08.05.1964
Neðri deild: 95. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 1949 í B-deild Alþingistíðinda. (1467)

128. mál, búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum

Axel Jónsson:

Herra forseti. Þar sem bæjarstjórn Kópavogs hefur samþ. einróma að óska eftir aðild að þessum lögum og ég á þar sæti, vil ég aðeins skýra afstöðu okkar til þessa máls.

Í Kópavogi mun reyndar ekki vera mikið um sauðfjárhald, tiltölulega lítið um það, að menn hafi það sem atvinnu. Það er hins vegar nokkuð um það, að menn hafi slíkt kannske fyrst og fremst sér til ánægju. Því er ekki að neita, að í þéttbýli, eins og Kópavogur er orðinn, er búfjárhald, af hvaða toga sem það er spunnið, nokkurt vandamál, og verður eðlilega að skipa því þar og annars staðar við hliðstæðar aðstæður, eftir því sem henta þykir, þ.e.a.s. viðkomandi bæjaryfirvöldum verður að vera það heimilt að setja þessar takmarkanir og útiloka a.m.k. á ákveðnum svæðum algerlega búfjárhald.

Það hefur hins vegar verið hafinn mjög harður andróður gegn samþykkt þessa frv., kannske fyrst og fremst vegna þess, að það felur í sér heimild til algers banns. Ég veit það, að innan bæjarstjórnar Kópavogs, svo að ég vitni aftur til þess staðar, er það fyrst og fremst meining bæjarstjórnar að fá heimild til þess að skipa þessum málum þannig, að fyllsta tillit sé tekið til þéttbýlisins, og í öðru lagi að geta einnig á grundvelli þessara laga tryggt þeim áframhaldandi rekstur sinna búa, sem hafa af því einhverja atvinnu, og ég vil segja: taka einnig fullt tillit til þeirra, sérstaklega eldri manna, sem reka smábúskap fyrst og fremst sér til ánægju og til þess að hafa eitthvað að sýsla við. Við viðurkennum fyllilega, að þetta er tilfinningamál, og það verður þar eins og annars staðar, hygg ég, af viðkomandi bæjaryfirvöldum tekið á þessu með sannsýni og lipurð. En ég undirstrika, að það er nauðsyn á því, að bæjar- og sveitarstjórnir hafi heimild til þess að geta skipað þessum málum innan sinna byggðarlaga eftir því, sem aðstæður krefjast.

Því er ekki að neita, að í Kópavogi hefur þetta valdið leiðinlegum árekstrum, og ég hygg, að þannig muni bað geta verið um fleiri staði. Bæjarstjórn Kópavogs var því strax einróma um það, þegar þetta frv, kom fram í hv. Ed., að óska eftir aðild að því, hvað Kópavog áhrærði. Síðan hafa Hafnarfjörður og Akureyri bætzt í hópinn og nú síðast Garðahreppur, og Garðahreppur er að nokkru leyti sveitahreppur og að nokkru leyti þéttbýli. Ég vil þó benda á, að sveitarstjórn Garðahrepps samanstendur að meiri hluta af bændum. Þeir skilja samt fyllilega þann vanda, sem því byggðarlagi er á höndum, annars vegar þær jarðir, sem þar eru enn þá setnar sem bújarðir, og hins vegar hið vaxandi þéttbýli, sem er að rísa upp á öðrum stöðum í hreppnum. Og ég hef ekki trú á því, að meiri hl. hreppsnefndar Garðahrepps, bændurnir þar, mundi óska eftir aðild að þessum lögum, ef þeir teldu, að það ætti að beita þeim þannig, að ósæmilegt væri gagnvart þeim, sem skepnuhald hafa, og ég hygg, að þeir beri einnig það traust til annarra sveitarstjórna, að það muni ekki annars staðar heldur vera gert.

Því er ekki að neita, að í áróðri gegn þessu hefur — ég vil segja oft og tíðum legið við, að hægt væri að draga þær ályktanir, að bæjar- og sveitarstjórnir væru þannig skipaðar, að það væri ekki í þessu einstaka máli óhætt að fela þessum ráðamönnum bæjarfélaganna verulegt vald, þótt hins vegar það sé á mörgum öðrum sviðum, sem sveitarstjórnir eðlilega hverju sinni fara með allvíðtækt vald og verða síðan eins og aðrir í næstu kosningum á eftir að hlíta dómi kjósenda um það, hvort þær hafi misnotað vald sitt eða ekki. Og ég verð að segja, að í því atriði, sem hæstv. forsrh. vitnaði í hér í sambandi við brtt., sem liggur fyrir frá heilbr.- og félmn., finnst mér nokkuð vera tekið undir þennan áróður, sem sagt, að það þyki ástæða til þess að slá varnagla við því, að búfjárhald á tilraunastöðvum verði þó alls ekki bannað. Mér finnst vera nokkuð tekið undir þennan öfgafulla áróður, sem ég vil segja, að hefur verið hafður í frammi gegn þessu frv., sem fyrst og fremst er, eins og hefur verið margtekið fram, heimildarlög, og ég trúi ekki öðru en að allar sveitarstjórnir beiti eftir fyllstu sannsýni. En það er rétt að hafa í huga, að það verður oft og tíðum að horfa á fleira en eitt atriði, hafa mörg sjónarmið fyrir augum og vega og meta, hvað er hægt í þessum efnum og hvað ekki.

Ég skal ekki orðlengja þetta frekar, en legg til, að frv. verði samþ. Ég get fellt mig við þá breyt., að þetta nái til annarra kaupstaða og kauptúna, og þó að fleiri hafi ekki óskað eftir aðild að þessu, þarf enginn að vera hræddur um það, að þeir fari að beita þessum l., og ég vonast til þess, að bæjar- og sveitarstjórnir njóti þó þess álits, að það sé óhætt að fela þeim lausn þessa vanda eins og lausn ýmissa annarra stærri vandamála.

Ég viðurkenni, að þetta er kannske fyrst og fremst tilfinningamál, og ég er sannfærður um það, að viðkomandi sveitarstjórnir muni taka á þessu máli einmitt út frá því sjónarmiði.