28.10.1963
Neðri deild: 6. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (1931)

25. mál, vaxtalækkun o.fl.

Flm. (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Eins og grg. frv. ber með sér, fjallar þetta mál um tvö atriði eða tvo þætti efnahagsmála: annars vegar um að færa vextina í það horf, sem þeir voru 1960, áður en vaxtahækkunin mikla var gerð, og á hinn bóginn um að hætta að binda hluta af sparifjáraukningunni í Seðlabankanum. Ég ætla að fara nokkrum orðum um hvorn þessara þátta út af fyrir sig.

Þegar vextirnir voru hækkaðir svo mjög 1960, þá var sagt, að vextirnir ættu ekki að verða þannig um aldur og ævi, heldur ættu þeir að verða svona háir, þangað til þær efnahagsmálaráðstafanir, sem þá var efnt til, hefðu náð tilgangi sinum, þá mundu vextirnir verða lækkaðir á ný. Þetta var boðskapurinn, sem fluttur var þá varðandi vaxtapólitíkina. Það yrði að hækka vextina stórkostlega, á meðan verið væri að koma vissum ráðstöfunum í kring og á meðan þær væru að ná tilgangi sinum, en þegar tilganginum væri náð, væri hægt að taka upp vexti á ný, sem líkari væru því, sem þekktist hjá öðrum þjóðum. Vextir voru að vísu lækkaðir — nokkuð um áramótin 1960–1961, því að það mun hafa komið í ljós, að það var engum smáræðis erfiðleikum bundið að halda uppi þeirri vaxtapólitík, sem ákveðin hafði verið. Þá var því slakað nokkuð til, en síðan ekki söguna meir. Síðan hafa vextir ekki verið lækkaðir, og er það einhver gleggsti vitnisburður, sem til er um það, að ráðstafanir þær, sem efnt var til 1960, hafi ekki náð tilgangi sínum, því að ef þær hefðu náð tilgangi sínum, þá efumst við ekkert um, að samkv. því, sem þeir, sem fyrir þeim stóðu, höfðu lýst yfir, hefðu þeir verið farnir að lækka vextina:

Komum við þá að því að athuga, hvað það var, sem þessir háu vextir áttu að gera, hverju átti að ná með þeim. Það var fyrst og fremst, eftir því sem yfir var lýst, jafnvægi í efnahagsmálum almennt og í lánamálum sérstaklega, þannig að það átti að gera það svo aðgengilegt að leggja inn peninga og svo óaðgengilegt að taka þá að láni, að jafnvægi skapaðist á milli framboðs og eftirspurnar á lánsfé, þannig að það ástand skapaðist í landinu, að allir þeir, sem vildu taka lán með hinum háu vöxtum, gætu fengið það.

Þetta var tilgangurinn með pólitík hinna háu vaxta, sér í lagi að skapa jafnvægi í lánamálum, einnig að stuðla að jafnvægi almennt í efnahagskerfinu. Nú vitum við, að því fer svo alls fjarri, að hinir háu vextir hafi náð þessum tilgangi sínum, að sennilega hefur sjaldan eða máske aldrei verið jafnmikið jafnvægisleysi í lánamálum á Íslandi og einmitt nú, eftir að þessir háu vextir og önnur pólitík, sem þeim fylgdi, hefur verið framkvæmd á fimmta ár. Og það eru engar öfgar, þótt það sé sagt, að Íslendingar búi við harðhentari skömmtun á — lánsfé en oftast áður. Því fer alls fjarri, að jafnvægi hafi náðst í þessum efnum, og er þetta öllum landsmönnum fullkomlega vel kunnugt.

Á hinn bóginn beittum við framsóknarmenn okkur eindregið á móti þessari miklu vaxtahækkun og á móti því að taka upp pólitík hinna háu vaxta og færðum fyrir því margar ástæður, og það eru sömu ástæðurnar og ég leyfi mér nú að færa fyrir þessari till. okkar um að lækka vextina á nýjan leik.

Í fyrsta lagi er það, að svo stórkostleg vaxtahækkun eins og átti sér stað hlaut að hafa gífurleg áhrif á dýrtíðina í landinu og ýta mjög undir dýrtíðarvöxtinn og ásamt fleiru geta orðið þess valdandi, að ekki réðist við neitt í dýrtíðarmálunum, í verðlagsmálunum. Enda hefur sú orðið raunin á, sem kunnugt er, að í þeim efnum hefur ekki ráðizt við neitt undanfarin ár, unz nú er orðið hið versta öngþveiti í þeim efnum, að sinu leyti eins og í lánamálunum.

