13.04.1964
Neðri deild: 77. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í C-deild Alþingistíðinda. (1923)

23. mál, jafnvægi í byggð landsins

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Það mun margur hv. þm. furða sig stórlega á frávísunartillögu þeirri, sem hv. meiri hl. fjhn. hefur borið fram í því máli, sem hér er til umr., en að till. mun ég aðeins víkja síðar, en vil leyfa mér áður að drepa lítils háttar á málið í heild og m.a. sögu þess og meðferð á Alþingi og í ríkisstjórnum, síðan hið opinbera viðurkenndi í verki með fjárframlögum, að óhjákvæmilegt væri að eiga nokkurn beinan þátt í að stuðla að því, sem kallað er jafnvægi í byggð landsins.

Það er öllum vitanlegt, að undirstaðan að eflingu þéttbýlisins og þá fyrst og fremst hér við Faxaflóa stafar frá fólks- og fjármagnsflutningum úr hinum dreifðu byggðum. Þessi blóðtaka sveita og sjávarþorpa til þéttbýlisins var þó fyrstu áratugi þessarar aldar tæplega svo ör, að telja mætti til þjóðfélagsvandamála. En á árum siðari heimsstyrjaldarinnar varð á þessu mjög alvarleg breyting, svo að segja má, að stappaði nærri þjóðfélagsbyltingu á þessu sviði.

Fólksflutningarnir og fjárflóttinn úr byggðum landsins á þessum árum og þá mest til Reykjavíkur og nágrennis olli sköpum fyrir dreifbýlið, og að stríðsárunum loknum hélt skriðan áfram með fullum þunga, þótt þá hefði sennilega verið tækifæri til að draga úr henni, ef sú ríkisstj., sem tók að sér að dreifa hinum svokallaða stríðsgróða, hefði haft vilja og skilning á að hlynna þá meir en raun bar vitni að framförum og atvinnuuppbyggingu í sveitum landsins og sjávarþorpum. Það var hins vegar ekki gert. Öfugþróunin í þessum efnum hélt áfram. Mörg þorpin héngu sem kallað er á horriminni og virtust tæplega eiga viðreisnarvon, og sama var að segja um sveitabyggðir, sem víðs vegar um landið tæmdust óðfluga. Landsbyggðin grisjaðist ískyggilega og sumar byggðir lögðust nær eða alveg í eyði.

Eftir að nýsköpunarstjórnin lét af völdum og áhrifa frá dreifbýlinu fór meir og meir að gæta í stjórn landsins, var í auknum mæli faríð að sinna meir en áður brýnustu nauðsynjamálum dreifbýlisins, og koma þar í fyrstu röð þær framkvæmdir, sem voru undirstöðuatriði fyrir landsbyggðina, að fá hafnir, vegi, brýr, síma o.fl., o.fl. En auðvitað var þetta ekki nóg, dreifbýlisfólkið þurfti að fá aðstoð til að byggja upp atvinnutæki sin, ekki sízt í sjávarþorpunum. Til þess og til nauðsynlegustu aðgerða í ýmsum sveitum landsins þurfti hið opinbera að leggja fram fé, mest með hagkvæmum lánskjörum og einnig sem beinan styrk, þar sem og þegar mikla nauðsyn bar til.

Fyrir því átti Framsfl. frumkvæðið að því, að tekin var upp í fjárl. 1955 nokkur fjárhæð til þess, eins og það var orðað, „að bæta úr atvinnuörðugleikum í landinu“ Vafalaust má telja, að þessi byrjunarfjárveiting hafi í upphafi verið of litil, en hún nam þó meira en 1% af fjárlagaupphæð þess árs. Telja má, að þessi fjárveiting hafi markað merkileg tímamót í viðhorfi hins opinbera til dreifbýlisins, ekki eingöngu fyrir þá fjárhagslegu þýðingu, sem þetta fjármagn hafði fyrir aðþrengdar og getulitlar byggðir, að byggja upp nauðsynleg atvinnutæki, heldur ekki síður fyrir það, að með þessu viðurkenndi hið opinbera skyldu sína að eiga raunhæfan þátt í að stuðla að jafnvægi í byggð landsins, reyna að fyrirbyggja, að lífvænlegar byggðir legðust frekar en orðið var í eyði, og gera fólkinu, sem eftir var þar, mögulegt að lifa og starfa áfram í sínum heimabyggðum.

