14.12.1963
Sameinað þing: 27. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2096 í B-deild Alþingistíðinda. (1594)

Verkföll

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Úr því að þessi mál eru komin hér til umr. á Alþingi, um þau hefur verið nokkuð rætt, þá tel ég, að ég geti varla látið þeim ljúka svo, að ekki verði sögð um þau einhver orð frá hendi Alþýðusambandsins og verkalýðssamtakanna.

Það hefur verið rakið hér, að d þessu sumri hefur það markvert gerzt í kjaramálum, að endurskoðun hefur farið fram á launum opinberra starfsmanna, og talið, að sú launahækkun nemi að meðaltali um 40–45%. Einnig er það kunnugt, að dýrtíð hefur aukizt svo gífurlega á liðnu sumri, að þar er um að ræða a.m.k. 15 vísitölustig. Og rétt er það, sem hér var áðan sagt, að sérfræðingar ríkisstj. nú reikna með, að rétt innan stundar komi fram 6 vísitölustig í viðbót, þegar litið sé á alveg fyrir fram vitaðar verðhækkanir og áhrif af þeim lítilvægu afskiptum, sem hæstv. ríkisstj. lagði til að hafa af málinu til lausnar deilunni, og dýriíð kynni að aukast af tilefni þeirra aðgerða og þar með byrðum ríkissjóðs, sem af því kynni að leiða. Þarna er því um að ræða, alveg um þær mundir, sem staðið er að samningum við verkalýðshreyfinguna, að horfast í augu við um 20 vísitölustiga hækkun á verðlagi, almennu verðlagi í landinu, sem á engum bitnar auðvitað harðar en hinum lægst launuðu. Þegar svo standa sakir, tjóar lítt að sýna sinn góða vilja til að leysa mikinn vanda með því að bera fram till., sem þýða kannske 2–3% hjá þeim, sem það helzt kæmi að verulegu gagni. Þegar málin stóðu svona og horfzt var í augu við þessa feiknadýrtíð og þá lagfæringu annars vegar, sem margar stéttir höfðu fengið, því að það urðu ekki einasta opinberir starfsmenn ríkis og ríkisstofnana, heldur starfsfólk allra hankanna og starfsfólk Reykjavíkurborgar og starfsfólk allra bæjarfélaga í landinu, yfirleitt allt fólk með hvítan flibba um hálsinn, þá sáu allir, og ég held, að það verði allir að viðurkenna, að þá var ekki stætt á því að ætla verkafólkinu einu að vera eftir.

En samt sem áður gerðist það nú þá, þegar þetta allt hafði gerzt í launamálum og dýrtíðarmálum, þá lagði hæstv. ríkisstj. fram á Alþingi lagafrv. um, að verkafólkið skyldi samkv, lögum búa við óbreytt kaupgjald, missa rétt til þess að semja við sína löglegu viðsemjendur og missa sinn verkfallsrétt fram til næstu áramóta. Þetta var of harkalegt, þetta var svo ranglátt, að meginhluti þjóðarinnar reis upp gegn þessu. Þess vegna var góðu heilli horfið frá því að lögfesta þetta frv., eftir að þjóðin hafði talað svo skýru máli, að það varð ekki misskilið. Og þá vonuðu allir, að nú yrði vel nýttur sá mánaðarfrestur, sem þá skapaðist í viðbót við 41/2 mánuð, sem liðnir voru frá vordögum, þegar verkföllum var þá frestað að tilmælum ríkisstj. og bráðabirgðasamkomulag gert fram til 15. okt., með því að kaup hækkaði í vor um 71/2 %, en það var öllum ljóst, að allir kjarasamningar áttu að falla úr gildi fyrirvaralaust þann 15. okt.

En hvað var hafzt að eftir 9. nóv., þegar sáttagerðin var gerð hér á Alþingi? Jú, það var gert þetta, að verkalýðssamtökin urðu við þeim tilmælum hæstv. ríkisstj. að reyna að þjappa öllum greinum samtakanna saman í sem mesta skipulagslega samstæða heild. Og það tók ekki ýkjalangan tíma. Það tók skamman tíma, enda var vel að þessu unnið. Það tók ekki nema um 4–5 daga. Þann 14. nóv. voru öll deilumálin komin í hendur sáttasemjara ríkisins, og frá þeim degi hafa sáttasemjarar ríkisins eða sáttasemjari og hans aðstoðarmenn, sem nú eru orðnir þrír, sem ég líka fagna, að ríkisstj. lét þá ágætu menn honum til aðstoðar, — frá þeim tíma hafa þeir haft þessi mál öll í sínum höndum og hafa haft verkstjórnina, eins og vera ber, yfir samtökum atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, að því er snertir samningamálin síðan.