Enn fremur bentum við á, og ég vil benda á það núna í sambandi við þetta frv., sem hér er lagt fram, að það er óhugsandi, að íslenzk útflutningsframleiðsla, sem keppir við framleiðslu annarra þjóða erlendis, en útflutningsframleiðsla er geysilega stór þáttur í okkar þjóðarbúskap, geti án þess að verða fyrir stórfelldu tjóni búið við jafnháa vexti og hér hafa verið, og þá miklu hærri vexti en keppinautarnir eiga við að búa hjá sér, því að vextir eru stórkostlegur liður í rekstri útflutningsfyrirtækjanna, eins og kunnugt er. Enda hefur það komið greinilega fram, bæði fyrr og siðar, hjá samtökum útflytjenda á Íslandi, að þeir eru okkur sammála um þetta. Þeir telja ekki stætt á því að hafa jafnháa vexti og hér hafa verið innleiddir og menn hafa búið við nú um hríð, og hafa þeir látlaust barizt fyrir lækkun vaxtanna á nýjan leik, á sama hátt og við sem beittum okkur á móti þessari vaxtahækkun á sinni tíð.

Hvernig er hægt að gera ráð fyrir því, að íslenzk framleiðsla hafi svo stórkostlega yfirburði yfir framleiðslu annarra landa, að hún geti búið við svo miklu hærri vexti sem nú hefur verið gert öll þessi ár?

Auk þess eru fleiri atriði, sem koma í ljós, fleiri vandkvæði í sambandi við útflutningsframleiðsluna og hina háu vexti. M.a. má nefna, að vegna þess, hve dýrt það er að eiga útflutningsvörurnar, neyðast útflytjendurnir oft og tíðum bókstaflega til þess að selja afurðirnar úr landinu fyrr en þeir ella teldu heppilegt verðsins vegna og sæta verri kostum við útflutninginn en hægt væri að fá með öðru móti. Hér kemur það líka til greina, hversu skorin hafa verið niður lán út á útflutningsafurðirnar. Þetta hvort tveggja, hinir geysilega háu vextir, sem hér hefur verið haldið uppi, og niðurskurðurinn á þeim lánum, sem lánuð hafa verið út á útflutningsafurðirnar, hefur orðið til þess að knýja útflytjendur oft og tíðum til þess að sæta óeðlilega lágu verði við sölu afurðanna úr landi, bókstaflega neytt þá til að selja, jafnvei þó að ýmislegt hafi bent til þess, að heppilegra væri fyrir þá að geta dokað við. Mér er kunnugt um þetta. Þetta er ekki sagt út í bláinn. Þessi er reynsla útflytjendanna og hefur verið á undanförnum árum, og þessi ágalli fylgir hinum háu vöxtum og hinum niðurskornu afurðalánum.

Þá er eitt í sambandi við hina háu vexti, sem teknir hafa verið upp. Þeir verða þess valdandi, að kaupið verður að vera hærra en ella. Það er bókstaflega óhugsandi annað en kaupið verði að vera hærra. Við skulum taka dæmi af verkamanni, sem þarf að eignast íbúð. Hún getur aldrei kostað minna en 550 þús. til 600 þús. kr., eins og nú er komið málum, og mikinn hluta fjárhæðarinnar verður unga fólkið t.d. alveg tvímælalaust að taka að láni. Það verða því þúsundir og aftur þúsundir eða tugir þúsunda, sem heimili þessa manns þarf að greiða í vexti af fjármagninu, og kaupið verður og hlýtur að laga sig eftir kostnaðinum við að lifa, þegar til lengdar lætur, því að það er óhugsandi að halda kaupinu þannig niðri, að menn geti ekki haft út úr því, þegar til lengdar lætur, kostnaðinn við að lifa sparlega og búa í sómasamlegri íbúð. Það er alveg sama, hvernig farið verður að, það verður ekki hægt að halda kaupinu þannig niðri, að slíkt hljóti ekki að takast, og kaupið verður að miðast við verðlagið, sem orðið er á húseignum og húsnæði. Það þýðir ekkert að ætla sér endalaust að miða það við liðna tíð. Það verður að miða það við hina háu vexti.

Þess vegna er það, að hinir háu vextir hljóta að gera það að verkum, að kaupgjaldið í landinu verður að vera hærra, mun hærra en menn ella gætu komizt af með, og það kemur auðvitað aftur niður í því, að framleiðslan verður að greiða hærra kaup, bæði útflutningsframleiðslan og önnur framleiðsla í landinu.

Nú veit ég, að ýmsum er gjarnt til í þessu sambandi að koma með tölur og segja, að þetta séu ýkjur, vaxtaliðurinn sé ekki svona stór liður í þjóðarbúskapnum, og er þá reiknað út í bönkunum, hve mikið sé lagt inn í bankana og hve mikið lánað út úr þeim, og svo vextirnir af þessum fjárhæðum, þetta sé það eina, sem máli skipti í þessu sambandi, og hægt sé að reikna alveg áhrif vaxta á þjóðarbúskapinn á þennan hátt.