Fjárveiting þessi 1955 var ekki veitt í neinu ölmususkyni, heldur túlkaði hún þjóðhagslegt viðhorf og nauðsyn, að þjóðin hefði ekki efni á öðru en að halda byggðinni við, bæði til þess að hægt væri að nýta hinar miklu auðlindir landsins til sjávar og sveita og enn fremur, auk margs annars, að þjóðin mætti ekki vera án margvíslegra uppeldislegra og menningarlegra skilyrða, sem dreifbýlið hafði upp á að bjóða, m.a. til hagsbóta þéttbýlinu.

Hér var ekki heldur um að ræða að gera tilraun til að greiða þá skuld, sem þéttbýlið er í við dreifbýlið að hafa alið upp hundruð og þúsundir af ungu, mannvænlegu fólki, sem svo jafnharðan fluttist í þéttbýlið, þegar það var þess umkomið að fara að vinna sinni heimabyggð, og ekki var heldur um að ræða að bæta dreifbýlinu þau hundruð milljóna, sem fólkið hafði flutt með sér til þéttbýlisins. Það lá ekki heldur til grundvallar þessum afskiptum hins opinbera að stuðla með fjárframlögum og vinna að jafnvægi í byggð landsins, að bæta þá öfugþróun, að einstaklingar og fyrirtæki töldu og telja sig enn ekki hafa aðstöðu til að starfrækja atvinnurekstur, svo sem heildsölur, skipafélög o.fl., o.fl., annars staðar en í Reykjavík, en afleiðing þess er og hefur auðvitað verið sú, að fé dreifbýlismanna hefur einnig eftir margvislegum slíkum leiðum sogazt til Reykjavíkur og þéttbýlisins þar í kring. Að ég svo ekki tali um það viðhorf ríkisvaldsins fyrr og síðar að staðsetja svo að segja allt ríkisbáknið ásamt yfirstjórn allra peningamála landsins hér í Reykjavík.

Skuld þjóðfélagsins og þéttbýlisins við dreifbýlið í þessum efnum er eftir sem áður ógreidd, þótt nú væri lögð fram lágmarksfjárhæð til að reyna að afstýra því, að landsbyggðin legðist í meiri auðn en orðið er. Slíkt væri aðeins sams konar búhyggindi og bóndans, sem gerir svo vel við mjólkurkýr sinar, að þær þrífist og skili sem beztri nyt.

Dreifbýlið hefur löngum verið ein af farsælustu mjólkurkúm þ,jóðfélagsins, ef rétt er á litið, og sömuleiðis þéttbýlisins, sem í eðli sínu er gott og nauðsynlegt í nútímaþjóðfélagi. Þess hefur aðeins ekki verið gætt að stuðla fremur en annars staðar að heilbrigðu og heppilegu jafnvægi milli þéttbýlis og dreifbýlis, þannig að það fái að njóta sín, heldur hefur þéttbýlið, eins og kunnugt er, hrúgazt saman á einu horni landsins, hér við Faxaflóa og í Reykjavík, með þeim afleiðingum, sem allir þekkja. Og svo er svart í álinn í þessum efnum, að núverandi ráðamenn þjóðarinnar kveinka sér jafnvel undan því og vilja drepa á dreif þeirri tiltölulega litlu kröfu úr tveimur verst settu landsfjórðungunum að fá menntaskóla staðsettan í byggðum þeirra.