Ríkisstj. lét frá sér tilboð þann 3. des. Það fól í sér, að hún lagði til, þó að maður hefði nú haldið, að það heyrði fremur undir atvinnurekendurna sjálfa, að kaup yrði hækkað á lægstu töxtum almennra verkamanna um 8% og hjá iðnaðarmönnum, sem ynnu eftir tímakaups- og vikukaupstöxtum, um 4%. En þessar prósentutölur voru ekki miðaðar við útgreitt kaup, heldur áttu þessar prósentutölur eingöngu að miðast við hækkun á dagvinnukaupi, sem er nú sízt meira en 2/3 hlutar af tekjum verkamanna. Þriðji parturinn af tekjum verkamanna er fenginn með yfirvinnu og næturog helgidagavinnu, en hún átti ekki að hækka samkv. tilboði ríkisstj. Þess vegna er það nákvæmlega sagt, ef menn vilja ekki ljúga með tölum, og það eiga menn ekki að gera í þessu alvarlega máli, — þetta tilboð var að því er snertir þá, sem áttu að fá 8% kauphækkun á dagvinnuna, tilboð um 5.6% hækkun á kaupi fólks, kaup þeirra, sem taka lægstu taxtana. Tilboðið var um 5.6% því fólki til handa og helmingi minna handa iðnaðasmönnunum, sem vinna á tíma- og dagvinnukaupi.

Í annan stað átti svo að gera tilhliðrun á útsvarsstigum, þannig að hinir lægst launuðu fengju þar nokkra ívilnun, — flestir, þó ekki allir. En hins vegar átti þessi byrði aðeins að færast til, þannig að hún átti að færast yfir á herðar hinna tekjuhærri. því að útsvarsstiginn átti að hækka í efri endann við visst tekjumark. Við höfum aldrei neitað því í verkalýðshreyfingunni, að þetta væri tillitssemi til hinna lægst launuðu, og tekið það sem góða og gilda vöru, þó að einhleypingar eigi t.d. strax sennilega að bera þyngri byrði en að óbreyttri útsvarslöggjöf eða a.m.k. við visst tekjumark þeirra, það er gefið. En þetta tilboð um útsvarsbreytinguna höfum við þó vikum saman ekki fengið nákvæmlega útfært, þannig að á því sé hægt að taka, hversu mikil kjarabót þetta sé hinum allra lægst launuðu, því að við höfum ekki enn þá fengið frá hæstv. ríkisstj. hina nýju útsvarsstiga, sem hún kveðst ætla að leggja til grundvallar fyrir breyttri löggjöf, og á meðan vitum við ekki nákvæmlega um, hvað í þessu felst. Við viðurkennum, að þetta stefnir að svolítilli lagfæringu hjá þeim allra lægst launuðu, en færir aftur gjaldabyrðina yfir á herðar hinna hærra launuðu. Þetta metum við nokkurs, teljum þetta í réttlætisátt. Að vísu skal það sagt af mér, að til skamms tíma hefur það verið talin sjálfsögð skylda stjórnarvalda að haga sáttalöggjöf á réttlátan hátt, án þess að því fylgi þá sú orðsending til verkafólks: Þá verðið þið líka að lækka ykkar kaup. — Það er alveg ný kenning. En samt, ef þetta er gert, jafnframt því sem verið er að semja um kaup, þá metur verkafólk þetta sem jákvætt tilboð til sín, og því hefur alls ekki verið hafnað, þó að svarað hafi verið, að í heild sé tilboð ríkisstj. metið sem ófullnægjandi samningsgrundvöllur.

Í þessu tilboði var svo imprað á því, að ríkisstj. mundi e.t.v. gera einhverja breytingu á lögum til þess að auka kaupgetu útflutningsatvinnuveganna, og það tilboð sneri meira að þeim en okkur. En við fengum þó þarna um það að vita.

Þessu næst var svo í tilboði ríkisstj. gerð grein fyrir því, samkv. útreikningum hennar sérfræðinga, hvað þeir teldu, að dýrtíð mundi hækka alveg á næstunni vegna verðlagsbreytinga, sem þegar hefðu átt sér stað eða væru að verða, en ekki væru komnar inn í verðlagið, og vegna þeirra aðgerða, sem ríkisstj. ætlaði að gera deilunni til lausnar. Þar var m.a. gert ráð fyrir því, að til þess að standast byrðar, sem ríkisstj. kynni að taka að sér vegna framleiðsluatvinnuveganna, mundi verða aflað nýrra tekna með söluskatti og' hann mundi nema um 220 millj. kr. og af honum ættu að fara sérstaklega til að hjálpa framleiðsluatvinnuvegunum um 45 millj. kr. Þetta var a.m.k. látið fylgja til okkar með útskýringum sérfræðinga frá ríkisstj., sem við áttum tal við.