En það er auðvitað hreinasta fjarstæða að blekkja sig með svona dæmum eins og þessum. Það sjáum við á dæminu, sem ég tók um ungan verkamann og þá kynslóð, sem núna er að alast upp. Sú kynslóð verður að fá sitt kaup og sínar tekjur í samræmi við hina háu vexti, og þá fylgja allir hinir með, og þeir fá auðvitað líka sitt kaup og sinar tekjur settar í samræmi við hina háu vexti. Allir hinir, sem eru búnir að ganga frá sinu og búa um sig, fylgja með. Þess vegna eru þessar tölur um vexti, sem t.d. hæstv. ráðherrar hafa stundum komið með hér til þess að sýna fram á, að vaxtaliðurinn sé miklu minni liður í þjóðarbúskapnum og hafi miklu minni þýðingu en við viljum vera láta, þær eru alveg út í bláinn og gefa enga mynd af þeim áhrifum, sem vextirnir hafa í efnahagslífinu eða framleiðslulífinu.

Stærsti þátturinn í þessu máli er sá, sem ég nú var að rekja um áhrif vaxtanna á útflutningsframleiðsluna, áhrif vaxtanna á kostnaðinn við að lifa, ekki sízt húsnæðismálin, og áhrif vaxtanna þar af leiðandi á kaupgjaldið og framleiðslukostnaðinn í landinu. Allt er þetta margfalt, margfalt meira en það sýnist vera eftir þessum furðulegu dæmum, sem stundum hafa verið lögð hér fram um það, hvaða áhrif vaxtagreiðslur hafa í þjóðarbúskapnum.

Ég vík í þessu sambandi einnig að landbúnaðinum og vöxtunum. Ég held, að það séu allir orðnir sammála um það núna a.m.k., að það muni verða erfitt fyrir landbúnaðinn að fá afurðaverðið leiðrétt á þá lund, að hinir nýju, háu vextir komi inn í verð landbúnaðarafurðanna. Það sýnir reynslan, að það verður mjög erfitt að koma vöxtunum til fulls inn í landbúnaðarverðið. Samt komast þeir þangað að einhverju leyti og hafa vitanlega hækkandi áhrif á landbúnaðarverðið, og þar með á framleiðslukostnaðinn í landinu. En að því leyti, sem þeir ekki komast inn í landbúnaðarverðið, verða þeir að búsifjum fyrir landbúnaðinn og fyrir bændurna og gera erfiðara en ella að komast af í búskapnum. Og þessir háu vextir eru að verða hreinn myllusteinn um háls landbúnaðinum.

Ég þori ekki að fullyrða, hvert hlutfallið er á milli vaxta hér, sem landbúnaðurinn býr við, og í öðrum löndum. En mér er óhætt að fullyrða, að það eru mjög óhagstæðir vextir, sem íslenzkur landbúnaður býr við, samanborið við það, sem á sér stað í flestum öðrum löndum, sem við viljum bera okkur saman við.

En harðast af öllu koma þó auðvitað vextirnir niður á ungu kynslóðinni í landinu og þeim, sem eru að byggja upp, — hinir háu vextir. Það er fyrst og fremst unga kynslóðin, sem er að koma sér fyrir og leggja í mikinn kostnað við myndun heimila, bæði við sjóinn og í sveitinni, sem greiðir hina háu vexti. Háir vextir eru þess vegna að mjög miklu leyti skattur á unga fólkið í landinu. Það sjáum við bezt, þegar við íhugum, hverjir það eru, sem fyrst og fremst, eins og ég sagði áðan, þurfa á lánsfénu að halda. Hverjir þurfa fyrst og fremst á lánsfénu að halda til þess að koma sér upp íbúðum, til þess að eignast hlut í atvinnutækjum, til að koma upp búi og bátum og öðru slíku? Það eru ekki þeir, sem eru rótgrónir og búnir að koma sér fyrir, eins og við segjum. Það eru ekki þeir, sem stærstu lánin taka og þyngstu vaxtabyrðina bera, heldur er það unga fólkið.

Þess vegna er pólitík hinna háu vaxta ákaflega hættuleg hverju þjóðfélagi, því að hún lokar mörgum leiðum fyrir unga fólkinu, sem þyrftu þó sannarlega að vera opnar, t.d. lokar mjög þeim leiðum, sem unga fólkið þarf að hafa til þess að komast inn í sjálfa framleiðsluna. Og það er einmitt ekki sízt af þessum ástæðum, sem ég nú siðast var að minnast á, sem Framsfl. t.d. hefur ætíð verið mótfallinn því að reka pólitík hinna háu vaxta og alla tíð barizt fyrir því, að vextir af ýmsum stofnlánum væru beinlínis niðurgreiddir eða hafðir lægri en vaxtafóturinn sjálfur í landinu beint gefur tilefni til, þ.e.a.s. niðurgreiddir af almannafé. Og mætti nefna marga lagabálka, sem þannig hafa verið byggðir upp, byggðir á því að setja vextina lægri á stofnlánin en innlánsvextirnir í landinu gátu beinlínis gefið tilefni til og leggja fjármagn af almannafé til þess að borga þannig vextina niður.

