24.02.1964
Neðri deild: 60. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 778 í C-deild Alþingistíðinda. (2061)

135. mál, jarðgöng gegnum Breiðdalsheiði

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þetta mál var frumflutt á síðasta Alþingi, og þá var gerð rækileg grein fyrir því, bæði með grg. og í framsögu, og þarf ég því ekki að skýra málið ýtarlega í þetta sinn.

Það er skoðun mín, að það væri mjög mikilsvert fyrir þróun Ísafjarðarkaupstaðar, ef hann fengi betri og öruggari tengingu með bættum samgöngum við sveitahéruðin í Vestur-Ísafjarðarsýslu vestan Breiðadalsheiðar til annarrar handar, bæði í Önundarfirði og Dýrafirði, og við innsveitir Ísafjarðardjúps til hinnar handarinnar. En þannig er ástatt, að Ísafjarðarkaupstaður er alls ekki í beinu akvegasambandi við innsveitir Ísafjarðardjúps, þó að vonir standi nú til, að það samband komist á innan nokkurra ára. En tengslin vestur á bóginn eru hins vegar rofin af allháum í fallgarði, Breiðadalsheiði, sem er á 7. hundrað m á hæð, þar sem fjallgarðurinn er lægstur, og þessi fjallvegur er lokaður 7—8 mánuði á hverju ári. Það er álit sérfræðinga í vegagerð, að ekki sé mögulegt að byggja öruggan vetrarveg yfir Breiðdalsheiði sökum fjallaþrengsla og fannkyngi og verði þessi vegur því ekki gerður öruggur að vetri til nema með því að gera, jarðgöng gegnum þennan fjallgarð. Kæmi vissulega til máta og þarf sérfræðiathugun til að ákveða, hvar slík jarðgöng skuli gerð. Ef menn aðhylltust þá stefnu í málinu að gera jarðgöng gegnum í fjallið í 500 m hæð, þá mundi þarna vera um að ræða um 600 m löng jarðgöng. Þau yrðu að vísu miklu lengri, ef þau yrðu tekin neðar í gegnum fjallið, en þá að sama skapi öruggari að því er það snertir að tryggja full not vegarins allt árið um kring.

Ég hef átt viðræður við verkfræðinga um kostnað við slíka mannvirkjagerð, og hafa þeir tjáð mér, að miðað við þá reynslu, sem fékkst við þau jarðgöng, sem gerð voru í sambandi við virkjun Sogsins, megi ætla, að miðað við núv. kostnað kosti lengdarmetrinn í jarðgöngum sem þessum 10—12 þús. kr. Mundi þá, ef miðað er við 600 m jarðgöng, þetta mannvirki kosta um 6—7 millj. kr. Ég segi í grg., að þetta sé að vísu allhá upphæð, en hún sé þó ekki hærri en sem svari andvirði 150—200 tonna fiskibáts. Vegna þessa orðalags í grg. hefur einn hv. þm., Davíð Ólafsson, sem vel á að víta um verð fiskibáta, vakið athygli mína á því, að 150-200 tonna fiskibátur kosti nú drjúgum meira fé en þetta, mundi alltaf kosta 8—9 millj. kr., segir hann, og þýðir þetta þá, að þessi jarðgöng, sem ég ræði hér um, kosta mun minna, að fengnum nákvæmum upplýsingum, heldur en 150-200 tonna fiskibátur, og sýnir það, að hér er ekki um neitt gífurlega stórt mannvirki að ræða.

Ef öruggur vetrarvegur er kominn gegnum Breiðadalsheiði, eru byggðir Önundarfjarðar, landbúnaðarsveitirnar í Önundarfirði, komnar í órofin tengsl við þann stærsta landbúnaðarmarkað, sem fyrir hendi er á Vestfjörðum, sem er Ísafjarðarkaupstaður, en við það bætist, að með þessari mannvirkjagerð væru sveitirnar við Dýrafjörð einnig komnar í órofið samband árið um kring við Ísafjarðarkaupstað og markaðinn þar, því að Önundarfjörð og Dýrafjörð skilur aðeins lág heiði, Gemlufallsheiði, sem vandalaust er að byggja veg yfir, þannig að opinn sé örugglega allt árið um kring. Hér er því um það að ræða að gera þær samgöngubætur á Breiðadalsheiðinni, að sveitirnar við Dýrafjörð og Önundarfjörð fái örugg samgöngutengsl við Ísafjarðarkaupstað árið um kring.

Það er sannfæring mín, að þetta mál varði ekki ein öngu hagsmuni fólksins í sveitunum í Vestur-Ísafjarðarsýslu, heldur engu síður fólksins í Ísafjarðarkaupstað, því að eins og það er nauðsynlegt fyrir sveitir að hafa lífrænt samband við markað kaupstaðanna, er það áreiðanlega grundvallarskilyrði fyrir vaxandi kaupstaðarbyggð að vera í sem nánustu og öruggustu sambandi við framleiðsluhéruð sveitanna. Vöxtur Akureyrarkaupstaðar er tvímælalaust byggður á tengslunum við hinar blómlegu byggðir Eyjafjarðar. Það, sem einkum stendur Sauðárkróki fyrir þrifum, er það, að þar er ekki nægilega vel séð fyrir atvinnugrundvelli, hvorki til lands né sjávar. Siglufirði er áreiðanlega bagi mikill að því að vera ekki í tengslum við sveitir Skagafjarðar, en úr því á væntanlega að bæta með mannvirkjagerð líkri þeirri, sem hér ræðir um, þ.e.a.s. jarðgöngum gegnum Stráka.