Þá var vikið að lokum að einu atriði, sem hefur verið og er kannske þungamiðjan í öllum kröfum verkalýðssamtakanna. Það er krafan um það, að um það kaup, sem semjist, skuli teknar upp verðtryggingar, þannig að það kaup; sem um semst, missi ekki gildi frá degi til dags, frá því að samningar voru undirritaðir og þangað til það er orðið að engu á skömmum tíma, eins og raunar gerzt hefur, með vísitölutryggingu eða einhverjum öðrum aðferðum, sem ríkisstj. eða hennar ráðunautar gætu lagt fram till. um. Við erum ekkert bundnir þar við eitt eða neitt fast form. Á þessu tók hæstv. ríkisstj. í sínu tilboði jákvætt að minni hyggju. Hún gaf þar í skyn, að hún mundi vera fáanleg til að beita sér fyrir afnámi þeirra ákvæða í lögum, sem banna nú hvers konar launabætur á kaup með vísitölukerfi, en tók það fram, að þessi vísitala ætti ekki að byrja að verka, fyrr en inn væru komnar þær verðhækkanir, sem nú væru fyrirsjáanlegar og næmu 6 stigum. Það þýðir, að þær bætur ættu að eyðast, áður en vísitalan færi að verka. Þetta var fyrsta skilyrðið. Þetta þýðir auðvitað það, að inn í kaupgjaldssamninga teldum við okkur nú þurfa að taka þær verðhækkanir, sem þarna er gert ráð fyrir, því að annars yrðu þær bara að nafninu til, væru farnar út í veður og vind undireins við næstu skráningu dýrtíðarinnar, undireins og þær eru komnar út í verðlagið, og það er sagt, að þær séu rétt í þann veginn að koma það. Í annan stað um þessar lauslegu vísitöluhugmyndir, sem þarna voru bornar fram, var sagt: Fob: verð erlendrar vöru á ekki að mælast í þessari vísitölu. — Þarna var strax tekið fram, að það ætti að vera mjög mikil takmörkun á henni, og þeir kölluðu þetta vísitölutilboð: tilboð um takmarkaða vísitölu á laun. Nánar höfum við ekki fengið þessar hugmyndir skýrðar. En það verður að segjast, að þarna er op í báða enda, bæði að því er snertir þær fyrirsjáanlegu verðhækkanir, sem menn geta reiknað út í vísitölustigum nú, eru á næstu grösum, þær eiga ekki að mælast í henni, og fob: verð erlendrar vöru á líka að vera utan við hana og á ekki að mælast í henni. Þá ætti hún eingöngu eftir það að mæla verðhækkanir af innlendum toga spunnar.

Ég held, að ég hafi ekki afflutt tilboð hæstv. ríkisstj. með þessu, sem ég nú hef sagt. En þegar verkamenn litu á þetta tilboð í heild og sáu fram á það eftir upplýsingum ríkisstj. sjálfrar og hennar sérfræðinga, að 6 vísitölustig ættu að hverfa í verðbólguhítina strax, þegar upp væri staðið frá samningum, og ekki fá verðtryggingu í vísitölu, þá sögðum við: Kauphækkunin, 8%, sem eru ekki nema 5.6% á tekjur verkamanna eftir lægstu töxtum og þeim mun minni hjá iðnaðarmönnum, er þegar farin vegna þess frádráttar, sem þarna kemur alveg á næstu dögum og upplýst er að liggi fyrir. Og eftir eru í mesta lagi 1.6–2%, því að þessi 6 vísitölustig eru 4%. — Kauphækkunin hjá 8% mönnunum er 5.6, og við gátum því ekki séð annað, og því hefur ekki verið hnekkt í viðræðum við sérfræðinga ríkisstj., að nettó fólst ekki í þessu nema 2% kjarabót, þegar plúsar og mínusar voru teknir með í dæmið til þeirra, sem áttu að fá svokölluð 8%, en kjaraskerðing átti að bitna á tímakaupsmönnum iðnaðarins þrátt fyrir þetta tilboð ríkisstj. Ég kalla þess vegna hæstv. ríkisstj. bjartsýna um lausn þessara deilumála, ef hún hefur nokkurt augnablik gert sér vonir um, að þetta hennar tilboð væri lausn á vandanum. Þá er hún ekki raunsæ. En það hefur engri forsmán verið slegið á þetta tilboð, við höfum metið það jákvæða við það og það, sem er neikvætt við það, og gefið út okkar skoðun um það, hvað í því felist nettó, og við höfum lýst því yfir í heild, að við teldum það ófullnægjandi umræðugrundvöll til lausnar deilunni, og um það hefur ekki verið ágreiningur í okkar röðum.

Ríkisstj. hefur nú gert eitt enn, sem ég hef ekki vikíð að. Seint um kvöldið þann 9. des., þegar verkföllin áttu að hefjast kl. 12 á miðnætti, fengum við, — það hefur líklega verið á 10. tímanum, sem viðræðunefnd við sáttasemjarana var fengið í hendur bréf frá hæstv. ríkisstj. Þá var matarhlé hjá viðræðunefndunum, og það var ekki tekið fyrir fyrr en kl. 10 eða að ganga 11, en þá var það líka rætt af samstarfsnefnd verkalýðsfélaganna. Þar sem þá voru mættar allar samninganefndir allra þeirra sjö samningahópa, sem verkalýðshreyfingunni hefur verið þjappað saman í, í einu húsi, þá var þetta bréf ríkisstj., sem var um það, að enn þá yrði veittur viðbótarfrestur á verkföllunum, sem áttu að hefjast þá kl. 12 á miðnætti, þetta bréf var lagt fyrir samstarfsnefndina og allar samninganefndirnar, hverja fyrir sig, og spurzt fyrir um það, þegar bréfið hafði verið kynnt, hvort nokkrar tillögur væru um það að taka þessu. Ekki einn einasti maður í einni einustu samninganefnd og enginn maður í samstarfsnefndinni taldi fært að verða við þessu bréfi hæstv. ríkisstj. Enda getur hæstv. ríkisstj. ekki verið svo ófróð um þessi mál, að hún viti ekki, að það er á einskis einstaklings færi, einskis manns færi, að aflýsa löglega boðuðum verkföllum. Þá fyrr um daginn höfðu verið haldnir félagsfundir í allmörgum stéttarfélögum, en þetta bréf barst ekki, áður en þeir fundir voru haldnir, það var ekki hægt að leggja bréfið fyrir einn einasta félagsfund. Það var aðeins hægt að ræða um þetta í þessum nefndum þarna um kvöldið og taka þar um það ákvörðun. Og allir voru á einu máli um, að það væri ekki hægt að verða við þessari beiðni hæstv. ríkisstj. um enn þá einn framhaldsfrest. Það var um óákveðinn tíma, sem beðið var um að fresta verkföllunum, og það var ekki jafnframt neinn boðskapur, sem vakti vonir um lausn.