Þetta hefur verið gert beinlínis af okkar hendi, og hefur hugsunin á bak við þetta verið sú að reyna með þessu að stuðla að því, að sem allra flest af unga fólkinu gæti komið fótum undir sig efnalega, eignazt íbúðir, stofnað bú í sveitinni, eignazt vélbáta eða aðra aðstöðu í sambandi við sjálfa framleiðsluna við sjávarsíðuna, því að við höfum aldrei verið fylgjandi þeirri stefnu að láta þarna allt vega sig eftir fjármálaleiðinni, ef svo mætti segja, og afskiptalaust, eiga þá þar með á hættu, að unga fólkið gæti ekki komið undir sig fótum í þessum greinum. en allt yrði byggt upp á vegum þeirra fjársterkustu í landinu.

En með pólitík hinna háu vaxta og með lánasamdrætti á ýmsa lund, þá stefnir núna því miður óðfluga í þá átt, að unga fólkinu verður erfiðara og erfiðara að koma fyrir sig fótum til þess að verða efnalega sjálfstætt. En framkvæmdir verða þar af leiðandi meira og meira á vegum þeirra, sem hafa meira eigin fjármagn með höndum.

Nú hefur því verið haldið fram, að vextirnir séu gróði fyrir þá, sem fjármagnið eiga. En það er þó því aðeins fyrir sjálfa sparifjáreigendurna, að það takist að halda verðbólgunni í skefjum, að vaxtahækkunin verði ekki til þess að ýta undir dýrtíðaraukninguna og það éti sig allt saman upp. En þeir eru gróði fyrir þá fjármagnseigendur, sem geta komið fé sínu í fast og þannig komizt fram hjá verðbólguhættunni. Fyrir þá fjármagnseigendur eru hinir háu vextir alveg tvímælalaust gróði, vegna þess að hinir háu vextir hækka húsaleiguna í landinu, þeir hækka það, sem gjalda þarf fyrir alls konar afnot af eignum, sem hinir fjársterkari geta eignazt, og hinir háu vextir verða sem sagt á allar lundir ágóði fyrir hina fjársterkari, sem hafa úrræði til þess að komast fram hjá verðbólguhættunum.

En aftur á móti eru hinir háu vextir alls ekki einhlítur gróðavegur fyrir innstæðueigendurna í landinu, fyrir þá, sem notfæra sér það úrræði að geyma fjármagn sitt á innstæðureikningum. Því fer alls fjarri vegna þess, hversu hinir háu vextir ýta undir dýrtíðarflóðið í margvíslegum myndum og gera erfiðara að ráða við verðlagsþróunina, en það verður til þess, að sparifjárinnstæðurnar rýrna stórkostlega í verði. Þannig hefur t.d. því miður tapazt til baka sá ávinningur, sem annars mun hafa verið gert ráð fyrir, að innstæðueigendurnir gætu haft af háu vöxtunum nú um sinn.

Ég hef nú fært fram nokkur af þeim rökum, sem á sínum tíma voru flutt fram gegn vaxtahækkuninni og um leið eru rök okkar fyrir því, að við teljum skynsamlegt og réttmætt að færa vextina niður í það, sem þeir voru. Það er meginstefnan. Það mætti svo endurskoða í einstökum atriðum, hvort það væri nákvæmlega það, sem ætti að stefna að t.d. varðandi stofnlánin. Það mætti hugsa sér að jafna vextina á hinum ýmsu stofnlánum talsvert frá því, sem þeir voru fyrir 1960. En til þess að móta okkar stefnu í þessu höfum við orðað þetta á einfaldan hátt í frv. Við berjumst fyrir því að færa vextina aftur í það horf, sem þeir voru, áður en vaxtahækkunin mikla var framkvæmd, vextina á afurðalánunum til framleiðslunnar, einnig útlánavextina almennu og svo fasteignavextina eða stofnlánavextina í hinum ýmsu stofnlánadeildum, sem taldar eru upp í 3. gr. frv. Þetta er sú stefna, sem við viljum móta með frv. Það má sem sagt vel vera, að það ætti að samræma meira vextina í stofnlánadeildunum en þeir voru, þó að við höfum ekki farið út í það í frv., eins og það liggur fyrir.