Ástæðan til þess, að ég flyt sérstakt frv. um þessa mannvirkjagerð, er tvíþætt. Hún er í fyrsta lagi sú, að framtíðarvegur hefur enn þá ekki verið gerður um Breiðadalsheiði. Þar er aðeins um niðurgrafna vegarslóða að ræða, og er það margra manna mál, sem ferðast milli Ísafjarðar og Reykjavíkur, að vegurinn um Breiðadalsheiði sé versti kaflinn á allri þessari vegalengd, enda hefur honum ekki verið sómi sýndur með tilliti til þess, að það er ekki enn þá búið að ákveða þarna nákvæmlega vegarstæðið né heldur leggja neitt fé í að byggja þennan veg upp. Það, sem er tvímælalaust eðlilegast, þegar að því er komið að endurbyggja veg um Breiðadalsheiði, er að ákveða jarðgöngunum stað. Úr þessum, jarðgöngum kemur auðvitað valið byggingarefni í veginn til beggja handa, og vegagerðinni norður yfir og vestur yfir verður alls ekki ákveðinn staður, fyrr en jarðgöngunum hefur verið ákveðinn staður, og efnið kemur sem sé úr ,jarðgöngunum til myndarlegs upphleypts vegar til hegg,ja handa. Á þessu mannvirki á því að byrja.

En hví þá ekki að ákveða fjárveitingar til mannvirkis eins og þessa í vegáætlun væntanlegri? Ástæðan til þess, að ég tel, að þetta mál verði ekki leyst með árlegum fjárveitingum til vegamála á fjárlögum eða nú með vegáætlun, er sú, að þó að ekki sé um hærra að ræða en 6 —7 millj., fæst slík fjárveiting ekki á eins árs fjárlög tekin né heldur sennilega á vegáætlun. Þess vegna þarf að heimila ríkisstj., eins og gert er í þessu frv., að taka lán til þessa mannvirkis, allt að 7 millj. kr., og er svo lagt til í 2. gr. þessa frv., en sú upphæð verði síðan endurgreidd af árlegum fjárlagafjárveitingum eða vegáætlunarfjárveitingum, þangað til hún væri að fullu greidd. Svona mannvirki er ekki hægt og ekkert vit í að vinna í pörtum. Það þarf að ráðast í þetta mannvirki og hafa fulltryggt fé til þess að geta unnið það í einum áfanga og lokið því. Þess vegna er þetta mál þannig vaxið, að nauðsynlegt er að tryggja féð, jafnframt því sem ákveðið er að ráðast í mannvirkið, en fjárlagafjárveitingar siðar endurgreiði slíka lánsupphæð.

Ég þykist nú hafa gert grein fyrir meginefni þessa frv. Það er ósköp einfalt og liggur beint fyrir hv. þm. Þetta er annað eða þriðja stórátakið, sem nauðsynlegt er að gera nú í vegamálum Vestfjarða. Sumir segja í raun og veru, að þetta sé það átak, sem eigi að vera númer eitt. Ég legg að jöfnu þetta átak og átakið, sem gera þarf til þess að koma Ísafirði í beint akvegasamband við vegakerfi landsins um Ísafjarðardjúp, þ.e.a.s. lagningu hins svokallaða Fjarðavegar, en þar er um að ræða lagningu vegar á 60—65 km vegalengd og vitað, að það muni kosta aldrei minna en um 300 þús. kr. km, sem sé mjög marga milljónatugi, sem leggja þarf fram á næstu árum, helzt ekki lengri tíma en 4—5 árum, og mætti þá vel og miklu betur miða um fjárveitingar til vegagerðar á Vestfjörðum en orðið hefur að undanförnu, ef því verkefni væri sinnt svo sem nauðsyn heimtar með fjárlagafjárveitingum. Það undirstrikar í raun og veru, að vonlítið er, að þessum málum báðum verði gerð þau skil með árlegum fjárveitingum til vegamála, sem nauðsynin heimtar, og þess vegna tel ég, að það sé bráðaðkallandi, að hæstv. ríkisstj. hafi í höndum heimild til þess að tryggja lánsfé til jarðganga í gegnum Breiðadalsheiði.

Ég held, að eðlilegast sé, að þessu frv. verði vísað til hv. fjhn., og vil vænta þess, að þetta mál njóti skilnings hv. alþm., því að vissulega er svo mörgu áfátt í vegamálum Vestfjarða, að fyllsta þörf er á því, að þau mál njóti aukins skilnings hv. Alþingis.