Ég held, að við megum ekki gera mikið að því, hvorki úr röðum verkalýðshreyfingarinnar né frá ríkisstj. hendi eða atvinnurekenda, að vera að leggja fram sýndarplögg, sem bera vott um, að okkur langi til þess að þvo okkur um hendurnar, eins og vissan mann, sem getur um í heilagri ritningu.

Síðan hófust verkföllin, þau víðtækustu, sem hafa brotizt út hér á landi. Yfir 60 stéttarfélög með um 20 þús. manns hófu verkföll 10., 11. og 12., og ýmis félög eru enn að boða verkföll, jafnvel nú í dag eru boðuð veikföll innan stundar í Vestfirðingafjórðungi, og deilan er þess vegna sífellt að verða alvarlegri og alvarlegri. Samgöngurnar eru lamaðar, verzlunin var lömuð, þangað til í gær er gengið til samninga þar á þann hátt, að fulltrúar verzlunarmannasamtakanna vanræktu allt samstarf við samstarfsnefndina, sem þeir voru meðlimir í, og voru í látlausum samningum við — ja, sennilega sína viðsemjendur og sáttasemjara dag eftir dag, nótt eftir nótt, þangað til búið var að fá það út úr heildinni. En ef einhverjir í röðum atvinnurekenda eða hæstv. ríkisstj. hafa haldið, að þeir væru að leysa verkfallið með þessu, þá hafa þeir misskilið allt málið, því að þetta hefur orðið til þess að hleypa miklu, miklu meiri hörku í deiluna. Og fólk segir og brosir í kampinn: Það hafa fyrr verið háð verkföll á Íslandi, þó að kaupmenn og kaupsýslan í Reykjavík hafi ekki verið með í þeim átökum, og það verður gert enn. — Það fellur engum ketill í eld fyrir það, þó að það hafi tekizt að buga forustumenn verzlunarmannasamtakanna. Sú lausn er, eins og allir vita, gerðardómur, sem á að hafa lokið störfum fyrir 1. febr. Þá fyrst má vitnast, hvaða launabætur verzlunarmennirnir fá. Það lá á borðinu, að þeir áttu rétt á miklum kjarabótum vegna þeirra kjarabóta, sem opinberir starfsmenn höfðu fengið, og um starfsmenn við skrifstofustörf í þjónustu kaupsýslunnar lá það á borðinu, að þeir áttu þann rétt að fá sömu kauphækkanir. En þessar kauphækkanir máttu ekki vitnast, meðan verkafólkið var einnig í samningum, því að það var fyrirhugað, að það ætti að fá miklu, miklu minna. Og ef málin voru leyst nú fyrir opnum tjöldum, þá gat það orðið verkafólkinu til liðs, eftir að það var búið að standa við bakið á verzlunarmönnunum, og þess vegna varð að flokka þetta í sundur. En vitanlega lyppaðist ekki verkafólkið niður við þetta, það þarf enginn að halda.

Ég hafði af þeirri reynslu, sem ég hef haft hér af vinnuveitendasamtökunum og vinnubrögðum atvinnurekenda, þá hafði ég alveg reiknað með því, að fyrir 12 á miðnætti þann 9. des. mundi koma tilboð frá atvinnurekendunum gegnum sáttasemjara; en það kom ekki. Þá hugsaði ég með mér: Nóttin líður ekki svo, að það komi ekki tilboð frá þessum aðilum, tilboð, sem sé við það miðað, að sumir í okkar röðum telji það viðunandi og vilji ganga að því og aðrir telji það ófullnægjandi og mundu vilja hafna því. Slíkt tilboð hlýtur að koma þessa nótt til þess að reyna að rugla okkar raðir. — En það kom ekki heldur. Og af hverju kom það ekki? Það kom ekki, af því að sáttasemjararnir höfðu svo mikið að gera við að reyna að ná verzlunarfólkinu og prenturunum út úr okkar röðum. Og það dugði ekki sú nótt til þess. Síðan hefur allur tíminn verið upptekinn við þetta, þangað til þessi árangur hefur náðst, að verzlunarfólkinu var náð út úr heildarsamtökunum, sem hafði verið beðið um að stofna sérstaklega til.

