar en gjaldeyrisstaða bankanna ein segi alla söguna og frekar en verzlunarskuldirnar segi alla söguna. Vilji menn mynda sér hugmynd um heildarstöðuna gagnvart útlöndum, þarf að taka þetta allt saman í eina tölu, föstu erlendu lánin, gjaldeyrisstöðuna og vörukaupalánin innanlands. Og það hefur hér verið gert, og nú skal ég leyfa mér að lesa þá niðurstöðu. Það er hún, sem í sjálfu sér skiptir máli í þessari deilu. Það er hún, sem skiptir máli í þeirri deilu, sem átt hefur sér stað undanfarnar vikur, mánuði og ár um það, hver sé raunveruleg gjaldeyrisstaða landsins gagnvart útlöndum. Það er í raun og veru alveg furðulegt, og í raun er verið að misbjóða almenningi, misbjóða dómgreind almennings algerlega, að það skuli geta átt sér stað, að blöð stjórnarandstöðunnar, meira að segja alþm. hér standi hver framan í öðrum og blöðin rífist hvort við annað um það, hver sé raunveruleg staða landsins gagnvart útlöndum. Þetta eru þó allt saman tölur, sem tiltölulega lítill vandi er að taka saman eða fá teknar saman.

Ég hef áður skýrt frá tölum um þetta á einstökum árum. Það hafa blöð stjórnarandstöðunnar látið eins og vind um eyrun þjóta og haldið áfram að endurtaka staðhæfingar, stundum studdar röngum tölum, oftast studdar engum tölum, um það, að heildarstaða landsins gagnvart útlöndum hafi farið versnandi undanfarin ár, einkum sé hún verri en hún var 1958, og margendurtekið: hún hefur farið versandi undanfarin ár. En um þetta á ekki að þurfa að deila, og hér skal ég nú leyfa mér að lesa tölur um þetta, með leyfi hæstv. forseta, síðan í árslok 1954. En niðurstaðan af föstum erlendum lánum, gjaldeyrisstöðu og vörukaupalánum alls er sem hér segir:

1954, skuld 461.5 millj. kr., 1955 801.1 millj. kr., 1956 1299.3 millj, kr., 1957 1859.9 millj. kr., 1958 2044.7 millj. kr., 1959 2685.3 millj. kr., 1960 2986.8 millj, kr., 1961 2620 millj. kr. og 1962 2038.1 millj. kr.

M.ö.o.: heildargjaldeyrisskuld Íslands gagnvart útlöndum náði hámarki í lok ársins 1960 og nam þá tæpum 3000 millj. kr., eða 2986.8 millj. kr. Þetta var fyrirsjáanlegt árið 1959, eftir að stjórn Hermanns Jónassonar var farin frá völdum, á árinu 1959 og árinu 1960, að heildargjaldeyrisstaða landsins mundi fara versnandi til ársloka 1960, einmitt vegna þess, hve tekin höfðu verið mörg stutt lán erlendis á árunum 1956–1959. Og stuttu lánin 1959 voru að mjög verulegu leyti afleiðing ákvarðana, sérstaklega um skipakaup, sem teknar höfðu verið á árinu 1958. Það var ekki heldur við því að búast, að stefnubreytingin, sem núv. ríkisstj. ákvað í ársbyrjun 1960, gæti haft áhrif á því sama ári, það væri sannarlega til allt of mikils mælzt. En við gerðum okkur von um, að hún mundi hafa áhrif árin 1u61 og 1962 til lækkunar á hinum stuttu og dýru lánum erlendis. Og þessar tölur, sem ég hef lesið, bera ótvírætt vitni um, að það hefur tekizt. Á undanförnum tveimur árum, á árunum 1961 til 1962, hefur heildarskuld landsins gagnvart útlöndum minnkað um næstum 1000 millj. kr., hún hefur lækkað, og þessari tölu bið ég um að veita sérstaka athygli, heildarskuld landsins hefur lækkað á undanförnum árum; 1961–1962, úr 2986.8 millj. kr. í 2038.1 millj. kr., eða um tæpan 1 milljarð kr. Það er í þessu, sem ég æ ofan í æ held fram, að fyrst og fremst komi fram jákvæður árangur efnahagsmálastefnu núv, ríkisstj. Það hefur tekizt að minnka skuldabyrðina erlendis um þessar 1000 millj. kr. vegna greiðsluafgangs í utanríkisviðskiptunum á árunum 1961–1962, og þó er batinn í raun og veru miklu meiri en þetta, af því að hlutdeild stuttu lánanna og dýru lánanna í heildarlánasúpunni hefur minnkað alveg stórkostlega. Það er því ekki rétt, að skuldirnar í árslok 1962 hafi verið hærri en þær voru í árslok 1958, þær voru í árslok 1962 nokkru lægri en þær voru í árslok 1958, þó munar það ekki mjög miklu. Skýringin á því er sú, sem ég sagði áðan, að á árinu 1958 batnaði gjaldeyrisstaðan til bráðabirgða mjög verulega vegna metafla, sem þá var, og hagstæðra gjaldeyrisviðskipta að öðru leyti, en á því sama ári voru ákvarðanir teknar um ráðstöfun meira en alls þess gjaldeyris, sem safnaðist á árinu 1958, enda kom það ljós strax á árinu 1959, að þá var um gífurlegan greiðsluhalla að ræða og gjaldeyrisvarasjóðurinn hvarf, eins og ég sagði áðan, eins og dögg fyrir sólu. Þess vegna er það í raun og veru alveg út í bláinn að miða nokkurn alvarlegan samanburð við gjaldeyrisstöðu í árslok 1958, sem vitað var að var eingöngu til bráðabirgða. Það hafði verið gjaldeyrisskuld í árslok 1957 og var aftur komin gífurleg skuld í árslok 1959, — að einblína stöðugt á örlítinn gjaldeyrisvarasjóð 1958 sem tákn þess, að mörg undanfarin ár hafi verið rekin skynsamleg stefna, það er svo villandi sem mest má vera. Og það er þeim til lítils sóma, sem hafa geð í sér til að halda áfram að hamra stöðugt ú slíkri blekkingu.

