26.02.1964
Sameinað þing: 46. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2331)

101. mál, bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það er bara út af því, sem hv. 6. þm. Norðurl. e. sagði út af orðinu: aldrei. Ég er ekki lögfræðingur eins og hann. Raunverulega skil ég svona orð, þegar þau standa í stjórnarskrá eða lögum, sem sterkt áherzluorð um, að bað skuli ekki gert. Það er að mínu áliti rétt skýring hjá honum, að það er náttúrlega aldrei hægt að binda neinn aðila með slíku. Það getur hver aðili sem er breytt því aftur. Við höfum t.d. í stjórnarskránni ákvæði í 72. gr., að ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða. Þetta er held ég eina skipti, sem þetta orð, aldrei. er notað í stjórnarskránni. Náttúrulega er gefið, að ef þjóðin vill og samþykkir það, getur hún breytt þessari grein stjórnarskrárinnar, og það er náttúrlega ekki hægt að binda hennar hendur þannig upp á framtíðina. En þetta er af hálfu löggjafans þegar þetta er sett, hugsað sem alveg sérstaklega sterkt atriði í staðinn fyrir að segja: ,,má ekki í lög leiða“, að setja ,,má aldrei í lög leiða“. Það er hátíðlegri yfirlýsing, en það er náttúrlega hægt að breyta þessu, hægt að breyta stjórnarskránni. Sama er þetta í okkar till. Þetta er sérstaklega sterk yfirlýsing: það má aldrei, Alþingi mun aldrei leyfa það.

Það er rétt, annað Alþingi, sem er kosið, getur náttúrlega gert aðra samþykkt, sem afnemur þessa. En þá þarf að gera slíka samþykkt. Munurinn er sá. Og það hefur meira að segja einu sinni komið fram hér í umr, einmitt um þetta mál, og ég held, að ég fari þar ekki rangt með, að í umr. við hæstv. utanrrh. kom þetta einu sinni til umr. hjá okkur, og ég held, að við höfum spurt hann í þeim umr., hvort hann vildi lýsa því yfir, að ríkisstj. mundi alls ekki gefa svona leyfi án þess að spyrja Alþingi. Ég vitna nú alveg eftir minni, svo að það getur verið, að mig misminni, en hæstv. ráðh. getur þá leiðrétt það eða staðfest. Og ég held, að hæstv. ráðh. hafi sagt, að hann gæti ekki lofað því að leggja slíkt fyrir Alþingi, því að þetta gæti borið þannig að, að það væri ekki neinn tími eða aðstaða til þess. Og mér skildist, að það, sem fyrir hæstv. utanrrh. hafi vakað, hafi verið þetta: Segjum, að Alþingi er í fríi, það er mitt sumar, og engin aðstaða til að ná því saman og allt í einu er kjarnorkustríð að bresta á, og með hálftíma fyrirvara verður ríkisstj. að segja til um, landið er enn þá í Atlantshafsbandalaginu og ríkisstj. verður að segja til um, hvort hún álíti, að það stríð, sem er að brjótast út, fullnægi þeim ákvæðum í Atlantshafsbandalagssamningnum, að ríkisstj. Íslands líti á þetta sem stríð, sem Ísland eigi að vera með í, og bandamenn Íslands fari fram á það alveg tafarlaust, að það séu staðsett kjarnorkuvopn á Íslandi og beitt þaðan, ríkisstj. verði innan hálftíma, skulum við segja, að segja til um það, hvort hún leyfi það, og hún hefur engan tíma til þess að ráðfæra sig við Alþingi og hún segir já eða nei. Ég skildi a.m.k. röksemdafærslu hæstv. utanrrh. þá þannig, þegar hann sagði þetta.

Það er einmitt til þess að koma í veg fyrir slíkt, að við flytjum þessa till. hér. Ef slíkt ástand kæmi upp, Alþingi er hvergi nærri, utanrrh. eða hæstv. ríkisstj. getur ekki ráðgazt við Alþingi um að taka svona veigamikla ákvörðun, en till. eins og þessi brtt. okkar hefur verið samþykkt á Alþingi, þá veit þar með hæstv. ríkisstj. og hæstv. utanrrh., að þeir hafa aðeins einu að svara, ef farið er fram á það af hálfu okkar bandamanna að fá að staðsetja hér kjarnorkuvopn og fá að beita þeim héðan, þeir verða að segja nei. Með þessari ákvörðun, með samþykkt þessarar brtt. er það ákveðið, og hæstv. utanrrh., hver sem hann er á þeim tíma, þarf ekki að fara í neinar grafgötur um það, að hann svari neitandi. Hafi þetta hins vegar ekki verið samþykkt, þá kom það a.m.k. fram, ef ég man rétt, í þessum umr., að ríkisstj. gæti litið þannig á, að jafnvel þó að hún væri út af fyrir sig algerlega andvíg beitingu kjarnorkuvopna og allt saman slíkt, kynni hún með þetta stuttum fyrirvara og í því uppnámi, sem yrði náttúrlega, þegar þessir hræðilegu atburðir gerðust, að ganga inn á þetta út frá einhverjum forsendum, sem hún ímyndaði sér kannske að gætu eitthvað orðið til að bjarga landinu eða eitthvað þess háttar, ég mundi ekki vilja ætla henni nema góðar hvatir í því , en hún gerði þennan hlut með öllum þeim ægilegu afleiðingum, sem hann hefði fyrir landið. Þess vegna vildi ég segja, að einmitt fyrir hæstv. ríkisstj. og fyrir hæstv. utanrrh. væri það það bezta, sem skeð getur, að knýja svona samþykkt í gegn, til þess að taka af öll tvímæli, firra þá alli ábyrgð og allri sök í framtíðinni í sambandi við þetta, ef einhverjir voðalegir hlutir skyldu gerast. Orðalagið á þessari till. er í lagi. Það er í samræmi við það, sem stjórnarskráin tekur sjálf fram um þá hluti, sem löggjafinn á hverjum tíma álítur hvað veigamesta og hvað mesta undirstöðu fyrir líf og frelsi landsbúa.