Ég víti þessi vinnubrögð, hvort sem þau eru runnin undan rifjum hæstv, ríkisstj. eða sáttasemjaranna sjálfa: Höfuðvandinn, sem þeir áttu að minni hyggju að taka á, var fyrst og fremst að reyna að leysa vandamál frumatvinnuveganna og þá kaupsýslunnar jafnframt. En nú hefur allur tíminn frá 9. des. þangað til fram á þessa stund farið í það að reyna að leysa mál verzlunarinnar í Reykjavík. Það er kannske nokkuð mikils virði, ég játa það. Jólakauptíðin er dýrmæt þessu fólki. En það eru mörg fleiri verðmæti í húfi, sem ekki er síður vert að hafa í huga og byggja á.

Þetta verkfall er ekki rekið af hörku fram til þessa, það getur enginn sagt. Þegar leið að miðnætti 10. des., vissi enginn um það, hvort nokkur fengi mjólk í Reykjavík næsta dag. Mjólkurfræðingar eða þeirra stéttarfélag hafði ákveðið að hefja verkfall þá um miðnættið, og það var ekkert auðgert mál að fá þá til þess að hæt,ta við að nota sinn verkfallsrétt og taka til starfa til þess að tryggja Reykvíkingum mjólk. Það var reynt með milligöngu sáttasemjara um nóttina. að leysa þessi mál, og það tókst ekki, og það var slegið föstu um fund til að leysa þennan vanda kl. 10 þann 10. des. árdegis, og hann stað til kl. 2, og þá fyrst hafði tekizt að fá mjólkurfræðingana til þess að veita undanþágu um verkfallsaðgerðir á neyzlumjólk til Reykjavíkur. Og þið haldið kannske, að það sé ekki nema auðveldur hlutur fyrir verkalýðssamtökin að veita svona undanþágu og tryggja þessa neyzluvöru. En það kostaði meira. Það kostaði það, að verkalýðsfélagið á Selfossi, sem einnig stóð í verkfalli, varð að veita 30 aðstoðarmönnum í mjólkurbúinu undanþágu til þess að vinna þar með mjólkurfræðingunum, ef þetta átti að geta gerzt. Og þá varð enn fremur verkalýðsfélagið að opna þvottahúsið á Selfossi, til þess að hægt væri að tryggja, að þetta fólk, sem nú átti að vinna í mjólkurbúinu, faglærðir og ófaglærðir, fengi hrein föt, þá varð að veita þar undanþágu. En ekki nóg með það, bifvélavirkjafélagið, sem er landsfélag og var einnig í verkfalli, það varð einnig að veita undanþágu, til þess að nauðsynleg viðgerðarþjónusta handa 50 þungavörubifreiðum yrði tryggð, svo að hægt væri að annast flutningana. M.ö.o.: það var þarna búið í raun og veru, til þess að tryggja Reykvíkingum neyzlumjólk, með hörðu og með friðsamlegum tilmælum að fá hvert stéttarfélagið á fætur öðru til að hverfa frá sinni ákvörðun meira og minna um að framkvæma verkfallið. Og sögðu þó þessi félög: Við ætluðum ekki að vera á herðunum á hinum félögunum, við ætluðum að berjast fyrir okkar kauphækkun sjálfir. — Núna í dag er svo komið, að það er í raun og veru búið að veita undanþágu á Selfossi um alla vinnu, eftír að verzlunarfólkið fékk sína lausn í gær, nema 20–30 manns, sem stendur nú í verkföllum og má ekki vinna, en allt hitt fólkið er að vinna í undanþáguþjónustu, til þess að við getum fengið mjólk. Við hefðum þó, held ég, getað lifað á þurrmjólk og drukkið kókakóla og ávaxtadrykki.

Verkfallsstjórnin hefur líka reynt að tryggja það, að fólk fengi neyzlufisk. En það verður líka að gerast með undanþágum, bæði til þeirra báta, sem afla fisksins, og til fiskbúðanna. Og með mjólkurvandamálinu var leyst líka, að Reykvíkingar fengu brauð. Það vantaði svo sem ekki fyrstu dagana, að það var rokið í búðina af þessu venjulega fólki, sem alltaf vill birgja sig upp í verkföllum, hamstra, og það keypti tugi kílóa af brauði og varð marga daga, eftir að glænýtt, volgt brauðið kom til þeirra, sem höfðu ekki keypt, að gófla sitt harða verkfallsbrauð, og var maklegt og ekkert nema maklegt. Það hefur kastað því kannske, það hefur nú líklega gert það.