Fjárveitingin, sem var tekin upp 1955 til jafnvægis í byggð landsins, stóð svo í stað að mestu hvað fjárhæð snertir þar til 1957, en þá hækkaði hún upp í 15 millj., eins og áður hefur verið getið af hv. frsm. minni hl. n. Og þessi fjárhæð mun hafa numið um 2% af fjárlagaupphæð þess árs, eins og frá fjárl. var gengið. 1958 var upphæðin nokkru lægri, 1%, en það kom ekki svo mjög að sök, vegna þess að þáv. ríkisstj. veitti dreifbýlinu margs konar aðstoð á því ári og þeim árum eftir ýmsum öðrum leiðum til stuðnings atvinnurekstri og atvinnuuppbyggingu. 1959 færði jafnaðarmannastjórnin með samþykki Sjálfstfl. upphæðina niður í 10 millj., og við þá upphæð hefur setið síðan, og á ég þar auðvitað við þá fjárhæð, sem nú er veitt eftir þeim lögum, sem gilda um atvinnubótasjóð.

Við þessa upphæð hefur orðið að sitja, eins og ég sagði, frá 1959, þrátt fyrir þá miklu verðrýrnun, sem átt hefur sér stað í gildi krónunnar. Fyrir 10 millj. nú mun ekki vera hægt einu sinni að fá vænan nýtízku fiskibát, tæplega 500—600 mála síldarverksmiðju og e.t.v. 9 eða 10 venjulegar íbúðir fyrir meðalfjölskyldu.

Fjárstuðningur hins opinbera á árunum 1955—1958 gerði ótrúlega mikið gagn. Bæði var, eins og kunnugt er, krónugildið á þeim árum stórkostlega meira en nú og enn fremur kom það til, að fjárhagsaðstoðin var aðeins veitt til byggðarlaga utan Faxaflóasvæðisins og Vestmannaeyja, enda var það ætlað frá upphafi til stuðnings dreifbýlinu.

Nú er svo komið, eftir að verðgildi krónunnar hefur svo mjög lækkað og jafnframt þéttbýlinu veittur aðgangur að fénu til ,jafns við dreifbýlið, að segja má, að þessi fjárveiting, 10 millj. kr., til jafnvægis í byggð landsins sé orðin meiri og minni hégómi og sýndarmennska, a.m.k. á borð við það, sem áður var. Má m.a. sjá það á því, að fjárveitingin nemur nú nálægt 0.3% af fjárl. þessa árs, ef tekið er tillit til þess, sem bætt var við fjári., eftir að þau voru formlega afgreidd hér á Alþingi.

Framsfl. hefur sífellt síðan 1958 barizt fyrir því og komið fram með tillögur um að hækka fjárframlögin til atvinnuaukningar og jafnvægis í byggð landsins, en slíkar till. hefur stjórnarliðið sífellt drepið. Sú breyting var gerð á þessum málum, að með 1. um hinn svokallaða atvinnubótasjóð, sem stofnaður var 1962 og yfirtók meðferð þess fjár, sem áður hafði verið veitt eftir öðrum reglum, þegar þau lög voru sett, reyndi Framsfl. að fá árlega framlagið til atvinnubótasjóðs hækkað, en það tókst ekki þá eða síðar. Löggjöfin um atvinnubótasjóð er mjög losaraleg og stjórn sjóðsins í raun og veru ekki ætlað annað verkefni en að skipta þessum krónum milli þéttbýlis- og dreifbýlisaðila.

