30.04.1964
Sameinað þing: 71. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 2180 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

Útvarp úr forystugreinum dagblaða

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég vil með leyfi hæstv. forseta bera fram tilmæli til hæstv. menntmrh. Þau snerta ríkisútvarpið. Á nýliðnum vetri var tekinn upp sá háttur hjá útvarpinu að flytja frásagnir úr stjórnmálagreinum dagblaðanna í Reykjavík á hverjum morgni þá daga, sem blöðin koma út. Blöðin, sem lesið er úr, eru fimm, en stjórnmálaflokkarnir, sem þau eru málsvarar fyrir, eru fjórir. Einn flokkurinn hefur tvö blöð, en hinir þrír flokkarnir sitt blaðið hver. Með þessu móti fær einn flokkurinn helmingi lengri tíma í útvarpinu fyrir sinn málflutning heldur en hinir flokkarnir hver um sig. Ég fæ ekki betur séð en að með þessu séu brotin fyrirmæli í reglum, sem útvarpið á að fara eftir, og ég tei, að það hafi verið undarlega hljótt um þetta mál. Í reglugerð nr. 28 frá 195F, um útvarpsrekstur ríkisins, sem út var gefin af menntmrh. og enn er í gildi, segir m.a., að við útvarpið skuli ríkja fyllsta óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum. Mér sýnist, að hér hafi þessa ekki verið gætt. S.l. laugardag skrifaði ég greinarkorn um þetta efni í dagblað hér í borginni. Ég vakti þar athygli á málinu og beindi þeim tilmælum til útvarpsráðs og útvarpsstjóra, að þau tækju það til íhugunar. Ég sendi þeim blaðið með greininni. Nú veit ég ekki, hver viðbrögð þeirra útvarpsmanna verða í málinu, þó að ég vænti þess, að þeir geri hér nauðsynlegar breytingar. En ég vil leyfa mér að mælast til þess við hæstv. menntmrh., að hann fylgist með málinu, og ef það skyldi dragast nokkuð að ráði, að útvarpsráð og útvarpsstjóri breyti fyrirkomulaginu á upplestrinum úr stjórnmálablöðunum, þannig að samrýmist hlutleysisreglum útvarpsins, vil ég beina þeirri áskorun til hæstv. ráðh. sem yfirmanns stofnunarinnar, að hann beiti sér fyrir því, að leiðrétting fáist í þessu efni. Fáist slík leiðrétting ekki, sýnist sá kostur einn fyrir hendi að fella niður þennan útvarpsþátt.