Seinustu dagana hefur ekki linnt á neyðarópunum austan af landi. Ég hefði haldið, að vandi síldarsaltendanna á Austfjörðum væri leystur með því að fresta verkföllunum frá 10. nóv. til 10. des., því að þá átti öll síld af Austurlandi að vera farin úr landi samkvæmt samningum. Nei, en 10. des. kom og þeir höfðu ekki allir einu sinni fyrirhyggju að ápækla sína síld seinasta dag, áður en verkföllin hófust, ekki allir, og urðu svo að biðja verkafólkið að leggja nú fram vinnu, eftir að verkföllin voru hafin, að ápækla síldina, til þess að hún eyðilegðist ekki. Ég sagði þessum mönnum fyrst: Þið eigið sjálfir að bjarga ykkar síld með því að semja skynsamlega við verkafólkið. Ef þið viljið það ekki, hvernig getið þið þá beðið verkafólkið að bjarga henni með því að leggja fram vinnu í verkfalli? Ykkur er það sjálfum næst. — En það er búið núna að gefa þá undanþágu yfir alla Austfjarðalínuna, að fram skuli lögð nauðsynleg vinna til þess að firra þessa síld eyðileggingu. En ef um allt hefði verið synjað og hver maður staðið á sínum verkfallsrétti og sagt: Hér verður engin vinna lögð fram, — þá hefðum við ekki verið að þamba mjólk í dag að minnsta kosti og þá væru mörg verðmæti í hættu, meiri en hér hjá kaupmannastéttinni í Reykjavík, þó að meira sé hugsað um það. Öllum dögunum síðan 10. des. hafði verið varið til þess að leysa vanda kaupsýslunnar, en vandi atvinnulífsins látinn bíða, eins og hann væri enginn. Ég kalla þetta öfugt að farið. Það er alveg eins öfugt og sú utanríkispólitík að vera alltaf fyrst og fremst að ráðstafa innkaupum, hvar sem er, ráðstafa væntanlegum gjaldeyri, sem framleiðslan skapi, en hugsa seinast um það að afla markaða fyrir söluvöruna.

Nei, þetta verkfall hefur, það sem af er, ekki verið rekið með hörku. En verkalýðshreyfingin er þess ekki umkomin að veita undanþágu frá öllum vanda. Það er t.d. blóðugt að verða, vegna þess að samningar fást ekki, að stöðva síldveiðarnar hérna við Faxaflóa, sem hafa gengið illa, gengið treglega fram að þessu, ef góð tíð kæmi nú og síldin fiskaðist. En við getum ekkert annað. Verkafólkið á Akranesi er í verkfalli. Það hefur því orðið að biðja um það, að bátarnir þaðan, bátarnir héðan úr Reykjavík, verkafólkið hér, bátarnir úr Hafnarfirði, — verkafólkið hér hefur orðið að biðja um það, að sú vinna, sem átti að fara fram á Akranesi, í Reykjavík og í Hafnarfirði af fólkinu, sem nú er í verkfalli, hún verði ekki frá því tekin af fólki, sem ekki er í verkfalli, í Keflavík, Ólafsvík, Sandi, Patreksfirði eða á Vestfjörðum. Og verkafólkið segir sem svo: Eins og það er sjálfskrifuð siðferðisregla hjá okkur, að við tökum ekki vinnu þá, sem verkamaður í verkfalli hefur lagt niður á sama stað, eins gerum við það ekki heldur, þó að vik eða fjörður eða haf sé á milli, og þetta verður þannig í framkvæmdinni milli staða. — Og ég álít þarna meira í húfi, stöðvun síldarflotans núna við Faxaflóa, — það er ekki hægt að veita undanþágur frá þessu, — heldur en þó að verzlunin hefði verið stöðvuð nokkra daga, En a.m.k. stöðvun verzlunar og fiskvinnslu hefði hvort tveggja stuðlað að því, að verkfallið yrði styttra. Allar undanþágur stuðla að því, við vitum það ósköp vel, að þyngja verkfallsbyrðarnar á þeim, sem eru í verkfalli, og gera verkföllin lengri. Það, sem er því verið að biðja um með undanþágu, það er verið að biðja um að létta á óþægindum, bjarga verðmætum fyrir einn eða annan, en leggja meiri verkfallsbyrðar á fólkið, sem stendur í verkfallinu.

Hæstv. ríkisstj. og atvinnurekendurnir hafa óspart haft það á vörunum, að þeirra kappsmál sé að hækka svolítið kaup þeirra lægst launuðu. Þetta hljómar ágætlega. En samt gekk það nú einna tregast að fá nokkrar tillögur frá atvinnurekendum um hækkun kaups hinna lægst launuðu. Hins vegar skal játað, að ríkisstj. nefndi það, 8% til þeirra á dagvinnuna, þegar nefnd voru 4% til iðnaðarmannanna, og vildi þannig láta drýgst koma í hlut hinna lægst launuðu.

Hér er, eins og í öllum öðrum löndum, sem ég þekki til, nokkru hærra kaup hjá iðnlærðum mönnum heldur en hjá ófaglærðu fólki, og ég hygg, að enginn neiti því, að þannig verður það að vera, annars fæst enginn til að leggja á sig iðnnám í fjögur ár og oft framhaldsnám í viðbót. Það verður að vera svolítið hærra kaup hjá hinum iðnlærðu heldur en hinum ófaglærðu. Þetta viðurkennir verkafólkið sjálft og allir þess trúnaðarmenn. Nú er því spurningin: Er þessi mismunur á kaupi iðnaðarmanna á Íslandi ósanngjarnlega mikill? Er iðnaðarmannakaupið of hátt miðað við kaup verkafólksins? Þetta höfum við rætt í sameiginlegum n. okkar, og allir hafa fallizt á það, að hlutfallið milli þeirra iðnaðarmanna, sem taka kaup í tímavinnu og vikukaupi, það skuli barizt fyrir því, að það hlutfall verði óbreytt.