Svona er þá í dag komið með þetta merkilega viðreisnarmál dreifbýlisins, sem hafði í framkvæmd ásamt framgangi ýmissa annarra hagsmunamála dreifbýlisins á árunum 1955—1958 ótrúlega mikla þýðingu, ekki eingöngu vegna fjárstuðningsins, heldur jafnframt vegna þess, að aðstoðin og þar með hið breytta viðhorf hins opinbera í málum hinna dreifðu byggða vakti nokkra von og traust fólksins, að reynt yrði framvegis að hjálpa því til að byggja upp lífvænlega aðstöðu og skapa jafnvægi í byggð landsins og að því yrði gert kleift að lifa og starfa í sínum heimabyggðum. Og um stund dró nokkuð úr fólks- og fjárflóttanum. En Adam var ekki lengi í Paradís, og landsbyggðarfólkið ekki lengi í sinni bjartsýnistrú. Á öllum sviðum er nú að því þrengt, og fólksflóttinn er mun meiri nú en hann var orðinn, áður en núverandi hæstv. ríkisstj. tók völdin, en samt halda stjórnarflokkarnir, sérstaklega Sjálfstfl., áfram fagurgala sinum um nauðsyn þess að varðveita og auka jafnvægi í byggð landsins. Hið sorglega er, að flokkurinn hefur á engan hátt, eftir að hann tók völdin, reynt að standa við í teljandi atriðum neitt af því, sem sýnt getur, að hann meini nokkuð með því, sem ráðamenn hans hafa skrifað og skrafað um þessa hluti. Og því meir sem dregið hefur úr raunverulegri aðstoð þess opinbera, því meiri greinar og fleiri hefur Sjálfstfl. látið birta í dálkum Morgunblaðsins um nauðsyn þess að styðja dreifbýlið til jafnvægis við þéttbýlið. Og nú er svo komið, að jafnvel Alþýðublaðið er farið að skrifa um málið í svipuðum dúr. Verður því miður, þar til annað reynist, að óttast, að þar sé meir um að ræða samkeppni við Morgunblaðið í ritleikni um málið, en ekki sinnaskipti um viðhorf til sveitanna og annars dreifbýlis.

Það ber nú vel í veiði fyrir stjórnarliðið. Nú getur það með atkvgr. um þetta mál, þ.e. að samþ. frv. okkar framsóknarmanna, sýnt í verki, að því sé nokkur alvara að vilja efla möguleika til að stuðla raunverulega að jafnvægi í byggð landsins. Mætti þá segja, að betra væri seint en aldrei. Mundi stuðningur dreifbýlismannanna innan stjórnarliðsins meira en nægja til framgangs frv. og þeim skyldast að veita dreifbýlinu slíkan stuðning. Þótt slíkt ætti ekki að þurfa að binda þessa menn, þá ber að játa, að nál. og hin furðulega svokallaða rökst. dagskrá frá hv. meiri hl. fjhn. bendi ekki til þess, að stjórnarherrarnir vilji leyfa liði sínu nokkra umbót í þessu máll.

