26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (2324)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Frsm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það vakti fögnuð meðal flestra þjóða heims, þegar ríkisstj. Bandaríkjanna, Sovétríkjanna og Stóra-Bretlands komust að samkomulagi á s.l. sumri um takmarkað bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn í gufuhvolfinu, himingeimnum og neðansjávar. Friðelskandi fólk um víða veröld þóttist í þessu samkomulagi stórveldanna í vestri og austri eygja nýja von um batnandi horfur í alþjóðamálum og auknar líkur fyrir afvopnun í stað sívaxandi herbúnaðar kalda stríðsins.

Samningur stórveldanna um takmarkað bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn var fullgiltur af frumaðilum hans 10. okt. 1963. Fulltrúar fjölda annarra þjóða hafa jafnframt undirritað samninginn. Af hálfu Íslands var hann undirritaður í London, Moskvu og Washington hinn 12. ágúst s.l. En gildistaka hans fyrir Ísland er háð fullgildingu og fer till. sú, sem hér liggur fyrir, fram á heimild Alþingis til þess.

Utanrmn. hefur fengið þessa till. til meðferðar og leggur einróma til, að hún verði samþykkt. Hv. 3. þm. Reykv. hefur ásamt tveimur öðrum hv. þm. flutt brtt. við till. á þskj. 274. Meiri hl. utanrmn. mælir gegn þeirri brtt., þar sem hún telur hana fjalla um allt annað atriði en felst í sjálfri megintill., sem enginn ágreiningur ríkir um.

Að svo mæltu leyfi ég mér að ítreka, að utanrmn. leggur til, að till, verði samþykkt óbreytt.