Ef að þessu ráði yrði nú horfið, sem við leggjum til, mundum við telja, að það hefði marga kosti, og skal ég aðeins drepa á þá án þess að endurtaka allt of mikið af því, sem ég hef sagt. í fyrsta lagi mundi það að okkar dómi hjálpa íslenzkum framleiðsluatvinnuvegum til að borga óhjákvæmilegt kaup, og útflutningsatvinnuvegunum mundi það hjálpa mjög verulega til að komast út úr þeirri úlfakreppu, sem þeir á margan hátt eru í núna og mjög vel er kunnugt um. Það mundi muna mjög um vaxtalækkun þá, sem við leggjum til, til þess að gera framleiðsluatvinnuvegunum fært að borga það kaup, sem þeir óhjákvæmilega þurfa að greiða, því að allir vitum við, að fram undan er almenn kauphækkun og hlýtur að vera, því að almenna kaupið, eins og það er núna, getur alls ekki staðizt miðað við framfærslukostnaðinn og þann nýja stofnkostnað, sem orðinn er, t.d. á húsnæði. Ég hef áður hér í þinginu í sambandi við fjárl. bent á, til þess að sýna líka, hversu mikinn vanda við er að fást, að það er ekkert ákaflega mikið afgangs af kaupi verkamanns fyrir 8 stunda vinnu hvern virkan dag, frá því að borga bara vextina eina af meðalíbúð. Af þessu sjáum við, að kaupið hlýtur að hækka. Afurðaverð til bænda hlýtur líka að hækka, og það mundi hjálpa framleiðsluatvinnuvegunum verulega að fá þá vaxtalækkun á móti. Fleira yrði auðvitað að koma til greina í því sambandi, sem ég fer ekki út í hér, vegna þess að það snertir ekki þetta mál. Lægri. stofnfjárvextir í landbúnaðinum mundu líka hjálpa til að leysa nokkuð úr þeim stórkostlega vanda, sem bændur eru komnir í vegna dýrtíðarflóðsins og vegna hins nýja stofnkostnaðar, sem þrengir nú svo alvarlega að, að í nýja landbúnaðarverðinu t.d., sem ákveðið var núná s.l. haust, er ekki einu sinni,. gert ráð fyrir afskrift nema af tæplega einni heimilisdráttarvél, — en engum öðrum vélakosti. Á því sjáum við,— hvernig ástatt er í þeirri grein. En lægri vextir mundu hjálpa þarna til talsvert verulega.

Þá mundu lægri vextir almennt og á íbúðarlánum einnig styðja unga fólkið mjög varðandi þá baráttu, sem það sífellt stendur í til þess að koma sér þaki yfir höfuðið. Og sannast að segja er það okkar skoðun, að ef horfið yrði að almennri vaxtalækkun, eins og við stingum upp á, þá mundi það hjálpa ti1 þess að mynda þá skoðun í landinu, að um stefnubreytingu væri að ræða, og hjálpa til þess að minnka þann ótta, sem nú býr í mönnum um, að sífellt eigi að halda áfram að magna dýrtíðina eða það eigi enn að fylgja þeirri leið að leysa vandann með því að hækka verðlagið í landinu, þ.e.a.s. að hækka verðlagið, en gera lánsféð dýrt og halda sem mest niðri kaupi og afurðaverði til bænda, en þetta hefur verið aðalstefnan.

Ég held, að það mundi mega gera ráð fyrir því, að menn almennt mundu fara að vona, að um stefnubreytingu væri að ræða, ef horfið yrði að því að lækka vextina.

Það hefur undanfarin ár, þegar þetta hefur borið á góma, verið sagt, að það væri mikið tjón fyrir sparifjáreigendur af því að lækka vextina og þeir hafi haft hag af pólitík hinna háu vaxta og þeirri þróun, sem hefur orðið. En ég held því fram, að innstæðueigendur hafi skaðazt mjög á framkvæmd þeirrar efnahagsmálastefnu, sem vaxtahækkunin var aðeins einn liður í, og á þeirri gífurlegu dýrtíðarspennu, sem orðið hefur, og því fari alls fjarri, að háir vextir séu einhlítur ávinningur fyrir sparifjáreigendur. Enda er reynslan ólygnust um það. Á hinn bóginn eru háir vextir nokkurn veginn einhlítur ávinningur fyrir þá, sem eiga fjármagn og geta komið því í fast og þannig bæði hagnazt á háum vöxtum og eins á þeirri dýrtíð, sem af þeim og fleiri ráðstöfunum stafar. Ég held, að það væri þess vegna mjög mikill ávinningur að því fyrir innstæðueigendur, að skipt væri um og settir yrðu lægri vextir, ef það væri einn liður í því að auka líkurnar fyrir stöðugu verðlagi. Alveg vafalaust hefur stöðugt verðlag og stöðugt gengi meiri þýðingu fyrir innstæðueigendurna en sjálfir innlánsvextirnir. Það sýnir reynslan.

Á hinn bóginn stingum við ekki upp á því, að það sé farið mjög lágt með vextina. Við stingum upp á því, að það verði farið niður í það, sem var áður. Það voru ekki mjög lágir vextir, enda er ekki viðeigandi, að í okkar landi séu hafðir mjög lágir vextir, samanborið við það, sem annars staðar er, og við stingum því upp á því, að það, sé hafður sami vaxtafótur og gilti, áður en hækkunin mikla kom til framkvæmda.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um hinn þátt frv. Það ákvæði er þannig orðað, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjárhæðir þær, sem bundnar eru á reikningum banka og annarra innlánsstofnana hjá Seðlabankanum samkv. ákvæðum 11. gr. 1.. nr. 10 1961, um Seðlabanka Íslands, má ekki hækka frá því, sem þær eru við gildistöku þessara laga.”