Ég spurði Björgvin Sigurðsson, framkvstj. Vinnuveitendasambandsins, að því við samningaborð hér einu sinni á dögunum og hygg, að hann misvirði það ekki við mig, þó að ég segi það hér í þessu sambandi: „Telur þú hlutfallið hér hærra milli iðnaðarmanna á tíma- og vikukaupi heldur en á Norðurlöndum?“ „Nei, en sannast sagt held ég, að það sé mjög svipað,“ sagði hann. Þetta er rétt eftir honum haft.

Hvaða kröfur hefur nú verkalýðshreyfingin tekið upp í þessu efni? Hún hefur tekið upp þá sameiginlegu kröfu, að kaup faglærðra iðnaðarmanna og verkafólks skuli hækka um sama hundraðshluta, hlutfallið á milli þeirra skuli haldast óbreytt. Það verða gerðar kröfur um það, að þessu hlutfalli verði ekki raskað.

Ef það væri nú svo, að það væri mikið framboð á járniðnaðarmönnum, yfirdrifið framboð á prenturum, yfirdrifið framboð á rafvirkjum, yfirdrifið framboð á mönnum í iðngreinunum, þá mætti álykta, að þarna væri kaupið óþarflega hátt, það væri ekki ástæða til þess að lokka svona marga menn til þessara starfa. En hvernig er það? Það er þannig, að prentsmiðjurnar eru reknar með hálfum mannskap og yfirborguðum. Það er þannig, að það er skortur á mönnum í flestöllum iðngreinum, af því að ungt fólk fæst ekki vegna þess kaupsmismunar, sem nú er, til þess að taka fremur á sig iðnnám til þess að tryggja sér þau lífskjör, sem þá bjóðast. Það er því vafasamt, að það sé þjóðfélagslega réttmæt ráðstöfun að ætla sér að draga saman muninn á þessu kaupi milli ófaglærðra og faglærðra. Ég efast um, að við hljótum nokkra þjóðfélagsblessun af því. Það er þannig, að við erum alveg sérstaklega í mannahraki í iðngreinunum flestum.

Eftir að ríkisstj. lagði fram sínar till., kom til boð frá atvinnurekendum. Fyrst héldu þeir sér náttúrlega við tilboð ríkisstj., og ég hélt sannast að segja, að tilboð ríkisstj. mundi jafnvel verða til þess að stöðva öll frekari tilboð af hendi atvinnurekenda, því að þeir segðu sem svo: Ríkisstj. hefur þarna talað fyrir okkur, það er ekki rétt af okkur gagnvart henni að bjóða hærra eða meira, — og hélt því, að þeir sætu fastir við sinn keip með það og að þetta yrði kannske til að stöðva allt saman, úr því að ríkisstj. fór inn á kaupgjaldsmálahliðina, sem ég taldi horfa fyrst og fremst að atvinnurekendunum. Nei, það fór samt svo, að þeir buðu fyrst 8% hækkun yfir alla línuna, þ.e.a.s. féllust á, að iðnaðarmennirnir fengju það líka, en eingöngu bundið við dagvinnu eins og hjá ríkisstj. Þetta var tilslökun, og nú tókum við það til umr., hvort við ættum ekki að gera gagntilboð eða hvort þetta væri ekki þess virði. Við ákváðum að gera gagntilboð og það ríflegt gagntilboð. Við ákváðum, að í staðinn fyrir að við höfðum staðið á kröfunni um 40 kr. á tímann, skyldum við fara niður í 38. Hvað er það? Það er 8% lækkun frá okkar kröfum, krónan er 4%. Svo var strögglað áfram, og það leið sjálfsagt til næsta fundar, að þá mega atvinnurekendur eiga það, þeir buðu aftur, að nú skyldi þeirra boð verða 10%. Við svöruðum því aftur án verulegs dráttar með því að slá einni krónu af enn, og þannig standa sakirnar. Þannig hefur verið skipzt á tilboðum, þannig að atvinnurekendur hafa boðið 1.0% hækkun á dagvinnukaup, við höfum hins vegar slegið af. Það er ekki þannig í prósentutölu á allt kaupið, en við höfum slegið af fyrst 8% og svo 4%, við höfum slegið af 12% af okkar kröfum. Þannig standa málin nú og hafa staðið frá því áður en verkfallið hófst, og síðan hefur ekki verið hreyft við þeim málum. Seinasta tilboðið er frá okkur, og þess vegna er það á misskilningi byggt, ef hæstv. forsrh. sakar okkur um að hafa ekki beðið um fund á ný, því að ef við gerðum það, þá segði sáttasemjari undireins við okkur: Um hvað biðjið þið um fund? Eruð þið með nýtt tilboð? Og hvað er það? — Okkar tilboð er það seinasta tilboð, sem gefið hefur verið. Það var tilslökun um eina krónu og erum þá komnir niður um 37% úr 43, sem okkar krafa var upphaflega.

