18.11.1963
Neðri deild: 17. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (1336)

68. mál, lausaskuldir iðnaðarins

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég tek að sjálfsögðu með ánægju á móti þakklæti því, sem hv. flm. þessa frv. var að færa mér fyrir að hafa endurflutt hér till. um endurkaup á hráefnavíxlum iðnaðarins, sem hann flutti upphaflega á þingi 1958 og fékk þá samþykkta, en þrátt fyrir það hefur enn ekki komið til framkvæmda. Ég tel það víst, enda virtist mér það koma fram í ræðu hv. flm., að hann telur það ekki að ástæðulausu, að ég hef flutt þessa till., því að það er komið nokkuð á sjötta ár, síðan hún var samþ. hér í þinginu, án þess að nokkuð hafi verið gert í þá átt að koma henni til framkvæmda. Þó má öllum vera það augljóst, að þörfin fyrir það, að iðnaðurinn fái endurkeypta hráefnavíxla sína, er orðin enn þá meiri nú en var fyrir 51/2 ári, því að á þessum tíma hafa t.d. átt sér stað tvær gengisfellingar og verulegar kauphækkanir, sem hafa það í för með sér, að iðnaðurinn hefur enn þá meiri þörf fyrir slík endurkaup heldur en hann hafði fyrir 51/2 ári, og þess vegna er enn þá meiri þörf á því, að hann fái jafna aðstöðu við sjávarútveg og landbúnað í þessum efnum. Það er líka kunnara en frá þurfi að segja, að þetta stendur iðnaðinum mjög fyrir þrifum, að hann nýtur ekki sama réttar og sjávarútvegur og landbúnaður í þessum efnum, m.a. stendur ótvírætt framleiðni hans og framleiðsluaukningu mjög fyrir þrifum, vegna þess að eigið fé, sem iðnaðurinn mundi geta notað til þess að auka framleiðni sína og framleiðslugetu, verður hann nú að nota sem rekstrarfé, vegna þess að hann fær ekki eðlilega afgreiðslu hjá bönkunum í þeim efnum, eins og t.d. sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn. Það hefur þess vegna verið fullkomin ástæða til þess, að þessi upprunalega till. hv. flm. væri endurnýjuð hér í þinginu, vegna þess að af hálfu þeirra flokka, sem hafa farið með stjórn á undanförnum árum, hefur ekkert verið gert til að framkvæma þetta mál.

Það, sem hefur valdið því, að framkvæmdir á þessari till. hafa dregizt nú á sjötta ár, er fyrst og fremst það, að þeir flokkar, sem töldu sig vera þessu máli fylgjandi 1958, Sjálfstfl. og Alþfl., hafa farið með völd síðan og hafa bókstaflega ekkert gert til þess að framkvæma þetta mál, sem Alþingi var þó búið að fela ríkisstj. að sjá um framkvæmd á. Og ég skal lofa hv. flm. því, að það skal ekki standa á Framsfl. að standa að því, að þessi viljayfirlýsing verði endurnýjuð á Alþingi og nái fram að ganga, og ég vona þá, að hann sjái jafnframt um, að það standi ekki lengur á stjórnarflokkunum í þessum efnum og þeir reynist nú jafnfúsir til framkvæmda og þeir virtust upphaflega vera 1958 til þess að styðja þetta mál þá. Annars sé ég enga ástæðu til þess að fara út í deilu við hann um þetta atriði. Við erum báðir sammála um það, og við reynum hvor um sig í okkar flokkum að vinna sem bezt að framgangi þessa máls, og ég get lofað honum því, að það skal ekki standa á stuðningi Framsfl. við þessa till., og þá sér hann vonandi um, að það standi ekki á stuðningi stjórnarflokkanna við að koma henni fram.

Um það mál sem hér liggur fyrir, vil ég aðeins segja það, að mér virðist það vera mjög eðlilegt og sanngjarnt, að iðnaðurinn fái sömu fyrirgreiðslu í þessum efnum og sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn hafa þegar fengið. En mér fyndist það hins vegar koma mjög til athugunar, að þessi aðstoð, sem iðnaðurinn á að fá samkv. þessu frv. um breyt. á lausaskuldum í föst lán, gildi ekki aðeins fyrir þær lausaskuldir, sem hafa myndazt á árunum 1957–61, heldur komi þar einnig til athugunar, að hið sama gildi um árin 1962–63, því að ég býst við, að það verði líka niðurstaðan, að aðrir atvinnuvegir fái svipaða fyrirgreiðslu hvað þau ár snertir, því að það er ekki neitt sérstakt réttlæti í þessum efnum að taka út úr þessi 4 ár, sem hér er rætt um í frv., heldur er eðlilegt, að það sé látið gilda fyrir lengri tíma, ef ekki á að mismuna iðnaðarfyrirtækjunum.

En ég vil svo segja það að lokum, að þó að þetta frv, nái fram að ganga, sem ég tel sjálfsagt, þá er jafnmikil nauðsyn eftir sem áður fyrir það, að iðnaðurinn njóti jafnréttis við aðra atvinnuvegi hvað snertir endurkaup á vöruvíxlum hans, og þetta mál má ekki á neinn hátt, þótt það gangi fram, sem sjálfsagt er, verða til þess að tefja fyrir því eða því til fyrirstöðu, að iðnaðurinn fái jafnrétti við aðra atvinnuvegi hvað snertir endurkaup á vöruvíxlum.