Við leggjum sem sagt til, að frystingunni á hluta af sparifjáraukningunni verði hætt. Við höfum ekkert ákvæði í þessu frv: um það, hvað skuli gera við það mikla fjármagn, sem búið er að draga inn í bankakerfið og frysta þar, eins og við höfum orðað það, á 7. hundrað millj., látum það í þessu frv. liggja á milli hluta, og getur það verið til athugunar út af fyrir sig, en viljum beina baráttu okkar að því fyrst og fremst, að þessari frystingu, sem við köllum, á aukningu á sparifé verði hætt.

Það fyrsta; sem við viljum draga athygli manna að í því sambandi, er þetta, að þarf er ekki verðbólgumyndandi að lána út sparifjáraukninguna. Það er ekki verðbólgumyndandi að lána út sparifjáraukninguna. Og það hygg ég að sé algerlega viðurkennt af öllum.

Það næsta, sem við leggjum áherzlu á,. er þetta, að eins og ástatt er í landinu núna, sé lífsnauðsyn fyrir þjóðina að nota sparifjáraukninguna til þess að greiða fyrir uppbyggingu í landinu með margvislegu móti og til þess að lána bæði sem rekstrarlán og stofnlán og greiða á allan hátt fyrir atvinnurekstrinum í landinu.

Það hefur undanfarið verið bundið talsvert fé, eins og við vitum, inni á reikningum í Seðlabankanum og hefur átt að vera til þess að skapa jafnvægi í þjóðarbúskapnum. En reynslan hefur sýnt, að þörfin hér fyrir fjármagn er svo brýn, að jafnhliða því, sem þannig hefur verið frystur inni eða tekinn og bundinn hluti af sparifjáraukningunni, hafa verið tekin lán erlendis í stórum stíl. Þörfin fyrir fjármagnið hefur reynzt svo rík, að það hafa verið tekin lán erlendis í stórum stíl, jafnhliða því sem bundinn hefur verið hluti af sparifjáraukningunni. Og þetta erlenda fé hefur auðvitað verið sett í umferð. Þannig mun það nema á 6. hundrað millj., sem innflytjendur í landinu hafa tekið að láni erlendis til að hafa sem rekstrarfé fyrir sig. Það er nýtt veltufé, nýtt rekstrarfé, sem tekið hefur verið inn í landið. Enn fremur hafa verið tekin erlend lán, allstór erlend lán, sem einnig hafa verið sett í umferð í landinu.

Þetta sýnir okkur greinilega og það þarf ekki að deila um, að þörf okkar fyrir fé, bæði í rekstrarlán og til þess að standa undir margs konar lánastarfsemi, er svo brýn, að jafnvel á þessum árum; þegar þessi pólitík hefur verið rekin, að frysta þannig hluta af sparifjáraukningunni, hefur fjármagn, sem svarar því og meiru til, verið tekið að láni erlendis og komið í staðinn sem rekstrarfé atvinnugreinanna í landinu og sem stofnfé. Enda er þetta einmitt það, sem við höfum haldið fram og við höfum bent á m.a. á móti þessari stefnu. Við höfum bent á, að þörf okkar atvinnuvega og þörf þjóðarinnar fyrir rekstrarfé og framlög í alls konar nýjar framkvæmdir er svo stórkostleg, að þessi frystingarstefna er ekki framkvæmanleg í raun og veru; eins og reynslan sýnir alveg glöggt.

Að okkar dómi liggur þetta því þannig fyrir, að ef reynt yrði að halda áfram með þessa pólitík, að frysta þannig inni spariféð, þá mundi niðurstaðan verða sú, að það yrði að taka þeim mun meira af erlendum lánum eða þá að stöðva svo hatramlega nauðsynlega uppbyggingu í landinu, að engum yrði stætt á því.