Það hefur verið alveg fast skilyrði frá hendi ríkisstj. og sjálfsagt atvinnurekenda líka, að ekki yrði að þessu sinni tekið í mál að semja um hækkun á ákvæðisvinnutöxtum og uppmælingatöxtum. Nú verð ég að segja það, að þarna eru hugtökin ekki nógu skýr. Það er ekkert vit í því að beita sér fyrir almennt, eins og við gerum úr röðum verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekendur gera og ríkisvaldið styður allt, að það sé aukin ákvæðisvinna í framkvæmd í atvinnulífinu, en svo í fyrstu kaupdeilu á að setja fast allt ákvæðisvinnukaup, það skal enginn kauphækkun fá, sem vinnur á ákvæðisvinnutöxtum. Og sumt af verkafólkinu í verksmiðjuiðnaðinum hér, meðlimir í Iðju, er á svo lágu ákvæðisvinnu kaupi, sem hefur verið ákveðið af atvinnurekendunum einum, einhliða, að það er algerlega ranglátt að ætla að neita því um alla kauphækkun, — algerlega ranglátt. En hins vegar skýrir það málið, sem ég nú skal upplýsa, að af því að við höfðum ekki heldur tekið í mál að hækka uppmælingataxta þeirra stéttarfélaga, sem aðallega vinna samkv. þeim kaupgreiðsluhætti, hlutfallslega eins og kaup verkafólks og iðnaðarmanna á tíma- og vikukaupi, þá skrifuðu tvö af þeim félögum, sem vinna aðallega samkv. uppmælingatöxtum, okkur bréf og sögðu sig úr samstarfinu. Og þetta var auðvitað birt í blöðum þá þegar. Það er því ekki verið að slást fyrir kaupgjaldi annarra manna nú heldur en verkafólksins, iðnverkafólksins og almenna verkafólksins, faglærðra iðnaðarmanna, sem vinna á tíma- og vikukaupstöxtum. Ákvæðisvinnufélögin, af því að þau fengu ekki fullnægjandi undirtektir við sínum kröfum og fengu greinilega alveg þvert nei við því, að þau fengju hliðstæðar hækkanir, þá hafa þau dregið sig í hlé. Að þessu sinni verður ekki samið um þeirra mál. Múrarafélagið og Félag pípulagningamanna drógu sig þarna alveg til baka. Þau hafa vafalaust hugsað sem svo: Það, að við séum þarna með, skal sannarlega ekki standa í vegi fyrir því, að hinir lægst launuðu geti fengið einhverja kauphækkun.

Eins og málin standa nú, er enginn vafi á því, þegar sáttasemjarar ríkisins hafa ekki borið fram eina einustu tillögu, frá því að verkfallið hófst aðfaranótt hins 10. des., að þá spyr almenningur í landinu nú: Af hverju stafar þetta aðgerðarleysi, þetta sinnuleysi gagnvart atvinnulífinu? Það hefur verið lagt mikið kapp á að leysa mál verzlunarinnar, en hitt hefur verið látið eiga sig, engin tillaga komið fram, frá því að verkalýðsfélögin slógu seinast af einni krónu af sínum kröfum í viðbót við tvær áður. Og það er því enginn vafi á því, að það er réttmætt að spyrja ríkisstj. nú: hvað hyggst hún fyrir? Ætlar hún að láta þessi mál vera afskiptalaus og láta það ráðast, hvort verkfallið verður langt eða skammt? Ég veit, að það er höfuðskylda aðilanna, atvinnurekendanna og verkalýðssamtaka, að leggja sig fram við lausn svona deilu. En ef ríkisstj, gæti eitthvað gott til málanna lagt, þá hefur það verið frá öndverðu afstaða mín, að gegn því skyldi ekki slegið hendi, þó að ég álíti alltaf, að ríkisvaldið eigi sem allra minnst að blanda sér í slík deilumál. Frumskyldan hvílir á herðum aðilanna á vinnumarkaðnum. En það er svo mikið í húfi fyrir þjóðfélagið, að hafi ríkisstj. einhverjar till. fram að leggja, þá á hún að leggja þær fram og á að hafa hönd í bagga um þetta vandasama, víðtæka mál, sem á þeirri stundu, sem verkalýðshreyfingin neitaði um allar undanþágur, væri orðið mjög alvarlegt mál í þjóðfélaginu, svo að það blandaðist þá engum hugur um það áreiðanlega.

En eins og nú horfir, þá er áreiðanlega langt í land með það, að sá draumur rætist, að við getum fengið heildarsamninga. Það er búið að

sjá fyrir því. Það var talað um heildarsamninga, þegar við byrjuðum núna, en það er búið að sýna það og sanna, að þar fylgdi ekki hugur máli hjá öllum, að það skyldu vera heildarsamningar, svo að sá draumur er víst ekkert nálægt því að rætast á næstunni.

Núna snýst vandamálið eingöngu um það að rétta hlut þeirra, sem eru lágt launaðir, ófaglærðs verkafólks, iðnverkafólksins, iðnaðarmanna á tímakaupi og vikukaupi. En þetta er allt saman láglaunafólk, þetta er allt saman fólk, sem ekki verður komizt hjá að laga launin hjá, bæði með tilliti til dýrtíðaraukningarinnar í sumar og þeirrar launakjarabreytingar, sem orðið hefur hjá hálaunafólkinu í landinu. Og úr því að sagt er, endurtekið daglega: Við viljum bæta kjör hinna lægst launuðu, — þá má það ekki bara vera á vörunum, það verður bráðum að fara að sjást, að menn meini eitthvað með því.