Nál. er furðuleg samsuða, en þar er þó viðurkennt, að hér sé um þjóðfélagslegt vandamál að ræða. Á síðustu tveimur áratugum, segir í nál., hafi fólks- og fjárflóttinn verið svo mikill, að sum byggðarlög hafi lagzt í eyði og heilir landshlutar orðið að horfa upp á það, að íbúatalan hafi á þessu tímabili staðið í stað eða beinlínis lækkað. Nefndarhlutanum virðist þetta þó ekki svo mjög athugavert, þegar allt kemur til alls, eða áhyggjuefni, og segir, að aldrei hafi dreifbýlisfólkinu liðið eins vel og núna. Á þessi staðhæfing auðvitað að vera ein af stoðum þeim, sem reynt er að renna undir þá till., að frv. framsóknarmanna sé óþarft, vegna þess að dreifbýlisfólkið sé með burtflutningi til þéttbýlisins aðeins að flýja hagsældina í heimabyggðum sínum. Sami hv. nefndarhluti virðist vera þeirrar skoðunar, að þetta frv. um ráðstafanir til að stuðla að jafnvægi í byggð landsins sé óþarft sökum þess, að núverandi stjórnarflokkar hafi 1962 sett lög um svokallaðan atvinnubótasjóð, sem fullnægi tilgangi þessa máls. Þ6 er sagt í nál., að hægt sé að auka fjárframlögin, þegar talið verður fært og nauðsynlegt. Ber sennilega að skilja það svo, að fjárhagur ríkisins leyfi ekki að hafa fjárframlagið til aðstoðar jafnvægi í byggð landsins hærra en nú er, eða nálega 0.3% af fjárlögum ársins, og það ber að skilja, að það sé enda ekki svo nauðsynlegt með tilliti til ástandsins í þessu máli, þótt áður sé búið að lýsa því yfir, að hellar byggðir hafi allt að því lagzt í eyði og jafnvel heilir landsfjórðungar hafi að fólksfjölda til staðið í stað eða jafnvel tapað nokkru af sinni fyrri íbúatölu s.l. 10—20 ár. Og hað er ekki heldur látið neitt í það skina, að breyta beri úthlutunarreglunum um fé atvinnubótasjóðs þannig, að dreifbýlið sitji eitt að því, eins og upphaflega var og til var ætlazt, og talið er, að ekki komi til mála að hækka umrædda fjárhagsaðstoð meir en til samræmis við aukningu verðbólgunnar frá nálægt miðju ári 1962. Að auka fjárframlagið, miðað við upphaf óðaverðbólgunnar, virðist nm. alls ekki eðlilegt eða koma til greina. Jafnvel þótt svo væri, að einstaka ráðamönnum af stjórnarliðinu kynni að detta í hug, að slíkt væri athugandi, er það síður en svo, að nokkur ábending komi frá meiri hl. hv. fjhn. um, að slíkt eigi að koma til greina, heldur aðeins ef fært þykir og nauðsynlegt sé, þá sé það álitamál, hvort ekki ætti þá að hækka fjárveitinguna, miðað við þá verðbólgu,,sem átt hefur sér stað síðan á miðju ári 1962. Á slíkum og þvílíkum forsendum, ef forsendur mega kallast, leggur svo hv. meiri hl. fjhn. til, að málið sé afgr, með dagskrá, sem hann kallar rökstudda og hljóðar á það að vísa málinu til ríkisstj., — ríkisstj., sem reynsla síðustu ára hefur sýnt, að ekkert vill gera fyrir málið, — ríkisstj., sem gert hefur hinn fjárhagslega stuðning hins opinbera við dreifbýlið sáragagnslítinn frá því, sem áður var. Það er í föðurhús að vísa, eða hitt þó heldur, að láta málið ganga þessa leiðina.

Hin rökst. dagskrá er, ef samþ. verður, auðvitað finn dauðdagi fyrir málið og miklu fínni en að leiða það hreint og beint á höggstokkinn nú hér á hv. Alþ. Og þá er enn hægt að skrifa og skrafa um málið. Með því getur t.d. hæstv. ríkisstj. og málgögn hennar skrafað og skrifað um það, að hún sé einlægt að hugleiða, hvort ríkissjóður geti aukið fjármagnið til jafnvægis í byggð landsins, hvort það sé nauðsynlegt, hvort rétt sé að afnema þá reglu, að þéttbýlið sitji við sama borð og dreifbýlið í þessu efni um úthlutunarféð, og enn fremur, ef talið er fært og nauðsynlegt að auka fjárframlagið, þá að íhuga, hvort ekki eigi að hækka það til samræmis við þá krónurýrnun, sem átt hefur sér stað, eftir að mesta óðaverðbólgan var um garð gengin og yfir skollin, og vafalaust styðst þá hæstv. ríkisstj. við þann litla vísi að tillögu, sem hv. meiri hl. fjhn. ber fram um það atriði.

Herra forseti. Um leið og ég lýk máli mínu, vil ég óska þess, að atkvgr. um hina rökst. dagskrá fari fram með nafnakalli.