Fram hjá þessu er alveg ómögulegt að komast. Þess vegna álítum við að það sé ekkert vit í því að, halda þessari frystingu áfram. Við teljum, að það eigi á hinn bóginn að gera ýmsar skynsamlegar ráðstafanir til þess að nota viturlega sparifjáraukninguna, sem verður til útlána, þannig að hún komi að sem allra beztu gagni, og þá fyrst og fremst til þess að auka framleiðni eða framleiðslu í landinu; því að við teljum, að aðalleiðin út úr þeim vanda, sem við erum komnir í, sé sú að auka framleiðsluna og sérstaklega framleiðnina í öllum greinum, með nýrri tækni og nýjum vinnuaðferðum og nýjungum í sem allra flestum greinum, og okkar skoðun er sú, að til þess að þetta geti orðið, þurfum við á öllu okkar fjármagni að halda, til þess að greiða fyrir þessu og öðru slíku, að það sé miklu viturlegra að nota féð til þess en halda áfram þessari frystingarpólitík, sem hæstv. ríkisstj. hefur staðið fyrir. Og við munum nú á þessu þingi, þá að það sé ekki í þessu frv., leggja fram ýmsar tillögur um þessi efni og svo frv., sem ganga í þá átt að beina veltufénu, þ.e.a.s. því fjármagni, sem myndast í landinu í bankakerfinu, beina veltufénu í heppilega farvegi að þessu leyti. Við sjáum ekki, að það sé fremur hægt með öðru en því að stuðla að því, að það, sem mest ríður á að gera í landinu, sitji fyrir. Hvar halda menn, að það endi, ef t.d. reynt verður að leysa þann vanda, sem við nú stöndum frammi fyrir, með því t.d. að auka sparifjárfrystinguna, — auka sparifjárfrystinguna og herða lánsfjárkreppuna, binda þannig það fé, sem helzt mundi vera hægt að nota með skipulegum hætti til þess að greiða fyrir skynsamlegri uppbyggingu í landinu?

Ef það yrði reynt að leysa þennan vanda, sem við erum í, með því að herða að á þessa lund, mundi náttúrlega meira og meira af sparifénu þvingast út úr bönkunum og verða notað utan við bankana eða bankakerfið. En halda menn, að sú þróun mundi verða heppilegust til að tryggja, að það sitji fyrir í framkvæmdum, sem skynsamlegast er að gera frá sjónarmiði heildarinnar? Ef þessi aðferð verður viðhöfð, þá verður það hreinlega til þess, að það situr á hakanum, sem sízt skyldi. Og það fjármagn, sem þyrfti að nota til þess að styðja það, sem mestu máli skiptir, yrði lokað inni, en á hinn bóginn gengi það eitt fram, sem þeir vildu gera, sem með einhverju móti hefðu nægilegt fé undir höndum sjálfir utan við bankakerfið. Og hvaða trygging er fyrir því, að þá yrðu þær framkvæmdir ofan á, sem mestu máli skipta fyrir heildina til þess að auka framleiðslu sem mest í landinu og framleiðni? Auðvitað engin. Það yrði hreinn kaos áfram. Og hvað yrði úr þeim framkvæmdaáætlunum, sem verið er að hampa, ef sú leið yrði farin að draga úr umferð það fé, sem helzt væri hægt að hafa skynsamleg áhrif á, hvernig notað yrði, til þess svo að algert handahóf ætti sér stað um það, hvaða framkvæmdir það yrðu, sem raunverulega kæmu til greina?

Ég held, það sé nauðsynlegt að gera sér fulla grein fyrir því, að ef vel á að fara; þá verður að taka upp þá stefnu að hafa hiklaust áhrif á, að það sitji fyrir fjármagninu, sem mestu máli skiptir, og það sé ekki hægt að gera með öðru móti betur en því að verja skynsamlega ríkisfjármagninu, sem tekið er með sköttum og tollum af þjóðinni, og nota það í því skyni og einnig sparifjáraukninguna, sem kemur inn í bankakerfið. Hitt beri alveg dauðana í sér, að ætla sér að draga þetta fjármagn úr umferð og láta svo hendingu ráða, hvernig fer. Slík stefna mundi áreiðanlega ekki verða til þess að auka þjóðartekjur Íslendinga, eins og þarf að gera, ef vel á að fara, miðað við það, hvernig búið er að skekkja allt okkar efnahagskerfi:

Ég hef stundum, þegar við höfum rætt um þessi mál á undanförnum árum, minnzt á afurðalán í þessu sambandi. Ég skal ekki fara mjög langt út í það núna, en ég vil benda mönnum á það, að jafnhliða því, sem dreginn hefur verið inn hluti af sparifjáraukningunni og það hefur átt að vera gert til þess að minnka hættuna á ofþenslu, eins og það er kallað, þá hefur einnig verið dregið stórkostlega úr afurðalánunum, þannig að t.d. sjávarútvegurinn, sem áður fékk út úr seðlabankakerfinn 67% út á sínar afurðir með mjög lágum vöxtum, mun fá núna 53-55% út á fisk og út á margar sjávarafurðir mun minna, og að landbúnaðinum hefur verið kreppt svo stórkostlega í þessu, að hann fékk 67 % út úr seðlabankakerfinu út á sínar afurðir, en fær núna á haustdögum, að því er ég hygg, eitthvað 53—55%, — fékk og fær fyrir fram lán út á afurðir til rekstrarvörukaupa framan af árinu, sem nú hafa verið dregin stórkostlega saman. Þannig hefur til viðbótar við sparifjárbindinguna verið þrengt stórlega að atvinnuvegunum skipulega, bæði með vaxtahækkun og með því að stórminnka afurðalánin.

