12.05.1964
Neðri deild: 99. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (1192)

83. mál, Seðlabanki Íslands

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins færa fram viðbótarástæður í tilefni af því, að forseti telur sér ekki fært, að svo vöxnu, að verða við þessari ósk minni, og vil vonast til þess, að það, sem ég segi nú, verði til þess, að hann sjái sér fært að fallast á þetta. En það, sem ég vil bæta við, er þetta:

Það er engin knýjandi nauðsyn að slíta þingi á fimmtudag. Það er nógur tími til þess að fjalla með eðlilegum hætti um mál eins og þetta. Það er ekkert, sem rekur á eftir í þessu tilliti. Og þar að auki vil ég leyfa mér að benda á, að hafi eitthvað rekið hér á eftir og sé orðið síðbúið, þá er það áreiðanlega ekki þm. að kenna, heldur öðrum. Það er þá því að kenna, hvernig þessi mál hafa verið búin í pottinn.

Seðlabankamálið, sem kemur til greina að taka sér á dagskrá, er með allra fyrstu málum, sem lagt var fram á þessu þingi. Það er búið að vera hér fyrir þinginu í marga mánuði, en nú hefur verið sett inn í málið í snöggum svip stórfellt nýmæli, sem verður að fá eðlilega meðferð og eðlilega umr., og það getur ekki fengið eðlilega umr., ef umr. á að hefjast kl. eitt um nótt. Það er alveg óhugsandi, að málið geti fengið eðlilega meðferð með því í d. Það er ekkert, sem rekur á eftir í þessu efni. Það er alveg eins hægt að slita þingi á föstudaginn og á fimmtudaginn. Það eru engin rök fyrir því, að það þurfi að halda okkur hér um hánótt til þess að ræða þetta mál, vegna þess að það verði umfram alla muni að slíta þingi á fimmtudaginn. Það er alveg eins hægt að slíta því á föstudaginn, það sér hver maður í hendi sér.

Ég vil vonast eftir, að þessar viðbótarástæður, sem ég hef fært fram, verði nú til þess, að hæstv. forseti treysti sér til að taka þessa sanngjörnu ósk til greina, því að ég finn, að hann telur þetta sanngjarnt. En telji hann þetta sanngjarnt, er líka sjálfsagt að verða við því á eðlilegan hátt. Það missir enginn neins í, en við losnum við þann leiðinlega blæ, sem á því að halda hér fundi um rauðar nætur.