Einu atriði vil ég að síðustu bæta við að gefnu sérstöku tilefni af hálfu hv. 1. þm. Austf., Eysteins Jónssonar, í tilefni af þeirri margendurteknu staðhæfingu hans í ræðu hans hér í þessari hv. þingdeild og vegna margendurtekinna fullyrðinga af hálfu stjórnarandstöðunnar í heild um, að það sé inntak stefnu ríkisstj. í peningamálum að halda sparifé úr umferð, að takmarka útlán, í því sambandi vildi ég leyfa mér að minna á, hve gífurleg aukning útlánanna hefur verið á undanförnum árum. Samkvæmt upplýsingum í Fjármálatíðindum Seðlabankans námu heildarútlán banka og sparisjóðs í ársbyrjun 1960 3899.0 millj. kr. í lok sept. s.l. námu heildarútlán banka og sparisjóða 6134.5 millj. kr. Síðan í árslok 1960 hafa útlán banka og sparisjóða m.ö.o. aukizt um hvorki meira né minna en 2200 millj. kr., um meira en tvo mill jarða. Ber þetta vitni um, að ríkisstj. hafi lagt ofurkapp á að takmarka útlán, sýna atvinnuvegunum fjandskap með því að frysta spariféð? Getur það verið rétt, að útlán vaxi um 2200 millj. kr., samtímis því sem níðzt sé á atvinnuvegunum með því að halda fyrir þeim sparifé landsmanna, halda því úr umferð? Nei, hitt er auðvitað sanni nær, eins og hv. þm. Framsfl., prófessor Ólafur Jóhannesson, hélt fram í útvargsumræðum hér á hinu háa Alþ. fyrir skemmstu, að ef gagnrýna má núv. ríkisstj., ef gagnrýna má Seðlabankann og bankakerfið fyrir eitthvað í meðferð peningamála og fjármála, þá er það frekar fyrir það, að útlánaaukningin hafi einkum upp á síðkastið verið óvarleg, enda var það kjarni í málflutningi sjálfs varaformanns Framsfl., prófessors Ólafs Jóhannessonar, að ríkisstj. hefði á þessu ári a.m.k. gert þá höfuðskyssu að leyfa bönkunum að auka á útlán sín með mjög ógætilégum hætti. Það er sannarlega ekki samræmi í þessum málflutningi varaformanns Framsfl, og þeim ásökunum formanns flokksins, að ríkisstj. takmarki útlánin með alveg óeðlilegum hætti á þann hátt að frysta sparifé landsmanna. Það sem af er þessu ári hafa útlán banka og sparisjóða aukizt um hvorki meira né minna en 1000 millj. kr., á þessu eina ári, eða frá ársbyrjun til septemberloka, á 9 mánuðum þessa árs hafa útlán banka og sparisjóða aukizt um næstum helming þess, sem þau hafa aukizt um allar götur frá ársbyrjun 1960. Bera þessar tölur vitni um, eru þær staðfesting á þeirri höfuðgagnrýni hv. formanns Framsfl., Eysteins Jónssonar, að ríkisstj. sé að níðast á atvinnuvegunum með því að halda fyrir þeim lánsfé, með því að frysta spariféð í Seðlabankanum? Nei, hér er auðsjáanlega um rangan málflutning að ræða. Með þessi móti held ég, að ég hafi vikið að öllum meginatriðunum, sem fram hafa komið í ræðum formanna stjórnarandstöðuflokkanna um þetta mikilvæga frv.