Það hefur verið sagt, að þetta væri gert til þess að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum, allar þessar ráðstafanir. Menn yrðu að þola þetta til að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum. En hvernig hefur svo farið? Hvaða jafnvægi hefur náðst í þjóðarbúskapnum með þessum aðförum? Auðvitað hefur ekkert jafnvægi náðst. Þessar ráðstafanir hafa engan veginn náð tilgangi sinum, það þarf ekkert að deila um það. Þetta hefur allt saman farið út um þúfur. Allar þær búsifjar, sem hafa verið lagðar á framleiðsluna og aðra í þessu sambandi, hafa ekki náð tilgangi sínum. Á nú að halda þessu áfram? Ég segi, að það eigi ekki að halda þessu áfram, heldur eigi að reyna aðrar leiðir, nýjar leiðir. Og ég álít, að þær leiðir, sem við stingum upp á í þessu sambandi, séu mjög líklegar til þess, að við getum komizt út úr þessum vanda smátt og smátt, og sérstaklega mundu þær leiða til miklu meiri framleiðniaukningar en þær aðferðir, sem nú hafa verið við hafðar og kannske á að reyna áfram, en ég vona í lengstu lög að verði ekki.

En þá segja menn kannske: Hann vill bara slá allar slár frá öllum flóðgáttum og hleypa verðbólgunni lausri, eða a.m.k. hefur það verið sagt undanfarin ár. Ég veit ekki, hvort það verður sagt núna, að þessar uppástungur um að hafa lægri vexti og lána sparifjáraukninguna séu hættulegar og þær yrðu til þess að hleypa verðbólgunni lausri. En í því sambandi vil ég benda á eina þýðingarmikla staðreynd, sem mér finnst að menn ættu að hugsa um, og það er okkar reynsla í þessu efni. Á árunum frá 1951, við skulum taka það tímabil, frá 1951, því að það var gengislækkun 1950 og afleiðingar hennar nokkuð komnar fram 1951, árið eftir, hins vegar skulum við svo taka árin frá 1960 eða öllu heldur frá 1961 og til þessa dags, og bera svo saman. Á fyrra tímabilinu voru lánuð út úr seðlabankakerfinu 67% út á afurðir sjávarútvegsins og 67% a.m.k. síðari hluta tímabilsins út á afurðir landbúnaðarins með lágum vöxtum, og þá voru vextirnir miklu lægri en þeir eru nú. Hvernig varð það svo með verðbólguna á þessum árum, samanborið við það, sem hefur verið núna á undanförnum árum? Það ætti að vera ólíku saman að jafna, miðað við þessar kenningar, sem við höfum heyrt, því að okkur hefur verið sagt, að þetta væri allt gert til þess að draga úr ofþenslunni og til þess að fyrirbyggja verðbólgu, því hafi þurft að lækka svona afurðalánin og ekki mátt lána út alla sparifjáraukninguna o.s.frv.,o.s.frv. Það hefur alltaf verið sagt, að þetta væri gert til þess að draga úr verðbólgunni og ofþenslunni, og það hafi verið farið skakkt að á þessum árum, 1951–1959. Menn hafi af og til verið að reyna að laga ástandið, en alitaf flaskað á því að gera ekki þessar ráðstafanir um leið, að hækka vextina og beita lánasamdrættinum. En hvað sýnir svo reynslan? Reynslan sýnir, að dýrtíðaraukning er mun meiri á seinna tímabilinu en á fyrra tímabilinu, svo að eitthvað hlýtur að vera bogið við hetta. Það virðist ekki vera einhlítt að leggja á sig þessar þjáningar, sem menn hafa orðið að gera í sambandi við hina háu vexti og lánasamdráttinn.

Ég ætla að enda á því að benda á þetta, að einmitt þessi reynsla styður okkar skoðun, að þessar aðferðir eru síður en svo einhlítar. Ég held, að það ríði allra mest á því að finna þær starfsaðferðir eða það kerfi, sem eykur mest framleiðsluna og ýtir undir hana, því að þegar allt kemur til alls, þá er það náttúrlega það, sem allt veltur fyrst og fremst á, að framleiðslan eða framleiðnin geti verið sem allra mest og atvinnuvegirnir geti raunverulega borið uppi þann kostnað, sem óhjákvæmilegt er að leggja á þá í kaupgjaldi og öðru. Og ég held, að þessi aðferð, að kýta þetta svona saman, hafi síður en svo orðið til að auka framleiðnina eða framleiðsluna, því sé skynsamlegra að skipta um stefnu í þá átt, sem við leggjum til í þessu frv.

Þetta frv. fjallar aðeins um tvo þætti, að vísu veigamikla þætti þessara mála, og ber því ekki að lita á það sem útfærða efnahagslega stefnu. En það eru óneitanlega veigamiklir þættir að okkar dómi, sem frv, fjallar um.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til hv. fjhn. d. að lokinni umræðu.